laugardagur, nóvember 14, 2009

Ekki er gaman nema gott sé

Þessi laugardagur byrjaði snemma þegar öll fjölskyldan fór á fætur um 8 leitið og borðaði morgunmat. Mikið stóð til þ.s. það var síðasti balletttíminn hjá Sunnu og átti að fjölmenna og horfa á litlu ballerínuna. Vorum mætt með allt liðið uppúr 9 og þótt Sunna væri nú ekki til í að taka þátt í öllu þá var gaman að sjá hana, og hinar prinsessurnar, skottast um. Dagný var sérstaklega hrifin og linnti ekki látum fyrr en hún var orðinn þátttakandi í sýningunni.
Eftir það var farið með Bjart uppá heilsugæslu en hann var með sár á puttanum og fann til í tönn. Í ljós kom að þar var streptókokkasýking á ferð og fékk hann sýklalyf við því sem hann getur sjálfur skammtað sér, enda orðinn 5 ára og duglegur að gera ýmislegt.
Síðan var farið í Smáralindina í búðarferð. Eldri krakkarnir fóru í Veröldin okkar á meðan við þræddum búðir með Dagnýju sem tók smá kríu en náði ekki að festa svefn í öllum látunum. Fylltum svo magana af brauðstöngum og ís og heldum heim á leið.
Ætlaði að leggja mig fyrir kvöldið en endaði á því að fara yfir allar ljósmyndir á 5. aldursári Bjarts. Yfir 8000 myndir voru skoðaðar og um 800 komust í gegnum fyrsta niðurskurð og munu einhverjar þeirra verða í ljósmyndabókinni fyrir fimmta árið hans. Tók sú yfirferð 2 tíma og var ég nokkuð þreyttur þegar kominn var tími á kvöldmat. En það var enginn tími fyrir neina hvíld þá.
Linda og Siggi voru búin að bjóða okkur í dýrindis kvöldverð og voru allir klæddir og rölt yfir í næstu blokk. Krakkarnir léku sér langt fram á nótt á meðan fullorðna fólkið tróð sig út af nautalundum, bernes sósu, meðlæti og rauðvíni, eitthvað sem maður ætti að gera oftar ;)

Engin ummæli: