mánudagur, ágúst 30, 2010

Bjartur skólastrákur

Fyrir viku hóf Bjartur skólagöngu sína. Fyrsti dagurinn var nú bara skólasetning og annar dagurinn fundur með kennara. Þann daginn kom hann svo með mér í vinnuna og lék sér fram eftir degi og tókst svo að draga mig út í góða veðrið. Fengum okkur ís og skoðuðum Landnámssýninguna 871 sem var mjög áhugaverð. Vorum hátt í 2 tíma þarf og fengum afbragðs góða þjónustu og var ég hálf undrandi hvað safnvörðurinn sinnti okkur vel. Bjartur hafði afskaplega gaman að þessu og byrjaði strax að rukka um að koma með systur sínar og fleiri =)
En skólinn byrjaði svo á miðvikudaginn og hefur gengið mjög vel. Bjartur kann vel við sig og hefur verið svo heppinn að Svala frænka hans kemur oft á morgnanna og fylgir honum í skólann. Ekki slæmt að eiga stóra og góða frænku ;)
Merkilegt hvað hann stækkar fljótt og mér finnst nú ekki vera langt síðan ég sá hann fyrst.

föstudagur, ágúst 20, 2010

Pearl Jam tribute

Mig hefur dreymt lengi um að sjá Magna spila tónleika til heiðurs Pearl Jam. Í byrjun sumars missti ég af þeim tónleikum en þeir voru endurteknir í kvöld. Leit nú reyndar ekki út fyrir að ég kæmist en það reddaðist allt að lokum og þökk sé fleirum áhugasömum drattaðist ég niður i miðbæ Reykjavíkur uppúr miðnætti.
Missti bara af 2 lögum og tónleikarnir voru alveg magnaðir. Þó ég muni nú líklega seint lenda á tónleikum sem slá út Megadeth þá voru þetta með þeim betri sem ég hef séð/heyrt enda ekki leiðinlegt að heyra góð lög í góðum flutningi. Reyndar hafði ég nú alltaf ætlað að spila með Magna á svona tónleikum, en að var nú bara betra að fá að sitja út í sal og njóta =)

laugardagur, ágúst 14, 2010

Nördahittingur

Það er amk árlega sem við hittumst nokkrir "gamlir" Vefsýnarnördar og yfirleitt er það til að svala nördanum innra með okkur. Bjór og tölvuleikur er yfirleitt það sem ræður kvöldinu ásamt fuðurlegu spjalli. root er nýfluttur aftur til landsins eftir að hafa stundað akademíuna erlendis og var upplagt að taka hitting í tilefni komu hans. Svo mikill var nú kjaftagangurinn á okkur að ekkert varð úr nördaleikjum en enduðum í pókerspili langt fram á nótt. Smu tók fyrsta pottinn en ég hrökk í gang eftir það og þrátt fyrir höfðinglegar móttökur og gestristni tókst Fuji ekki að hafa sigur. Alltaf gott að hitta góða nörda og eiga með þeim góða kvöldstund...he he.

föstudagur, ágúst 06, 2010

Afréttarinn 2010

Linda & Siggi buðu í Afréttarann 2010 helgina eftir verslunarmannahelgi. Ekki var þó verið að halda uppá fyrri helgi, meira verið að fagna að þau væru bæði komin á fertugsaldurinn. Alltaf gaman að hitta hópinn, en eins og oft náðu ekki allir að mæta. Það var samt fullt af fólki, þekkti nú fæsta nema vinkonuhópinn og maka, en það var flæðandi af áfengi og hljómsveit, þannig að það var allt eins og best var á kosið. Eftir nokkra bjóra var ég orðinn vel "afréttaður" þótt ég hafi nú ekki verið á því sjálfur og var þá haldið heim. Einhver sönnunargögn má finna sem talin voru birtingarhæf ;)

miðvikudagur, ágúst 04, 2010

Bjólfur poker club logo

Pókerklúbbinn vantaði logo og ég var beðinn um að kokka eitthvað saman. Datt strax í hug að hafa stafina ofan á útlinum Bjólfs og hripaði niður hugmyndina.

