þriðjudagur, júní 19, 2012

Fjölskyldudagur Víðivalla 2012


Veðrið rétt slapp, það dropaði á okkur og hitinn var rétt nægur þannig að ekki þurfti að klæða sig of mikið. Slapp meira að segja til að Sirkus Íslands gat verið í sínu vanalega dressi og var það hin mesta skemmtun jafnt fyrir börn og fullorðna (ekki síður þá eldri ;)
Nokkurhunduruð pyslur sem við grilluðum ofan í liði og þetta er orðið mjög smurt hjá okkur, enda margir vanir.
Síðan gátum við keypt gjafir fyrir skólann fyrir Skógardeildina sem verður næsta skólaár uppí Kaldárseli og frábært að þessi hugmynd sé loksins orðin að veruleika 2 árum eftir að við héldum að hún yðri. Verður gaman að sjá hvernig skólinn þróast með tilkomu útideildarinnar.

Rómeó & Júlía


Við skelltum okkur á 10 ára afmælissýningu á Rómeó & Júlíu hjá Vesturporti. Það hefur oft staðið til að sjá þessa sýningu og vel við hæfi að ná þessari 10 ára afmælissýningu þar sem við erum einmitt 10 ára ;)
Fengum sæti á sviðinu sem var mjög skemmtilegt að sitja og horfa fram í salinn. Sýningin var frábært og ég væri alveg til í að sjá hana aftur...jafnvel eftir 10 ár ;)
Ætli ég verði ekki að setja hana í fyrsta sæti með Faust en ég get ekki alveg gert uppá milli þeirra.

sunnudagur, júní 17, 2012

Þjóðhátíðardagurinn


Veðrið varð merkilegt gott miðað við hvernig spáði. Héldum að það þyrfti jafnvel pollaföt en það ringdi ekkert, bara sól og blíða.
Slepptum göngunni í ár og fórum beint niður á Víðistaðatún þar sem var leikið og fengið sér nammi áður en við settumst í brekkuna og horfðum á skemmtiatriðin.
Krakkarnir fóru reyndar að leika sér og kíkja uppað sviði, enda skemmtilegra að vera nálægt.
Síðan var haldið í kaffi til Bekku&Bödda seinnipartinn þar sem við náðum í einhverja þó við værum full sein fyrir, enda vorum við að reyna að ná öllum skemmtiatriðunum og Bjartur ekki alveg að skilja hvað það ætti að þýða að vera með kaffi á þessum tíma ;)

laugardagur, júní 16, 2012

Allt Um Póker.com - 1 árs


Fyrir ári síðan opnuðum við Elli AlltUmPóker.com sem griðarstað fyrir pókerefni sem við höfum verið að safna saman meðfram pókerklúbbnum.
Það hefur nú ekki mikið gerst þarna þetta fyrsta ár, en þetta er ágætis byrjun ;)
Í tilefni dagsins bauð ég heim í spil og þangað mættu Bjólfsmenn, fyrrverandi vinnufélgar, nágrannar og vinir.
Bjólfsmenn fóru nú að skjóta á mig að ég væri nú ekki lengur með heppnisstimpilinn á mér og ætti bara að hætta þessu þannig að ég fékk Lady Luck í lið með mér og tókst að næla mér í annað sætið með amk 3 höndum sem ég grísaði á að tapa ekki. Ég var reyndar helvíti kaldur í nokkur skipti að blöffa en þegar ég hélt á 23 á móti Timbrinu og var búinn að byggja upp góðan pott og setti hann næstum allan inn hélt ég að nú væri þetta búið. Hafði skell inn það hárri upphæð að hann gat ekki annað en sett allt sit út. En hann gaf frá sér spilið og af sérstökum kvikindisskap var ég að sýna honum höndina sem bætti ekki einu sinni borðið...ekki mjög fallega gert en það var "sætur" pottur fyrir mig.
Þannig að fyrsta (árlega) afmælismót AlltUmPóker.com gekk bara vel fyrir sig, þó svo að það hafi tekið 5 tíma að klára 8 manna borð. Það var ekki að ástæðu lausu að 16. júní var valinn til að tryggja að alltaf væri frí daginn eftir og vonandi verður næsta mót enn betra, veglegra og skemmtilegra og þakka þeim kærlega sem mættu ;)

föstudagur, júní 15, 2012

Óvissuferð Kanínanna


Tókum smá skrall með Kanínudeild. Fyrst voru það borgarar (reyndar á eftir fótboltaleik ;) og síðan var farið í nokkra hressa og skemmtilega útileiki.
Síðan var haldið áfram í partýinu inni og teknir upp gítarar...þegar Bína benti mér á að við værum að fara var klukkan orðin 2 og við ein eftir með húsráðendum þannig að það var víst orðið tímabært að koma sér ;)

sunnudagur, júní 10, 2012

Fjölskyldudagur í Selvík


Alltaf jafn vel heppnaður fjölskyldudagurinn hjá starfsmannafélagi Landsbankans í Selvík. Veðrið gott, matur, nammi, hoppukastali, skemmtiatriði, bátar, ís, candýfloss...

föstudagur, júní 08, 2012

Krakkarnir í vinnuna


Tók eldri krakkana í vinnuna og höfðu þau mjög gaman að. Skottuðumst um hæðirnar í ratleik og síðan fóru stelpurnar að horfa á bíó á meðan Bjartur sökkti sér í tölvuverið sem var sett upp á neðstu hæð.
Dagný var nú hálf hrædd við Sprota þegar hann mætti en hin tvö höfðu gaman að því að "leika við hann" (toga í skottið á honum og hlaupa í burtu flissandi).
Frábært framtak hjá skemmtinefndinni og á leiðinni heim var spurt hvenær við færum aftur í vinnuna til pabba ;)

fimmtudagur, júní 07, 2012

Fjarfyrirlestur


Við í Agilenetinu stóðum fyrir smá tilraun með fjarfyrirlestur og fengum Henrik Kniberg til að spjalla við okkur, þetta kom vel út og punktaði ég niður smá samantekt og fleira.

þriðjudagur, júní 05, 2012

Bjartur 8 ára


Hann var hæstánægður með að fá að halda afmælið sitt í Ævintýragarðinum með vinum sínum (bekknum, einum öðrum og svo fengu systkini hans að koma líka ;). Sem betur fer vorum við með kökur með okkur því þau hámuðu pizzurnar fljótt í sig, enda vel svöng eftir daginn. Síðan var hoppað, hlaupið, grátið, leikið og ég veit ekki hvað þarna út um allt.
Um kvöldið var hann svo þreyttur að hann lagist útaf á eldhúsbekkinn og steinsofnaði =)

mánudagur, júní 04, 2012

Austur með stelpunum


Þær eru miklar vinkonur þessar skvísur og rosalega duglegar. Þær fengu að fara með mér austur og hitta Helgömmu á meðan ég var á fermingarmóti og það fór nú ekki mikið fyrir þeim. Á leiðinni í vélinni hitti ég Tomma Tomm og spjallaði við hann alla leiðina á meðan stelpurnar dunduðu sér.
Á Seyðis voru þær bara í góðu yfirlæti hjá Helgu og hitti ég þær varla aftur fyrr en á sunnudagsmorgninum þegar þær báðu um leyfi til að fara út að hoppa. Komu reyndar strax aftur inn að klæða sig betur og ég fór nú einhverntíman fram og bað þær um að hafa ekki svona mikil læti (nágrannanna vegna) en þær hoppuðu fram að hádegi ;) Sunnu hafði tekist að suða trampólínið út daginn áður ;)
Ekki leiðinlegt fyrir þær báðar að eiga góða systur =) Vonandi haldast þessi vinabönd um ókomna tíð hjá þeim.
Nokkrar myndir náðust frá helginni.

sunnudagur, júní 03, 2012

Fermingarmót 2012


Í tilefni 20 ára fermingarafmælis var haldið bekkjamót hjá '78 árgangnum frá Seyðisfirði. 10 ár síðan við hittumst síðast og mest lítið breyst...nema við höfum elst um 10 ár, sumir með minna hár og meiri bumbur og margir orðnir hálf gráhærðir foreldrar ;)
Það var byrjað á því að hittast og skála á Öldunni á föstudeginum í sól og blíðu. Ánægjulegt að sjá fjörðinn í góðu veðri aftur...allt of langt síðan ég hef verið í sólinni þar. Um kvöldið var grillað hjá Ólu Lomm og tekið á því fram eftir nóttu.
Á laugardaginn slepptum við róðrakeppninni og skellum okkur út á Skálanes sem var frábær ferð þar sem Hjalti mætti á rútunni og Óli var leiðsögumaður allan tímann og ánægjulegt að fatta loksins út á hvað þetta gengur hjá honum.
Síðan var það Sjómannadagsball og daginn eftir hittust þeir sem gátu í þynnkumat á sjoppunni áður en haldið var heim.
Frábær hópur og frábær helgi og vel við hæfi það var ákveðið að hittast næst eftir 5 ár svo það líði ekki of langt á milli og við verðum ekki jafn vör við að hversu mikið við höfum elst í hvert skipti...þó svo að við sem vorum þarna tókum reyndar ekkert eftir því en aðrir sem heima sátu og skoðuðu myndir fannst við eitthvað ellileg...enda er heimasetufólkið allt sköllótt og með bumbu =)