mánudagur, desember 24, 2007

Jólakveðja 2007

Smá jólakveðja á netinu fyrir alla tölvunörda sem eiga leið hér um ;)

sunnudagur, desember 23, 2007

Jólin nálgast

Þrátt fyrir ýmis veikindi á heimilinu hefur jólunum ekki verið frestað. Ég hafði vonast eftir nokkrum dögum til að klára það sem þurfti en mér varð ekki af þeirri ósk minni. Þannig að í gær fór ég til læknis og fékk sýklalyf sem hafa strax tekið til við að drepa allt óæskilegt o.fl. í líkamanum. Jólin eru því komin aftur á dagskrá nema að Sunna vakni með slæma hlaupabólu á Þorláksmessu eða Aðfangadag og verði alveg ómöguleg.
Með hjálp lyfja tókst að versla seinustu gjafir í dag og er næstum allt tilbúið...aukagjafir sem má sleppa og vefjólakveðjan hefur ekki enn fengið neina athygli og verður ábyggilega reddað á morgun. Hinn árlegi DVD diskur sem ég tek yfir helstu athafnir krakkana sem safna yfir árið er að vanda á eftir áætlun. Enda er það heilmikið verk sem ég hef ekki náð að klára nema yfir hátíðarfríið..svona þegar að jólin eru loksins komin og jóla-stressið líður úr manni.

miðvikudagur, desember 19, 2007

Ammæli

Ég átti víst afmæli um daginn, en það fór nú lítið fyrir því þ.s. ég var enn fyrir austan eftir jarðarförina hans pabba og flaug ekki heim fyrr en seinnipart dags. Það var afskaplega notalegt á Seyðisfirðir, allt hvítt og stillt og sjaldan hefur ég tekið eftir jafn rólegu veðri á Fjarðarheiðinni. Dúnalogn og hvítt yfir öllu án þess þó að vera of bjart til að ég fengi ofbirtu í augun...svo mikill tölvunörd :)
Það var best að koma heim og knúsa Bínu og krakkana, þótt ég væri full seint á ferðinni og næði ekki miklum tíma með þeim áður en þau litlu fóru í rúmið.
Nú er bara að sjá hvort ég láti drauminn rætast og gef mér tíma til að koma með sóloplötu fyrir næsta afmæli. Það er draumur hvers tónlistarmanns að gefa út sóloplötu og þótt ég þykist nú ekki mikill músíkant þá hef ég gaman að því að spila á gítar á kvöldin, verst bara hvað tíminn hverfur oft þegar ég geri það. En það er nú nóg annað að gera en fyrst að hljómsveitirnar mínar eru í fríi þessa dagana þá kannski nýtir maður tímann til þess að klára þetta frá áður en ég verð formlega farinn kominn á fertugsaldurinn ;)

laugardagur, desember 08, 2007

Hinsta ferðalag pabba

Á föstudagsmorgun 30. nóvember síðastliðinn lagði „pabbi“( Emil afi ) uppí sitt síðasta ferðalag. Að þessu sinni var um enga smáferð að ræða því brottfararstaður var líkami hans á Seyðisfirði en endastöðin mér alls ókunn sem og hvernig ferðahögum var háttað.

Mér var hugsað til þerra fjölmörgu ferða pabba á síðustu árum suður og hvernig alltaf hefur hið undarlegasta veður skollið á við komu hans. Ef það var ekki snjókoma eða snjóbylur, á öllum árstímum, þá mætti sú þykkasta þoka sem ég hef nokkurn tíman augum litið á þessum landshluta og engu líkara en kallinn hefði dregið Austfjarðarþokuna með sér í höfuðborgina.

Það kom því ekki að óvart að veðrið fyrir austan var stormur & stórbylur og lágu allar samgöngur niðri á svæðinu og ekkert var flogið um allt land því pabbi var á ferðinni og ferðalagið líklega með þeim umfangsmeiri sem menn ráðast í, þótt farangurinn sé jafnvel lítill.

Ætli mér verði ekki alltaf hugsað til pabba þegar að snjór og þoka láta á sér kræla þar sem ég verð á ferð og þykir mér afskaplega vænt um að eiga áminningu um pabba til frambúðar sem skýtur upp kollinum í tíma og ótíma.

Í dag fór svo jarðarför hans fram og gekk allt vel fyrir sig, veðrið var kalt og stillt og mikil ról var yfir öllu og stutt í grín stöku sinnum sem mér þótti vænt um og pabba hefði fundist það líka. Þakka öllum sem komu að útförinni: fjölskyldu, vinum, vandamönnum og örðum sem lögðu sitt að mörkum.

Það var svo margt sem á pabba að þakka að ég mun líklega aldrei geta talið það upp án þess að týnast í gömlum minningum.

Takk fyrir allt „pabbi“.

mánudagur, nóvember 19, 2007

Morgungull gefur...

Í gærkvöld ætlaði ég mér að vakna eldsnemma á mánudagsmorgni og drífa mig í vinnuna á undan almennri umferð. Þá vissi ég ekki að dóttir mín var búin að breyta útvarpsstillingunni...þannig að kl. 6 í morgun fór langbylgjan af stað( og það er ekki ein af Bylgjustöðunum ) á tíðni 531 þ.s. heyrðist ekki einu sinni suð. Svaf ég því mínu værasta til 7 þegar að verkjaraklukkan fór í gang. Reyndar fór ég síðan ekki á fætur fyrr en kl. var orðin tíu mínútur í 8 og báðir krakkarnir vaknaðir. Mér þykir það reyndar afskaplega ljúft að vakna með fjölskyldunni og eiga smá tíma með þeim áður en mætt er til vinnu, þannig að ég þakka Sunnu bara fyrir að hafa "hjálpað" mér að sofa út ;)

þriðjudagur, nóvember 06, 2007

Paradiso

Veikindi hrjáðu krakkana í seinustu viku og þótt að Bjartur hafi verið nokkuð hress komu 2 massífar ælur frá honum. Ég tók að mér það skemmtilega verk að þrífa. Fyrri kom í holinu á miðvikudaginn og fór upp með öllu og út um allt. Daginn eftir var það eldhúsið og lág við að ég þyrfti að pússa hnífapörin í skúffunni svo víða fór gummsið. Ef eitthvað er verra heldur en að börnin manns séu veik þá er það þegar þau eru með gubbupest. "Ekkert" jafn "hressandi" og að þrífa upp ælu daga í röð. Föstudaginn var ælulaus, ég var einn heima um kvöldið og horfði á hina æðislegu Guest House Paradiso þ.s. sem skemmtilega vill til að æla kemur mikið við sögu undir lok myndarinnar ;)
Á laugardaginn virðist eitthvað hafa gefið sig eftir allt þetta ælu-áreiti og ég lagðist í magakveisu uppúr 2 um nóttina. Svaf af mér allan sunnudaginn og megnið af mánudeginum...en tókst að æla ekkert og er nú að skríða saman...á samt enn erfitt með að borða ;)

fimmtudagur, nóvember 01, 2007

Tennurnar enn í lagi

Great teethVið feðgar fórum til tannlæknis í gær. S.s. ekkert merkilegt nema hvað að ég held að ég hafi seinast farið fyrir 10 árum. Þegar ég settist í stólinn fór ég að hugsa út í hvað væri langt síðan ég síðast sat í tannlæknastól og var ekki alveg stemmdur fyrir einhverjar boranir og viðgerðir. En allt leit vel út fyrir utan að ég gnísti víst tönnum á nóttunni...þannig að ég hef sloppið fyrir horn og kannski ég láti ekki líða alveg jafn langan tíma þ.t. ég mæti næst ;)

sunnudagur, október 21, 2007

Trúlofuð

Bínaður & Logandi

Hringarnir Bínaður & Logandi rötuðu á fingur okkar 7. október.

sunnudagur, september 30, 2007

Laddi 6-tugur

Fórum í góðra vina hóp út að borða á Kringlukrána og svo á Ladda 6-tugan á eftir. Kráin kom mér að óvart því ég hélt að þetta væri algjör búlla en ekki "fínn" veitingastaður. Sýningin var skemmtileg og átti ég bágt með mig á kafla. Laddi var sérstaklega góður sem Bubbi enda hafði ég ekki séð hann í því "gervi" áður.

laugardagur, september 22, 2007

Óvissuferð Víðivalla

Komst óvænt með Bínu í óvissuferðina hjá Víðivöllum þegar að ljóst var að það var pláss og tengdó gátu passað. Farið var í rútuferð á Draugasetrið á Stokkseyri. Ég bjóst við meira af safninu, kanski var það vegna þess að við vorum í hóp og seinust, en ég hélt það væri meira "spooky" og bregð í gangi. En rútuferðin var afskaplega skemmtileg. Rútan var með klósett og skemmtileg tilviljun var að hægt var að koma höndinni inná klósettið með að teygja sig í gegnum ruslalúgu. Vakti þetta mikla kátínu og heilmikið skemmtiatriði út af fyrir sig ;)
Þegar komið var aftur fór ég heim og fékk Monsa&Ástu í mat. Reddaði svo pössun þannig að ég gat hitt fólkið aftur seinna um kvöldið í partý-i í næstu blokk. Þar var heilmikið stuð og endaði ég spilandi á gítar sem kom mér og Bínu að óvart því vanalega læt ég aðra um það...en það var bara svo mikið stuð að það var ekki hægt annað en að taka virkan þátt ;)

föstudagur, september 21, 2007

Astrópía & Colossus

Monsi kom í bæinn og við gömlu félagarnir ákvaðum að taka smá hitting. Ekki var nú hugur í mönnum að gera neitt af sér þannig að út að borða og bíó varð niðurstaðan...enda erum við orðnir hundgamlir ;)
Ekki mátti borða hvar sem var og ákveðið að fara á Ruby Tuesday. Ég var hæstánægður með að fara þangað því ég hafði hug á að prófa Colossus borgarann þeirra. Þegar kvikindið kom á borðið var ég smá stund að ákveða hvernig ég ætti að hafa mig við að koma honum ofan í mig. Stærðin passaði miðað við sjónvarpsauglýsinguna hjá þeim og var máltíðin hin mesta skemmtun fyrir bragðlaukana og magann. Að verki loknu var ég pakksaddur og sæll en ekki voru allir sáttir sem höfðu ekki pantað sér jafn vel útílátinn borgara.
Sem gamlir spilanördar fórum við á Astrópíu og urðum ekki fyrir vonbrigðum. Hin besta skemmtun, sérstaklega af íslenskri mynd að vera. Dalaði svoldið í seinnihlutanum en slapp fyrir horn. Mæli með henni, en vona samt að kaninn kaupi handritið og skellli upp aðeins "fagmannlegri" útgáfu ;)

fimmtudagur, september 20, 2007

Vekjaraklukkan

Í svefnherberginu er vekjaraklukka sem varpar klukkunni uppá vegg og vörpum við klukkunni uppí loft svo við sjáum glögglega að nóttu til hver staðan er. Ekki eru þó allir á eitt sáttir um það hvert klukkunni skal snúið. Iðulega hef ég fundið klukkuna þannig að búið er að varpa tímanum á vegginn bakvið klukkuna sem er svo nálægt að ekkert sést nema rauður punktur. Þegar ég hafði orð á því hver væri alltaf að fikta í klukkunni fékk ég þau skilaboð að Bjartur væri alltaf að fussa og sveija yfir þeim sem væri alltaf að rugla í klukkunni. Honum finnst mun flottara að sjá rauða punktinn við hliðina á klukkunni heldur en uppí loftinu þ.s. ekkert sést yfir daginn. Þegar að vekjaraklukkan datt svo úr sambandi eina nóttina reyndi ég sýna honum að klukkan ætti varpa uppá loft. Ég held að hann hafi alveg skilið það...nú er það bara Sunna sem þarf alltaf að fikta í klukkunni.

laugardagur, ágúst 25, 2007

Hljómsveitin Æði

Spilaði sem bassaleikari með Æði-inu í Salthúsinu á Grindavík. Magnað að stíga á svið með bandi sem ég hef aldrei spilað með áður og taka heilt ball. Gekk bara nokkuð vel en þó hafði ég pikkað upp rangt lag þegar við réðumst á "It's my life", ég byrjaði á "No Doubt" útgáfunni sem samin var af "Talk Talk" en restin af bandinu tók "Jon Bon Jovi" lagið...þannig að ég var svoldið týndur í því lagi ;)

laugardagur, ágúst 18, 2007

Brúðkaup 2007

Linda & Siggi gengu í það heilaga á Eskifirði. Við skelltum ormunum í pössun og mættum svo barnlaus en vel byrgð af áfengi á Mjóeyrina á Eskifirði. Föstudagskvöldið fékk athygli ýmissa áfengra drykkja og var setið yfir varðeldi langt fram á nótt. Þegar við skriðum í bólið voru við ásamt Begs&Nonna komin í grunnskólafíling í skólaferðalagi. Á endanum lognuðust þó allir útaf.
Laugardagurinn varð sumum erfiður og tók sinn tím að komast í gang. Mér tókst að koma mér út fyrir hádgi og kíkja á kraftatröll sem voru að keppja í álkasti á eyrinni. Eitt þeirra gekk uppað mér, benti á hvað aðstoðarmaður var að berjast við að nudda bakið á einutröllinu og sagði þrymjandi röddu „Þarna er hægt að fá nudd“ og hló dymjandi röddu. Ég píndi uppúr mér einhverskonar smátittlingahlátur til að styggja ekki dýrið enda hefði það auðveldlega getað pakkað mér samn og fleygt mér út í sjó. Það fór svo bara sína leið og ég hélt mig í hæfilegri fjarlæð á meðan keppninni stóð svo ég fengi ekki álið í hausinn sem þeir fleygðu lengra með hverju kantinu.
Brúðkaupið & veislan gengu svo í garð með tjútti fram eftir nóttu og eru má sjá nokkrar myndir frá helginni.

laugardagur, júlí 28, 2007

Steggjun 2007

Siggi spæder steggjaður í dag. Okkur tókst að finna ýmsar þrautir sem voru ekki efstar á óskalista hjá kappanum en hann stóð sig nokkuð vel. Ágrip á herlegheitunum má sjá hér.

miðvikudagur, júlí 18, 2007

Gautaborg 2007


Fjölskyldan vaknaði um miðja nótt við misjafnar undirtektir barnanna. Sunna var kát að vanda en Bjartur vildi bara halda áfram að sofa og geri það svo lengi sem hann gat áður en haldið var út á flugvöll. Mættum rétt fyrir flug og enduðum á því að hlaupa inní vél til að missa ekki af henni. Þriggja tíma flugið út tók fljótt af og auðveldaði mikið að fámennt var í vélinni og gátum við dreift úr okkur eins og við vildum.
Á flugvellinum í Gautaborg fórum við beinustu leið og sóttum bílaleigubílinn og lögðum af stað eftir að hafa lært á bílstólinn hans Bjarts, sem tók okkur reyndar góðan tíma. Við vorum vel búin leiðbeiningum um hvernig ætti að komast á leiðarenda til Palla&Erlu en tókst þrátt fyrir það að villast af leið. En við höfðum fengið fínar leiðbeiningar sem að redduðu okkur fljótt og örugglega til þeirra á endanum. Milt og gott veður passaði ákaflega vel til að sjá borgina í fyrsta sinn, þó að hún minnti mig nú meira á sveit heldur en borg þar sem við fórum um í fyrsta sinn.
Hverfið sem þau búa í kom afskaplega vel fyrir. Bílastæðið fyrir ofan og síðan er gengið inní íbúðarhverfið fyllt af endalausum raðhúsaröðum, trjám, runnum, barnaleikvöllum og Sænska fánann má sjá á öðru hverju húsi. Húsið þeirra var mjög huggulegt og gaman að sjá hvað þau voru búin að koma sér vel fyrir á þessum fáum mánuðum.
Bjartur og Óðinn Bragi duttu strax í leik og vissum við varla af þeim það sem eftir var ferðarinnar ;)


Þriðjudagurinn 10. júlí 2007


Sólin kíkti gegnum skýin og við fórum niðrí miðborg Gautaborgar. Við fylgdum P&E eftir niðri bæ og undruðumst hversu kunnug þau virtust vera orðin götuskipulaginu sem var okkur óskiljanlegt að öllu leiti. Tókum heljarinnar göngu um miðbæinn og kíktum í búðir sem urðu á leið okkar.
Tímatal í Svíþjóð virðist miðað út frá vikum frekar en dögum, og hefðum við því sagt að við værum í fríi í Svíþjóð í 28. viku.

Miðvikudagurinn 11. júlí 2007


Hellirigning tók á móti okkur um morguninn og var ákveðið að fara í Universeum vísindasafnið. Brunað niðri miðbæ og drifum okkur inn á safnið úr dembunni. Margt fróðlegt að sjá í safninu og strákarnir höfðu gaman að dýrunum og leiktækjum. Á leiðinni heim ákváðum við að troða í okkur pizzum á La Gondola veitingastaðinn vegna rigningar. Södd og sæl heldum við svo heimferðinni áfram á bílstæðið og svo beint heim að skella krökkunum í bólið.

Fimmtudagurinn 12. júlí 2007


Léttir skúrir voru ekkert að stoppa okkur í að komast í Lieseberg. Rigningin lét sjá sig fyrri hluta dags en þegar við vorum búin að gúffa í okkur hamborgurum undir berum himni, og smá dembu, lét hún sig hverfa. Bjartur var alveg í essinu sínu í öllum tækjunum og virtist ekki fá nóg og vildi bara meira og meira. Alveg á því að hann vildi mæta aftur í garðinn til að fara í stóru klessubílana þegar hann yrði orðinn stærri.

Föstudagurinn 13. júlí 2007


Dagurinn fór að mest í verslunarleiðangur þ.s. við reynum að fata fjölskylduna upp. Um kvöldið voru svo þrjár tegundir af grísalundum grillaðar og drukkið og kjaftað fram eftir kvöldi/nóttu eins og komið var í vana :)

Laugardagurinn 14. júlí 2007


Dagurinn var tekinn rólega og hangið heima fyrir. Slegið var upp pizzuveislu um kvöldið svona þ.s. P&E eru komin með pizzaofn sem varð nú að sýna hvað gæti. Eftir að allir voru útétnir og börnin sofnuð hlömmuðum við okkur fyrir framan sjónvarpið. Fyrst var gamall Rambó í sænska ríkissjónvarpinu og síðan var horft á nýjasta Bondinn...báðir stóðu þeir undir sýnu, enda berir að ofan nánast allan tímann.

Sunnudagurinn 15. júlí 2007


Gengið um Slottskogen

Fórum í Slotteskogen í sól og góðu veðri. Skógurinn er yndislegt útivistarsvæði. Þar er húsdýragarður sem strákarnir hlupu á eftir svínum. Á veitingahúsinu sem við fórum á var Salsa hljómsveit sem Bjartur var heillaður af að hann réð ekki við að dilla sér og vildi fara í dansskóla þegar hann kæmi heim. Gengum garðinn fram og aftur og strákarnir léku sér mikið á stóru leiksvæði. Um kvöldið var svo kjúlla skellt á grillið en endaði reyndar í ofninum þ.s. gasið var búið og það að finna fyllingu á gaskút var ekkert grín.

Mánudagurinn 16. júlí 2007


Við Sisjön vatn
Steikjandi sól og hiti er besta lýsing á deginum. Við fórum að Sisjön vatni sem er við hliðina á hverfinu þeirra og gengið nánast beint inní skóginn heiman frá P&E. Við vatnið var mikið stuð að sulla og hlaupa um á bryggjunni. Strákarnir gleymdu sér í leik og aðrir reyndu að sleikja sólina. Þegar komið var að heimferð voru allir búnir á því eftir veðurblíðuna.


Þriðjudagurinn 17. júlí 2007


Við tókum smá verslunarleiðangur til að byrgja okkur betur upp áður en við færum. Allir voru hálf búnir á því eftir góðviðri gærdagsins og því var dagurinn tekinn með mikilli róg enda voru stelpurnar hálf slappar.

Miðvikudagurinn 28. júlí 2007


Við kvöddum fjölskylduna að Sisjövägen 491 með virtum í ágætis veðri. Dvölin var ákaflega ljúf og góð og vonandi að við gerum þetta aftur innan skamms ;)