Komst í að gera þetta einhverju seinna, skellti upp nokkrum tillögum og efir nokka klukkutíma og skjót/skýr svör frá Lommanum þá var niðurstaðan ljós:
Þannig að virðulegi klúbburinn er kominn með logo fyrir veturinn og gaman að sjá hvernig rissuhugmyndin varð að veruleika...maður gerir of lítið af því að skjalfesta allt sem maður tekur sér fyrir hendur.

þriðjudagur, ágúst 03, 2010

Sumarfrí 2010

Í ár átti að taka lífinu með ró í bænum og fyrir austan. Fasteignamálin fengu einnig smá orku sem skilaði sér í því að við fluttum en varð einnig til þess að við komumst ekki austur. Þótti það nú verra þ.s. allir voru mjög spenntir að kíkja til Helgömmu en það verður bara að bíða að sinni og nú getur hún bara komið og gist =)

Föstudagurinn 2. júlí
Bjartur kvaddi leikskólann og síðan byrjaði fríið á bústað í Brekkuskógi. Böddi og Bekka voru komin í frí þannig að þau gátu komið með. Þau voru á undan okkur uppí bústað og gátu varað okkur við að það væri kolagrill þannig að við gátum stoppað í búð og keypt kol.

Laugardagurinn 3. júlí
Þessi dagur var sannkallaður pottadagur hjá Dagný. Henni tókst að fara 3 ferðar yfir daginn í heita pottinn og alltaf fann hún fólk til að fara með sér út enda þykir henni ekki leiðinlegt í pottinum frekar en öðrum :) Fórum í búðarferð í Selfoss og skelltum nauti á grillið um kvöldið.

Sunndagurinn 4. júlí
Fórum í kaffi í Karrakot hjá Möllu og Þresti. Síðar um daginn komu Valgeir & Þyri. Einnig bættust við Nonni & Berglind & co. Bjartur var hæstánægður að fá strákana í heimsókn í bústaðinn og voru þeir Emil Gauti alveg týndir í leikjum.

Mánudagurinn 5. júlí
Gestirnir heldu heim á leið og við héldum bara að mest leiti til í bústaðnum. Kíktum í heitu pottarnir uppí þjónustumiðstöð og þar var bara gaman, hefðum þurft að fatta að fara þangað á meðan fleiri voru í bústaðnum. Eftir pottana í blíðviðri var farið að tröllaleira og boðið uppá Sóða Jóa (Sloppy Joes) í kvöldmat.

Þrijudagurinn 6. júlí
Vaknaði snemma með Sunnu og sótti Dagný sem var búin að vera að biðla til móður sinnar að taka sig uppúr barnarúminu í smá tíma. Dagný vaknar iðulega snemma og Sunna rífur sig upp um leið og hún heyrir í henni. Ekki alveg jafn mikil morgunkúarar og Bjartur.
Smá búðarferð inná Laugavatn. Stoppuðum á leikvelli en flúðum fljótlega vegna mýfluguárása.

Miðvikudagurinn 7. júlí
Fórum í smá ferð inná Slakka þar sem krakkarnir fengu að halda á kanínum, kettlingum, músum ásamt því að skoða fleiri dýr og svæðið. Smá stopp í Geysi í hinu mesta roki og vorum við í mesta basli með að komast upp "brekkuna". Auðveldara var þó að fara niður þótt að sumir fuku bara beint á andlitið.

Fimmtudagurinn 8. júlí
Ákváðum að taka heimferðina degi fyrr þ.s. við nenntum ekki að þrífa á föstudagsmorgni. Keyrðum framhjá Þingvöllum en þ.s. krakkarnir voru allir sofandi stoppuðum við ekkert þar í þetta sinn.

