fimmtudagur, janúar 22, 2009

Ellin færist yfir

Þegar ég varð tvítugur sagði ég að nú væri hápunkti tilverunnar náð og leiðin lægi bara niðurávið. Það ferðalag er samt afskaplega skemmilegt og tíu árum síðar er ég kominn á fertugsaldurinn og búinn að segja að ég sé "gamall" í tíu ár.
Tvítugur maður er kannski ekki svo "gamall" en gleymum ekki að hann er kominn á þrítugsaldurinn og það hljómar mun verr. Á þeim tíma ákvað ég að sætta mig við, eða undirbúa mig, að líkamlegt ástand myndi aldrei verða jafn gott. Þótt ég gæti haldið mér í góðu formi væri ómögulegt að halda í líkamlegt ástand 20 ára karlmanns við hestaheilsu( enda hestar ávallt hraustir? ). Ég ákvað því líka að byrja "snemma" að segja að ég væri "gamall" til að forðast áfallið við að vera "gamall" einn daginn. Fyrst ég var búinn að flokka mig sem gamlingja þá ætti ég ekki að lenda í því að tapa æskunni einhvern stórafmælis morguninn þegar tugirnir væri orðnir yfirþyrmandi margir ;)

Fertugsaldurinn gekk í garð undir lok síðasta árs og þar í för fylgdu hin almennu einkenni: slappt bak, lúin hné, rám rödd, ónýt pissublaðra, svefnleysi með lyfjatöku og minnisleysi hvaða pillur var búið að taka þann daginn...nei, mest lítill munur frá fyrri árum. Nú hefur mér reyndar áskotnast fullt af dóti til að hjálpa mér við að eldast. Þykir mér þeirra vænst um hrærivél svo ég þarf nú ekki að hnoða pizzudeigið með höndunum og borvél svo ég noti nú örugglega ekki handafl við að skrúfa lengur. Já, það er gott að eiga tæki sem passa uppá að maður reyni ekki of mikið á sig en hvíli sig frekar og leyfi ellinni að ná völdum ;) Ég ætla nú ekki að flokka börnin undir "hluti sem hjálpa mér að eldast", ef eitthvað þá halda þau manni ungum ;)

En annars er alltaf nóg að gera og eins og ég hef víst áður sagt það er nógur tími til að vera gamall þegar ég orðinn gamall" og komin eru drög að hvernig ellismellurinn Logi verður ;)

Engin ummæli: