fimmtudagur, nóvember 16, 2006

Pabbi í annað sinn

Nú erum við að ná vísitölufjölskyldunni eftir að systa litla kom í heiminn 21. október síðastliðinn. Alltaf miðaði ég fæðinguna við þegar við áttum Bjart og var búinn að undirbúa mig að taka 1-2 daga í þetta ævintýri. Bína hafði verið með smá( mjög væga ) verki á föstudeginum( 20. okt. ) síðan kl. 4 um nóttina, en ekkert alvarlegt. Hún fór í mat með vinkonum sínum og bjuggumst við alveg eins við að þetta yrði svona í nokkra daga. Um kvöldið endaði með að við fórum uppá fæðingardeild um 11 leitið og tveimur og hálfum tíma seinna var stelpan mætt. Allt gekk mjög vel fyrir sig í þetta skiptið og tók skemmtilega stuttan tíma. Ég fann þó alveg fyrir því að vera hálf gagnlaus á staðnum. Sérstaklega þar sem Bína var ofan í vatni og allt gekk vel. Rembingurinn tók svo stuttan tíma að þar gat ég ekki einu sinni komið með hvatningarorð. Ég fékk að halda á glaðloftsrörinu og klippa á naflastrenginn. Enda kannski ekki hægt að búast við að karlmenn séu að taka of mikinn þátt þ.s. þeir eru nú bara nýkomnir með leyfi til að vera viðstaddir. Samt sem áður var þetta æðisleg lífsreynsla eins og í fyrra skiptið.
Daginn eftir kom Bjartur og við feðgar fórum og náðum í barnabílstól og svo stungum við af Hreiðrinu. Þar var reyndar æðislegt að vera, en við vildum bara komast heim og byrja að aðlagast nýju lífi. Næstu 2 dagar voru merkilega erfiðir en síðan fór að myndast einhverskonar regla.
Skírn næstu helgi þannig að það er alltaf nóg að gera. Veit að ég/við erum ekki dugleg að setja inn fréttir og myndir, en tel okkur hafa margt mikilvægara að gera eins og stendur, en vonandi kemst þetta líka í "rútínu" =)