miðvikudagur, febrúar 29, 2012

Ferðalag til Köben


Eftir brúðkaupskossinn skelltum við okkur uppá flugvöll þar sem við gæddum okkur á Humarpizzu í rólegheitunum ásamt hvítvíni og bjór...þetta hjónaband gat ekki byrjað betur ;)
Afskaplega notalegt að fljúga seinnipart í miðri viku og hafa næstum flugstöðina alveg út af fyrir okkur.
Þegar við lentum í Kaupmannahöfn tókum við Metro beint niðrí bæ á Nörreport og gengum niðra á Fox hótel. Ég hafði skoðað leiðina á Google maps kvöldið áður og séð að það var 7eleven á leiðinni sem við stoppuðum í og keyptum smá snarl í morgunmat. Þegar við tékkuðum okkur inná Fox mundi hressi þjónninn allt í einu eftir því að við áttu eitthvað hjá honum og sagði að við ættum góða vini...vitir menn, kampavínsflaska með kveðju frá Hörpu&Guggz =)
Klukkan var farin að nálgast fimmtudag þegar við komum uppá 4 hæð í japanskt þemaða herbergið.

Gift & farin í brúðkaupsferð


Í tilefni þess að við erum búin að ná 10 árum ákváðum við að láta loksins verða af því að ganga í það heilaga. Skelltum okkur til sýslumanns eftir hádegið og brunuðum svo beint út á flugvöll og verðum úr landi í nokkra daga ;)

Eftir trúlofunina vildi Bína nú gera þetta sem fyrst en ég hafði nú alltaf séð fyrir mér 2010 eða 2012. En óléttur komu í veg fyrir 2008 og 2010 þannig að ég fékk mínu framgengt ;)
Vorum búin að velta mikil fyrir okkur hvar við ætluðum að halda brúðkaup og hvenær. Bína kom um daginn með þá hugmynd að gifta okkur 29. febrúar og fara þá í brúðkaupsafmælisferð á 4ra ára fresti...mér leist vel á það og enduðum við á að bóka flug og athöfn fyrir 2 vikum =)


Það er stefnt á brúðkaupsveislu síðar á árinu þar sem við munum safna fólki saman og halda vel uppá þetta við tækifæri með vinum & vandamönnum...en ætlum að byrja á að njóta þessa bara tvö ;)

miðvikudagur, febrúar 22, 2012

Öskudagur 2012


Nornin, Ninjan, Ljónið & Fíllinn tilbúin í daginn.

mánudagur, febrúar 20, 2012

Þorralok


Þá er komið að Þorralokum og búið að drekka aðeins í sig þorrann ;) Íslensk bjórframleiðsla er orðin mjög skemmtileg þessi síðustu ár og ákaflega gaman að fá breiða flóru við hvaða tilefni sem er til að drekka í sig =)

sunnudagur, febrúar 19, 2012

Konudagur


Mikið búið að vera að gera undanfarnar vikur að passa veik börn og bætti ekki úr skák þegar ég náði í þessa pest líka. Þannig að í tilefni konudags tók ég upp símann og pantaði 10 rauðar rósir sem voru keyrðar heim um hæl. Þessi síðustu 10 ár með Bínu hafa bara verið æði og ég hlakka til að sjá hvað næstu 10 bera í skauti sér með Bínu mér við hlið =)

fimmtudagur, febrúar 16, 2012

Þyrniblóm


Bangsadeild var með sýningu í dag þar sem var sungið og dansað fyrir fullan sal af brosandi foreldrum. Dagný og Skógarálfarnir stigu dans og Sunna var í hlutverki Þyrniblómar í frumsömdu leikriti Álfanna sem var hin mesta skemmtun og var hún alveg að lifa sig inní hlutverkið og stóð sig rosalega vel þessi litla álfamær ;)

fimmtudagur, febrúar 09, 2012

Páskanir koma snemma í ár


Benedikt hinn 9. er kominn í hús þökk sé Prinsinum í Borg sem ég hitti í gær. Það var ánægjuleg heimsókn að sjá hvaðan allur þessi góði bjór sem ég hef verið að drekka er kominn. Ég lærði margt fróðlegt og þessi heimsókn jók til muna áhuga minn á framleiðslunni frá Borg sem var þó nokkuð mikill fyrir =)
Ekki verra að fá smá forskot á páskauppskeruna þannig að páskarnir koma snemma í ár ;)
Benni fellur vel að mínum bragðlaukum eins og allir Borgbjórarnir virðast gera. Finnst hann vera mjög skyldur Úlfi (náskyldur ættingi) en mun mildari og eitthvað "auðveldari" í aðkomu...sú lýsing verður að duga eftir fyrstu flösku ;)

sunnudagur, febrúar 05, 2012

Fjölskyldumatur


Rakel (og Snorri & Elísabet) buðu í mat sem var vel þegið eftir leikhúsferð að sjá Litla skrímsli & Stóra skrímsli. Það er alltaf ævintýri fyrir krakkana að hlaupa um í garðinum þar sem þau búa og stundum erfitt að ná þeim inn. Allt of langt síðan við höfum hitt þau og Gauta og co. enda búið að vera eitthvað mikið að gera í þessum "vetri" =)

föstudagur, febrúar 03, 2012

Pókerárið langt komið hjá Bjólfi


Þá eru fyrstu tvemur mótaröðunum á þessu pókerári hjá Bjólfi lokið.

Þrátt fyrir slæma byrjun á fyrsta kvöldi fyrsta móts tókst mér að vinna mig uppí annað sætið í því móti og ná hluta af lokapottinum og ágætis stöðu í Bjólfsmeistaranum 2012. Mót 2 tók smá dýfu á 2 kvöldi þegar ég datt snemma út en með sigri á síðasta kvöldi tókst mér að ná 3ja sætinu á því móti og aftur næla í smá hluta af lokapottinum auk þess að vera jafn í baráttunni um meistaratitilinn með Mikkalingnum og Eiki Bót er fast á hæla okkar. Mér tókst að taka tvo góða potta með algjöra hunda á hendi þegar ég fékk menn til að pakka á móti mér (þoli ekki þegar ég ákveð að reyna þetta...en það er í lagi á meðan þetta gengur upp) og síðan náði ég góðum potti af Mikkalingnum þegar ég var með nuts en hann hélt ég væri að blöffa sem varð honum dýrkeypt.

Einnig náði ég einu priki í 7-2 keppninni, þannig að ég er aðeins einu priki á eftir Pusa sem heldur áfram að leiða þá keppni eins og í fyrra.

Iðnaðarmaðurinn bauð heim á síðasta kvöld og ekki nóg með það heldur tók hann upp Surt frá Borg sem ég er búinn að gera dauðaleit að. Þannig að ég fékk 2 sopa af þessum sterkasta bjór Íslandssögunnar (12%) sem mér fannst ákaflega ljúfir og þykir mér verst að eiga ekki nokkrar flöskur til að geta notið og geymt jafnvel því hann er áætlaður bestur 2022. En ég á von á að fá eina, þarf síðan að velja mér góðan tíma til að drekka hann...en þangað til er ég enn að klára Stekkjastaurana sem ég fékk frá Bjólfsfélögunum =)

Aðeins lokamótið eftir sem er einu kvöldi lengra og lýkur með bústaðaferð sem mikil eftirvænting er fyrir allt árið. Næstu 4 kvöld eiga eftir að verða spennandi & skemmtileg eins og alltaf og gaman að setjast með félögunum yfir spil mánaðarlega ...og ekki verra ef góður bjór er við höndina ;)