miðvikudagur, febrúar 25, 2009

Geiri frændi

Fyrir nokkru héldum við feðgar í smá bílferð með flöskur í Sorpu. Þegar við vorum að skila flöskunum rak ég augun í Almanak Sorpu 2009 sem ég greip með til að skoða síðar. Þegar heim var komið fletti ég í gegnum bæklinginn og rakst þá á mynd af nokkrum af dósaklippingunum hans Geira frænda. Ég hafði gaman að sjá þessi undraverk hans aftur þ.s. ég hafði ekki séð þau lengi og heldur ekki hugsað um kallinn í nokkur ár.
Rifjaðist þá upp fyrir mér að ég hafði eitt sinn reynt að læra þessa listsköpum af honum. Lagði leið mína í kot kalls og gerði nokkrar heiðarlegar tilraunir sem urðu bara að sundurklipptum áldósum. Á meðan lá Geiri hinn makindalegasti í bóli sínu og hafði lítið fyrir að beygja álið fram og aftur og hafði fullkomna sýn á því hver niðurstaðan yrði á endanum. Ekki hef ég skilning á því hvernig hann fór að búa til húsgögn, kórónur og myndaramma úr áldósunum og kannski er þessi náðargáfa nú týnd af hnettinum eftir brotthvarf hans.

En skemmtileg minning og áhugaverður kall og húsið hans var síðast þegar ég vissi safn, en ég finn nú engar upplýsingar um það á Seyðisfjarðarvefnum :(

Ætli svona sérstakir persónuleikar séu að deyja út eða koma nýir í þeirra stað með tíð og tíma?

mánudagur, febrúar 09, 2009

Sætr matr gjörir stóran munn

Í tilefni dagsins okkar( sem er 9. hvers mánaðar ) eldaði ég hvílaukslegnar svínalundir sem eru oft á boðstólum á þessum bæ. Að vanda var gerð Kárasósa( hvítlauks & steinseljuostur með rjóma ) og auk hrísgrjóna var bryddað upp í fysta skiptið gráðostafylltum bökunarkartöflum sem fullkomna þessa annars dýrindis máltíð. Þannig að eftir matinn var maginn fullur og eitt stórt ánægjubros fyllti út andlitið á meðan við skelltum öllum börnunum í bað og smöluðum þeim í háttinn =)
Þetta var einn af þessum dögum sem maður undrast að hér skuli vera 5 manna fjölskylda í 3ja herbergja íbúð. En það sleppur á meðan Dagný er enn lítil. Það var nú á dagskrá hjá okkur að stækka við okkur á þessu ári en ástandið hefur fryst allan fasteignamarkað. Skulum vona að það fari batnandi á næstu mánuðum, vonandi þurfum við ekki að bíða mörg ár þangað til að ástandið skánar. En hvernig sem það fer þá hljótum við nú fyrr eða síðar að yfirgefa þetta hreiður og finna okkur annað stærra =)

fimmtudagur, febrúar 05, 2009

Alheims-staðsetningar kerfi

Þegar ég varð þrítugur langaði Bínu að gefa mér eitthvað sem væri ekki á óskalistanum mínum sem endaði með því að hún ákvað að gefa mér GPS. Hún var meira að segja svo sniðug að láta mig um það að velja tækið, sem var hárrétt hjá henni þ.s. hún vissi að ég hefði ákveðna skoðun á því hvað ég vildi og þyrfti að skoða hvað væri í boði =)
Þannig að ég lagðist yfir úrvalið og fann eitthvað sem var nógu spennandi að ég sá fram á að geta notað að einhverju ráði.
Tækið er búið bluetooth fyrir síma sem kemur sér afskaplega vel þ.s. ég var búinn að týna hluta af handfjálsa búnaðinum mínum. Ekki er heldur verra að í græjunni er FM sendir þannig að hægt er að vera með tónlist inná henni og spila í gegnum útvarpið í bílnum. Mikill kostur að geta geymt alla barnadiskana í tækinu og stillt á þegar lengri ferðir eru teknar með krökkunum. Einnig bjó ég svo vel að geta fengið Íslandskortið hjá Gauta bróðir þ.s. hann fékk það í afmælisgjöf um daginn og var bara með annað leyfið í notkun.
Nú sest ég uppí bílinn, slæ inn hvert förinni er heitið og keyrir án þess að hafa minnstu áhyggjur af því að villast...og ef það gerist þá endurreiknar tækið nýja leið og ég held förinni áfram =)

sunnudagur, febrúar 01, 2009

Tímaleysi...

...er vandamál sem hrjáir mig stundum...eða kannski er vandamálið að mig langar/ætla að gera svo margt?
Fyrir 2 árum skrásetti ég líka færslu um týmaleysi sem á nánast alveg við í dag. Þyrfti bara að bæta við Dagnýju og breyta nokkrum staðreyndum...annars allt við það sama =)