fimmtudagur, desember 31, 2009

Annáll 2009

Ellin færðist yfir, Bína átti stórafmæli og ég varð 11111 ára, saman urðum við (B&L) 7 ára og ákváðum að nóg væri komið af krökkum,
Bjartur boltastrákur varð 5 ára, Sunna ballerína varð 3 ára og Dagný labbaði um í 1 árs afmælinu sínu.
Heilsan fer batnandi, bandýið orðið meira spennandi og pizzugerðin þróast áfram.
Spilaði nokkrum sinnum með Sambandinu, Shape tók upp hljóðfærin eftir 10 ára hlé og Kóngulóarbandið er komið aftur á skrið.
Sumarfríð var gott, borgaði upp námslánin, tengdist betur leikskólanum og fjölskyldan fór í myndatöku.
Árið var svo kvatt á Seyðifirði í fjölmennum/góðum hóp fólks sem átti ættir sínar að rekja til Múlavegsins eða tengdist inní fjölskylduna =)

fimmtudagur, desember 24, 2009

sunnudagur, desember 13, 2009

Þar liggr fiskr undir steini

Fjölskyldan fór í dag á Sindra Silfurfisk og ég mæli eindregið með þessari sýningu...sérstaklega fyrir yngri áhorfendur þótt ég hafði reyndar mjög gaman af henni...enda ávallt barn í anda ;)

föstudagur, desember 11, 2009

Vín inn, vit út

Jólakortin voru tekin fyrir í kvöld. Sú hefð fæddist í fyrra að skrifa jólakortin ásamt því að klára úr svo sem einni rauðvínsflösku og er það hin besta uppskrift af þessari iðn sem lítið fer fyrir í jólahaldi nútímans. Þetta verður hin mesta skemmtun...jafnvel fyrir þá sem fá kortin líka ;)

fimmtudagur, desember 10, 2009

Brauð er barns leikr

Laufabrauðsgerð í Umferðarstofu er skemmtilegur árlegur viðburður sem við reynum að missa aldrei af. Gerðum nú ekki nema nokkrar í ár...enda nóg að gera að hlaupa á eftir liðinu út um allt hús. Dagný fannst fátt skemmtilegra en að skoða vinnustaðinn með stóru systur sinni og Bjartur var hæstánægður með aðgangskortið mitt. Þá gat hann farið hvert sem hann vildi...sem endaði auðvitað í því að hann var skilinn eftir. Kom á endanum niðrí mötuneyti og spurði Þorbjörgu (sem stóð vaktina við steikinguna að vanda) hvar pabbi sinn væri með grátstafinn í kverkunum. Þá var ég að koma restinni út í bíl og kom svo augnabliki áður en minn maður missti sig í grát og allt reddaðist þetta ;)

miðvikudagur, desember 09, 2009

11111 ára...

Logi 11111 ára
...í binary ;) Ekki á hverju ári sem við feðgar getum sýnt jafn marga fingur til að sýna hvað við erum gamlir ;)

laugardagur, desember 05, 2009

Vaxa börn þó vatn drekki

Það er alltaf gaman að vera einn heima með krökkunum, meira krefjandi en þá verð ég líka að taka á öllu sem mér finnst bara gaman. Dagný var sett inní rúm fyrir 8, hún var nú ekki alveg sátt en tók ekki seinni lúrinn í dag þ.s. við fórum að sjá Maríuhænuna. Sunna var að fá tannburstun og skreið svo uppí sófa í Hello Kitty náttfötunum með prinsessuplástra út um alla handleggi. Bjartur liggur fyrir framan sjónvarpið að sötra á síðustu dropunum af súkkulaðimjólkurhristingnum sem ég gerði fyrir þau. Allir eru saddir og sælir eftir að hafa fengið sjálfir að ráða hvað væri í matinn. Sunna vildi Sunnu sætu sól melónu og samþykkti að borða smá skyr líka. Bjartur fékk svipað og var þessu öllu torgað niður stuttu eftir að við pulsuðum okkur á leiðinni heim í dag. Sunna sagði einmitt þegar ég var að bursta hana Ég er með þungan maga =)

sunnudagur, nóvember 22, 2009

Samt er gott barn við sig

Dagurinn fór í búðarráp enda er jólaundirbúningurinn að byrja. Fínt að byrja tímanlega svo að það verði ekki of mikið jólastress. Reyni að leyfa stressinu bara að ná yfir gjöfina hjá Bínu þ.s. það er oftast mesti "hausverkurinn" að finna eitthvað gott =)
Sunna var afskaplega stillt í dag sem endaði á því að ég fór með hana í sund.
Á leiðinni heim sóttum við svo Castello pizzu sem er nýlega komin í fjörðinn. Fínasta pizza og ánægjulegt að fá "alvöru" pizzustað í bæinn þó hann sé reyndar í dýrari kantinum en það er allt í lagi þ.s. ég er nú aðallega farinn að sjá um pizzugerðina alfarið sjálfur =)

laugardagur, nóvember 21, 2009

Gersimar skal geyma

Síðustu ár höfum við sjálf séð um jólamyndatökuna, en það er orðið svoldið mál að ná 3 krökkum í uppstillingu og það er nánast ógjörningur að reyna að ná okkur með. Þannig að í ár ákváðum við að fara í myndatöku og láta annan um þetta. Það er afskaplega þægilegt að láta bara stilla sér upp og skjóta af sér myndir. Svo fær maður afraksturinn bara sendan, búið að taka út draslið. Heilmikill vinnusparnaður og verður ábyggilega gert á hverju ári...þótt við munum nú jafnvel líka reyna að taka myndir sjálf þ.s. við höfum merkilega gaman af því að reyna að stilla öllum upp og frábært ef maður veit að til eru góðar myndir þannig að það þarf ekkert að koma út úr myndatökunni =)

Bjartur var afskaplega duglegur framan af myndatökunni. Þegar fór að líða á varð orðið erfitt að halda athygli og hann ekki að nenna þessu lengur. Dagný var ósofin og ekki að nenna þessu. Náðust samt alveg myndir af henni líka þótt hún hafi nú ekki verið að sýna sitt besta. Sunna var eins og engill allan tímann og ótrúlega dugleg. Fékk hún ís að launum eftir myndatökuna á meðan hinir gríslingarnir urðu að bíða út í bíl.

þriðjudagur, nóvember 17, 2009

Stór gumpr þarf víða brók

Fór með Bjart í boltaskólann í gær og Svala frænka fékk að koma með. Honum fannst nú ekki lítið leiðinlegt að hafa stóru frænku sína með. Þau voru bæði saman aftast í bílnum og mínum fannst rosa sport að gera allt sjálfur og sýna henni hvað hann væri orðinn stór. Í búningsklefanum var ég hjá honum en hann gerði allt sjálfur og var ótrúlega duglegur. Hann getur þetta alveg ef hann nennir og gleymir sér ekki í einhverjum vangaveltum um lífið og tilveruna eða hvað sem fyrir augu ber.
Í miðjum tíma laumaðist ég út og ákvað að leyfa honum að prófa að vera ekki með mig að horfa, enda var Svala að horfa á hann þannig að það var nú lítið mál. Hann skildi bara ekkert í því hvar ég hefði verið þegar ég kom loksins aftur í lok tímans.
Við sömdum svo um að hann myndi sjálfur fara inní búningsklefa og gera allt sjálfur. Ég kíkti tvisvar á hann en það endaði bara í skömmum á þá leið að ég ætti að vera frammi. Hann var síðastur út, en rosalega duglegur og tók allt sitt dót með sér og er nú bara að verða tilbúinn í 6 ára bekk þótt það sé enn langt þangað til.
Hann hefur gott að því að fá smá frið frá pressunni sem maður er alltaf að setja á hann og ekki síður hef ég gott að því að sjá hvað hann er orðinn stór og duglegur...þótt hann sé alltaf litli strákurinn minn, þá er bara gott að gefa honum frið til að stækka líka =)

mánudagur, nóvember 16, 2009

Það reynir ei á hreisti kappans, fyrrenn á hólminn er komið

Ég er víst kappinn og hólmurinn er ræktin á morgun. Hef ekki verið duglegur það sem af er vetri enda full kapp verið í bandýiðkun. En þau hlaup eru ekki gerð fyrir "gamla" menn og þarf ég að lyfta til að halda fótunum svo þeir þoli þessi átök ;) Á morgun hundskast ég aftur og ekki vegna þess að mig sérstaklega langar heldur er hægri fótur farinn að kvarta of mikið ;)

sunnudagur, nóvember 15, 2009

Ókynnis víti þig eingi maður, þó þú gángir snemma að sofa

Eftir gærdaginn var ég óskaplega svefnþurfi og lagðist fyrir hvar sem ég gat í dag. Enda er fátt betra en að sofa vel og er ég alltaf að reyna að koma mér á skikkanlegum tíma í bólið...þó það gangi nú ekki alltaf eins vel ég ætla, þá er maður alltaf að bæta sig ;)

laugardagur, nóvember 14, 2009

Ekki er gaman nema gott sé

Þessi laugardagur byrjaði snemma þegar öll fjölskyldan fór á fætur um 8 leitið og borðaði morgunmat. Mikið stóð til þ.s. það var síðasti balletttíminn hjá Sunnu og átti að fjölmenna og horfa á litlu ballerínuna. Vorum mætt með allt liðið uppúr 9 og þótt Sunna væri nú ekki til í að taka þátt í öllu þá var gaman að sjá hana, og hinar prinsessurnar, skottast um. Dagný var sérstaklega hrifin og linnti ekki látum fyrr en hún var orðinn þátttakandi í sýningunni.
Eftir það var farið með Bjart uppá heilsugæslu en hann var með sár á puttanum og fann til í tönn. Í ljós kom að þar var streptókokkasýking á ferð og fékk hann sýklalyf við því sem hann getur sjálfur skammtað sér, enda orðinn 5 ára og duglegur að gera ýmislegt.
Síðan var farið í Smáralindina í búðarferð. Eldri krakkarnir fóru í Veröldin okkar á meðan við þræddum búðir með Dagnýju sem tók smá kríu en náði ekki að festa svefn í öllum látunum. Fylltum svo magana af brauðstöngum og ís og heldum heim á leið.
Ætlaði að leggja mig fyrir kvöldið en endaði á því að fara yfir allar ljósmyndir á 5. aldursári Bjarts. Yfir 8000 myndir voru skoðaðar og um 800 komust í gegnum fyrsta niðurskurð og munu einhverjar þeirra verða í ljósmyndabókinni fyrir fimmta árið hans. Tók sú yfirferð 2 tíma og var ég nokkuð þreyttur þegar kominn var tími á kvöldmat. En það var enginn tími fyrir neina hvíld þá.
Linda og Siggi voru búin að bjóða okkur í dýrindis kvöldverð og voru allir klæddir og rölt yfir í næstu blokk. Krakkarnir léku sér langt fram á nótt á meðan fullorðna fólkið tróð sig út af nautalundum, bernes sósu, meðlæti og rauðvíni, eitthvað sem maður ætti að gera oftar ;)

