mánudagur, desember 31, 2012

Annáll 2012


Árið átti að nýta til að pússa okkur saman. Þetta hefur verið erfið fæðing en þegar Bína stakk uppá að ná okkur í hlaupársdaginn á árinu og halda uppá það á 4 ára fresti var ég strax hrifinn af þeirri hugmynd. Þannig að við stungum af í brauðkaupsferð til Kaupmannahafnar án þess að nokkur vissi af.
Síðan tókst okkur að halda giftingarpartý undir lok árs til að fagna þessu með vinum & vandamönnum =)
Ekki seinna vænna að koma þessu frá nú er bara að sjá hvað næstu 10 ár bera í skauti sér.

Bjartur byrjaði árið í karate sem hann gafst nú uppá áður en að kom að annari gráðun. Orðinn 8 ára og veit fátt skemmtilegra heldur en að fá að leika sér í tölvu og safna síðu hári ;)

Sunna 6 ára kláraði leikskólann og átti eftirminnilegum leik sem Þyrniblóm. Síðan byrjaði hún í grunnskóla og ekki slæmt að eiga stóran bróður til að fara samferða í skólann.

Dagný er alltaf saman skemmtunin og aldrei lognmolla yfir lífinu í kringum hana. Þegar maður er orðin 4 ára er maður yfirleitt með svörin við öllu. Hún er dugleg að æfa sig í 2ja ára gutti sem er algjör bílakall, einstaklega uppátækjasamur og vill alltaf ráða…enda ekki annað hægt með 3 eldri systkin.

Sumarið var hefðbundið þar sem við skelltum okkur austur…en kannski óhefðbundið var að það var þokkalegt veður fyrir austan. Reyndar var leiðindaveður þegar Lunga var en fyrir og eftir vorum við í góðu veðri sem hefur ekki gerst í mörg ár.

Annars er alltaf mikið að gera á stóru heimili með mikið að ungum börnum. Nú eru búin að vera bleyjubörn á þessu heimili í 8 ár og við sjáum framá að verða jafnvel bleyjulaust heimili á komandi ári =)

Ég skipti óvænt um vinnu á árinu. Átti mjög góðan tíma hjá Landsbankanum og fannst ég stoppa allt of stutt þar. En Hugsmiðjan tók vel á móti mér og mér líst rosalega vel á nýju fjölskylduna mína á Snorrabraut 56.

Jólin komu allt of fljótt eins og alltaf og veikindi hafa aðeins verið að flækjast fyrir okkur yfir hátíðirnar. En Bína er alltaf jafn góð að hugsa um mig og fjölskylduna og var þetta góður tími eins og alltaf. Enduðum svo árið hjá Möllu&Þresti & co. þar sem var slegið upp dýrindis veislu og árið kvatt með dansi & söng.

miðvikudagur, desember 19, 2012

Sindri 2ja ára


Litli herramaðurinn orðinn 2ja ára. Það er eitthvað svo stutt síðan hann kom og hefur bara lífgað uppá þennan hóp.

sunnudagur, desember 02, 2012

Brúðkaupspartý


Eftir að við giftum okkur á laun fyrr í ár þá áttum við alltaf eftir að halda smá partý til að fagna þessu almennilega með vinum & vandamönnum.
Það tókst að skella í partý 27. október og má finna ýmsilegt því tengt á brúðkaupspartýsíðunni sem að við notuðum til sem bjoða & safna saman skráningum. Nú má þar finna myndir úr partýinu og einnig loforðin sem okkur voru gefin í góðum leik í veislunni ;)
Þetta var frábært kvöld og æðislegt að eiga það með góðu fólki, takk allir sem mættu og þið öll hin líka sem komust ekki eða var ekki boðið =)

Jóladagatal Krílanna 2012


Desember er genginn í garð. Það var ýmislegt sem átti að vera búið að gera áður en hann kæmi...en enginn skaði þó það ég hafi ekki verið tilbúinn með allt. Bína er í það minnsta með þetta allt undir "control" =)
Ég er kominn með mitt dagatal og fjölskyldudagatalið var það fyrsta sem var gert í byrjun mánaðar eins og hún hefur passað að hafi verið komið upp síðustu tvö ár jafnframt því að setja saman dagatal fyrir mig.
Ég tók nú lítinn þátt í þessari snilld en hafði ofan af fyrir Sindra sem veit ekkert skemmtilegra en að rannsaka heiminn og böðlast með allt sem hann finnur. Stærri krakkarnir voru öll mjög dugleg að hjálpa til og frábært að fylgjast með þessu fæðast hjá þeim í sameiningu þar sem að Bína fékk þau í lið með sér að skapa þetta...æðislegt fólk sem ég hef í kringum mig.
Nú er spennandi að sjá í byrjun hvers dags hvað dagatalið segir og oftar en ekki eitthvað sem allir taka þátt í og verður hin mesta skemmtun úr =)

föstudagur, nóvember 30, 2012

Jóladagatal Loga 2012


Það er gott að vera vel giftur og ég til mig svo sannarlega vera það. Gott að sjá að það hefur engu breytt fyrir þó að við séum nú gift, Bína passar uppá mig eins og áður um jólin.
Ég var alveg sérstaklega á nálum yfir þessu og daglega að spyrja Bínu hvenær hún ætlaði að fara að kaupa í dagatalið sem endaði á því að hún viðkenndi að hún væri löngu búin að þessu til róa mig =)
Hún kann líka að matreiða þetta...innpakkað í svart með rauðum hjörtum, þetta lúkka alveg og innihaldið heldur mér spenntum í 24 daga ;)

