sunnudagur, október 28, 2001

Kóngulærnar hittust aftur í kvöld, ég, Bjözzi og Siggi. Hittumst alltaf reglulega til að sigra heiminn... Kanksi fullmikið að fara að eyða kvöldum í tónlistarlæfingar, en það er bara gaman að hafa of mikið að gera, þótt það komi niður á skólanum.

laugardagur, október 27, 2001

Þegar ég ætlaði að gæða mér á fríum bjórveitingum rann það upp fyrir mér, ég var á bíl...í vísindaferð. Fékk mér því kók. Eftir tvo sopa af sykurógeði gafst ég upp og fékk mér einn bjór. Kók á bara að drekka með mat.

föstudagur, október 26, 2001

Aldrei, alddrei, aldrei aftur skal ég láta chilli skyndibitamat ofan í mig. Í þessi þrjú skipti sem ég hef reynt það hef innsetning verið góð en útkoman nokkrum tímum síðar hefur ekkert verið neitt til að hrópa húrra yfir. Verst er hvað mér finnst þeir góðir...en þeir eru ekki þess virði.
Björk handleggsbrotnaði og mátti litlu mun að lítið hefði orðið úr Pragarferð Gauta og Svövu, en það hafðist fyrir tilstylli Dags sem kom í bæinn. Helga hafði orð á því við Gauta að hann ætti að fara að passa upp á Björk, henni fyndist bjór góður og fílaði að vera dópuð af morfíni og þetta frá 11 gamalli stelpunni. Öllum heilsast vel og þær systur fóru í Varmaland í dag með Degi.

miðvikudagur, október 24, 2001

Skammdegisþunglindið er skollið á. Farinn að finna meira fyrir þreytu eins og vanalegt er á þessum tíma ársins...verst að koffeintöflur skuli vera lyfseðilsskyldar. Þá er bara að reyna að taka á íþróttunum, þótt að það verði aðeins til meiri þreytu á þessum árstíma...góða nótt, farinn að sofa kl 11, það hefur ekki gerst í marga mánuði.

þriðjudagur, október 23, 2001

Apple heldur áfram að sparka í rass...nú eru þeir komnir með jólagjöfina í ár...iPod á eftir að gera góða hluti. 5GB harður mp3 diskur sem hægt að nota fyrir gögn líka...ég er svo ánægður að vera að skipta um trú yfir í makkann. :)

mánudagur, október 22, 2001

Lét 5 tíma svefn duga eftir gott laugardagskvöld. Þreif vinnuna, íbúðina, mig ( skeggið fór ) og fór svo að elda. Rakel kíkti í kvöldmat og við spjölluðum fram eftir kvöldi. Alltaf gaman að spjalla. Nú er bara að fara að læra, það varð eitthvað lítið út því yfir helgina eins og vanalega. En nóvember kemur voandi sterkur inn sem lærdómsmánuðurinn...sjáum til hvernig það fer.

sunnudagur, október 21, 2001

Hlaut að koma að því að ég nennti að djamma lengur en til 3. Það verður nú að þakka Bjözza og ónefndri stúlku fyrir það, aðalega Bjözza samt. Þetta var fínt kvöld, ég er samt ekkert hrifinn af því að koma heim kl. 7 að morgni, ég sé ekki fyrir að ég vakni fyrr en um 3 á morgun og það er ekki góð nýting á degi. En ég er farinn að sofa einn að vanda...

laugardagur, október 20, 2001

Smaladrengirnir héldu útgáfutónleika á Strákapör á Kaffi Reykjavík í kvöld. Loksins sá ég þá á sviði, og þeir eru rosalega skemmtilegir, kúdós til Huga og félaga. Nú fer skeggið að fara...

föstudagur, október 19, 2001

Er mikið á þeim nótunum þessa dagana að vakna við tónlist úr hljómflutningsgræjunum mínum kl 8 á morganna, fara á fætur um 9 og út úr húsi eftir hádegi. Þess vegna eru föstudagar erfiðir því þá er eini tími vikunnar í hugbúnaðarverkefni 1 kl 8. Að vakna kl 7 er eitthvað sem mér mun seint falla vel að geði. En hvað um það, menn breyta um trú reglulega, og mín trú fer að breytast frá PC yfir í Mac eftir 3 vikur...vonandi verð ég búinn að raka mig fyrir þann tíma.

fimmtudagur, október 18, 2001

Merkilegt hvað mikill tími fer í námið. Sit núna tvo heimspekiáfanga og það er mjög sérstakt, gefur mér aðra sýn heldur en hina þurru raunvísindaheimssýn. En ég kann stundum ekkert allt of vel við heimspekina...stundum er þetta bara bull...a.m.k. í mínum eyrum. Skeggsöfnunin gegnur annars bara vel. Hef alltaf ætlað að eiga mynd af mínum fullskeggjuðum prófalærdómi, en ætla bara að svinda og taka mynd núna og sagst hafa verið í prófum. Merkilgt að skeggvöxtur minn hafi verið í næstum 10 ár og ég hafi aldrei prufað að safna. Enda finnst mér skegg ekkert smart....en þetta er eitthvað sem maður verður að prófa.

miðvikudagur, október 17, 2001

Loksins, loksins lét ég verða af því að setja upp blogg síðu. Þ.e. síðu þar sem ég skrifa reglulega inn hinar ýmsu pælingar á því sem efst er í huga hverju sinni. Ég held að þetta gæti nýst mér vel til að rifja upp ýmislegt þegar árin fara að sækja á. Síðan er alltaf góð spurning hvort öll þessi stafrænu gögn lifi tímans tönn, það þarf ekki mikið til að upplýsingasamfélagið glati öllum upplýsingunum.