föstudagur, janúar 27, 2006

Gamall draumur rætist

Ég held að ég hafi fyrst sýnt Apple tölvum áhuga þegar Hugi tók mig með sér á kynningu á OS X í gömlu Applebúðina þegar hún var stödd í Skaftahlíðinni. Fyrir mér voru Apple vélar ofvaxnar ritvélar og hafði ég engan áhuga á þeim, en átti ekki von á því sem tók á móti mér. Viðmót nýja stýrikerfisins var ljósárum á undan Windows og ekki var hægt að segja annað um vélarnar. Eftir kynninguna varð ég dolfallinn og í minningunni var Cube vél keyrandi þetta allt, en það gæti þó hafa verið seinna sem hún kom til sögunnar, en minningin er góð og var ég staðráðinn í því að eignast svona vél einn daginn. Stuttu seinna fékk fyrstu Apple vélina hjá Vefsýn og fljótlega var PC vélin gefin og hefur ekki verið fjárfest í PC vél á heimilið síðan þá( enda nenni ég ekki að eyða tíma í viðhald á tölvun, hef nóg annað að gera ). Nú í ársbyrjum 2006 tóku stofugræjurnar svo uppá því að neita að spila geisladiska þannig að hugmyndin hjá mér var að versla hátalara fyrir iPod-dinn en þegar ég sá Cube vél til sölu stökk ég á það, enda ekki á hverjum degi sem þessar vélar eru til sölu( enda 5 ára gamlar og voru bara á markaði í 1 ár. Fyrir nokkra þúsundkalla var vélin mín, en reyndar vantaði í hana harðan disk en að öðru leiti í mjög góðu ásigkomulagi. Þegar 120GB Barracuda skrímsli var komið í vélina heyrðist ekki minnsta hjóð í vélinni, enda viftulaus hönnun sem hentar ágætlega til notkunar í stofunni. Smellpassar í stofuna og nú er hægt að hlusta á tónlist og jafnvel leiðir maður netsnúru í vélina einn daginn svo hún sé tengd. Bjartur er líka hinn ánægðasti með hana en hann fær að leika sér nokkuð óáreittur í henni við misjafna hamingju föður síns sem undrast alltaf hversu einfalt sonur sinn á með að eyða út lögum og gera einhvern óskunda af sér þótt ekki sé nema 18 mánaða.

miðvikudagur, janúar 11, 2006

Enn eitt árið liðið

Nýtt ár gengið í garð og alltaf eitthvað nóg að gera. Jólin voru afskaplega góð þótt ég væri að vinna fram á Þorlák. Ég er alveg á því að vinna ekki lengur en til svona 18. desember ár hvert, það er fínn tími til að byrja að slappa af fyrir hátíðarnar. En ég ræð nú ekki öllu, kannski sem betur fer?
Við fórum á Burknavellina með pakkaflóðið og vorum þar mestöll jólin í góðu yfirlæti. Bjartur var afskaplega þægur og góður með eldavélina sína framan af aðfangsdagskvöldi en undir lokin var hann orðinn alveg ruglaður á öllum pökkunum. En hann var ákaflega duglegur að rífa utan af pökkunum og hver smásnifsi af pappír var farið með beint í ruslið sem flýtti ekki fyrir afpökkuninni. Það gæti þurft að bíða með einhverja pakka á næsta ári þangað til daginn eftir til að halda andlegri heilsu hjá honum í jafnvægi en undir lokin gekk þetta bara út á að rífa utan af þeim( og auðvitað setja allt í ruslið ). Svo þurfti að leika sér að hverju dóti í smá stund og opna svo fleiri pakka, hann var orðinn mjög duglegur að sækja nýja pakka og fannst þetta vera hin mesta skemmtun. Smávægileg veikindi voru að reyna að hafa áhrif á hátíðirnar en það var reynt að halda þeim niðri eftir fremsta megin.
Síðan var flogið til Seyðisfjarðar þar sem héldum áramótin á Múlaveginum. Merkilegt hvað tíminn er alltaf fljótur að líða í firðinum þrátt fyrir að manni finnst maður ekki gera neitt... afskaplega rólegt og gott þar. Kannski er það bara vegna þess að maður er alltaf í fríi þegar farið er á Seyðis, en í minningunni var þetta alltaf svona þótt maður væri að vinna. Ekki tókst okkur að hitta alla og enga nógu mikið, eftir viku vorum við komin aftur heim og byrjað að snúa aftur sólahringnum við og koma rútínunni í sitt horf þangað til um páskana :)