föstudagur, nóvember 23, 2012

Skipulagsdagur


Það er afskaplega gott að verða að taka sér frí til að sjá um krakkana þegar það eru sameiginlegir skipulagsdagar í leik- & grunnskólun Hafnarfjarðar eins og var í dag. Þó þeir séu vissulega full margir yfir árið þá er alltaf gaman að eiga auka dag sem er hægt að skipuleggja með þessu yndislega fólki þó svo þeir séu teknir launalausir ;)
Sindri svaf nú nokkuð lengi miðað við undanfarið en hann hefur tekið uppá því að vakna fyrir allar aldir og ekkert farið leynt með það að hann sé kominn á lappir og vilji fá einhvern til að taka sig úr rimlarúminu. En í morgun svaf hann aðeins lengur og þegar búið var að koma einhverju ofan í alla og klæða þá héldum við út í bílinn.
Fyrst var ferðinni heitið í Þjóðleikhúsið þar sem við hittum Hall afa og fengum að skottast út um allt leikhús. Leikmyndin af Dýrunum í Hálsaskógi var ekki á sviðinu en þegar hún var fundin í hliðarsal þá var nú ekki leiðinlegt að fá að príla og hlaupa eins og hamstur í bakarahjólinu, sjá hvar Lilli fór uppí tré, skoða kökurnar og bara fá smá tilfinningu fyrir þessu öllu saman. Það er alltaf mikill spenningur að fá að ráfa um í leikhúsinu hjá Halli afa og það eina slæma er það þurfa fara en Sindri var orðinn eirðarlaus af þreytu eftir langa heimsókn og þurfi nauðsynlega að fá smá lúr.
Eftir smá bíltúr hann var dottinn og við fórum niðrí vinnuna þar sem Bjartur hafði aldrei komið þangað. Þar nældum við okkur í snúða og kókómjólk og hittum hundinn Skellu sem var í heimsókn. YoYo ís var næsti viðkomustaður enda í næsta húsi þannig að það var upplagt að ná smá hádegisís áður en haldið var í sund.
Sindri vaknaði þegar við héldum af stað eftir ísinn og fékk góðan skammt af snúðum á leiðinni til að vera tilbúinn í sundferð.
Ásvallalaugin er alltaf þægileg þegar kuldinn er kominn og erfitt að vera úti þegar við erum ekki með gott fitulag til að verja okkur. Dagný hitti vinkonu sína og skemmtu allir sér konunglega að renna í rennibrautinni og endaði ég á að gefast upp erftir þónokkrar ferðir. Sindra fannst ekki leiðinlegt að fá að renna með pabba og fékk líka að taka ferðir með Bjarti og Sunnu sem þau höfðu jafnvel meira gaman af. Þegar tókst að komu öllum í gegnum sturtu og í föt pulsuðum við okkur upp og héldum heim =)
Það eru nokkrir skipulagsdagar eftir fram að sumari og verða vonandi allir jafn góðir og þessi =)

fimmtudagur, nóvember 08, 2012

GoKart


Ég & Bjözzi skelltum okkur í GoKart og hann hafði betur. Það eru komnar nokkrar ferðir í ár og það er bókað að það verður amk ein til viðbótar og vonandi verða þær jafn margar á næsta ári =)
Það var ungt par með okkur í þessari ferð og hafði það smá áhrif. Bjözzi var fastur á eftir honum á meðan ég var á bremsulitlum kagga fastur á eftir henni. Fékk að finna vel fyrir böttunum á meðan ég var að læra á bremsurnar og síðan var ég í mesta basli að komast frammúr en náði aldrei að ná þeim.

Bestu tímar:
Bjözzi: 41.97
Logi: 42.95

sunnudagur, október 21, 2012

Ættarhittingur


Mættum á ættarhitting í dag og á meðan "eldra" fólkið var inni við hljóp yngra fólkið um og lék sé í portinu. Sindri var skemmt við að taka upp þurr laufblöðin og henda þeim út um allt...ekki á hverjum degi sem hægt er að sóða út án þess að vera skammaður. Hann fékk reyndar ekki jafn blíðar móttökur þegar hann mæti inn með hendur fullar og dreifði yfir salinn ;)

Sunna 6 ára


Hún er alltaf jafn yndisleg þessi prinsessa sem er öllum svo góð og allt virðist vera henni mögulegt. Ég held ég þekki fáa einstaklinga sem eru jafn góðir og tilbúnir að hjálpa til og gera næstum hvað fyrir aðra eins og þessi litla snót. Það er frábært að eiga svona litla stelpu á heimilinu og fá að sjá hana vaxa úr grasi, litla skólastelpan.

fimmtudagur, október 11, 2012

Dagný 4 ára


Þessi stelpa er orðin 4 ára...og það er merkilegt að hún sé ekki eldri hún er svo fyrirferðamikil ;) Það er aldrei lognmolla í kringum hana og alltaf sama stuðið. Á morgnanna er vaknað í hressu skapi og því er haldið í gegnum daginn og jafnvel þó hún sé þreytt og pirruð þá er hún alltaf fljót að snúa öllu uppí grín og hafa gaman að hlutunum. Stórt knús á hana sem er alltaf svo dugleg að knúsa & kyssa...þó svo að strákarnir á leikskólanum séu ekki jafn hrifnir því og ég ;)

miðvikudagur, október 10, 2012

Lúðvík XII


Lúðvík er einstaklega góður, hreinasta sælgæti og hverrar krónu virði ;)

þriðjudagur, september 25, 2012

Skipulagsdagur


Einn af 6 skipulagsdögum í Hafnarfirði var í dag. Það hentar ekkert sérstaklega vel að eiga leikskólakennara þegar að hún getur aldrei verið heima þegar þessir dagar koma upp ;)
En á móti verð ég að taka mér frí og það er ekki leiðinlegt að skella sér í sund með þessu liði í haustsólinni og stússast um bæinn. Bjartur hafði reyndar engan áhuga enda er hans líf farið að færa æ meira í Minecraft með hverjum deginum. Nokkuð magnað hvað hann er klár í þessum leik og þeir fá oft að vera 2-3 að spila saman heima þannig að skiljanlega er það meira spennandi en margt annað ;)
Ég, Sunna, Dagný & Sindri skellum okkur í sund og veðrið var einstaklega gott þar sem við lágum í sólinni í "gömlu" Kópavogslauginni í góðan tíma og allir voru sáttir þó að yngstu (sérstaklega Sindri) væru orðin þreytt...enda tóku þau góðan lúr í bílnum á meðan ég og Sunna stússuðumst smá.
Þau vöknuðu svo tímanlega til að kíkja með í nýju vinnuna og síðan var farið í ísbúð á leiðinni heim sem er aldrei leiðinlegt.
Myndina tók Bína af stelpunum einhvern af síðustu morgnum, hún er bara svo skemmtileg að ég var að nota hana =)

Skólafólk


Þau voru afskaplega mikil krútt á leiðinni í skólann þegar ég rakst á þau fyrir utan leikskólann...ekki leiðinlegt að eiga stóran bróður til að hjálpa til við að byrja skólagönguna =)

mánudagur, september 24, 2012

Hugsmiðjan heilsar

Aðeins örfáir dagar komnir hjá Hugsmiðjunni og mér líst rosalega vel á staðinn og fólkið. Ég er mjög spenntur að komast inní málin og taka virkan þátt í framtíðinni með þeim og það er margt sem liggur fyrir að koma í fastari skorður og verður gaman að takast á við. Andinn virkar mjög vel á mig og ég fæ ekki betur séð en að þarna sé saman komið einstaklega gott og skemmtilegt fólk sem ég hlakka til að kynnast betur á næstunni og um ókomna tíð =)

föstudagur, september 14, 2012

Síðasti vinnudagurinn...

...í Landsbankanum í dag eftir á 3ja ár sem ég hef lært margt af. Á þessum tíma hef ég kynnst mjög vel Agile hugmyndafræðinni auk þess að hafa verið í þremur teymum sem hafur gefið mér mikið. Full af frábæru fólki og góðar minningar sem ég tek með mér. Hlakka til að sjá hvert þau fara með bankann minn =)

föstudagur, ágúst 31, 2012

Gamification

Skráði mig í námskeið á netinu í Gamification sem byrjar mjög vel. Þegar eru tvær vikur búnar og fyrsta verkefnið sem var aðeins 5 spurningar en þó þurfti ég að hugsa mig vel um á 2 þeirra og önnur fannst mér snúin, en þetta endaði allt rétt eftir smá íhugun.

Námskeiðið er skemmtilega sett upp:
  • Myndskeið í hverri viku (um 5 stykki sem eru um 10 mín að lengd) og í þeim koma spurningar inná milli sem hægt er að svara, svona til að sjá hvort allir eru ekki öruglega að meðtaka ;)
  • 4 krossapróf þar sem niðurstöðurnar birtast strax og búið er að svara og skýring á möguleikunum. Reyndar er hægt að taka það oftar en einu sinni, á eftir að sjá hvernig það virkar.
  • 3 skrileg verkefni sem aðrir nemendur fara yfir og gefa einkunn (það verður fróðlegt, amk nóg af fólki en það voru 8000 nemendur búnir að skrá sig)
  • Lokapróf sem er krossapróf með áherslu á seinni hluta námskeiðsins
Fyrirlestrarnir eru stuttir og skemmtilegir og þægilegt að sjá kennarann samhliða (inná) glærunum og hann er líka aðeins að brjóta þetta upp t.d. með að hafa falin skilaboð í fyrstu myndböndunum...sem ég á enn eftir að reyna að leysa ;)
Mæli með að skoða Coursera því þarna eru námskeið af öllum toga og allir ættu að geta fundið eitthvað við sitt hæfi.

sunnudagur, ágúst 19, 2012

Sunna fótboltastelpa

fótboltastelpur á hliðarlínunni
Fyrsta fótboltamótið hjá Sunnu var í dag. Við mættum snemma og fljótlega fylltist allt af ungum fótboltakeppendum og foreldrum. Þær voru nú ekki alveg með á nótunum hvað var að gerast í fyrsta leik og gaman að því hvað það þurfti að útskýra allt fyrir þeim. En þær voru fljótar að ná þessu og næsti leikur var á móti "gestaliði" sem vildi svo vel til að vera foreldrar. Þeim tókst nokkuð auðveldlega að sigra okkur og skemmtilegt að fá að taka þátt í mótinu með þeim (eða móti þeim).
Leikirnir voru kláraðir og gaman að sjá að leik loknum tókust þær í hendur og síðan dönsuðu liðin sem voru að spila saman í hring og sungu "Ole". Ég er ekki viss um það verði alltaf svo mikil samheldni í framtíðinni hjá þessum fótboltastelpum ;)
Síðan var verðlaunaafhending og myndataka af liðinu. Frábært mót og gaman að taka þátt og sjá þessar upprennandi fótboltastjörnur taka sín fyrstu skref.

laugardagur, ágúst 18, 2012

Snorri

Snori bjórflöskur
Nonni&Begs redduðu mér Snorra sem er aðeins fáanlegur í flugstöðinni...veit ekki hvort Snorri sjálfur væri ánægður með það ;)
Einstaklega íslenskur bjór með blóðbergi sem gerir hann einstaklega "náttúrulegan". Bína var mjög hrifin af honum en það eru enn aðrir Borgara sem ég tek fram yfir hann, en skemmtileg viðbót við fjölskylduna.

fimmtudagur, ágúst 16, 2012

Gleðiganga í rigningu

Krakkarnir komnir í pollaföt
Við létum okkur ekki vanta í gleðigönguna í ár, frekar en síðustu ár. Full mikil rigning var og var myndavélin skilin eftir en það náðist þó ein mynd af krökkunum tilbúnir í pollagöllum áður en haldið var út í rigninguna og tekið þátt í gleðinni =)

miðvikudagur, ágúst 15, 2012

Vann mér inn broskall

Broskall á dagspassa í mu.is
Ég þurfti reyndar ekki að hafa mikið fyrir því að vinna mér inn þennan broskall um daginn. Í Fjölskyldu- & Húsdýragarðinum hafa í sumar verið uppblásnar kúlur sem hægt er að fara út á vatn. Ég fór...og fékk þennan broskall...þetta er reyndar til að merkja þar sem hver dagspassi má bara fara einu sinni...en ég held að þessi broskall hafi átt vel við því áhorfendur virtust skemmta sér vel. Ég tók nú ekki mikið eftir því en allir foreldrar voru mjög brosmildir þegar ég kom úr kúlunni og margir ábyggilega haft gaman af að horfa á mig veltast um. Þetta var samt alveg merkilega erfitt og var ég alveg búinn í góðan tíma á eftir =)

þriðjudagur, ágúst 14, 2012

Opið eða lokað

Ég & stelpurnar á svölunum að borða ís
Ég set ýmsar upplýsingar hingað á netið og einnig ljósmyndir af fjölskyldunni fyrir hvern sem er til að sjá og skoða. Ég spái ekki mikið um réttindi upplýsinga og trúi því að allt efni á sig sjálft og hver sem er ætti að geta notað það til að byggja á. Þetta var vel orðað hjá góðum kennara sem kenndi mér við Háskóla Íslands þegar hann sagði Góðar hugmyndir eru til tvenns nýtilegar: að græða á þeim eða stela þeim.
Hvernig hugmyndir þarfnast annara hugmynda er mjög vel lýst í þessum fyrirlesti og einnig annar skemmtilegur um kynlíf hugmynda sem styður þetta.

En þó að ég trúi á fresli hugmynd og myndi vilja að efni væri merkt með opnum leyfum þá er spurning hvort það réttlætir það að ég setji myndir (eða upplýsingar) af börnunum mínum á netið?
Þó að ég geti sagt að ég eigi þessi börn þá eiga þau sig sjálf (að mestu) en ég ber ábyrgð á þeim og hagur þeirra er vissulega framar öllu. Því velti ég fyrir mér hvort þeirra gögn ættu að vera lokuð...flest allt eru þetta upplýsingar fyrir mig, þau, okkur, fjölskyldu og vini sem ættu jafnvel ekki að vera opnar fyrir hverjum sem er? Eða þá að ég ætti að minnsta kosti að stjórna því hver hefur aðgang að þeim?

Ekki nóg með að ég þarf að lifa með þessari ákvörðun heldur þurfa þau líka að lifa með henni og ég vil ekki að þetta geti á nokkurn hátt skaðað þau.

Er ég of auðtrúa að það sé í lagi að hafa allt opið og aðgengilegt eða er það ofsóknaræði að loka allar upplýsingarnar af?

mánudagur, ágúst 13, 2012

Að horfa á eftir börnunum

krakkarnir
Fylgdi Sunnu í dag á leikjanámskið áður en að hún byrjar í grunnskóla. Merkilegt hvað tíminn líður hratt og þau vaxa fljótt upp. Ekki nóg með að hún hjólaði sjál alla leiðina heldur ætlaði Bjartur að fylgja henni heim, en hann mætir klukkutíma seinna á sitt leikjanámskeið.

Þegar ég fylgist með krökkunum vildi ég geta gefið þeim allt og uppfyllt allar þeirra óskir...en sem betur fer get ég það ekki. Þetta er þeirra líf og þau verða að upplifa það á sínum forsendum og hafa lítið að gera með að fá allt uppí hendurnar. Ég mun vissulega gera allt sem í mínu valdi stendur til að hjálpa þeim og vil allt fyrir þau gera en ég verð líka að leyfa þeim að vaxa í friði.

Stundum dettur maður í það far að reyna að stjórna þeim og "móta" þau eftir mínum hugmyndum. Í staðin þarf ég að reyna að leiðbeina þeim í rétta átt ef þau fara ranga leið og vera til staðar ef þau þarfnast mín. En ég þarf reyndar líka að gefa mér tíma til að verja með þeim í þeirra "heimi". Það er merkilegt hvað ég get verið upptekinn við að sinna hlutum sem mér finnst mikilvægir og vissulega finnst mér ég eiga að gera það...en í raun skipta þeir engu máli þegar krakkarnir vilja hafa mann nálægt og gera (nánast) hvað það sem hugmyndaflugið dregur þau áfram í. Ef þau hafa áhuga á einhverju ætti það að vera nóg og ættu bara að fá stuðning í því, hversu óþolandi eða skítugt það kann að vera ;)

Stundum verð ég þó að ráða, en ég verð að komast inná að gera það að sameiginlegri niðurstöðu í stað þess að vera alltaf að stjórna og vinna með þeim að lausnum sem allir eru sáttir við (win-win).

Um daginn fékk Dagný martröð að pabbi(ég) væri skrímsli og mamma talaði við eins og ekkert væri eðilegra. Ég vil ekki vera skrímsli í augum barna minna og þarf að hugsa hvernig ég er kem fram við þetta yndislega fólk "mitt" þannig að ég verði aldrei skrímsli í þeirra augum...nema bara í stakri martröð =)