mánudagur, nóvember 09, 2009

Fáir þekkja föður sinn rétt

Í tilefni feðradagsins, sem var reyndar í gær, fékk ég að fara í morgunmat með krökkunum á leikskólann. Sunna bauð mér og Bjartur bauð afa sínum. Fengum hafragraut og síðan útklippt hjörtu með kveðju til okkar. Alltaf gaman að fá að vera aðeins með þeim á þeirra heimavelli ;)

föstudagur, nóvember 06, 2009

Hinn bezti sigr er án blóðs

Það hefur heldur betur færst keppni í bandýið. Stigakerfi var tekið upp í byrjun vetrar sem heldur utan um mætingu og sigra leikmanna. Þannig að nú keppast menn við hvern annan og breytast liðin fyrir hvern tíma m.v. stigatöfluna. Mætingin hefur aldrei dottið niður fyrir lágmarkið það sem af er vetri og menn mun sveittari í ár heldur en fyrri ár. Hrikalega skemmtilegur leikur, sérstaklega með mönnum sem allir eru sammála um að spila ekki eftir neinum reglum ;)
Enn er nú verið að bæta kerfið og einnig á eftir að skipuleggja verðlaun og lokahóf, en þetta er skemmtileg viðbót við annars góða útrás og góðan félagsskap.
Tók heim nokkur stig í gær en það kostaði nú reyndar nokkur brunasár eftir góða veltu og parketbruni er ekki það besta...en ekkert blóð (að ráði) og maður gat spilað. Fann bara fyrir því í sturtunni og síðan um leið og eitthvað snerir hnén á mér...þá er ég við að gefa frá mér aumingjavæl =)

þriðjudagur, nóvember 03, 2009

Glaðr er sá, sem góða hreppir

Heimkoman dróst í dag vegna forritunarhittings í vinnunni sem heppnaðist bara ágætlega. Þegar honum lauk var klukkan farin að nálgast sjö og þegar ég fór út að ná strætó uppgötvaði ég að fjarkinn var hættur að ganga og ég því á kolvitlausum stað. Komst fljótt að hvert ég ætti að fara og endaði stuttu seinna niðrá Hlemm og tók svo ásinn alla leið í fjörðinn og steig út á Hafnarfjarðarveginum um stundarfjórðungi fyrir átta. Gekk beinustu leið heim og var orðinn frekar spenntur að hitta fjölskylduna.
Það er ekki oft sem ég kem svona seint heim og ég er alltaf farinn að sakna þeirra merkilega mikið þegar ég hef ekki hitt þau "lengi".
Þegar inn var komið fékk ég prinsessumóttökur frá dætrunum og kíkti á prinsinn sem lá í grænu baðvatni. Hann hafði fengið grænt baðsalt og var hæstánægður með litinn á vatninu og ekki minna upp með sér þegar ég spurði hvort hann væri í Hulk baði. Við tók svo leikur í smá stund þ.s. stelpurnar skottuðust í kringum mig af einskærri hamingju.
Stuttu síðar var kominn háttatími og eitt af örðu komust þau í rúmin sín og sofnuðu.
Það er alltaf jafn yndislegt að koma heim í kot og hitta konu og börn, og vera hluti af svona góðum hóp =)

miðvikudagur, október 28, 2009

Hirtu vel fengið fé

Ekki amarlegt að fá endurgreitt tíunda hluta námslánaskuldarinnar við uppgreiðslu á láninu, þökk sé grein 7.2.3. í Úhlutunarreglum LÍN. Það mættu nú fleiri lán vera með svona ákvæði ;)

sunnudagur, október 25, 2009

Þeim dugir ekki dagr, sem drekka fram á nótt

Kóngulærnar rokkuðu sokkana af sveittum skemmtanafíklum um helgina. Það tekur svoldið á að spila langt fram undir morgun tvö kvöld í röð en alltaf gaman að gera eitthvað með góðum vinum. Sérstaklega skemmtilegt þegar fullt er af fólki og allir sveittir af dans & drykkju (og þar á meðal við).
Verst er þó að maður hittir fjölskylduna takmarkað yfir helgina þ.s. maður sefur á meðan þau vaka. Sunnudagskvöld eru óneytanlega ánægjuleg þegar maður getur skriðið í rúmmið á skikkanlegum tíma, þótt ég fari nú reyndar aldrei eins snemma og ég ætla mér...en jæja, þessi dagur er að verða liðinn og árið líka...alltaf nóg að gera og aldrei tekst manni að gera allt sem mann langar/ætlar.

miðvikudagur, október 21, 2009

Sæll nafni, svo erum við jafnir

Einn daginn kom víkingur á leikskólann og eftir það tilkynnti Bjartur mér að spergilkál héti í raun víkingatré. Eftir það var mesta kapp við að éta það við hvaða tækifæri sem var.
Auðveld markaðsetning til að koma grænmetinu ofan í krakkana. Ekki langar mig að borða eitthvað sem heitir jafn viðbjóðslegu nafni og spergilkál, en víkingatré hljómar sem lostæti og ég myndi alveg leggja mig í líma við að troða því í mig ;)

Stjörnurnar gefa ljós, ef ei er uppi sól

Sunna sæta sól 3ja ára í dag og merkilegt að hún er ekki eldri því stundum finnst mér hún eitthvað svo fullorðin. Þessi litla skvísa sem vekur eftirtekt hvar sem hún fer og stundum alveg merkilegt hvað fólk er hrifið af henni án þess að hún sé eitthvað að bjóða sig. Hún virðist hafa eitthvað aðdráttarafl stelpan sem passar ágætlega við hversu félagslind hún er, og hefur reyndar alltaf verið. Kannski ekkert skrítið þar sem hún á stóran bróður og byrjaði á leikskóla áður en hún varð eins árs. Kannski er það bara ég en hún hefur alltaf virkað afskaplega opin á mig og einhvernvegin sé ég hana alltaf fyrir að baða sig í sviðsljósinu í framtíðinni ;)
En dagurinn byrjaði snemma og búið að vera nóg að gera í allan dag. Þegar eftirrétturinn var að verða búinn vildi litla skvísan fá að fara í rúmmið og lúlla, alveg uppgefin eftir langan og skemmtilegan dag.

þriðjudagur, október 20, 2009

Gömlum við gleym ei fyrir nýjan

Eftir mikla leit/bið var loksins hægt að ráðst í endurnýjun á sófanum í holinu. Forsemda þeirra kaupa var uppgreiðsla skulda við lánasjóðinn og gat ég ekki annað en haldið gefnu loforði mínu um sófakaup í kjölfar skuldaferslisins og gekk því í málið af fullri alvöru.
Við vorum búin að skoða notaðan sófa sem var ekki alveg fullkominn þótt hann hafi nú haft útlitið með sér. Rak svo augun í hornsófa í balðinu sem ákveðið var að kanna nánar og gera fjölskylduferð úr rannsókninni. Krakkarnir voru með í för og höfðu merkilega gaman af innliti í húsgagnaverslunina. Bjartur hljóp út um allt að skoða og pæla á meðan Sunna klæddi sig úr útifötunum/skónum, hafði komið auga á barnabækur sem hún rogaðist með uppí einn tungusófann og byrjaði að lesa eins og hún ætti heima þarna í miðri húsgagnaversluninni og væri hluti af uppstillingunni.
Allir gáfu blessun sína og ákveðið var að skipta út gamla góða horn/svefnsófanum sem er búinn að þjóna okkur dyggilega síðustu ár. Hann var líka farinn að láta sjá á og ber þess greinlega merki að hafa verið vel notaður af þreyttum foreldrum og hoppandi/teiknandi krökkum.
Í gær kvaddi ég gamla með sófalegu og framtíðarhasarmynd, þær eru ófáar SciFi-myndirnar sem maður hefur séð og klikka sjaldnast fyrir nördinn ;)
Bjartur fékk tilkynnt þegar hann kom heim í dag að hann mætti kveðja sófann en það fór nú ekkert sérstaklega vel í hann og opnuðust flóðgáttirnar um leið. Þegar hann náði sér ákvað hann að flytja niðrí geymslu, líklega einhver mótmælaaðgerð til að lýsa yfir óánægju með að fjarlægja gamla sófann. Þannig að hann útbjó sér rúm niðri geymslu með því að hreinsa út úr einum hluta hillusamstæðunnar þannig að hann gat komið sér fyrir þar og einnig útbjó hann stað fyrir Binna til að sofa á en lítið var nú af því að hann færi að sofa niðri eftir að vera búinn að vera að springa úr solti með geymslulyklana og sýna öllum krökkum í blokkinni nýja pleis-ið sitt.
Valgeir bjargaði mér með flutning og burð á sófanum sem okkur rétt tókst að þvinga upp stigaganginn og reddaði hann alveg burðinum enda mikill maður vexti og fer létt með "lítinn" sófa milli fingranna.
Þegar krakkarnir voru sofnaðir duttum við í sófann og létum fara vel um okkur yfir sjónvarpinu og kjaftagangi þar til tími var kominn að fara að hátta...ekki gekk nú jafn auðveldlega að "detta" uppúr sófanaum en það hafðist á endanum.

föstudagur, október 16, 2009

Dagatal Leikskólans 2009-2010

Google calendar er dagatal á netinu sem ég nota gríðarlega mikið og hef beinan aðgang að því úr póstinum sem og að ég nýti það mikið til ámynninga með SMS sendingum.

Minntist á það fyrir stuttu að ég væri kominn í foreldrafélagið á Víðivöllum og ákvað að byrja að nýta tæknina. Það er til dagatal yfir viðburði og merkisdaga hjá leikskólanum en ég hef aldrei getað munað þetta almennilega. Þannig að ég ákvað að skella þeim inní nýtt dagatal sem ég birti hér og einnig eru hlekkir fyrir neðan til að lesa dagatalið inn:



Opna stórt í vafra. Tegnja með iCal. Tengja með XML.
Á nú ekki von á að margir nýti sér þetta þannig að ég ætla ekki að fara útí hvenrig á að lesa dagatalið inní hin ýmsu forrit en skil það eftir sem æfingu hana áhugasömum ;)

fimmtudagur, október 15, 2009

Gamlar skuldir ryðga ei

Ég vil þakka öllum viðbótarlífeyrissparnaðnum mínum fyrir að hafa losað mig undan skuldum við LÍN...

