föstudagur, apríl 24, 2009

Kjörvilltr er sá, sem kýs hið lakara

Á morgun eru víst alþingiskosningar og ekki seinna vænna að gera upp hug sinn. Því miður eru auð atkvæði ekki talin með svo þeir sem skila auðu geta alveg eins setið heima. Ég væri mest til í að auðir seðlar myndu telja í auð þingsæti, þá myndi ég skilað auðu, stuðlað að fækkun alþingismanna( sem mætti nú alveg fækka niður í bara ráðherra eins og ég skrifaði í byrjun árs ). Enn verra finnst mér þó að þurfa að kjósa málefnin og fólkið saman þ.s. ég er ekkert endilega "hrifinn" af frambjóðendum í mínu kjördæmi en hef ákveðna skoðun á hvaða forsætisráðherra ég vil hafa eða reyndar hvern ég vil ekki sjá þar. Þannig að þótt ég vilji ekki endilega kjósa einhvern einstakling verð ég að gera það ef ég hef ákveðið hvaða flokk ég ætla að kjósa.

Í þessu meingallaða kerfi er ég er víst "neyddur" til að kjósa einhvern af flokkunum og ætli það sé ekki best að hripa niður hvað mér finnst um hvern og einn:

Borgarahreyfingin
Kemur sterk inn fyrir þá sem vilja nýta atkvæði sitt en geta ekki með nokkru móti kosið "gömlu" flokkana. Alltaf erfitt að vita hvernig nýjum flokkum vegnar, en þeir hafa nú metnaðarfullar hugmyndir um breytingar.

Framsókn
Ætla bara ekki að leggjast af, enda eru þeir með öfluga markaðsdeild og ná alltaf að plata nógu marga til að halda velli. Þótt þeir skipti um forystu og lofi öllu fögru þá mun ég seint gefa þeim tækifæri.

Frjálslyndir
Aðframkominn flokkur sem hefur ekkert skjól til að leita í á þessum tímum.

Lýðræðishreyfingin
Kannski sprottin af góðum grunni en forystusauðurinn fer út um þúfur, þá ætti hann nú kannski réttilega heima á alþingi með hinum hirðfíflunum ;)

Samfylkingin
Tími Jóhönnu loksins kominn en verst að það er ekki góður tími.

Sjálfstæðisflokkurinn
Eftir að hafa "næstum" rænt þjóðina sjálfstæðinu má nú deila um nafn hans( t.d. mætti kalla hann ósjálfstæðisflokkinn eða sjálfæðisflokkinn ). Sýnist þeir vita uppá sig skömmina og reyna að komast hjá því að vera í stjórn svo þeir geti kennt vinstristjórninni um þá erfiðu tíma sem verða næstu árin.

Vinstri Grænir
Eins vinstrisinnaður og ég er þá eru VG svo miklir afturhaldskommatittir stundum að það er hálf sorglegt.

Ath. að mínar skoðar byggjast aðallega á fordómum( sú skoðun eða tilfinning sem ég hef á tilteknu máli hverju sinni, rökfærð á hvaða hátt sem mér sýnist ).

Fann líka gamla færslu sem ég skrifaði um stjórnmálaflokkana fyrir hart nær 6 árum og er ég nokkuð sammála því sem þar kemur fram enn. Vonandi kemur eitthvað gott út úr þessu öllu saman...

sunnudagur, apríl 19, 2009

Af góðum huga koma góð verk

Vaknaði síðastur á heimilinu og sá hvar kaffibolli beið mín við hliðina á koddanum. Sunna hafði augljóslega ákveðið að gefa mér kaffi svona í morgunsárið...hún er alltaf jafn sæt hún Sunna sæta sól ;)

miðvikudagur, apríl 08, 2009

Betr er farið, enn heima setið

Þegar ég kom úr vinnu kl. 14 sagði Bína mér að Nonni&Begs væri farin norðu á Gautlönd og spurði hvort við ættum að kíkja til þeirra yfir páskana. Ég fór með þetta aðeins lengra og lagði til að fara sem fyrst og halda áfram á Seyðis og koma Helgömmu að óvart. Einnig höfðum við haft veður af því að Guggi&Harpa væru á leið austur og ekki ver að ná að sjá framan í þau, enda komin "nokkur" ár síðan við hittum þau síðast.

Þegar komið var grænt ljós á að við værum velkomin á Gautlöndum vorum við lögð af stað klukkutíma eftir að hugmyndin var lög fram. Held að við höfum aldrei verið jafn fljót að pakka og komast af stað. Mikill kostur að geta bara pikkað eldri krakkana upp á leikskólanum, skellt þeim beint í bílinn og brunað af stað út úr bænum.

Mjög gott ferðalag sem má lesa meira um á bloggsíðu krakkanna og einnig eru komnar myndir úr ferðinni ;)

laugardagur, apríl 04, 2009

Sætr er sjaldfenginn matr

Tókum matarboði frá Möllu&Þresti sem leiddi okkur alla leið uppí Karrakot. Maturinn var ekki af verri endanum og ekki á hverjum degi sem dýrindis nautalund fær að kítla bragðlaukana. Yndisleg helgi og merkilegt hvað maður var endurnærður eftir bara einn dag í sveitinni, þúsund þakkir fyrir okkur.

P.s. Myndir væntanlegar um mánaðarmótin( þ.s. ég set bara inn myndir hvers mánaðar þegar hann er liðinn ;)

Ákvað að drífa í því að skella inn myndum frá Karrakoti

fimmtudagur, apríl 02, 2009

Hvað lengi er forhugsað, má fljótliga framkvæma

Fyrir 10 árum steig ég síðast á stokk með Shape og nú eru blikur á lofti að við munum koma fram í sumar. Það hefur oft komið til tals að telja aftur í en ekki orðið af því fyrr en nú. Það var engu líkara en að við hefðum verið að spila í síðustu viku, alveg stórmerkilegt hvað við vorum samstilltir...sérstaklega miðað við 10 ára "pásu" ;)

Væntanlega sjáumst við á sviði á Vegareiði 2009( Road Rage 2009 ) í Sláturhúsinu á Egilsstöðum 13. júní ;)

miðvikudagur, apríl 01, 2009

Biðjandi maðr fær börn

Lagðist í bað um daginn, en það voru nú engin rólegheit. Krakkaormarnir þrír voru skríðandi, skvettandi og frussandi um allt baðið og í orðsins fyllstu merkingu að "ormast". Horfði yfir liðið og fannst nokkuð merkilegt hvað þessi hópur var fljótur að stækka og spurning hvort þetta sé ekki komið gott?

Þegar krakkarnir voru bara tvö minnist ég þess að hafa oft að leita að þeim þriðja. Ég hef ekki fundið fyrir því að einhvern vanti eftir að Dagný kom sem ætti að segja mér að þetta sé komið gott.

Auk þess erum við búin með öll vinnuheitin en stuttu eftir að við byrjuðum að búa dreymdi Bínu að við áttum 3 börn sem hétu: Rasshár, Skeggrót og Viðbót. Hafa þessi nöfn verið "vinnuheitin" á krökkunum í óléttunum og þar sem þau eru uppurin myndi það bara flækja málin að bæta í hópinn ;)