Föstudagurinn 9. júlí
Fyrir hádegi var ég á einhverju fasteignastússi þ.s. frjósemisíbúðin hefur nú loksins verið seld og við á leiðinni í stærra. Glampandi sól og ákveðið að gera eitthvað. Valið stóð á milli Fjölskyldu- og Húsdýragarðsins eða Nauthólsvíkur. Ég var fylgjandi þess síðara og fékk mínu fram við mis góðar undirtektir hjá yngra fólkinu. Allir voru þó sáttir á ströndinni í dag. Létu nú pabba um að kíkja í sjóinn, enda er hann full kaldur fyrir óeinangraða krakka. Ég tók 2 stuttar ferðir til að kæla mig niður og alltaf hressandi, svona fyrir utan saltbragðið. En unga fólkið, og sérstaklega Dagný, voru hæstánægð með að sulla í heitapottinum allan daginn. Allir vel útiteknir um eftir góðan dag á ströndinni og héldum til Bödda&Bekku í grill um kvöldið þ.s. eldri krakkarnir fengu að gista þ.s. við þykjumst ætla að taka smá til hendinni á morgun og ná góðri Sorpuferð.
Náði cash game með Bjólfi um kvöldið og var alveg fram á nótt. Náði að þrefalda það sem ég kom með og var reyndar nálægt því að klára allan þann pening sem ég tók með mér...passa alveg uppá að vera ekkert að spila fyrir meira en mér finnst of mikið (sem er mjög lítið ;)

Laugardagurinn 10. júlí
Tiltekt fram eftir degi. Náðum að taka búr og þvottahúsið í gegn, sem og barnaherbergið og ýmislegt. Smá sorpuferð með mest lítið, bara sem var drasl í búrinu. Fínt að nýta rigningardag í svona =) Maður er bara orðinn spenntur fyrir að komast í "nýtt".

Sunnudagurinn 11. júlí
Fjölskyldu- og húsdýragarðurinn var nýttur í góðviðrinu. Veðrið var hrikalega gott. Sofnaði hjá skipinu í hitanum. Afskaplega notalegt og magnað hvað þessi börn eru orðin stór og sjálfbjarga að dunda sér. Bjartur hitti Andrew vin sinn og þeir voru á fullu að leika.

Mánudagurinn 12. júlí
Íbúðastúss gegnum síma og email...alveg orðinn leiður á þessu ;)
Bína fór í klippingu og mæðraskoðun þannig að við fórum á leikskólaleikvöllinn og í búð, svo heim að borða. Þegar allir voru búnir að borða var klukkan hálf 1 og Dagný sofnaði við matarborðið =)
Skelltum okkur í Hellisgerði. Reyndar dró ský fyrir sólu þegar við mættum þangað og varð svoldið svalt, en eftir 10m var allt orðið heiðskýrt og bongóblíða tók við. Lágum þar og sleiktum sólina fram eftir degi.

Þriðjudagurinn 13. júlí
Morgunkaffi á Völlunum. Hangið heima í rigningunni, krakkarnir fóru út að leika.

Miðvikudagurinn 14. júlí
Enn verið að stússast í fasteignamálum. Merkilegt mikið af pappír og fleira sem þarf að flytja milli landshluta. Fórum í Fjölskyldu- og Húsdýragarðinn í boði Atlantsolíu. Alltaf gaman þar.

Fimmtudagurinn 15. júlí
Sleiktum sólina út í garði. Skrapp með stelpunum í fjöru/strandferð.

Föstudagurinn 16. júlí
Enn heldur blíðan áfram. Fer að verða svoldið þreytandi...nei, mætti bara koma einn rigningardagur á milli, svona fyrir blómin og tiltekt ;)
D var heit í nótt og var haldið inni í dag. Lék samt á alls oddi eins og vanalega, ótrúlegt hvað þessi stelpa er skemmtileg, hún er bara eitt stórt bíó.
Fór með eldri krakkana í sund í Álftaneslaug. Heilmikið stuð í öldulauginni og rennibrautin er nú ekki leiðinleg. S vildi ekki fara með í fyrstu ferð þannig að við strákarnir vorum einir. Þegar ég kom niður vissi ég ekki hvað sneri upp og niður og var góðan tíma að ná áttum í litlu lauginni sem tekur við eftir rennibrautina. Síðan samþykkti S að koma með og voru þær ferðir mun hægari en alveg jafn skemmtilegar =)
Skruppum í Bónus á Völlunum (því þar fær maður enn kassana utan af börnunum sem eru langt bestir því þeir þola svo mikið) og fengum svo B&B í old school pizzu um kvöldið.