Myndir úr ferðinni

þriðjudagur, maí 15, 2007

Abbababb

Kominn í fæðingarorlof og hef einnig nýtt það í að mála íbúðina, svona þar sem Sunna er svo stillt ;) En annars rosalega gott að fá tíma til að vera heima og kynnast Sunnu aðeins meira en nokkra tíma í viku, ætla að vona að þeir lengi fæðingarorlofið í 1 ár fyrir verðandi foreldra. En þar sem seinasta færsla hérna var um leikrit ætla ég að hafa þessa líka þannig. Við fórum með Bjart að sjá Abbababb seinustu helgi ásamt Bödda&Bekku. Bjartur settist fremst á dýnur sem voru á gólfinu fyrir framan sviðið. Sýningin hófst og hann sat og hreyfði sig varla allan tímann. Sýningin var fínasta barnaskemmtun og hafði ég einnig gaman af þ.s. ég þekki lögin vel. Verst fannst mér þó að Sigurjón Kjartans var vant við látinn og því var Felix Bergsson í hlutverki Hr. Rokk, en ég hefði frekar viljað sjá Sigurjón þ.s. ég hef lúmskt gaman af honum. Þegar að komið var að hléi voru "stóru strákarnir" búnir að ræna Aroni Neista og Bjartur sat enn í sömu stöðu og þegar að leikritið hófst. Hann leyfði sér loksins að standa upp og var ekki lengi að finna ömmu&afa sem sátu rétt hjá dýnunum. Þá var minn orðinn afskaplega lítill og þráði ekkert heitar en að fara beinustu leið heim og líklega höfðu stóru diskó strákarnir verið aðeins of mikið fyrir hans litla hjarta. Við feðgar fórum að skoða trommusettið og ég útskýrði fyrir honum að þetta væri ekki í alvöru, heldur meira eins og að þau væru að segja okkur sögu. Á endanum róaðist litla hetjan og samþykkti að klára sýninguna, en þó bara með því skilyrði að fá að sitja hjá mömmu( enda var mæðradagurinn og vaknaði Bjartur með mikla mömmu-sýki ). Sýningin hélt áfram og allt fór vel að lokum, Aroni Neista var bjargað og allir krakkarnir í salnum( Bjartur meðtalinn ) hjálpuðu til við að blása á eldinn í skólanum svo hann slokknaði. Þegar við komum heim hafði Sunna tekið smá frekjukast á Balla&Valgeir og varð yfir sig ánægð þegar að mamma mætti á svæðið( enda mæðradagurinn ;)

miðvikudagur, mars 21, 2007

Pabbinn

Um daginn skruppum við í leikhús með Palla&Erlu. Tengdó passaði og við byrjuðum kvöldið á Vegaótum þ.s. ég hélt í vanann og fékk mér steikarsamloku. Við komum okkur svo niðrá Iðnó í rigningarveðri og fengum sæti aftast í salnum. Þegar að sýningin hófst var fljótlega ljóst að það myndu dropar falla í salnum og ekki leið á löngu þangað til ég var farinn að gráta af hlátri. Á tímabili þurfti ég að hætta að hlusta og einbeita mér að því að ná andanum. Í hláturssköllunum tókst mér að missa gleraugun í gólfið og tókst með erfiðismunum að ná þeim upp af gólfinu milli þess að hlæja, gráta og taka andköf. Seinni hluti var sem betur fer ekki jafn fyndinn því þá hefði ekki komist heill út af sýningunni. Mæli með þessu leikriti og sérstaklega fyrir unga foreldra sem eiga auðvelt að samsvara sér í foreldrahlutverkinu.

fimmtudagur, janúar 25, 2007

Tímaleysi?

Síðan að Sunna bættist í fjölskylduna hefur lítið fréttnæmt náð hér inn. Fréttaleysi er ekki þar um að kenna heldur frekar að nóg sé að gera. Þegar við vorum bara með Bjart var endalaus tími til að dást að honum og allaf gat annað okkar gert eitthvað annað. Nú er hins vegar alltaf nóg að gera fyrir okkur bæði og ekki hef ég hugmynd um hvað við gerðum áður en við eignuðumst Bjart.
Auk þess að verja tíma með fjölskyldunni og stunda fulla vinnu hef ég dottið í það að sinna tónlistaráhugamálinu með Kóngulóarbandinu sem vatt reyndar aðeins uppá sig á seinasta ári og varð til rokksveitin Disless og er stefnan að taka upp efni með báðum sveitum ár árinu. Síðan ætluðum við Hugi okkur að skella saman uppskriftavef og gæti orðið mjög skemmilegt... þegar ég "finn" tíma til að komast af stað þar :)
Seinustu tvö jól hef ég tekið saman myndbandsklippur ársins og unnið heima-DVD af Bjarti. Nú er ég kominn aðeins á eftir með það en tókst samt að taka saman og panta ljósmyndabók( frá MyPublisher ) frá fyrsta árinu hans Bjarts. Hún kom rosalega vel út og munu fleiri verða pantaðar, enda er langt síðan ég hætti að framkalla myndir og setja í myndaalbúm( nú er bara allt í tölvunni ).
Óli&Sigrún sendu okkur áramótaannál sem ég hafði mjög gaman af og ef tími gefst þá náum við Bína vonandi að taka seinasta ár út og koma því í vana því mér finnst það vera mjög skemmtilegt að geta rennt fljótlega yfir hvað maður gerði af sér á liðnu ári....nú er bara að skipuleggja tímann vel =)