...ætla að skála fyrir honum í kvöld eftir bandýæfingu =)

sunnudagur, október 11, 2009

Góðr dagr kemr aldrei ofsnemma


Fyrir ári síðan mætti Dagný á svæðið...það er samt eins og hún hafi alltaf verið hérna. Hún er yndisleg eins og systkini sín og var haldið uppá afmælið í dag og var því slegið saman við 3ja ára afmæli Sunnu sem er innan skamms.

Annars gekk afmælisveislan merkilega vel miðað við að ég var að spila föstudags- og laugardagsnóttina með kóngulónum, en við fengum góða hjálp við veisluhöldin og Bína var með þetta allt vel skipulagt ;)

fimmtudagur, október 08, 2009

Barnamæðr skaltu þér beztar velja

Ég hef lengi dáðst að því starfi sem unnið er á leikskólanum hjá krökkunum, sem ætti nú kannski ekki að koma að óvart því hann er forystuskóli og reynslan þar er gríðarleg.
Ég hef verið svo afskaplega ánægður með leikskólann og allt sem við kemur starfinu að ég hef oft hugsað hvernig ég gæti launað það til baka. Þannig að þegar auglýst var eftir foreldrum í foreldrafélagið varð ég að slá til. Þannig að á þessu skólaári verður öll fjölskyldan hluti af skólanum. Bjartur & Sunna á Bangsadeild, Dagný byrjar á Ungadeild eftir áramót og þá mætir Bína einnig aftur til starfa á Kanínudeild.
Að öllu óbreyttu verð ég enn að sækja krakka á þennan yndislega leikskóla eftir 5 ár ;)

Í dag fór ég á kynning á niðurstöðum könnunar varðandi uppeldis- og menntastarf, samskipti, upplýsingamiðlun o.fl. sem lögð var fyrir foreldra leikskólabarna í Hafnarfirði. Þar var afskaplega gaman að sjá hvað er verið að passa uppá leikskólastarfið þannig að bærinn heldur vel utan um skólana og reynir að fá álit foreldra til að bæta starfið. Mikið og gott starf virðist vera í gangi og gaman að taka þátt í að byggja það enn frekar upp í bænum.

miðvikudagur, október 07, 2009

Matarást hefi eg mest á þér


Í tilefni 2ja ára trúlofunarafmælis áttum við notalegt kvöld yfir imbanum með nokkrar pizzur, kók og bjór =)

laugardagur, október 03, 2009

Góðr dagr kemr aldrei ofsnemma

Árshátíð vinnunar var haldin á Hótel Heklu í dag. Böddi&Bekka komu uppúr hádegi og voru með gríslíngana yfir nótt. Við brunuðum bara tvö uppá hótel og nutum þess að vera alveg laus við að hugsa litlu rah'götin okkar. Þannig að þegar við mættum var farið beint undir sæng og tekin góð kría.
Skriðum á fætur í tæka tíð til að hafa okkur til og í leiðinni var byrjað að hita upp fyrir kvöldið.
Árshátíðin var hin mesta/besta skemmtun, enda ekki við öðru að búast af öllu frábæra fólkinu sem vinnur hjá Umferðarstofu. Við vorum komin í góðar gír á dansgólfinu hjá DJ Dolly en vorum samt með fyrsta fólkinu til að skríða aftur undir sæng. Rétt tókst að ná morgunmat og svo var brunað aftur í bæinn að hitta krílin.
Yndislegt að fá svona einn dag til að slappa af, sofa og þurfa ekki að gefa neinum að borða, skeina eða leika =)

fimmtudagur, október 01, 2009

Lítið gott skal hátt hreykja

Þá er farið að hausta og ekki seinna vænna að koma ferðaboxinu ofan af bílnum. Atli á skilið miklar þakkir fyrir að hafa lánað okkur boxið yfir sumarið og hefur það nýst vel á ferðum. Væri nú alveg til í að eiga eitt svona en læt mig líka dreym um það að eignast fyrst bílskúr til að geyma það í yfir vetrartímann ;)

þriðjudagur, september 29, 2009

Svefn er sætr þeim þreytta

Búinn að vera að rokka nokkrar helgar með Kóngulóarbandinu niðrí borg óttans. Við höfum skemmt næturdýrunum og verð að viðurkenna að það tekur nú svoldið á að skríða uppí rúm á morgnanna og reyna að leggja sig fram að hádegi tvo daga í röð. Svefnleysi er með því óþægilegra sem ég veit og ég kann ekki alveg við að leggja mig í tíma og ótíma. En ekkert jafn notalegt eins og komast svo í bólið á skikkanlegum tíma á sunnudagskvöldunum =)

fimmtudagur, september 24, 2009

Sterkt öl gjörir dofið höfuð, og feitan búk

Guinness átti bara 250 ára afmæli og í tilefni þess skellum við Siggi okkur í afmælisveislu til hans niðrá Dubliner þar sem boðið var uppá afmælisdreginn á litlar 250 krónur glasið. Hefði nú alveg getað setið langt frameftir þangað til að ég hefði dottið útaf...en sopinn er alltaf góður og ekki verra þegar hann er góðu verði. Kannski eins gott að hann sé ekki alltaf svona ódýr, þá væri ég og fleiri alltaf fullir ;)

þriðjudagur, september 08, 2009

Betra er að lofast fyrir þolinmæði enn hreysti

Vaknaði nær dauða en lífi snemma nætur og vissi ekki hvaða skítapest hafi blossað svo snögglega upp. Var viss um að liggja fyrir næstu daga og að áætlanir mínar um að verða veikindalaus væru orðnar að engu. En vitir menn, líkamanum tókst að berja á vibbanum um nóttina og um morguninn var þetta bara hálsbólga. Þannig að stefnan á veikindalaust starfsár heldur áfram =)

laugardagur, ágúst 29, 2009

Gott er að vera í góðra manna förum

Jóhann bróðir kom ásamt fjölskyldu til landsins og ákváðum við að hitt á þau fyrir austan. Fórum nokkrum dögum fyrr og höfðum það notalega á Múlaveginum og vikan var alltaf fljót að líða en engu að síður afskaplega notaleg og afslappandi þótt að við gleymdum að fá spádóm hjá Snorra og enga tók ég kotru við hann í þessari ferð en einhverjar myndir náðust.

fimmtudagur, ágúst 20, 2009

Maðr skal sið fylgja, flýja land ella

Komi kreppan til tals hef ég yfirleitt mælt með að "flýja" land ef að áhugi er fyrir hendi að búa erlendis. Þrátt fyrir það er enginn nákominn mér sem hefur yfirgefið klakann og líklegast gera það nú fæstir nema af illri nauðsyn og vonandi verður ekki spekileki á landinu.
Vissulega hafa kjör hér á landi versnað og munu bara versna en í mínum framtíðarplönum er brottflutningur ekki á stefnuskránni. Þegar þessi umræða kom upp við Bínu var ég nokkuð undrandi að heyra að hún var jafnvel á því að það væri jafnvel besti kosturinn að koma sér héðan. Þannig að ég viðurkenni að ég hugsaði nú meira um það en áður, þótt engin alvara væri nú á bakvið þær hugleiðingar.
Það nálgast senn í að ár sé komið síðan að eftirköst fjármálafyllerísins byrjaði að herja á þjóðina og ég held að allir viti að það er ekki að fara að birta til strax. Þeir sem þáðu ofurlaun vegna "ábyrgðarfullra" starfa virðast ekki ætla/þurfa að axla neina ábyrgð og ráðamenn þjóðarinnar virðast hafa nóg við að leita leiða til að bjarga fjárhagnum og því lítill tími eftir til að passa uppá almenning í landinu.
Næstu mánuðir ættu að varpa einhverju ljósi á hver staðan er og hvernig framhaldið verður. Þótt það verði erfitt næstu árin þá leynast tækifæri og kostir í því að fara í kreppu. Hvað varðar að yfirgefa klakann þá þarf víst að versna hér enn meira til að ég rífi upp ræturnar og setjist að í öðru landi og ætla að vona að ekkert reki mig í þær hugleiðingar =)

sunnudagur, ágúst 09, 2009

Allt vinnst með yðni og erfiði

Einn heima með krakkana í allan dag. Bína var að gæsa Helgu Björt með Bónerhópnum en rak inn nefið tvisvar yfir daginn, aðallega til að gefa Dagnýju. Við hófum daginn á göngutúr sem endaði í úrhellisrigningu sem hrakti okkur heim, enda vorum við bara í pollagöllum en ekki alveg útbúin fyrir svona mikið vatn.
Dagur fór svo í að: mata, leika, taka til, klæða í útiföt, klæða úr útifötum, taka til, mata, leika...og svo framvegis þangað til að endað var á baði og ís yfir sjónvarpinu fyrir háttinn.
Kom mér verulega að óvart hvað mér fannst dagurinn langur að líða og tók bara nokkuð á, en jafnfram afskaplega gaman að vera einn með þessum litlu einstaklingum sem maður á víst helling í ;)

fimmtudagur, ágúst 06, 2009

Sæll er sá, sem sig kann gleðja

Naut þess ótrúlega mikið að fara með krakkana í leikskólann. Þau voru afskaplega róleg og ánægð með að koma aftur í leikskólann og skemmtilega mikil ró á leikskólanum snemma morguns þennan fyrsta dag eftir sumarfrí.

miðvikudagur, ágúst 05, 2009

Nóg hefir hvör að vinna

Strembið að byrja aftur að vinna fulla vinnu eftir að hafa verið í 75% starfi síðan að Dagný fæddist, síðustu 10 mánuði. Erfiðast að vera ekki jafn mikið heima og geta farið með krakkana á leikskólann og sótt þau á hverjum degi. En sem betur fer getur maður stundum sveigt vinnutímann til að reynt að hitta þau aðeins meira suma daga en aðra.
Mikill kostur við að vera með styttri vinnudag var einnig að vera alltaf utan við álagstíma í umferðinni, sem er vissulega kostur þegar þarf að keyra 10km í vinnuna á hverjum degi. En ég leyfi mér nú líka oft að fara til vinnu áður en að nokkur er vaknaður á heimilinu. Bína sér þá um að koma stóru krökkunum í leikskólann og ég get komið snemma heim og missi þá af allri umferð.
En eftir að hafa prófað að vera ekki í fullri vinnu þá gæti ég trúað að það henti mér betur. Finnst einhvernveginn að vinnan eigi ekki að taka bróðurpartinn af deginum, a.m.k. ekki þegar heimilið er fullt af börnum ;)
Held samt að 88% sé fínasta vinnuprósenta fyrir mig þegar ég þarf að sinna öðru...en það er nú ekkert á dagskrá að minnka við sig vinnu eins og staðan í dag...frekar draumur um að geta stækkað við sig...en það er ekki mikið að gerast í "ástandinu".
En fæðingarorlofið var gott, sumarfríð var gott og nú hittir maður meira snillingana í vinnunni =)

þriðjudagur, ágúst 04, 2009

Leingi er gamall maðr barn

Ég og Bjartur skelltum okkur í sund eftir kvöldmatinn. Afskaplega notalegt að eiga svona stóran strák sem sér alveg um sig sjálfur...reyndar var ég nú á eftir honum allan tímann þ.s. ég hef ekki minna gaman af því að renna mér ;)
Sundlaugar í landinu hafa heldur en ekki fengið að njóta góðærisins og það er alltaf erfitt að velja í hvaða laug á að fara, en Salalaugin í Kópavoginum verður nú oftast fyrir valinu. Þar spilar nú reyndar inní að ég er með árskort þar því það er opið lengur hjá þeim en öðrum og mér finnst betra að skreppa kannski einu sinni í viku að lyfta þegar krakkarnir eru farnir að sofa. Auk þess er stóri heiti potturinn með fullt af baknuddurum sem ég nýti óspart eftir að hafa tekið aðeins á.
Ætla að vona að Íslendingar fari nú ekki að beina túristanum í sundlaugarnar ef landið verður hagstæður ferðamannastaður í framtíðinni. En ég á nú ekki von á öðru en allt fari hækkandi á næstunni eins og hefur verið....vonandi skýrist nú eitthvað með haustinu þó ég reyni nú að leiða allt þetta "krepputal" eins mikið hjá mér og ég get.

mánudagur, ágúst 03, 2009

Sumarfrí 2009

Ekkert var farið til útlanda í ár heldur var bara farið beinstu leið á Seyðisfjörð. Innanlands ferðalag var nú ekki tilkomið vegna kreppunnar, heldur var mig farið að langa að ná góðu fríi þar og var ákveðið síðasta sumar að vera bara í rólegheitum heima í ár. Ekki fengið við nú alveg veðurblíðuna sem við höfðum óskað okkur þannig að við enduðum ekki nema 2 vikur á Seyðifirði en fórum svo aftur heim í blíðuna þar sem er búin að vera að hrella gróður á suð-vesturhorninu, þótt að mannfólkið kunni nú flest vel við og bleyti sig bara að innan ef þar ;)

Einhverjar myndir úr júlí og fleiri að austan sumarfríinu fyrir austan sem og svo smá annáll yfir hvað var gert:

Föstudagur 3. júlí
Þar sem veður var svo fínt stakk ég snemma af úr vinnunni og við fórum í bústað í Grímsnesinu með Bödda&Bekku og co.

Laugardagur 4. júlí
Veðurblíða og farið var í smá heimsókn í bústaðinn til Einars&Indu og svo haldið kyrru fyrir í bústaðnum, spilað kubb og farið í pottinn.

Sunnudagur 5. júlí
Fórum á Gullfoss & Geysi þar sem að Sunna sló í gegn hjá asískum ferðamönnum sem vildu ólmir fá teknar myndir af sér með henni. Þeim fannst hún eitthvað óskaplega mikið krútt, pínulitil að dandalast um hverasvæðið.

Mánudagur 6. júlí
Keyrðum á Slakka og þá kom þessi líka rjómablíða. Tókum okkur góðan tíma þar að skoða dýrin, borða og spila minigolf.
Kíktum á Nonna&Begs sem voru í búðast á Hellu hjá Þórunni og rúlluðum svo í bæinn.

Þriðjudagur 7. júlí
Skoðuðum raðhús í Hafnarfirði. Leist vel á, þarfnast viðhalds en gæti verið endanleg eign...ef það væri ekki bara "ástand" þá myndi maður jafnvel gera tilboð þar sem þetta væri alveg fullkomin eign þar til krakkarnir væru farnir að heiman ;)

Miðvikudagur 8, júlí
Veðurspá morgundagsins var svo góð að ég kom því í gegn að keyra austur í dag. Reyndar var það ekki ákveðið fyrr en að ganga 11 um morguninn.
Fórum úr bænum kl. 13:30 og vorum mætt á EGS 21:30. Keyrðum nokkuð greitt og tókum smá stopp á Höfn og síðan Öxi uppá hérað þar sem við hittum Helgömmu og co. hjá Degi og co.

Fimmtudagur 9. júlí
Nóg að gera í garðinum á Múlaveginum í góðu veðri.

Föstudaguri 10. júlí
Skruppum í sund á Egilsstöðum og fórum svo niður á Seyðisfjörð og sóttum lykla að húsi við ánna sem við leigðum í viku. Gafst reyndar ekki tíma til að sofa þar í nótt, enda ekkert stress. Höfðum upphaflega ætlað að létta undir gistiaðstöðunni á Múlaveginum þar sem von var á slatta af fólki yfir Lunga en fengum húsið bara fram að Lunga helginni. En það var gaman að prófa þetta, þótt að það sé nú alltaf besta að vera á Múlaveginum ;)

Laugardagur 11. júlí
Byrjað að grisja aðeins í trjáræktinni kringum húsið sem veitti heldur betur af þótt að lítið hafi nú sést að eitthvað hafi verið gert. Sundferð með Monsa&strákunum og Sól.

Sunnudagur 12. júlí
Henti saman smá trjáhelliskofa fyrir krakkana. Þar var nú bara greinum hent kringum runna, en nóg til að gott rými var til að hafa sem hús. Kíktum í heimsókn til Monsa&Ástu og hittum þar Óla með Grím og Sigrúni. Ég skrapp á straumkajak á meðan Bjartur lék við Ara Björn.

Mánudagur 13. júlí
Hent í pizzur á Múlaveginum og svo ætlaði Bjartur að gista. Helgama hringdi rétt f. 12 og kom svo með B, ekkert vandamál, bara kominn yfirum og nóg annað að gera en að sinna honum. Þá var hann víst búinn að vera hlaupandi um á fullu...eitthvað sem hann er farinn að gera þegar hann finnur að hann er þreyttur og vill ekki fara að sofa ;)

Þriðjudagur 14. júlí
Sóttum tjaldvagn út í Norðursíld með hjálp frá Monsa.
Ég og Bjartur fórum í göngutúr með Monsa og co. upp fyrir bræðslu og kíktum á gamla stigann.
Sami hópur auk Sunnu fór í sund. Síðan var farið á Múlaveginn að borða og niðrí hús að sofa( sem tók nú smá tíma, aðallega hjá prinsinum sem var orðinn vel þreyttur, enda vakinn kl. 8 í morgun til að passa uppá að snúa sólahringnum ekki alveg við ).

Miðvikudagur 15. júlí
Skellti mér í sláttur á brekkunni við Múlaveginn. Ekki klukkutíma verk og tók samt bara vel á, endaði auðvitað ber að ofan við að heyja( enda er ég perri ;).
Ákveðið að nýta daginn og fara á steinasafn Petru á Stöðvarfirði.
Fengum okkur kaffi á tjaldstæðinu og gengum uppá leikvöll fyrir ofan.
Kíktum til Dags og co. en vorum ekki komin þangað fyrr en um 19:30 þannig að stoppið var stutt, enda var hringt í Helgu og heimilið ekki að höndla það að vera án hennar í nokkra klukkutíma( enginn fékk neitt að borða og Bragi að detta niður í sykrinum ).

Fimmtudagur 16. júlí
Fórum uppí EGS fyrir hádegi til að fara í búð. aldrei lent í jafn mikilli umferð á leiðinni yfir, enda var Norræna að koma og var lengja af bílum niður alla hlíðina EGS megin( við síðust ). Eftir búð fengum við okkur að borða í sjoppunni og heldum svo heim.
Skrapp á sjókajakinn, það var mun skemmtilegra heldur en straumkajakinn, á þessum var maður ekkert að fara að velta svo auðveldlega. Fór í neðra lóðið, yfir grynningar og svo aðeins út fyrir höfnina, en þ.s ég var einn á ferð og í fyrsta skiptið í kajak þá vildi ég nú ekki fara of langt né þreyta mig of mikið. Komst ekki upp grynningarnar þannig að ég dró bátinn bara nokkra metra uppfyrir þær. Tók smá hring kringum hólmann og svo aftur heim. Væri til í að skella mér í fyrramálið með myndavél ef að veður/nenna leyfir ;)
Góður hópur fór í sund þ.s. Bjartur var full mikill að flakka um kútalaus.
Tískusýning Lunga - Rakel - náði ekki að fara þ.s. hún var svo seint og það þurfti að koma stelpunum í svefn.
Strákarnir( Bjartur, Kristján og Leifur ) fóru að veiða með mér og Braga út á Bræðslubryggju. Bjartur náði 2 litlum( einum Marhnút eftir að hafa spurt hvernig hann liti út, ég sagði honum að þeir væru ljótir fiskar en hann var nokkuð ánægður með hvað þessi litli var lítill og sætur =) Bragi náði svo einum vænum og einn mávur lenti í lífshættu þegar hann flæktist og var húkkaður í en slapp eftir að hoppa fram af bryggjunni og ná einhvernvegin að losa sig í leiðinni.

Föstudagur 17. júlí
Skiluðum húsinu og ég fór ekkert aftur á kajak þ.s. ég svaf eitthvað illa um nóttina og nóg var að gera að taka til og þrífa um morguninn.
Kom blíða þannig að það var bara hangið heim á pallinum á Múlaveginum.
Þoka læddist yfir áður en byrjað var að grilla hamborgarafjallið ofan í allan herinn sem gistir á Múlaveginum, hátt í 20 manns.
Monsi & Böggi kíktu og drógu mig út um miðnætti...ráfuðum um, fórum á Láruna, Tjaldstæðið, Láran, pylsa( ekki alltaf sem það er pyslusala á Seyðisfirði ) og svo heim að sofa kl. 5...síðasti maður heim ;)

Laugardagur 18. júlí
Fórum á uppskeruhátið Lunga. Dagný var reyndar vökuð þannig að ég missti af seinni hlutanum, en lék bara við hana frammi á meðan.
Gengum um bæinn, en full kalt kom frá sjó.
Fórum í smá veiði út á bryggju, Sunna kom með, ég veiddi einn stóran sem hafði gleypt öngulinn og þurfti að aflífa. Sunna brjáluð yfir að fá ekki að veiða fisk( þ.e. að fá engann ). Hún var ekki að skilja af hverju ég fékk en ekki hún.
Læri um kvöldið og síðan gengum við Bína um bæinn fullan af fólki á Lunga hátíðinni.