Laugardagurinn 17. júlí
DSL Skutluðum Degi og Sól að sækja bílinn sinn inní HF og D sofnaði, var að spjalla við Sunnu um að það væru bara 2 vakandi þegar heyrist í D "Ég er vöknuð".
Nauthólsvík með Degi og Ingu og Sól. Rjómablóða allan daginn, létum okkur svo hverfa þegar að góð ský mættu á svæðið en þau hurfu nú fljótt og sólin baðaði bæinn áfram.
Þau komu svo í kjúlla um kvöldið.

Sunnudagurinn 18. júlí
Blíðan heldur áfram. Garðurinn var bara tekinn á blíðviðrið í dag. Það var ekki ský að sjá í allan dag og hitinn vel yfir 20° allan daginn. Tókum fram gúmmíbátinn og fylltum af vatni og fleira til að blása upp var leikið með út í garði.

Mánudagurinn 19. júlí
Næstum alveg jafn gott veður og í gær. Kíktum aftur í Naut. og mundum eftir gúmmíbátnum í þetta skiptið. Það var rosalega gaman að kíkja með krakkana út á bát. Fyrst var Sunna ein með mér og Dagný bættist svo við og fannst þetta alveg viðurstyggilega fyndið. Við feðgar fórum svo í góða ferð út fyrir víkina. Ætluðum að kíkja á pramma en brjálaður hettumávur var með unga á honum og hleypti okkur ekki uppá hann. B kíkti uppá stóra prammann og síðan dóluðum við um og fylgdumst með hettumávunum stinga sér og veiða síli handa unganum. Afskaplega notalegt og fullt af fólki á ströndinni.

Þriðjudagurinn 20. júlí
MU með Monsa og co. Keypti árskort, á ábyggilega eftir að nýta það í vetur líka með krakkaskarann, þannig að það er um að gera að prófa þetta og þeim finnst miklu meira gaman að geta farið aftur og aftur í tækin, sérstaklega þegar það er ekki stappað í garðinum að geta hoppað milli tækja án þess að þurfa að bíða í röð.
Ætluðum svo á Fabrikkuna en fórum bara á Eldsmiðjuna.

Miðvikudagurinn 21. júlí
Fínasta veður, sól og blíða þannig að það var tekin Nauthólsvíkin með Monsa og co. Vorum mætt fyrir hádegi og entumst reyndar ekki nema í nokkra tíma. Hallur afi heilsaði uppá okkur, hann kom auga á mig við grillið þegar hann var að horfa yfir víkina. Síðan var bara tekið sjósund með Monsa og var að leika við krakkana í víkinni.

Fimmtudagurinn 22. júlí
Skrifuðum undir fasteignakaup. Loksins er sá áfangi frá og fáum við í síðasta lagi afhent fyrsta laugardag í Ágúst en vonandi fyrr. Um kvöldið vorum við að tala við Helgömmu í tövunni þegar að Dagný hoppar yfir alla í sófanum. Hún er svo mikill villingur, enda var hún hálf drusluleg (sem og aðrir) eftir þetta hopp.

