miðvikudagur, janúar 28, 2009

Kaffi

Vinnufélagarnir eru alveg að missa geðheilsuna þessa dagana og ekki er það "ástandinu" í þjóðfélaginu að kenna. Nei, þetta er mun alvarlegra og er ekki langt í það að blóðsúthellingar byrji ef ekki verður bót á máli hið fyrsta. Allt hófst þetta fyrir um viku síðan þegar kaffivélin bilaði. Maður hefði haldið að það væri nú ekki alvarlegt en það er einmitt stóra málið að kaffilaust er hér á 2. hæðinni. Áhyggjur af kreppu og stjórnmálum hafa alveg fallið í skuggann af "kaffiástandinu" síðustu daga á meðan kaffiþyrstir hálsar hæðarinnar hafa leitað uppá 3. hæð til að svala kaffiþörfinni en hefur sú breyting bara farið verr í mannskapinn heldur en kaffileysið. Ekki veit ég hvort það er hreyfingunni að kenna við að fara upp og niður stigann 20 sinnum á dag eða hvort að þeim finnst eitthvað leiðinlegt þarna uppi. Kannski eru efsta hæðin alltaf að gera grín að þeim fyrir að þurfa að klöngrast þarna upp og að þar sé ekkert kaffi að fá. Ég verð að viðurkenna að ég hætti mér ekki að spyrja út í neitt sem viðkemur þessu málefni og reyni að leiða hjá mér fjölda harðorða tölvupósta sem ganga milli manna og æsa upp lýðinn með hverri mínútunni sem líður. Eftir fremsta megni reyni ég að forðast að sogast inní umræðuna af hættu við að hljóta áverka frá bandbrjáluðum kaffisólgnum vinnufélaga sem kæmist að þeim hryllilega sannleika að ég drykki ekki kaffi og mér væri alveg sama um "kaffiástandið" sem er að ganga frá öllum dauðum.
Ég er líka farinn að jafa áhyggjur af því að einhver góður vinnufélaginn segi starfi sínu lausu á næstunni og fari í sjálfboðavinnu sem kaffidama um hæðina að bjóða öllum kaffi daginn út og inn...

Engin ummæli: