miðvikudagur, janúar 20, 2010

Sjón er sögur ríkari

Fórum á Avatar í kvöld og ég hlýt að vera kominn með sjónskekkju eða eitthvað sem er þess valdandi að ég upplifði myndina bara í tvívídd.

mánudagur, janúar 18, 2010

Hann kennir selum að synda

Við feðgar förum stundum tveir í sund. Það er afskaplega notalegt að eiga svona stóran strák og honum finnst ekki leiðinlegt að fara í sund. Enda eru það bara leikferðir þar sem hoppað er á milli busllauga, heitra potta og rennibrauta en sneiðum framhjá köldum sundlaugum. Auk þess er einangrunin ekki það mikil á litla kappanum að það sé hægt að bjóða honum uppá of mikinn kulda, sérstaklega svona á miðjum "vetri". En hann er alltaf jafn ánægður með þessar ferðir, enda fær hann að gera það sem honum sýnist og pabbinn er ekkert að skipta sér of mikið af honum og tekur bara þátt í leikjunum. Þegar pabbinn vill reyndar fara uppúr kemur nú annað hljóð í kútinn en hann fær nú yfirleitt að gera nokkra hluti áður en sundlaugin er yfirgefin og þá er hann oftast orðinn hálf þreyttur og sáttur við að komast uppúr =)

miðvikudagur, janúar 13, 2010

Samr er maðr, þótt fíngrgull fjölgi

Fór með Palla í hádegistilboð á Devitos í dag. Langt svíðan við höfum lagt leið okkar þangað, en ekki annað hægt fyrst hann var á landinu og í bænum. Við stunduðum þennan stað á hverjum laugardegi í þónokkur ár. Skammturinn er sá sami og jafn góður og áður þótt hann hafi tvöfaldast í verði síðan við fyrst byrjuðum að stunda hann. Fátt betra en góður matur með góðum ;)

sunnudagur, janúar 10, 2010

Tvist í kröppum dans

Fórum með Bjart á Ólíver Tvist og höfðum mjög gaman af. Höfðum smá áhyggjur af því að þetta væri kannski of mikið fyrir litla hjartað, en hann er nú orðinn svo stór og skilur fullkomlega að leikhús er ekki raunverulegt. Hann hringdi í afa sinn strax daginn eftir og óskaði eftir að fá að skoða sviðið, alveg heillaður eftir að hafa fengið að skoða sviðið af Kardemommubænum fyrir skemmstu hjá afa sínum.
Fínast sýning og gæti vel hugsað mér að fara aftur og sjá hina yngstu leikarana en stóru barnahlutverkunum er skipt milli tveggja. Finnst mér það helsti kostur leikhússins að bjóða uppá sömu sýninguna með mismunandi leikurum. Þá er hægt að sjá sömu sýninguna tvisvar með mismunandi túlkun mismunandi leikara.

föstudagur, janúar 08, 2010

Grasið vex

Dagný orðin leikskólastelpa og gengur bara merkilega vel að komast inní leikskólalífið =) Bína er líka byrjuð að vinna og þá eru allir í fjölskyldunni, að mér undantöldum, á sama vinnustað. Ég tek nú smá þátt í starfinu þar, svona til að gefa eitthvað til baka ;)