mánudagur, ágúst 06, 2012

Sumarfrí á Seyðis

krílin 2012
Eftir nokkra góða saga í sólinni heima fyrir skelltum við okkur með skarann í bílferð austur á Seyðisfjörð. Náðum að keyra með smástoppum alla leið á Akureyri þar sem við skelltum okkur í sund. Að baðferð lokinni fengum við okkur að borða og héldum ferðinni áfram og komum óvænt á Múlaveginn undir kvöld.
Blíðviðri tók á móti okkur á Seyðisfirði og mörg ár síðan við höfum fengið lengt í góðu veðri þar…ætli það hafi ekki verið svona gott því enginn vissi af komu okkar ;)
Sindri var með streptó og eitthvað þurfti ég nú að ná mér í pest og þrátt fyrir að reyna að halda henni í skefjum með verkjatöflum var ég orkulítill næstu vikuna.
Þrátt fyrir að við gerðum nú ekkert merkilegt þá er alltaf gott að vera í fríi (heima) á Seyðis. Hefði viljað hitta meira fólk og drekka meiri bjór, en það tókst að taka kortu með Snorra, fá spákaffi, njóta veðursins, sundferðir, hoppa á trampólínu, lækjarferðir, leikvellir, út að borða á Skaptfell (loksins fengum við okkur pizzu þar) og síðan haft það gott eins og hægt er að sjá af myndunum frá fríinu á Seyðis.
Eftir um 2 vikur lögðum við af stað heim og ákváðum að fara suðurleiðina. Vorum nú ekki jafn snemma á ferðinni eins og þegar við komum og lögðum ekki af stað fyrir rétt fyrir hádegi. Eftir klukkutíma ældi fyrsti krakkinn og næsti klukkutíma seinna þannig að það leit nú ekki út fyrir að þetta yrði auðveld ferð. Tókum sundferðina á Höfn þar sem við vorum svo "sein" fyrir og þurfti að þrífa suma eftir bílveikina.
Sindri var þá kominn einhverja augnsýkingu sem ágerðist yfir daginn og þegar við renndum inní bæinn fórum við með hann beint uppá vakt þar sem hann fékk lyf við auganu og var hann þá orðinn eins og vel kýldur slagsmálahundur en alveg merkilegt hvað hann var duglegur og lét ekki í sér heyra fyrr en þegar við renndum í hlað á vaktinni.
Hann náði sér svo strak og við áttum notalega daga heima þar til nú er sumarfríið á enda í ár og myndirnar í júlí eru bara af ferðum í húsdýragarðinn (enda fínt að nýta kortið). Rólegt og notalegt frí og gott að ná góðum tíma á Seyðis í góðu veðri =)

laugardagur, júlí 07, 2012

Sumarfrí


Sumarfríið byrjað og fyrsta verk var að klippa mig...búinn að bíða lengi að létta af hausnum og fór einmitt og keypti nýjar klippur í gær og það fyrsta sem ég gerði þegar ég kom heim var að klippa mig =)
Í dag var tekið aðeins til og létt á geymslunni og síðan skellti ég mér í sund með stelpunum...nú er bara að komast í frí gírinn =)

þriðjudagur, júlí 03, 2012

Fyrsta útilegan í fimm ár


Enduðum í útilegu um helgina við Apavatn. Brakandi blíða og það lá við að allir önduðu léttar þegar skýin dróu sig fyrir ;) Fengum lánað tjald og fleira þannig að við komumst með góðu fólki. Fengum sem betur fer líka lánaðan hitablásara því annars hefði orðið aðeins of kalt og sérstaklega þegar það helliringdi yfir hánóttina. En sem betur fer var ekki rignin á sunnudagsmorgninum og hægt að koma öllu & öllum þurrum í bílinn.

þriðjudagur, júní 19, 2012

Fjölskyldudagur Víðivalla 2012


Veðrið rétt slapp, það dropaði á okkur og hitinn var rétt nægur þannig að ekki þurfti að klæða sig of mikið. Slapp meira að segja til að Sirkus Íslands gat verið í sínu vanalega dressi og var það hin mesta skemmtun jafnt fyrir börn og fullorðna (ekki síður þá eldri ;)
Nokkurhunduruð pyslur sem við grilluðum ofan í liði og þetta er orðið mjög smurt hjá okkur, enda margir vanir.
Síðan gátum við keypt gjafir fyrir skólann fyrir Skógardeildina sem verður næsta skólaár uppí Kaldárseli og frábært að þessi hugmynd sé loksins orðin að veruleika 2 árum eftir að við héldum að hún yðri. Verður gaman að sjá hvernig skólinn þróast með tilkomu útideildarinnar.

Rómeó & Júlía


Við skelltum okkur á 10 ára afmælissýningu á Rómeó & Júlíu hjá Vesturporti. Það hefur oft staðið til að sjá þessa sýningu og vel við hæfi að ná þessari 10 ára afmælissýningu þar sem við erum einmitt 10 ára ;)
Fengum sæti á sviðinu sem var mjög skemmtilegt að sitja og horfa fram í salinn. Sýningin var frábært og ég væri alveg til í að sjá hana aftur...jafnvel eftir 10 ár ;)
Ætli ég verði ekki að setja hana í fyrsta sæti með Faust en ég get ekki alveg gert uppá milli þeirra.

sunnudagur, júní 17, 2012

Þjóðhátíðardagurinn


Veðrið varð merkilegt gott miðað við hvernig spáði. Héldum að það þyrfti jafnvel pollaföt en það ringdi ekkert, bara sól og blíða.
Slepptum göngunni í ár og fórum beint niður á Víðistaðatún þar sem var leikið og fengið sér nammi áður en við settumst í brekkuna og horfðum á skemmtiatriðin.
Krakkarnir fóru reyndar að leika sér og kíkja uppað sviði, enda skemmtilegra að vera nálægt.
Síðan var haldið í kaffi til Bekku&Bödda seinnipartinn þar sem við náðum í einhverja þó við værum full sein fyrir, enda vorum við að reyna að ná öllum skemmtiatriðunum og Bjartur ekki alveg að skilja hvað það ætti að þýða að vera með kaffi á þessum tíma ;)

laugardagur, júní 16, 2012

Allt Um Póker.com - 1 árs


Fyrir ári síðan opnuðum við Elli AlltUmPóker.com sem griðarstað fyrir pókerefni sem við höfum verið að safna saman meðfram pókerklúbbnum.
Það hefur nú ekki mikið gerst þarna þetta fyrsta ár, en þetta er ágætis byrjun ;)
Í tilefni dagsins bauð ég heim í spil og þangað mættu Bjólfsmenn, fyrrverandi vinnufélgar, nágrannar og vinir.
Bjólfsmenn fóru nú að skjóta á mig að ég væri nú ekki lengur með heppnisstimpilinn á mér og ætti bara að hætta þessu þannig að ég fékk Lady Luck í lið með mér og tókst að næla mér í annað sætið með amk 3 höndum sem ég grísaði á að tapa ekki. Ég var reyndar helvíti kaldur í nokkur skipti að blöffa en þegar ég hélt á 23 á móti Timbrinu og var búinn að byggja upp góðan pott og setti hann næstum allan inn hélt ég að nú væri þetta búið. Hafði skell inn það hárri upphæð að hann gat ekki annað en sett allt sit út. En hann gaf frá sér spilið og af sérstökum kvikindisskap var ég að sýna honum höndina sem bætti ekki einu sinni borðið...ekki mjög fallega gert en það var "sætur" pottur fyrir mig.
Þannig að fyrsta (árlega) afmælismót AlltUmPóker.com gekk bara vel fyrir sig, þó svo að það hafi tekið 5 tíma að klára 8 manna borð. Það var ekki að ástæðu lausu að 16. júní var valinn til að tryggja að alltaf væri frí daginn eftir og vonandi verður næsta mót enn betra, veglegra og skemmtilegra og þakka þeim kærlega sem mættu ;)

föstudagur, júní 15, 2012

Óvissuferð Kanínanna


Tókum smá skrall með Kanínudeild. Fyrst voru það borgarar (reyndar á eftir fótboltaleik ;) og síðan var farið í nokkra hressa og skemmtilega útileiki.
Síðan var haldið áfram í partýinu inni og teknir upp gítarar...þegar Bína benti mér á að við værum að fara var klukkan orðin 2 og við ein eftir með húsráðendum þannig að það var víst orðið tímabært að koma sér ;)

sunnudagur, júní 10, 2012

Fjölskyldudagur í Selvík


Alltaf jafn vel heppnaður fjölskyldudagurinn hjá starfsmannafélagi Landsbankans í Selvík. Veðrið gott, matur, nammi, hoppukastali, skemmtiatriði, bátar, ís, candýfloss...

föstudagur, júní 08, 2012

Krakkarnir í vinnuna


Tók eldri krakkana í vinnuna og höfðu þau mjög gaman að. Skottuðumst um hæðirnar í ratleik og síðan fóru stelpurnar að horfa á bíó á meðan Bjartur sökkti sér í tölvuverið sem var sett upp á neðstu hæð.
Dagný var nú hálf hrædd við Sprota þegar hann mætti en hin tvö höfðu gaman að því að "leika við hann" (toga í skottið á honum og hlaupa í burtu flissandi).
Frábært framtak hjá skemmtinefndinni og á leiðinni heim var spurt hvenær við færum aftur í vinnuna til pabba ;)

fimmtudagur, júní 07, 2012

Fjarfyrirlestur


Við í Agilenetinu stóðum fyrir smá tilraun með fjarfyrirlestur og fengum Henrik Kniberg til að spjalla við okkur, þetta kom vel út og punktaði ég niður smá samantekt og fleira.

þriðjudagur, júní 05, 2012

Bjartur 8 ára


Hann var hæstánægður með að fá að halda afmælið sitt í Ævintýragarðinum með vinum sínum (bekknum, einum öðrum og svo fengu systkini hans að koma líka ;). Sem betur fer vorum við með kökur með okkur því þau hámuðu pizzurnar fljótt í sig, enda vel svöng eftir daginn. Síðan var hoppað, hlaupið, grátið, leikið og ég veit ekki hvað þarna út um allt.
Um kvöldið var hann svo þreyttur að hann lagist útaf á eldhúsbekkinn og steinsofnaði =)

mánudagur, júní 04, 2012

Austur með stelpunum


Þær eru miklar vinkonur þessar skvísur og rosalega duglegar. Þær fengu að fara með mér austur og hitta Helgömmu á meðan ég var á fermingarmóti og það fór nú ekki mikið fyrir þeim. Á leiðinni í vélinni hitti ég Tomma Tomm og spjallaði við hann alla leiðina á meðan stelpurnar dunduðu sér.
Á Seyðis voru þær bara í góðu yfirlæti hjá Helgu og hitti ég þær varla aftur fyrr en á sunnudagsmorgninum þegar þær báðu um leyfi til að fara út að hoppa. Komu reyndar strax aftur inn að klæða sig betur og ég fór nú einhverntíman fram og bað þær um að hafa ekki svona mikil læti (nágrannanna vegna) en þær hoppuðu fram að hádegi ;) Sunnu hafði tekist að suða trampólínið út daginn áður ;)
Ekki leiðinlegt fyrir þær báðar að eiga góða systur =) Vonandi haldast þessi vinabönd um ókomna tíð hjá þeim.
Nokkrar myndir náðust frá helginni.

sunnudagur, júní 03, 2012

Fermingarmót 2012


Í tilefni 20 ára fermingarafmælis var haldið bekkjamót hjá '78 árgangnum frá Seyðisfirði. 10 ár síðan við hittumst síðast og mest lítið breyst...nema við höfum elst um 10 ár, sumir með minna hár og meiri bumbur og margir orðnir hálf gráhærðir foreldrar ;)
Það var byrjað á því að hittast og skála á Öldunni á föstudeginum í sól og blíðu. Ánægjulegt að sjá fjörðinn í góðu veðri aftur...allt of langt síðan ég hef verið í sólinni þar. Um kvöldið var grillað hjá Ólu Lomm og tekið á því fram eftir nóttu.
Á laugardaginn slepptum við róðrakeppninni og skellum okkur út á Skálanes sem var frábær ferð þar sem Hjalti mætti á rútunni og Óli var leiðsögumaður allan tímann og ánægjulegt að fatta loksins út á hvað þetta gengur hjá honum.
Síðan var það Sjómannadagsball og daginn eftir hittust þeir sem gátu í þynnkumat á sjoppunni áður en haldið var heim.
Frábær hópur og frábær helgi og vel við hæfi það var ákveðið að hittast næst eftir 5 ár svo það líði ekki of langt á milli og við verðum ekki jafn vör við að hversu mikið við höfum elst í hvert skipti...þó svo að við sem vorum þarna tókum reyndar ekkert eftir því en aðrir sem heima sátu og skoðuðu myndir fannst við eitthvað ellileg...enda er heimasetufólkið allt sköllótt og með bumbu =)

