sunnudagur, nóvember 22, 2009

Samt er gott barn við sig

Dagurinn fór í búðarráp enda er jólaundirbúningurinn að byrja. Fínt að byrja tímanlega svo að það verði ekki of mikið jólastress. Reyni að leyfa stressinu bara að ná yfir gjöfina hjá Bínu þ.s. það er oftast mesti "hausverkurinn" að finna eitthvað gott =)
Sunna var afskaplega stillt í dag sem endaði á því að ég fór með hana í sund.
Á leiðinni heim sóttum við svo Castello pizzu sem er nýlega komin í fjörðinn. Fínasta pizza og ánægjulegt að fá "alvöru" pizzustað í bæinn þó hann sé reyndar í dýrari kantinum en það er allt í lagi þ.s. ég er nú aðallega farinn að sjá um pizzugerðina alfarið sjálfur =)

laugardagur, nóvember 21, 2009

Gersimar skal geyma

Síðustu ár höfum við sjálf séð um jólamyndatökuna, en það er orðið svoldið mál að ná 3 krökkum í uppstillingu og það er nánast ógjörningur að reyna að ná okkur með. Þannig að í ár ákváðum við að fara í myndatöku og láta annan um þetta. Það er afskaplega þægilegt að láta bara stilla sér upp og skjóta af sér myndir. Svo fær maður afraksturinn bara sendan, búið að taka út draslið. Heilmikill vinnusparnaður og verður ábyggilega gert á hverju ári...þótt við munum nú jafnvel líka reyna að taka myndir sjálf þ.s. við höfum merkilega gaman af því að reyna að stilla öllum upp og frábært ef maður veit að til eru góðar myndir þannig að það þarf ekkert að koma út úr myndatökunni =)

Bjartur var afskaplega duglegur framan af myndatökunni. Þegar fór að líða á varð orðið erfitt að halda athygli og hann ekki að nenna þessu lengur. Dagný var ósofin og ekki að nenna þessu. Náðust samt alveg myndir af henni líka þótt hún hafi nú ekki verið að sýna sitt besta. Sunna var eins og engill allan tímann og ótrúlega dugleg. Fékk hún ís að launum eftir myndatökuna á meðan hinir gríslingarnir urðu að bíða út í bíl.

þriðjudagur, nóvember 17, 2009

Stór gumpr þarf víða brók

Fór með Bjart í boltaskólann í gær og Svala frænka fékk að koma með. Honum fannst nú ekki lítið leiðinlegt að hafa stóru frænku sína með. Þau voru bæði saman aftast í bílnum og mínum fannst rosa sport að gera allt sjálfur og sýna henni hvað hann væri orðinn stór. Í búningsklefanum var ég hjá honum en hann gerði allt sjálfur og var ótrúlega duglegur. Hann getur þetta alveg ef hann nennir og gleymir sér ekki í einhverjum vangaveltum um lífið og tilveruna eða hvað sem fyrir augu ber.
Í miðjum tíma laumaðist ég út og ákvað að leyfa honum að prófa að vera ekki með mig að horfa, enda var Svala að horfa á hann þannig að það var nú lítið mál. Hann skildi bara ekkert í því hvar ég hefði verið þegar ég kom loksins aftur í lok tímans.
Við sömdum svo um að hann myndi sjálfur fara inní búningsklefa og gera allt sjálfur. Ég kíkti tvisvar á hann en það endaði bara í skömmum á þá leið að ég ætti að vera frammi. Hann var síðastur út, en rosalega duglegur og tók allt sitt dót með sér og er nú bara að verða tilbúinn í 6 ára bekk þótt það sé enn langt þangað til.
Hann hefur gott að því að fá smá frið frá pressunni sem maður er alltaf að setja á hann og ekki síður hef ég gott að því að sjá hvað hann er orðinn stór og duglegur...þótt hann sé alltaf litli strákurinn minn, þá er bara gott að gefa honum frið til að stækka líka =)

mánudagur, nóvember 16, 2009

Það reynir ei á hreisti kappans, fyrrenn á hólminn er komið

Ég er víst kappinn og hólmurinn er ræktin á morgun. Hef ekki verið duglegur það sem af er vetri enda full kapp verið í bandýiðkun. En þau hlaup eru ekki gerð fyrir "gamla" menn og þarf ég að lyfta til að halda fótunum svo þeir þoli þessi átök ;) Á morgun hundskast ég aftur og ekki vegna þess að mig sérstaklega langar heldur er hægri fótur farinn að kvarta of mikið ;)

sunnudagur, nóvember 15, 2009

Ókynnis víti þig eingi maður, þó þú gángir snemma að sofa

Eftir gærdaginn var ég óskaplega svefnþurfi og lagðist fyrir hvar sem ég gat í dag. Enda er fátt betra en að sofa vel og er ég alltaf að reyna að koma mér á skikkanlegum tíma í bólið...þó það gangi nú ekki alltaf eins vel ég ætla, þá er maður alltaf að bæta sig ;)

laugardagur, nóvember 14, 2009

Ekki er gaman nema gott sé

Þessi laugardagur byrjaði snemma þegar öll fjölskyldan fór á fætur um 8 leitið og borðaði morgunmat. Mikið stóð til þ.s. það var síðasti balletttíminn hjá Sunnu og átti að fjölmenna og horfa á litlu ballerínuna. Vorum mætt með allt liðið uppúr 9 og þótt Sunna væri nú ekki til í að taka þátt í öllu þá var gaman að sjá hana, og hinar prinsessurnar, skottast um. Dagný var sérstaklega hrifin og linnti ekki látum fyrr en hún var orðinn þátttakandi í sýningunni.
Eftir það var farið með Bjart uppá heilsugæslu en hann var með sár á puttanum og fann til í tönn. Í ljós kom að þar var streptókokkasýking á ferð og fékk hann sýklalyf við því sem hann getur sjálfur skammtað sér, enda orðinn 5 ára og duglegur að gera ýmislegt.
Síðan var farið í Smáralindina í búðarferð. Eldri krakkarnir fóru í Veröldin okkar á meðan við þræddum búðir með Dagnýju sem tók smá kríu en náði ekki að festa svefn í öllum látunum. Fylltum svo magana af brauðstöngum og ís og heldum heim á leið.
Ætlaði að leggja mig fyrir kvöldið en endaði á því að fara yfir allar ljósmyndir á 5. aldursári Bjarts. Yfir 8000 myndir voru skoðaðar og um 800 komust í gegnum fyrsta niðurskurð og munu einhverjar þeirra verða í ljósmyndabókinni fyrir fimmta árið hans. Tók sú yfirferð 2 tíma og var ég nokkuð þreyttur þegar kominn var tími á kvöldmat. En það var enginn tími fyrir neina hvíld þá.
Linda og Siggi voru búin að bjóða okkur í dýrindis kvöldverð og voru allir klæddir og rölt yfir í næstu blokk. Krakkarnir léku sér langt fram á nótt á meðan fullorðna fólkið tróð sig út af nautalundum, bernes sósu, meðlæti og rauðvíni, eitthvað sem maður ætti að gera oftar ;)

mánudagur, nóvember 09, 2009

Fáir þekkja föður sinn rétt

Í tilefni feðradagsins, sem var reyndar í gær, fékk ég að fara í morgunmat með krökkunum á leikskólann. Sunna bauð mér og Bjartur bauð afa sínum. Fengum hafragraut og síðan útklippt hjörtu með kveðju til okkar. Alltaf gaman að fá að vera aðeins með þeim á þeirra heimavelli ;)

föstudagur, nóvember 06, 2009

Hinn bezti sigr er án blóðs

Það hefur heldur betur færst keppni í bandýið. Stigakerfi var tekið upp í byrjun vetrar sem heldur utan um mætingu og sigra leikmanna. Þannig að nú keppast menn við hvern annan og breytast liðin fyrir hvern tíma m.v. stigatöfluna. Mætingin hefur aldrei dottið niður fyrir lágmarkið það sem af er vetri og menn mun sveittari í ár heldur en fyrri ár. Hrikalega skemmtilegur leikur, sérstaklega með mönnum sem allir eru sammála um að spila ekki eftir neinum reglum ;)
Enn er nú verið að bæta kerfið og einnig á eftir að skipuleggja verðlaun og lokahóf, en þetta er skemmtileg viðbót við annars góða útrás og góðan félagsskap.
Tók heim nokkur stig í gær en það kostaði nú reyndar nokkur brunasár eftir góða veltu og parketbruni er ekki það besta...en ekkert blóð (að ráði) og maður gat spilað. Fann bara fyrir því í sturtunni og síðan um leið og eitthvað snerir hnén á mér...þá er ég við að gefa frá mér aumingjavæl =)

þriðjudagur, nóvember 03, 2009

Glaðr er sá, sem góða hreppir

Heimkoman dróst í dag vegna forritunarhittings í vinnunni sem heppnaðist bara ágætlega. Þegar honum lauk var klukkan farin að nálgast sjö og þegar ég fór út að ná strætó uppgötvaði ég að fjarkinn var hættur að ganga og ég því á kolvitlausum stað. Komst fljótt að hvert ég ætti að fara og endaði stuttu seinna niðrá Hlemm og tók svo ásinn alla leið í fjörðinn og steig út á Hafnarfjarðarveginum um stundarfjórðungi fyrir átta. Gekk beinustu leið heim og var orðinn frekar spenntur að hitta fjölskylduna.
Það er ekki oft sem ég kem svona seint heim og ég er alltaf farinn að sakna þeirra merkilega mikið þegar ég hef ekki hitt þau "lengi".
Þegar inn var komið fékk ég prinsessumóttökur frá dætrunum og kíkti á prinsinn sem lá í grænu baðvatni. Hann hafði fengið grænt baðsalt og var hæstánægður með litinn á vatninu og ekki minna upp með sér þegar ég spurði hvort hann væri í Hulk baði. Við tók svo leikur í smá stund þ.s. stelpurnar skottuðust í kringum mig af einskærri hamingju.
Stuttu síðar var kominn háttatími og eitt af örðu komust þau í rúmin sín og sofnuðu.
Það er alltaf jafn yndislegt að koma heim í kot og hitta konu og börn, og vera hluti af svona góðum hóp =)