miðvikudagur, janúar 28, 2009

Kaffi

Vinnufélagarnir eru alveg að missa geðheilsuna þessa dagana og ekki er það "ástandinu" í þjóðfélaginu að kenna. Nei, þetta er mun alvarlegra og er ekki langt í það að blóðsúthellingar byrji ef ekki verður bót á máli hið fyrsta. Allt hófst þetta fyrir um viku síðan þegar kaffivélin bilaði. Maður hefði haldið að það væri nú ekki alvarlegt en það er einmitt stóra málið að kaffilaust er hér á 2. hæðinni. Áhyggjur af kreppu og stjórnmálum hafa alveg fallið í skuggann af "kaffiástandinu" síðustu daga á meðan kaffiþyrstir hálsar hæðarinnar hafa leitað uppá 3. hæð til að svala kaffiþörfinni en hefur sú breyting bara farið verr í mannskapinn heldur en kaffileysið. Ekki veit ég hvort það er hreyfingunni að kenna við að fara upp og niður stigann 20 sinnum á dag eða hvort að þeim finnst eitthvað leiðinlegt þarna uppi. Kannski eru efsta hæðin alltaf að gera grín að þeim fyrir að þurfa að klöngrast þarna upp og að þar sé ekkert kaffi að fá. Ég verð að viðurkenna að ég hætti mér ekki að spyrja út í neitt sem viðkemur þessu málefni og reyni að leiða hjá mér fjölda harðorða tölvupósta sem ganga milli manna og æsa upp lýðinn með hverri mínútunni sem líður. Eftir fremsta megni reyni ég að forðast að sogast inní umræðuna af hættu við að hljóta áverka frá bandbrjáluðum kaffisólgnum vinnufélaga sem kæmist að þeim hryllilega sannleika að ég drykki ekki kaffi og mér væri alveg sama um "kaffiástandið" sem er að ganga frá öllum dauðum.
Ég er líka farinn að jafa áhyggjur af því að einhver góður vinnufélaginn segi starfi sínu lausu á næstunni og fari í sjálfboðavinnu sem kaffidama um hæðina að bjóða öllum kaffi daginn út og inn...

mánudagur, janúar 26, 2009

Nýtt Ísland

Ef ég væri fengi að ráða hvernig "nýtt Ísland" væri byggt upp væri aðal málið:

Íslenski fáninn blakirKosningar, stjórnmálaflokkar og alþingi
Kosið væri um einstaklinga í ráðherrastóla ríkisstjórnar samhliða kostningu um stefnu ríkisstjórnar.
Ráðherrar vinna samkvæmt kosinni stefnu og bera fulla ábyrgð á þeim málaflokki sem þeirra ráðherrastóll ræður yfir.
Stefna væri áherslur í tilteknum málefnum lagðar fram af hverjum sem er, þ.m.t. stjórnmálaflokkum. Heildarstefna er mun auðveldari í kostningu heldur en að kjósa um mörg málefni hvert fyrir sig.
Alþingi væri lagt af. Engin ástæða til að halda uppi Alþingi ríkisstjórnin ræður för og gagnrýni yrði að koma annars staðar frá en úr ræðupúlti Alþingis...heilmikill launasparnaður þarna ;)
Í framhaldi væru fjárframlög auðvitað mjög takmörkuð til stjórnmálaflokka og frambjóðenda. Það myndi auðvelda nýjum hagsmunasamtökum og einstaklingum að bjóða fram.


Síðan detta mér nú einhverjir hlutir strax í hug sem betur mættu vera á okkar litla landi:

Nýjan þjóðsöng
Ég vil geta tekið undir með þjóðsöngum...og ég vil að allir hinir geti það líka.

Ríkisútvarpið
Leggja niður afnotagjöld, innlent sjónvarpsefni, lítið um afþreyingu, endursýnt efni, fréttir...

Menntun
Menntakerfið þarfnast mikillar endurskipulagningar.
Grunnskólar verða aftur settir undir ríkið.

Laun ríkisstarfsmanna
Allir ríkisstarfsmenn hafa laun í hlutfalli við ráðherrakaup. Þannig geta ráðherrar ekki hækkað laun sín nema að hækka laun allra ríkisstarfsmanna.

Trú aðskilin ríkisrekstri
Trú( kirkja og trúfélög ) verða með öllu aðskilin ríkisrekstri. Það eina sem mun lifa er að innheimta f. trúfélög verður með sama fyrirkomulagi og er í dag sem ríkið innheimtir með sköttum. Þyrfti bara að ákveða hvernig farið yrði með eigur sem kirkjur í dag hafa afnot af.

Kvótakerfið
Kvótakerfið verður afnumið. Fiskurinn umhverfis landið er eign lands og þjóðar!

Íslensk tunga
Hvers konar færðibækur um íslensku væru settur á netið án endurgjalds fyrir notkun. Ef á annað borð á að halda í þetta eyjamál er eins gott að gefa öllum kost á því að fara rétt með það og láta málið þróast á sterkum grunni.

Skattur
Flatur ákveðinn %skattur á ALLT. Auðveldar alla útreikninga þ.s. aðeins er til einn skattaprósenta.
Efðaskattur verður felldur niður, enda hlýtur hann að fallast undir tvísköttun.

Ríkisrekin fyrirtæki
Ríkið getur, ef þurfa þykir, rekið fyrirtæki sem byggja á að halda uppi grunnþjónustu við landsmenn. S.s. ríkisbanki, ríkisverlsun.
ÁTVR verður lagt niður, áfengi verður selt í matvörubúðum. Eins gaman og mér finnst að hafa verslun sem selur bara áfengi þá er einokun bara glæpastafsemi yfirvaldsins.

Eftirlaunafrumvarið og biðlaun
Leggja af eftirlaunafrumvarpið...stjórnmálamenn eru ekki merkilegri pappír en almenningur og þeir geta sætt sig við almennan lífeyrir eins og hver annar. Biðlaun og launagreiðslur í marga mánuði eftir uppsögn framkvæmdastjóra og annara sem þykjast bera ábyrgð verða felldar niður...þeir báru ábyrgð og stóðu ekki undir henni. Engin ástæða til að borga mönnum sem vikið er úr starfi til að hægt sé að endurreisa traust eða trú.

Opinn hugbúnaður
Ríkisfyrirtæki noti einvörðungu opinn hugbúnað og sérlausnir sem búnar eru til skulu verða opnar lausnir.

Loka sendiráðum
Samskipti við aðrar þjóðir skulu byggja á heimsóknum þeirra hingað ;)

Magrir virðast hafa hug á að koma fram breytingum á þessu litla skeri og hef ég rekist á Lýðveldisbyltinguna og Nýtt lýðveldi. Ég vona svo innilega að breytingar nái í gegn, þótt þær verði jafnvel ekki jafn miklar og margir vonast eftir.

fimmtudagur, janúar 22, 2009

Ellin færist yfir

Þegar ég varð tvítugur sagði ég að nú væri hápunkti tilverunnar náð og leiðin lægi bara niðurávið. Það ferðalag er samt afskaplega skemmilegt og tíu árum síðar er ég kominn á fertugsaldurinn og búinn að segja að ég sé "gamall" í tíu ár.
Tvítugur maður er kannski ekki svo "gamall" en gleymum ekki að hann er kominn á þrítugsaldurinn og það hljómar mun verr. Á þeim tíma ákvað ég að sætta mig við, eða undirbúa mig, að líkamlegt ástand myndi aldrei verða jafn gott. Þótt ég gæti haldið mér í góðu formi væri ómögulegt að halda í líkamlegt ástand 20 ára karlmanns við hestaheilsu( enda hestar ávallt hraustir? ). Ég ákvað því líka að byrja "snemma" að segja að ég væri "gamall" til að forðast áfallið við að vera "gamall" einn daginn. Fyrst ég var búinn að flokka mig sem gamlingja þá ætti ég ekki að lenda í því að tapa æskunni einhvern stórafmælis morguninn þegar tugirnir væri orðnir yfirþyrmandi margir ;)