sunnudagur, maí 27, 2012

Fjölskyldukort í Húsdýragarðinum


Það viðraði svo fínt á Hvítasunnudaginn að við skelltum okkur í Fjölskyldu- og Húsdýragarðinn og fengum okkur á árskort til að hafa góða ástæða til að kíkja nokkrum sinnum í garðinn í sumar og jafnvel yfir veturinn.
Stóru krakkarnir léku sér sjálfir og hlupu um á meðan við fylgdumst með þeim yngri. Sunna var ein í Krakkafossinum að fara hverja ferðina á eftir annari þannig að ég og Dagný fórum með henni. Það var hin mesta skemmtun og var Dagný alveg að missa sig úr spenningi því þetta þótti henni svo skemmtilegt.
Þannig að við eigum ábyggilega eftir að taka nokkrar ferðir í sumar og kíkja á dýrin og leiktækin ;)

föstudagur, maí 25, 2012

Sunna útskrifast af Víðivöllum


Sunna kláraði leikskólann í dag. Þá eru bara nokkrir dagar eftir fram að sumarfríi, þar á meðal útskriftarferð, vorhátið og fleira skemmtilegt og síðan tekur skólinn við hjá henni eftir sumarið. Hún er afskaplega dugleg og á ábyggilega eftir að standa sig með prýði í því verkefni =)

miðvikudagur, maí 16, 2012

Bjórskólinn


Fór með frábæru fólki í bjórskólann og er búinn að bíða þess lengi að setjast á þennan skólabekk. Ég byrjaði reyndar að spyrja kennarann út í ýmsar staðreyndir sem ég þekki varðandi framleiðsluna hjá Borg. Þegar ég spurði hvort við fengjum Snorra leiðrétti kennarinn mig að það væri Sumarliði sem væri á leiðinni. En þegar ljóst var að Snorri lá einnig á tönkum endaði það þannig að ég fékk viðurnefnið Snorri það kvöldið svona fyrir að vera "besserwisserinn" í bekknum ;)
Eftir skólann fórum við í bæinn að fræðast meira og nýta okkur þann lærdóm sem við meðtókum. Frábært kvöld með frábæru fólki og hin mesta skemmtun. Ég er klár á því að ég muni þurfa að fara í endurmenntun við tækifæri ;)

þriðjudagur, maí 01, 2012

Sunna í Borgarleikhúsinu


Sunna kláraði ballettinn í dag með sýningu í Borgarleikhúsinu ásamt stórum hóp nemenda í Listdandsskóla Hafnarfjarðar.
Hún var rosalega flott og vorum við afskaplega stolt af stóru stelpunni sem stóð sig með prýði og var rosalega dugleg í öllum undirbúningum og æfingum undanfarið og í dag.
Sindri "litli" fékk að vera heima hjá Svölu, Lilju og Ásthildi en Bekka amma kom í hans stað með okkur að horfa.
Bjartur var nú ekki að nenna þegar við lögum af stað en hann hafði rosalega gaman að kynninum og ekki síður öllum atriðunum. Dagný var ekkert smá spennt að sjá systur sína á sviðinu og veifaði henni og kallaði þegar hún loksins sá hana. Spurði Sunnu í kvöld hvort hún hefði séð okkur og hún sagðist hafa séð höndina hennar Dagný vera að veifa sér ;).
Eftir sýningu afhenti Bjartur henni rauða rós frá okkur til að fagna þessari fyrstu alvöru sýningu hjá ballerínunni. Eftir var svo haldið uppá frammistöðuna með ísbíltúr ;)

sunnudagur, apríl 22, 2012

Stelpurnar í búðarferð


Systurnar voru í búðarferð með mér. Dagný vildi endilega halda á pokanum en það reyndist ekki jafn auðvelt og hjá pabbanum þannig að Sunna kom til hjálpar og voru þær mjög uppteknar af því að vera að sjá um þetta sjálfar =)

föstudagur, apríl 20, 2012

Vatnaveröld


Það er góð fjölskylduferð að skella sér í bílinn, keyra inn í Reykjanesbæ, sund í Vantaveröld og borðað á KFC á eftir...þetta höfum við gert nokkru sinnum og gerðum um daginn.
Vatnaveröld er mjög hentugur sundstaður þegar börnin eru lítil og geta þau haft endalaust gaman að. Reyndar lenti Sunna í að fá sund-körfluboltaspjald ofan á sig og hefði getað endað illa, en ég var sem betur fer nærri og allt fór vel...starfsmaður kom um leið og sagði að þetta gerðist þar sem að botnin sem að hélt spjaldinu læki. Ég var of upptekinn til að benda viðkomandi á að fjarlægja þetta á meðan það væri gert við þetta..
En það voru allir sáttir við ferðina og ekki síður sáttir við að fara á KFC sem hefur RISA stórar klifur- og rennibrautarsvæði sem að verður reynar oft til þess að lítil eirð er að sitja og borða...en það skemmta sér allir vel ;)

fimmtudagur, apríl 19, 2012

Sumardagurinn fyrsti


Fyrsti sumardagur var tekinn snemma þegar að yngsti fjölskyldumeðlimurinn vildi ekkert vera að eyða "morgninum" í eitthvað hangs í rúmminu. Hann fékk nú samt að liggja aðeins uppí þangað til að Dagný mætti og þá var ekkert annað að gera en að byrja daginn með hafgragraut.
Restin skreið svo á fætur á aðeins eðlilegri tíma og síðan var haldið niður á Víðistaðatún þar sem eldri krakkarnir fóru í víðavangshlaup. Stelpurnar hlupu saman og passaði Sunna vel uppá litlu systur: leiddi hana allan tímann og hjálpaði henni upp þegar hún datt. Það var ekkert verið að stressa sig yfir að vera fyrstar heldur bara að vera saman.
Bjartur hljóp svo aðeins lengri leið og þar var takmarkið bara að komast á leiðarenda. Ég var með myndavélina á lofti og hafði gaman að því að heyra hann á spjallinu við bekkjarbróður sinn...það voru engar áhyggjur af því að vera í forystu, enda var hann alveg með það á hreinu að hann var 4 síðasti og sáttur við með sitt.
Ég hafði nú ekki vit á því að klæða mig í hlaupagallann og taka 2km hlaup...kannski á næsta ári ;)