Föstudagurinn 23. júí
Ætluðum í sund en snerist í hellidembu og rok þannig að það var bara hangið heima. Þrifið og elduð skúffukaka, svo komu Monsi og co í heimsókn í pizzu og sá sem er að taka íbúðina okkar uppí kom að skoða hana, svona til að staðfesta að hún væri í samræmi við myndirnar. Hann átti von á að þau myndu afhenda sína innan nokkurra daga þannig að við flytjum vonandi fyrr en seinna ;) Fyllti nokkra kassa af drasli, er að verða búinn að fylla geymsluna =)

Laugardagurinn 24. júlí
Álftanessundlaugin með Monsa og co. Inception um kvöldið, vorum í vandræðum með pössun þegar að Dagur og co komu til bjargar og pössuðu farm á nótt (því myndir var í lengra lagi).

Sunnudagurinn 25. júlí
Pakkaði í nokkra kassa. Hálf lítið sofinn þ.s. D vaknar allaf á "réttum" tíma. Smá göngutúr og pizza um kvöldið og svo sjónvarpsgláp. Bjartur fór með Binna í stólnum sem hann fékk í gær með Degi & Ingu. Hann var búinn að vera mjög spenntur að fá stólinn til að geta tekið Binna með á hjólinu, enda er hann afskaplega góður við Binna sinn og hugsar vel um hann.

Mánudagurinn 26. júlí
Dagný fór með Svölu í göngutúr, kaka var elduð og ég fór með Sunnu í búðir (kassaleiðangur).

Þriðjudagurinn 27. júlí
Pakk, pakk, pakk...
Ég og Bjartur fórum í Sundhöll Reykjavíkur. Ekki málið f. hann að hoppa af stóra stökkbrettinu og gerði það nokkrum sinnum og fannst það bara gaman. Hvorki nýlegasta né hreinlegasta sundlaugin en skemmtilegt að fara á stökkbretti og kafa djúpt.

Miðvikudagurinn 28. júlí
Aftur komin bongó blíða, krakkarnir út að leika og ég tók til og var að pakka. Fengum geymsluna á Hjallabraut 35, gott að ná að byrja að flytja. RL plastkassarnir eru snilld, þótt ég eigi nú meira en 50 þá finnst mér vanta nokkra í viðbót...kannski ég tæmi nú bara nokkra í staðin.

Fimmtudagurinn 29. júlí
Flutningar, geymslan er að verða tóm. Fengum rosalega góða súpu hjá Bekku&Bödda um kvöldið.
Verður snilld næst þegar maður flytur að eiga stóra krakka sem hjálpa til, og sjá sjálf um sitt dót =)

Föstudagurinn 30. júlí
Fengum afhent, byrjað að sparsla og gera tilbúið f. málningu.

Laugardagurinn 31. júlí
Málað í allan dag (og þó ekki allt klárað). Böddi reddaði alveg að það náðist að mála svona mikið. Ég rétt náði að fara á undan honum og líma meðfram og leggja á gólfin. Um kvöldið kláraði ég svo að mála þannig að hægt væri að flytja.

Sunnudagurinn 1. ágúst
Flutningar í fínu veðri. Dagur, Inga & Sól og Gauti & Svava hjálpuðu til. Algjör snilld að fá þá bræður og fjölskyldur og frábært að Dagur kom með kerru og einnig var troðið í bílinn hjá Gauta. Var líka með sendibílinn frá Bödda þannig að þetta voru nokkrar ferðir sem við bræður tókum, enda var það allt í góðu þ.s. það var stutt að fara. Tókst að flytja allt á 6 tímum og svo pizza á nýjum stað um kvöldið.
Fyrsta nóttin í nýrri íbúð var bara afskaplega notaleg, gott að ná að klára þetta allt á 3 dögum.

Mánudagurinn 2. ágúst
Tiltekt á Hjallabraut 23. Þegar ég var svo að taka niður ljósaseríurnar endaði ég á að slá út rafmagninu og öryggin voru búin...hef ætlað að kaupa ný til að eiga niðri, fínt að gera það núna áður en ég fer.

Þriðjudagurinn 3. ágúst
Fríið búið og byrjaði aftur að vinna í dag. Keypti öryggi og skilaði Hjallabraut 23 til nýrra eigenda um kvöldið.



Myndir úr sumarfrínu 2010