Fertugsaldurinn gekk í garð undir lok síðasta árs og þar í för fylgdu hin almennu einkenni: slappt bak, lúin hné, rám rödd, ónýt pissublaðra, svefnleysi með lyfjatöku og minnisleysi hvaða pillur var búið að taka þann daginn...nei, mest lítill munur frá fyrri árum. Nú hefur mér reyndar áskotnast fullt af dóti til að hjálpa mér við að eldast. Þykir mér þeirra vænst um hrærivél svo ég þarf nú ekki að hnoða pizzudeigið með höndunum og borvél svo ég noti nú örugglega ekki handafl við að skrúfa lengur. Já, það er gott að eiga tæki sem passa uppá að maður reyni ekki of mikið á sig en hvíli sig frekar og leyfi ellinni að ná völdum ;) Ég ætla nú ekki að flokka börnin undir "hluti sem hjálpa mér að eldast", ef eitthvað þá halda þau manni ungum ;)

En annars er alltaf nóg að gera og eins og ég hef víst áður sagt það er nógur tími til að vera gamall þegar ég orðinn gamall" og komin eru drög að hvernig ellismellurinn Logi verður ;)

miðvikudagur, janúar 14, 2009

Fjölskyldurúm

Sá umfjöllun um daginn að hjónarúm ættu með réttu að vera kölluð fjölskyldurúm og var að hugsa þetta aðeins:
Fyrir nokkrum árum endurnýjuðum við rúmið okkar. Fyrsta rúmið sem við versluðum var skilað fljótlega og uppfært í Tempur. Það leit vel út til að byrja með en var líka skilað vegna annmarka og þá aðallega að ég fór bara versnandi í bakinu í því með hverri nóttu þrátt fyrir að hafa kunnað mjög vel við mig í því fyrstu dagana. Við enduðum svo á "klassísku" 160cm gormarúmi sem ég held að útleggist Queen size uppá góða íslensku. Til að miðla af reynslu minni mæli ég með gormarúmi og ætla bara að tíunda eina ástæðu hér: Krakkarnir hafa afskaplega gaman að hoppa í því og annan hvern dag er öllum sængum og koddum hent frammúr og þau hoppa sig snarvitlaus þar til þau gefast upp eða einhver meiðir sig...lítið er þó um að taka til eftir sig ;)
Nánast á hverri nóttu kemur einhver uppí til okkar og þykir mér það afskaplega notalegt. Sunna gengur í svefni upp að rúminu og bíður eftir að Bína taki hana uppí...það veit enginn hversu lengi hún nennir að bíða en þó hefur komið fyrir að hún hefur fundist sofandi á gólfinu þannig að hún virðist ekki bíða endalaust eftir upplyftingu. Bjartur er þaulvanur að koma sér fyrir í rúminu án þess að ég verði þess var...en reyndar hafa þú nú alltaf sótt meira í Bínu þegar þau skríða uppí og minnist ég að hafa sé krakkahrúgu ofan á henni einhvern morguninn án þess að ég hefði orðið var við nokkuð brölt um nóttina.
Það kemur fyrir að Bjartur fær að sofna í rúminu okkar og fer ég þá yfirleitt með hann í sitt rúm þegar ég gegn til náða. Um daginn var hann einmitt sofandi á koddanum mínum og ég var eitthvað tvístígandi hvort ég ætti að færa hann. Endaði á því að ég gerði það en vaknaði svo um nóttinu og sá hann við hliðina á mér með duddu. "Hvað er hann að gera með duddu" hugsaði ég og byrjaði að draga dudduna út úr honum. Þegar duddan var komin úr kjaftinum byrjaði krakkinn að væla yfir því og horfði ég lengi á hann þangað til loksins rann upp fyrir mér að þetta var Sunna. Hún var, skiljanlega, hundfúl við duddumissinn en sofnaði um leið og duddann var kominn á sinn stað ;)
Annan morgun fyrir stuttu er ég reis upp reyndi ég að vekja Bjart, Sunnu og Bínu sem öll lágu eins og hráviði í rúminu en enginn var að nenna á fætur. Ég horfði yfir hópinn og hugsaði með mér að vonandi verður Bjartur enn kúrandi hjá okkur þegar Dagný byrjar að koma uppí til okkar...en kannski við verðum að vera komin með aðeins stærra rúm til að rúma allan hópinn, ætli næsta skref sé ekki King size ;)
Þannig að fjölskyldurúmið er rétt að nefna rúmið í dag en kannski við Bína eigum eftir að vera í hjónarúmi þegar fram sækir...ég vona a.m.k. að krakkarnir verði ekki unglingahópur sem skríður enn upp á milli mömmu og pabba ;)