Smá slökun fram eftir degi og fórum svo í kaffi til Bödda&Bekku þar sem ég hlýddi Bjarti og fór í sófann eins og ég geri ALLTAF að hans sögn...sem er jafnvel rétt...en það bara svo rosalega gott að leggja sig í honum ;)

Út að borða og svo fengu allir ís...góður dagur, góð byrjun á sumri.

fimmtudagur, apríl 12, 2012

Svipaðar systur?


Ég get seint sagt að Sunna & Dagný séu mjög líkar...þó svo að margir segi það og hef meira að segja verið spurður hvort þær væru tvíburar...þá sé ég það ekki...en þegar ég tók þessa mynd af þeim út á svölum átti ég nú hálfgerðum vandræðum að sjá á milli hver væri hvor...en held að það sé nú bara hárið sem var að valda þessum vandræðum hjá mér ;)

mánudagur, apríl 09, 2012

Páskabörn


Það var fríður hópur sem hljóp um allt hús í morgun í leit að páskaeggjunum sínum. Bjartur & Sunna földu eggin og Dagný fékk að hjálpa til. Síðan fylgdi Sindri þeim hvert sem þau fóru og hafði ekki smá gaman af því að vera hluti af genginu.
Síðan var öllum stillt upp í ljósmyndatöku og eins og sjá má af myndinni hér fyrir ofan voru sumir alveg með'da ;)
Eggin voru svo opnuð og Sindri sat sem fastast kyrr þarna á gólfinu...enda hæstánægður að moka uppí sig súkkulaði. Hann sat þarna einn og yfirgefinn alveg þangað til að eggið hans var búið. Þá fór hann á stjá og byrjaði að betla súkkulaði af pabba sínum og stela af systkinum og var fljótur að koma sér af vettvangi áður en að nokkurt þeirra tók eftir því að hann náði sér í bita ;)

föstudagur, apríl 06, 2012

Páskabjórinn


Þó svo að Benedikt 9. frá Borg hafi verið rosalega góður þá var Páska Bock frá Víking var páskabjórinn hjá mér í ár. Einstaklega vel heppnaður fyrir mína bragðlauka: mildur, sætur og ögn af brenndu bragði en ekki of mikið...hreint sælgæti =)

mánudagur, apríl 02, 2012

Páskaeggjaleit


Það var góður hópur af krökkum sem leitaði að páskaeggjum í Hellisgerði eftir vinnu. Baldvin Hrafn og Gústaf Bjarni fóru snemma og földu eggin og síðan mættum við eftir vinnu og þó svo að ekki nema 4 vinkonurnar hittust voru 13 börn sem hlupu út um allt Hellisgerði í ágætis veðri og fundu öll eggin. Reyndar var lengi leitað að auka eggi þangað til að uppgötvaðist að Sindri var með það ;)

laugardagur, mars 24, 2012

Dagný ballerína


Dagný kláraði fyrsta dansárið í dag. Hún var rosalega flott og ekki nóg með að hún kunni og gerði allt heldur var hún einstaklega hjálpsöm og tók ákafan þátt í öllu ;)
Ég fór nú reyndar með hana í einn tíma í vetur og var ekki alveg það sama uppá teningnum þá...meira ekki neitt tekið þátt og endaði það með því að ég varð að lofa sjálfum mér að fara ekki með hana aftur þar sem líklega var það eitthvað undarlegt að hafa pabba allt í einu meðferðis og ekki mömmu.
Hún er yndislegt skrípó þessi stelpa og væri gaman að prófa að kíkja inní hugsanir hennar...dansandi um í sínum eigin heimi eins og sannkölluð ballerína og alltaf í stuði ;)

Borgarar


Eftir að ég fékk einn Surt frá Borg og nældi mér í síðustu 2 Úlfana í ríkinu fór ég að safna saman öllum bjórunum frá þeim. Þó svo að Skógarpúki sé ekki til var hann aðgengilegur í gegnum Þorragull. Stekkjastaurar eru enn til á heimilinu og Benna fékk ég með góðum fyrirvara. Október átti ég nú ekki von á að komast yfir en Rakel átti einn hjá sér þannig að þá var allt komið nema einn, þannig að 8/9 er ágætis árangur ;)
Valgeir & Þyrí komu heimsókn og tók bruggmeistarinn með sér jólabjórinn sinn og annan Surt svona til að halda hinum félagsskap ;) Jólabjórinn passaði vel í þennan hóp og gaman að smakka loksins vel á Surtinum sem stendur vel undir nafni og hefur mjög skemmtilega reykt bragð.
Borg bjórarnir eru hver öðrum betri og þegar þeir hittast allir saman verður úr stórveisla fyrir skynfærin.
Gott kvöld að baki og hlakka til að gera þetta aftur og verður gaman að sjá hvernig næsta Borg söfnun verður, en líklegast verða erlendu bjórarnir úr Kaupmannahafnarferðinni teknir fyrir næst ;)

þriðjudagur, mars 20, 2012

B&L 10 ára


Í tilefni af því að við erum 10 ára skelltum við okkur á gamla góða staðinn ;)
Erum komin með barnapíu þannig að nú verðum við jafnvel dugleg að skreppa út úr húsi...sérstaklega núna þegar við erum að halda uppá 10 ár samstarfsafmælið =)