Sunnudagur 19. júlí
Unga fólkið yfirgaf Múlaveginn og hélt heim á leið. Ég, Bjartur, Bragi, Monsi og Ari Björn fórum um fjörðinn í bátnum hjá Monsa.
Um kvöldið fórum við svo út að borða með Monsa&Ástu á Öldunni.


Mánudagur 20. júlí
Fór á Kajak með Sól sem langaði svo að fara á lónið og ég var hæstánægður að komast aftur á kajak sem var leigður hjá Hlyn að þessu sinni. Við f´roum í neðra lónið og rétt komumst aftur upp yfir grynningarnar. Bjartur kom svo niður að lóni og fékk að kíkja með líka.
Rakel eldaði Schmarn, allt of langt síðan ég hef fengið það =)
Gúllassúpa og svo spáð í bolla og kotra...nú var ég að verða búinn að gera allt sem þurfti að gera í ferðinni ;)

Þriðjudagur 21. júlí
Kíktum á Frænku og keyrðum svo heim. Nokkur stopp voru tekin og síðasta stoppið var svo í Kobba kút( sundlaug ) á Selfessi sem við höfðum lengi ætlað að prófa.

Miðvikudagur 22. júlí
Húsdýragarðurinn í blíðu.
Keypti nýja myndavél þar sem sú gamla gaf loksins upp öndina.
Sunna búin á því þegar við komum heim, fór uppí rúm að sofa, vaknaði aftur handónýt og sofnaði frammi.

Fimmtudagur 23. júlí
Bína varð fyrir krakkastóði um nóttina, ég fór með þau fram um 8 og síðan á runtinn. Landbankinn, Sæunn, Beko( ath. hvort hægt væri að gera við gömlu myndavélina, sem var ekki hægt ), Hraunhamar( forvitnast um fasteign ), heim.
Byrjað að taka til eftir ferðalagið. Var kalt framan af degi en sólin lét svo sjá sig og hlýnaði.
Sveitapitlsins draumur hjá B&B um kvöldið

Föstudagur 24. júlí
Skruppum í IKEA skemmtileg tilviljun að við rákumst á Dag & co. í mötuneytinu og ánægjulegt að ná að hitta á þau þ.s. þau voru í smástoppi og áttu ekki von á að ná að kíkja á okkur.
Um kvöldið komu Eyrún&Jobbi&co og Anna&Robbi í pizzu. Alltaf er maður að prófa sig áfram með pizzugerðina ;)

Laugardagur 25. júlí
Lagaði gereftið inná baði( búinn að ætla að gera það síðan síðasta sumar ).
Kjúklingalasagna hjá Bínu sem var alveg rosalega gott.

Sunnudagur 26. júlí
Fórum í sund um morguninn í "gömlu" laugina í Kópavogi og ég fór svo á æfingu með Sambandinu fram á nótt á Borgarnesi.

Mánudagur 27. júlíFór með krakkana á runtinn á meðan að Bína fékk að sofa langleiðina til hádegis eftir að hafa vaknað með þau. Fínasta veður þannig að það var hangið allan daginn í garðinum eins og við gerum svo oft =)

Þriðjudagur 28. júli
Dagný á ferðinni snemma í morgun að reyna að vekja alla.
Haldið áfram að taka til, búrið og bíllinn tekin fyrir í dag.
Grilluðum lambalærissneiðar um kvöldið.

Miðvikudagur 29. júlí
Sund með Monsa&strákunum, en þau eru hér í viku.
Fórum svo í IKEA að pulsa okkur og strákarnir fóru í boltaland.

Fim 30.júl
Húsdýragarðurinn með Monsa&co í rjómablíðu. Vorum mætt fyrir 11 og fórum ekki út úr garðinum fyrr en rétt fyrir 18.

Fös 31. júl
Enn blíða. Fór á smá runt, nennti ekki með bílinn í smurþjónustu þ.s. það var 30 mín. bið og fór heim í garðinn ;)
Hallur og Sæunn komu í pizzu um kvöldið.

Laug 1. ágúst
Blíðan heldur áfram.
Matur hjá B&B
Ég, Monsi og Bjözzi fórum út á smá skrall( heim 4 ;)

Sun 2. ágúst
Þunnur, aðallega að drepast í maganum, kenni bjórnum á Celtic í gær um.
Bjartur eitthvað illa fyrir kallaður í dag sem endaði á því að hann missti af sundferð og Bína&Dagný voru bara heim með honum á meðan ég og Sunna fórum í sund.
Hitti Bjözza um kvöldið. Sátum og glömruðum á gítar&bassa lengi og síðan var rokkaramyndin Pick of Destiny sett í tækið og horft fram á nótt.

Mán 3. ágúst
Já, það var blíða sem við nýttum í göngutúr um Norðurbæinn, nesti í garðinum.
Til að klára sumarfríið var ákveðið að fara á Hereford um kvöldið. Við förum alltaf amk 1 sinni( lágmark ) á ári og höfum verið mjög heppin með að verða okkur ítrekað út um 2fyrir1 þannig að þetta er alltaf vel sloppið kostnaðarlega séð. Þessi máltíð var sú besta sem við höfum fengið þarna( og þá er mikið sagt ), kjötið var fullkomið og allt var bara alveg frábært. Góður endir á góðu sumarfríi =)

þriðjudagur, júní 30, 2009

Bílinn tilbúinn í ferðalagið

Eftir óteljanlegan fjölda af bílrúðuskermum ákvað ég að hætta að eyða smápeningum á hverju ári í þá og filma afturrúðurnar til að vernda krakkana aðeins gegn sólinni. Þvílíkur munur í staðin fyrir að reyna að festa eitthvað "drasl" á rúðurnar auk þess sem að þetta dregur jafnvel aðeins úr hitanum í bílnum, sem er mikill kostur þegar maður er ekki með loftkælingu.
Atli lánði mér svo tengdamömmubox og Þröstur boga þannig að nú er bíllinn tilbúinn í að fara jafnvel 2 austur í sumar.

laugardagur, júní 27, 2009

Pizzupartý

Hátt í 20 pizzur bakaðar í kvöld. Tekur svoldinn tíma að afgreiða þetta með bara einum litlum pizzaofni...en merkilegt hvað ég hef gaman af pizzugerð ;)

föstudagur, júní 26, 2009

Smíðakvöld

Bónermenn hittust: pizza, áfengi og póker...góður stofnfundur og vonandi verða fundirnir jafn ánægjulegir næstu árin ;)

föstudagur, júní 19, 2009

Karrakot

Hoppandi kát með hafa fengið Karrakot í láni yfir helgina, takk enn og aftur Malla & Þröstur =)

sunnudagur, júní 14, 2009

Austurrískar frænkur á ferð um landið

Systur hennar mömmu( Cilli ömmu ) voru á ferð um landið um daginn og náði ég að hitta aðeins á þær þegar þær stoppuðu við í bústað hjá Gauta. Philip( barnabarn Martínu ) var með þeim sem ökuþór...hann var að leikstýra stuttmynd um daginn...þarf að finna hana og tengja inná hérna. Þótt að ég hafi nú ekki séð þau nema eina kvöldstund þá var það mjög gott því ég missti af þeim þegar þau komu aftur í bæinn. En ég þarf bara að fara að kíkja til þeirra í Hof bei Saltzburg hið fyrsta.

föstudagur, júní 12, 2009

Helgi í tónlist

Shape átti 10 ára endurkomu þegar við spiluðum nokkur vel valin lög á minningartónleikunum Helgi í tónlist á Borgarfirði. Það var rosalega gaman að fá að taka þátt í þessum tónleikum og eiga allir sem að komu mikið hrós skilið sem og gestir og aðrir sem lögðu hönd á plóg. Afskaplega skemmtilegt að stíga aftur á svið með Shape félögunum og ekkert hefur gleymst á þessum 10 árum eins og ég hef áður sagt.
Nokkrar myndir má finna inná facebook.
Bjarur & Sunna komu með mér austur og voru í góður yfirlæti hjá Helgömmu á meðan ég var á Borgarfirði og eru nokkrar myndir frá ferðalaginu.

mánudagur, júní 08, 2009

Pizzugerðarmaðurinn Logi

Um daginn fengum við brauðstein frá Nonna&Begs sem ég hef verið að nota sem pizzustein með því að hafa á meiri hita en ráðlagt var. Það endaði með því að hann mölbrotnaði og þá var ekkert að gera heldur en að versla pizzaofn. Þetta er kannski ekki alveg pizza fílingurinn, en einhvenrtíman mun ég hlaða minn eigin ofn...þegar ég verð kominn með garð til að hafa ofninn í ;) þá er ekki slæmt að hafa múrara í fjölskyldunni sem geta aðstoða við verkið ;)
Annars er alltaf verið að þróa pizzadegið og er byrjaður á sósunni líka. Reyndar var það nú bara afleiðing kreppunnar þ.s. vöruúrval hefur minnkað og ég fæ ekki lengur pizzusósuna sem mér finnst góð.
Í "ellinni" stofnar maður pizzastað...um leið og að ég finn einhvern sem að bruggar bjórinn til að bera fram með pizzunum ;)

laugardagur, júní 06, 2009

Brúðkaup 2009

Í dag fækkaði syngurum þegar að Eyrún & Jobbi gengu í það heilaga...ég og Bína förum að verða með síðasta ógifta fólkinu í hópnum eftir að við seinkuðum giftingu ótímabundið þegar að Dagný kom undir.
Hér má sjá myndir úr brúðkaupinu og veislunni.

fimmtudagur, júní 04, 2009

Bjartur 5 ára

Haldið var uppá 5 ára afmæli Bjarts í dag. Ástæða þess að það var haldið daginn fyrir afmælisdaginn var að Sunnu á bókaðan tíma í nefkirtlatöku í fyrramálið og gengur ekki alveg að halda afmæli sama dag. Afmælið tókst bara vel og var stóri strákurinn hæstánægður með allar fínu gjafirnar, veisluna og afmæliskökuna.
Á afmælisdaginn sjálfan fékk hann svo WallE frá okkur og um kvöldið var uppáhaldið hans Bjarts: heitt súkkulaðifondú og niðurskornir ávextir. Myndir frá afmælis- veislunni og deginum.
Merkilegt að maður á FIMM ára strák...enda er maður orðinn gamall ;)

laugardagur, maí 30, 2009

Steggjun 2009

Jobbi var steggjaður í dag. 10 manna hópur sem gerði ýmsilegt af sér í tilefni dagsins og má sjá útdrátt af því hér( þ.s. Jútjúb leyfir ekki misnotkun á Elvislaginu í lokin er ekkert hljóð en glöggir ættu að geta fundið hlekk á skránna með hljóði hjá lýsingunni ;)

mánudagur, maí 25, 2009

Á misjöfnu þrífast börnin best

Síðustu 5 daga hafa krakkarnir verið móðurlaus því hún skrapp til Torronto með vinnuskvísunum. Þau fengu nú Helgömmu í heimsókn á meðan til að leika við og knúsa og hjálpaði það mikið til við að takast á við móðurmissinn. Mér þótti einstaklega gott að hafa Helgu á heimilinu þannig að ég þurfti nú ekki að vera með augun á öllum þremur allan tímann...alltaf nóg að gera á þessu heimili ;)
En veðrið lék við okkur og ýmislegt var brallað, þ.á.m.: Gönguferð í Hellisgerði og á Víðistaðatún, Fjölskyldu- og Húsdýragarðinn, matur hjá Gauta & co., verslunarferð í Smáralind( sem varð nú meira ís- og leikferð fyrir krakkana sem fengu plastsverð til að slást með ), pizzuveisla, kaffi hjá Bekku & Bödda, grillað og leikið.
Allt gekk vel og snemma í morgun kom Bína svo heim og voru mikil hamingja hjá öllum að fá mömmuna sína heim. Helga & Bragi yfirgáfu svo svæðið í hálf grámyglulegu veðri. Það rættist nú úr því og endaði ég í sundi með stærri krakkana í sól og blíðu...og svo náði ég einum bjór í sólbaði á svölunum seinnipart dags ;)

miðvikudagur, maí 20, 2009

Mörgum verðr bylt við boð

Seyðfirðingafélagið stóð fyrir Seyðfirðingahitting þ.s. tónlist og endurfundir réðu ríkjum. Fannst þetta afskaplega vel til fundið og ég er alltaf ánægður þegar að einhver gerir eitthvað sem mig hefur langað til að gera...en gef mér ekki tíma í ;) Þegar mætt var á staðinn var mér meinaður aðgangur fyrr en ég væri búinn að borga mig inn. Fannst mér það reyndar sjálfsagt mál og hið minnsta, en hinu verra að það hafði aldrei komið fram í neinni tilkynningu sem ég hafði fengið og fannst það svoldið skítt að því var ekki ælt út fyrr og mátti ég þakka fyrir að hafa veskið með í för þ.s. ég var bílandi ;) Gaman að hitta fólk sem maður rekst sjaldan á í þessu annars litla landi og vonandi verður þetta árlegur viðburður.

mánudagur, maí 18, 2009

Betra er líkama enn sálar sjúkleik að hafa

Ónæmiskerfið virðist vera að batna þ.s. það virðist vera í harði baráttu við aðra hálsbólgu sem hefur ekki enn breyst í neitt alvarlegra, þótt hún sé nú reyndar ekkert að skána :|
Ólífulaufin hef ég samt verið að tyggja í næstum ár og trúi því að þau séu að hjálpa til. Í dag var svo bætt í vopnabúrið þegar ég verslaði mér Mími í Jurtaapótekinu. Afgreiðslukonan sagði nú að þetta væri að megninu til sólhattur, sem hefur reyndar ekkert gert fyrir mig hingað til, en ég ákvað að prófa þetta.
Vopnabúrið samanstendur nú af hákarlalýsi, sólhatti, mími og stöku fjölvítamínstöflu. Járntöflur eru einnig til vara, en þ.s. það er slatta járn í fjölvítamíninu tel ég mig ekki þurfa þess nema að járnskortur verður áberandi, þá eru þær dregnar fram.

laugardagur, maí 09, 2009

Augun ei leina, ef ástin er heit

Bína mín orðin þRíTuG og alltaf jafn sæt =)

sunnudagur, maí 03, 2009

Sjaldan stendr góðr liðsmaðr lengi hjá

Fékk hringingu frá góðum manni sem bað mig að grípa í bassa yfir helgina í Vestmannaeyjum. Hann vissi vel ég væri nú upptekinn í fjölskylduleik en það var víst orðið fátt um góða drætti og leitaði því til mín. Þegar ég hafði komist að raun um að ég væri laus lét ég til leiðast og fór því annað sinn til eyja og einnig í annað sinn til að spila þar. Betra var nú í sjóinn heldur en síðast en heldur fámennt var hjá okkur bæði kvöldin vegna annarra stórra viðburða. Blíða var alla helgina og mun skemmtilega að vera uppá dekki í Herjólfi í sól og "blíðu" heldur en að hanga inní skipinu þar sem maður gat annað hvort ælt á einhvern eða látið æla á sig. Þrátt fyrir að dansgólfið hafi ekki verið fullt bæði kvöldin var þetta fínasta helgi með góðu fólki.
Það besta við svona ferðir er að koma aftur heim og knúsa fjölskylduna eftir langa fjarveru ;)

föstudagur, apríl 24, 2009

Kjörvilltr er sá, sem kýs hið lakara

Á morgun eru víst alþingiskosningar og ekki seinna vænna að gera upp hug sinn. Því miður eru auð atkvæði ekki talin með svo þeir sem skila auðu geta alveg eins setið heima. Ég væri mest til í að auðir seðlar myndu telja í auð þingsæti, þá myndi ég skilað auðu, stuðlað að fækkun alþingismanna( sem mætti nú alveg fækka niður í bara ráðherra eins og ég skrifaði í byrjun árs ). Enn verra finnst mér þó að þurfa að kjósa málefnin og fólkið saman þ.s. ég er ekkert endilega "hrifinn" af frambjóðendum í mínu kjördæmi en hef ákveðna skoðun á hvaða forsætisráðherra ég vil hafa eða reyndar hvern ég vil ekki sjá þar. Þannig að þótt ég vilji ekki endilega kjósa einhvern einstakling verð ég að gera það ef ég hef ákveðið hvaða flokk ég ætla að kjósa.

Í þessu meingallaða kerfi er ég er víst "neyddur" til að kjósa einhvern af flokkunum og ætli það sé ekki best að hripa niður hvað mér finnst um hvern og einn:

Borgarahreyfingin
Kemur sterk inn fyrir þá sem vilja nýta atkvæði sitt en geta ekki með nokkru móti kosið "gömlu" flokkana. Alltaf erfitt að vita hvernig nýjum flokkum vegnar, en þeir hafa nú metnaðarfullar hugmyndir um breytingar.

Framsókn
Ætla bara ekki að leggjast af, enda eru þeir með öfluga markaðsdeild og ná alltaf að plata nógu marga til að halda velli. Þótt þeir skipti um forystu og lofi öllu fögru þá mun ég seint gefa þeim tækifæri.

Frjálslyndir
Aðframkominn flokkur sem hefur ekkert skjól til að leita í á þessum tímum.

Lýðræðishreyfingin
Kannski sprottin af góðum grunni en forystusauðurinn fer út um þúfur, þá ætti hann nú kannski réttilega heima á alþingi með hinum hirðfíflunum ;)

Samfylkingin
Tími Jóhönnu loksins kominn en verst að það er ekki góður tími.

Sjálfstæðisflokkurinn
Eftir að hafa "næstum" rænt þjóðina sjálfstæðinu má nú deila um nafn hans( t.d. mætti kalla hann ósjálfstæðisflokkinn eða sjálfæðisflokkinn ). Sýnist þeir vita uppá sig skömmina og reyna að komast hjá því að vera í stjórn svo þeir geti kennt vinstristjórninni um þá erfiðu tíma sem verða næstu árin.

Vinstri Grænir
Eins vinstrisinnaður og ég er þá eru VG svo miklir afturhaldskommatittir stundum að það er hálf sorglegt.

Ath. að mínar skoðar byggjast aðallega á fordómum( sú skoðun eða tilfinning sem ég hef á tilteknu máli hverju sinni, rökfærð á hvaða hátt sem mér sýnist ).

Fann líka gamla færslu sem ég skrifaði um stjórnmálaflokkana fyrir hart nær 6 árum og er ég nokkuð sammála því sem þar kemur fram enn. Vonandi kemur eitthvað gott út úr þessu öllu saman...

sunnudagur, apríl 19, 2009

Af góðum huga koma góð verk

Vaknaði síðastur á heimilinu og sá hvar kaffibolli beið mín við hliðina á koddanum. Sunna hafði augljóslega ákveðið að gefa mér kaffi svona í morgunsárið...hún er alltaf jafn sæt hún Sunna sæta sól ;)

miðvikudagur, apríl 08, 2009

Betr er farið, enn heima setið

Þegar ég kom úr vinnu kl. 14 sagði Bína mér að Nonni&Begs væri farin norðu á Gautlönd og spurði hvort við ættum að kíkja til þeirra yfir páskana. Ég fór með þetta aðeins lengra og lagði til að fara sem fyrst og halda áfram á Seyðis og koma Helgömmu að óvart. Einnig höfðum við haft veður af því að Guggi&Harpa væru á leið austur og ekki ver að ná að sjá framan í þau, enda komin "nokkur" ár síðan við hittum þau síðast.

Þegar komið var grænt ljós á að við værum velkomin á Gautlöndum vorum við lögð af stað klukkutíma eftir að hugmyndin var lög fram. Held að við höfum aldrei verið jafn fljót að pakka og komast af stað. Mikill kostur að geta bara pikkað eldri krakkana upp á leikskólanum, skellt þeim beint í bílinn og brunað af stað út úr bænum.

Mjög gott ferðalag sem má lesa meira um á bloggsíðu krakkanna og einnig eru komnar myndir úr ferðinni ;)

laugardagur, apríl 04, 2009

Sætr er sjaldfenginn matr

Tókum matarboði frá Möllu&Þresti sem leiddi okkur alla leið uppí Karrakot. Maturinn var ekki af verri endanum og ekki á hverjum degi sem dýrindis nautalund fær að kítla bragðlaukana. Yndisleg helgi og merkilegt hvað maður var endurnærður eftir bara einn dag í sveitinni, þúsund þakkir fyrir okkur.

P.s. Myndir væntanlegar um mánaðarmótin( þ.s. ég set bara inn myndir hvers mánaðar þegar hann er liðinn ;)

Ákvað að drífa í því að skella inn myndum frá Karrakoti

fimmtudagur, apríl 02, 2009

Hvað lengi er forhugsað, má fljótliga framkvæma

Fyrir 10 árum steig ég síðast á stokk með Shape og nú eru blikur á lofti að við munum koma fram í sumar. Það hefur oft komið til tals að telja aftur í en ekki orðið af því fyrr en nú. Það var engu líkara en að við hefðum verið að spila í síðustu viku, alveg stórmerkilegt hvað við vorum samstilltir...sérstaklega miðað við 10 ára "pásu" ;)

Væntanlega sjáumst við á sviði á Vegareiði 2009( Road Rage 2009 ) í Sláturhúsinu á Egilsstöðum 13. júní ;)

miðvikudagur, apríl 01, 2009

Biðjandi maðr fær börn

Lagðist í bað um daginn, en það voru nú engin rólegheit. Krakkaormarnir þrír voru skríðandi, skvettandi og frussandi um allt baðið og í orðsins fyllstu merkingu að "ormast". Horfði yfir liðið og fannst nokkuð merkilegt hvað þessi hópur var fljótur að stækka og spurning hvort þetta sé ekki komið gott?

Þegar krakkarnir voru bara tvö minnist ég þess að hafa oft að leita að þeim þriðja. Ég hef ekki fundið fyrir því að einhvern vanti eftir að Dagný kom sem ætti að segja mér að þetta sé komið gott.

Auk þess erum við búin með öll vinnuheitin en stuttu eftir að við byrjuðum að búa dreymdi Bínu að við áttum 3 börn sem hétu: Rasshár, Skeggrót og Viðbót. Hafa þessi nöfn verið "vinnuheitin" á krökkunum í óléttunum og þar sem þau eru uppurin myndi það bara flækja málin að bæta í hópinn ;)

föstudagur, mars 27, 2009

Sú eign er bezt, að eiga sem nægir

Fyrir 3 árum eignaðist ég cube og var hinn ánægðasti en nú er hann horfinn af heimilinu. Ég ákvað að það væri tími til kominn að taka til á heimilinu og hætta að safna "dóti". Leyfa einhverjum öðrum að njóta hans enda var hann bara að safna ryki á bakvið sófa og notaður í lítið annað en að keyma gögn. Nýr eigandi sótti vélina og leið mér afskaplega vel að vita að hún fór til mikils makkamanns og safnara sem mun ábyggilega gera henni góð skil um ókomin ár.
Birt án leyfis
Ágætt að byrja að taka til áður en þetta endar svona ;)

sunnudagur, mars 22, 2009

Bara eitt bleyjubarn á heimilinu

Sunna er hætt með bleyju og þá er Dagný eina bleyjubarnið á heimilinu. Get ekki beðið eftir losna við bleyjurnar...og þá sérstaklega kúkableyjurnar sem eru alveg "sætar" fyrstu vikurnar en hjá 2ja ára er þetta orðið full mannalegt ;)

mánudagur, mars 16, 2009

B&L 7 ára

Í tilefni dagsins fengum við Valgeir&Þyrí til að passa gríslingana og fórum út að borða. Af gömulum( og góðum ) vana fórum við á Hereford, en við erum búin að vera sérstaklega dugleg að fara þangað undanfarið ;)


B&L orðin 7 ára

miðvikudagur, febrúar 25, 2009

Geiri frændi

Fyrir nokkru héldum við feðgar í smá bílferð með flöskur í Sorpu. Þegar við vorum að skila flöskunum rak ég augun í Almanak Sorpu 2009 sem ég greip með til að skoða síðar. Þegar heim var komið fletti ég í gegnum bæklinginn og rakst þá á mynd af nokkrum af dósaklippingunum hans Geira frænda. Ég hafði gaman að sjá þessi undraverk hans aftur þ.s. ég hafði ekki séð þau lengi og heldur ekki hugsað um kallinn í nokkur ár.
Rifjaðist þá upp fyrir mér að ég hafði eitt sinn reynt að læra þessa listsköpum af honum. Lagði leið mína í kot kalls og gerði nokkrar heiðarlegar tilraunir sem urðu bara að sundurklipptum áldósum. Á meðan lá Geiri hinn makindalegasti í bóli sínu og hafði lítið fyrir að beygja álið fram og aftur og hafði fullkomna sýn á því hver niðurstaðan yrði á endanum. Ekki hef ég skilning á því hvernig hann fór að búa til húsgögn, kórónur og myndaramma úr áldósunum og kannski er þessi náðargáfa nú týnd af hnettinum eftir brotthvarf hans.

En skemmtileg minning og áhugaverður kall og húsið hans var síðast þegar ég vissi safn, en ég finn nú engar upplýsingar um það á Seyðisfjarðarvefnum :(

Ætli svona sérstakir persónuleikar séu að deyja út eða koma nýir í þeirra stað með tíð og tíma?

mánudagur, febrúar 09, 2009

Sætr matr gjörir stóran munn

Í tilefni dagsins okkar( sem er 9. hvers mánaðar ) eldaði ég hvílaukslegnar svínalundir sem eru oft á boðstólum á þessum bæ. Að vanda var gerð Kárasósa( hvítlauks & steinseljuostur með rjóma ) og auk hrísgrjóna var bryddað upp í fysta skiptið gráðostafylltum bökunarkartöflum sem fullkomna þessa annars dýrindis máltíð. Þannig að eftir matinn var maginn fullur og eitt stórt ánægjubros fyllti út andlitið á meðan við skelltum öllum börnunum í bað og smöluðum þeim í háttinn =)
Þetta var einn af þessum dögum sem maður undrast að hér skuli vera 5 manna fjölskylda í 3ja herbergja íbúð. En það sleppur á meðan Dagný er enn lítil. Það var nú á dagskrá hjá okkur að stækka við okkur á þessu ári en ástandið hefur fryst allan fasteignamarkað. Skulum vona að það fari batnandi á næstu mánuðum, vonandi þurfum við ekki að bíða mörg ár þangað til að ástandið skánar. En hvernig sem það fer þá hljótum við nú fyrr eða síðar að yfirgefa þetta hreiður og finna okkur annað stærra =)

fimmtudagur, febrúar 05, 2009

Alheims-staðsetningar kerfi

Þegar ég varð þrítugur langaði Bínu að gefa mér eitthvað sem væri ekki á óskalistanum mínum sem endaði með því að hún ákvað að gefa mér GPS. Hún var meira að segja svo sniðug að láta mig um það að velja tækið, sem var hárrétt hjá henni þ.s. hún vissi að ég hefði ákveðna skoðun á því hvað ég vildi og þyrfti að skoða hvað væri í boði =)
Þannig að ég lagðist yfir úrvalið og fann eitthvað sem var nógu spennandi að ég sá fram á að geta notað að einhverju ráði.
Tækið er búið bluetooth fyrir síma sem kemur sér afskaplega vel þ.s. ég var búinn að týna hluta af handfjálsa búnaðinum mínum. Ekki er heldur verra að í græjunni er FM sendir þannig að hægt er að vera með tónlist inná henni og spila í gegnum útvarpið í bílnum. Mikill kostur að geta geymt alla barnadiskana í tækinu og stillt á þegar lengri ferðir eru teknar með krökkunum. Einnig bjó ég svo vel að geta fengið Íslandskortið hjá Gauta bróðir þ.s. hann fékk það í afmælisgjöf um daginn og var bara með annað leyfið í notkun.
Nú sest ég uppí bílinn, slæ inn hvert förinni er heitið og keyrir án þess að hafa minnstu áhyggjur af því að villast...og ef það gerist þá endurreiknar tækið nýja leið og ég held förinni áfram =)

sunnudagur, febrúar 01, 2009

Tímaleysi...

...er vandamál sem hrjáir mig stundum...eða kannski er vandamálið að mig langar/ætla að gera svo margt?
Fyrir 2 árum skrásetti ég líka færslu um týmaleysi sem á nánast alveg við í dag. Þyrfti bara að bæta við Dagnýju og breyta nokkrum staðreyndum...annars allt við það sama =)

miðvikudagur, janúar 28, 2009

Kaffi

Vinnufélagarnir eru alveg að missa geðheilsuna þessa dagana og ekki er það "ástandinu" í þjóðfélaginu að kenna. Nei, þetta er mun alvarlegra og er ekki langt í það að blóðsúthellingar byrji ef ekki verður bót á máli hið fyrsta. Allt hófst þetta fyrir um viku síðan þegar kaffivélin bilaði. Maður hefði haldið að það væri nú ekki alvarlegt en það er einmitt stóra málið að kaffilaust er hér á 2. hæðinni. Áhyggjur af kreppu og stjórnmálum hafa alveg fallið í skuggann af "kaffiástandinu" síðustu daga á meðan kaffiþyrstir hálsar hæðarinnar hafa leitað uppá 3. hæð til að svala kaffiþörfinni en hefur sú breyting bara farið verr í mannskapinn heldur en kaffileysið. Ekki veit ég hvort það er hreyfingunni að kenna við að fara upp og niður stigann 20 sinnum á dag eða hvort að þeim finnst eitthvað leiðinlegt þarna uppi. Kannski eru efsta hæðin alltaf að gera grín að þeim fyrir að þurfa að klöngrast þarna upp og að þar sé ekkert kaffi að fá. Ég verð að viðurkenna að ég hætti mér ekki að spyrja út í neitt sem viðkemur þessu málefni og reyni að leiða hjá mér fjölda harðorða tölvupósta sem ganga milli manna og æsa upp lýðinn með hverri mínútunni sem líður. Eftir fremsta megni reyni ég að forðast að sogast inní umræðuna af hættu við að hljóta áverka frá bandbrjáluðum kaffisólgnum vinnufélaga sem kæmist að þeim hryllilega sannleika að ég drykki ekki kaffi og mér væri alveg sama um "kaffiástandið" sem er að ganga frá öllum dauðum.
Ég er líka farinn að jafa áhyggjur af því að einhver góður vinnufélaginn segi starfi sínu lausu á næstunni og fari í sjálfboðavinnu sem kaffidama um hæðina að bjóða öllum kaffi daginn út og inn...

mánudagur, janúar 26, 2009

Nýtt Ísland

Ef ég væri fengi að ráða hvernig "nýtt Ísland" væri byggt upp væri aðal málið:

Íslenski fáninn blakirKosningar, stjórnmálaflokkar og alþingi
Kosið væri um einstaklinga í ráðherrastóla ríkisstjórnar samhliða kostningu um stefnu ríkisstjórnar.
Ráðherrar vinna samkvæmt kosinni stefnu og bera fulla ábyrgð á þeim málaflokki sem þeirra ráðherrastóll ræður yfir.
Stefna væri áherslur í tilteknum málefnum lagðar fram af hverjum sem er, þ.m.t. stjórnmálaflokkum. Heildarstefna er mun auðveldari í kostningu heldur en að kjósa um mörg málefni hvert fyrir sig.
Alþingi væri lagt af. Engin ástæða til að halda uppi Alþingi ríkisstjórnin ræður för og gagnrýni yrði að koma annars staðar frá en úr ræðupúlti Alþingis...heilmikill launasparnaður þarna ;)
Í framhaldi væru fjárframlög auðvitað mjög takmörkuð til stjórnmálaflokka og frambjóðenda. Það myndi auðvelda nýjum hagsmunasamtökum og einstaklingum að bjóða fram.


Síðan detta mér nú einhverjir hlutir strax í hug sem betur mættu vera á okkar litla landi:

Nýjan þjóðsöng
Ég vil geta tekið undir með þjóðsöngum...og ég vil að allir hinir geti það líka.

Ríkisútvarpið
Leggja niður afnotagjöld, innlent sjónvarpsefni, lítið um afþreyingu, endursýnt efni, fréttir...

Menntun
Menntakerfið þarfnast mikillar endurskipulagningar.
Grunnskólar verða aftur settir undir ríkið.

Laun ríkisstarfsmanna
Allir ríkisstarfsmenn hafa laun í hlutfalli við ráðherrakaup. Þannig geta ráðherrar ekki hækkað laun sín nema að hækka laun allra ríkisstarfsmanna.

Trú aðskilin ríkisrekstri
Trú( kirkja og trúfélög ) verða með öllu aðskilin ríkisrekstri. Það eina sem mun lifa er að innheimta f. trúfélög verður með sama fyrirkomulagi og er í dag sem ríkið innheimtir með sköttum. Þyrfti bara að ákveða hvernig farið yrði með eigur sem kirkjur í dag hafa afnot af.

Kvótakerfið
Kvótakerfið verður afnumið. Fiskurinn umhverfis landið er eign lands og þjóðar!

Íslensk tunga
Hvers konar færðibækur um íslensku væru settur á netið án endurgjalds fyrir notkun. Ef á annað borð á að halda í þetta eyjamál er eins gott að gefa öllum kost á því að fara rétt með það og láta málið þróast á sterkum grunni.

Skattur
Flatur ákveðinn %skattur á ALLT. Auðveldar alla útreikninga þ.s. aðeins er til einn skattaprósenta.
Efðaskattur verður felldur niður, enda hlýtur hann að fallast undir tvísköttun.

Ríkisrekin fyrirtæki
Ríkið getur, ef þurfa þykir, rekið fyrirtæki sem byggja á að halda uppi grunnþjónustu við landsmenn. S.s. ríkisbanki, ríkisverlsun.
ÁTVR verður lagt niður, áfengi verður selt í matvörubúðum. Eins gaman og mér finnst að hafa verslun sem selur bara áfengi þá er einokun bara glæpastafsemi yfirvaldsins.

Eftirlaunafrumvarið og biðlaun
Leggja af eftirlaunafrumvarpið...stjórnmálamenn eru ekki merkilegri pappír en almenningur og þeir geta sætt sig við almennan lífeyrir eins og hver annar. Biðlaun og launagreiðslur í marga mánuði eftir uppsögn framkvæmdastjóra og annara sem þykjast bera ábyrgð verða felldar niður...þeir báru ábyrgð og stóðu ekki undir henni. Engin ástæða til að borga mönnum sem vikið er úr starfi til að hægt sé að endurreisa traust eða trú.

Opinn hugbúnaður
Ríkisfyrirtæki noti einvörðungu opinn hugbúnað og sérlausnir sem búnar eru til skulu verða opnar lausnir.

Loka sendiráðum
Samskipti við aðrar þjóðir skulu byggja á heimsóknum þeirra hingað ;)

Magrir virðast hafa hug á að koma fram breytingum á þessu litla skeri og hef ég rekist á Lýðveldisbyltinguna og Nýtt lýðveldi. Ég vona svo innilega að breytingar nái í gegn, þótt þær verði jafnvel ekki jafn miklar og margir vonast eftir.

fimmtudagur, janúar 22, 2009

Ellin færist yfir

Þegar ég varð tvítugur sagði ég að nú væri hápunkti tilverunnar náð og leiðin lægi bara niðurávið. Það ferðalag er samt afskaplega skemmilegt og tíu árum síðar er ég kominn á fertugsaldurinn og búinn að segja að ég sé "gamall" í tíu ár.
Tvítugur maður er kannski ekki svo "gamall" en gleymum ekki að hann er kominn á þrítugsaldurinn og það hljómar mun verr. Á þeim tíma ákvað ég að sætta mig við, eða undirbúa mig, að líkamlegt ástand myndi aldrei verða jafn gott. Þótt ég gæti haldið mér í góðu formi væri ómögulegt að halda í líkamlegt ástand 20 ára karlmanns við hestaheilsu( enda hestar ávallt hraustir? ). Ég ákvað því líka að byrja "snemma" að segja að ég væri "gamall" til að forðast áfallið við að vera "gamall" einn daginn. Fyrst ég var búinn að flokka mig sem gamlingja þá ætti ég ekki að lenda í því að tapa æskunni einhvern stórafmælis morguninn þegar tugirnir væri orðnir yfirþyrmandi margir ;)

Fertugsaldurinn gekk í garð undir lok síðasta árs og þar í för fylgdu hin almennu einkenni: slappt bak, lúin hné, rám rödd, ónýt pissublaðra, svefnleysi með lyfjatöku og minnisleysi hvaða pillur var búið að taka þann daginn...nei, mest lítill munur frá fyrri árum. Nú hefur mér reyndar áskotnast fullt af dóti til að hjálpa mér við að eldast. Þykir mér þeirra vænst um hrærivél svo ég þarf nú ekki að hnoða pizzudeigið með höndunum og borvél svo ég noti nú örugglega ekki handafl við að skrúfa lengur. Já, það er gott að eiga tæki sem passa uppá að maður reyni ekki of mikið á sig en hvíli sig frekar og leyfi ellinni að ná völdum ;) Ég ætla nú ekki að flokka börnin undir "hluti sem hjálpa mér að eldast", ef eitthvað þá halda þau manni ungum ;)

En annars er alltaf nóg að gera og eins og ég hef víst áður sagt það er nógur tími til að vera gamall þegar ég orðinn gamall" og komin eru drög að hvernig ellismellurinn Logi verður ;)

miðvikudagur, janúar 14, 2009

Fjölskyldurúm

Sá umfjöllun um daginn að hjónarúm ættu með réttu að vera kölluð fjölskyldurúm og var að hugsa þetta aðeins:
Fyrir nokkrum árum endurnýjuðum við rúmið okkar. Fyrsta rúmið sem við versluðum var skilað fljótlega og uppfært í Tempur. Það leit vel út til að byrja með en var líka skilað vegna annmarka og þá aðallega að ég fór bara versnandi í bakinu í því með hverri nóttu þrátt fyrir að hafa kunnað mjög vel við mig í því fyrstu dagana. Við enduðum svo á "klassísku" 160cm gormarúmi sem ég held að útleggist Queen size uppá góða íslensku. Til að miðla af reynslu minni mæli ég með gormarúmi og ætla bara að tíunda eina ástæðu hér: Krakkarnir hafa afskaplega gaman að hoppa í því og annan hvern dag er öllum sængum og koddum hent frammúr og þau hoppa sig snarvitlaus þar til þau gefast upp eða einhver meiðir sig...lítið er þó um að taka til eftir sig ;)
Nánast á hverri nóttu kemur einhver uppí til okkar og þykir mér það afskaplega notalegt. Sunna gengur í svefni upp að rúminu og bíður eftir að Bína taki hana uppí...það veit enginn hversu lengi hún nennir að bíða en þó hefur komið fyrir að hún hefur fundist sofandi á gólfinu þannig að hún virðist ekki bíða endalaust eftir upplyftingu. Bjartur er þaulvanur að koma sér fyrir í rúminu án þess að ég verði þess var...en reyndar hafa þú nú alltaf sótt meira í Bínu þegar þau skríða uppí og minnist ég að hafa sé krakkahrúgu ofan á henni einhvern morguninn án þess að ég hefði orðið var við nokkuð brölt um nóttina.
Það kemur fyrir að Bjartur fær að sofna í rúminu okkar og fer ég þá yfirleitt með hann í sitt rúm þegar ég gegn til náða. Um daginn var hann einmitt sofandi á koddanum mínum og ég var eitthvað tvístígandi hvort ég ætti að færa hann. Endaði á því að ég gerði það en vaknaði svo um nóttinu og sá hann við hliðina á mér með duddu. "Hvað er hann að gera með duddu" hugsaði ég og byrjaði að draga dudduna út úr honum. Þegar duddan var komin úr kjaftinum byrjaði krakkinn að væla yfir því og horfði ég lengi á hann þangað til loksins rann upp fyrir mér að þetta var Sunna. Hún var, skiljanlega, hundfúl við duddumissinn en sofnaði um leið og duddann var kominn á sinn stað ;)
Annan morgun fyrir stuttu er ég reis upp reyndi ég að vekja Bjart, Sunnu og Bínu sem öll lágu eins og hráviði í rúminu en enginn var að nenna á fætur. Ég horfði yfir hópinn og hugsaði með mér að vonandi verður Bjartur enn kúrandi hjá okkur þegar Dagný byrjar að koma uppí til okkar...en kannski við verðum að vera komin með aðeins stærra rúm til að rúma allan hópinn, ætli næsta skref sé ekki King size ;)
Þannig að fjölskyldurúmið er rétt að nefna rúmið í dag en kannski við Bína eigum eftir að vera í hjónarúmi þegar fram sækir...ég vona a.m.k. að krakkarnir verði ekki unglingahópur sem skríður enn upp á milli mömmu og pabba ;)