föstudagur, desember 31, 2010

Annáll 2010

Bjartur stóri bróðir útskrifaðist af leikskólanum og byrjaði í skóla og kann því bara vel. Þar byrjaði hann að læra að lesa og gengur mjög vel.
Hann er alltaf jafn mikill spekingur og skipulagði páskaleit þar sem ég þurfti að fylgja vísbendingum.

Sunna hætti með duddu, varð 4 ára og hélt áfram að æfa ballet og vera jafn sæt og áður. Hún var nú ekki alveg sátt við að missa bróður sinn af leikskólanum en komst í gegnum það á nokkrum dögum, enda með litlu systir á næstu deild og fær hana yfir á sína deild á næsta ári.

Dagný varð 2 ára en segist/þykist nú alltaf vera mun eldri ;) Hún er alltaf jafn mikill grallari og sést það á henni langar leiðir, sem lífgar tilveruna bara enn meira =)

Þetta er yndislegur hópur af einstaklingum sem mynda þessa fjölskyldu og hef ég alltaf gaman að vera einn með alla krakkana.


Við Bína mín erum nú búin að vera trúlofuð í 3 ár og kíkjum reglulega á sama veitingastaðinn ;)
Nú hlýtur að fara að koma að giftingu hjá okkur sem hefur tafist vegna barneigna síðustu ár. Held að það sé ágætist árangur eftir 7 að vera komin með 4 börn =)
Einnig tókst okkur að kíkja nokkrum sinnum í leikhús og vonandi finnum við tíma á nýju ári til að ná nokkrum fleiri sýningum.

Annars er búið að vera nóg annað að gera, t.d. fann ég mig á Internetinu ;)

Ég skipti um vinnu. Tókst markmið að vera veikindalsus í heilt ár.
Er kominn í pókerklúbb með góðum mönnum og byrja spilamennskuna þokkalega.
Í tónlistinni var heilmikið spila í miðborginni með Kóngulónum og loksins sá ég Magna syngja Pearl Jam með tribute bandi.

Sumarfríið byrjaði á að kíkja í bústað í Grímsnesinu en þegar í ljós kom að fasteignaviðskipti voru að ganga upp hjá okkur varð ekkert af því að fara austur. Var tíma varið í að undirbúa flutninga og einnig þurfti að nota allt laust fjármagn í þau viðskipti. En það var líka nóg að gera í góðu veðri á bænum og ekki verra að hafa fengið trampólín að láni.

Síðan hefur verið nóg að gera um jólin, undirbúningurinn gekk ótrúlega vel og var Bína alveg að koma öllum í jólaandann. Loksins fór ég að höggva jólatré.

Síðan eignuðumst við strák stuttu fyrir jól sem jafnaði kynjahlutfallið í fjölskyldunni.
Vegna komu hans tókst ekki að klára alveg allt fyrir jólin...þannig hafa ekki nema helmingur jólakorta verið skrifuð vonandi sýna aðrir okkur skilning og vonandi klárum við þau og komum í póst á nýju ári ;)

Helgamma í heimsókn á árinu og var líka hjá okkur yfir jólin og áramót sem var yndislegt og höfðu allir gaman af og gott að hafa auka herbergi til að bjóða henni.

Nú erum við BL feðgar búnir að sprengja, krakkarnir eru nokkuð spenntir að bíða eftir áramótunum og skaupið fer að byrja. Fyrstu jól & áramót á nýjum stað með nýjum meðlim og gott ár að baki...

fimmtudagur, desember 30, 2010

Logapizzur

Ég er mikill áhugamaður um pizzugerð og þrátt fyrir að eiga ekki afkastamikinn ofn býð stundum heim í pizzu. Hef ég stundað þessa iðju frá unga aldri (þegar ég fékk að skreyta pizzurnar sem smápolli) en lengstum hefur þetta bara verið gert einhvern vegin og engin fastmótuð uppskrift notuð. Undir lok síðasta árs ákvað ég svo að punkta niður uppskriftina og fastmóta hana. Hún átti nú að vera opinberuð í byrjun árs en ég fór í smá mælingar og prófanir sem enduðu á því að ég gerði nokkrar einfaldanir á henni og þróaði yfir árið (alltaf gott að hafa ástæðu til að elda pizzur í tíma og ótíma ;). Bjór og flóknari hveitiblöndur hafa verið teknar út, en þó í raun sé nóg að nota ger, vatn og hveiti þá fékk ekki allt að fjúka í þessari útgáfu sem ég vil hafa til staðar í botninum.
Þannig að í tilefni síðasta dags ársins ætla ég að skella fyrstu útgáfunni í loftið. Set hana fram þannig að öll innihaldsefni eru í grömmum þ.s. það auðveldar mér til muna mælingar með eldhúsvog. Auk þess er mjög auðvelt að stilla fjölda deiga (pizza) sem á að búa til en það miðast allt við að eldað sé í rauðum pizzaborðofni. Aðferðin er nokkuð vel útskýrð en það er ýmislegt sem er skilið eftir óljóst enda er það breytilegt í hvert skipti, s.s. lengd og hiti við hefingu, tími við hnoðun...
Þ.s. nafnagiftir eru með ofarlega í huga þessa dagana ætla ég að nefna þessa útgáfu löglegu karlmannsnafninu "Gamli Gamli" þ.s. þetta er fyrsta (og verður því einhverntíman elsta) uppskriftin ;)
Hér er pizzauppskriftin mín og mun hún ávallt vera aðgengileg á http://p.logihelgu.com/ en þegar nýrri uppskriftir líta dagsins ljós munu þær birtast þarna en hægt að fletta upp gömlum...en það er eitt af mjög mörgu sem hugsanlega kemur þarna inn =)

Gamli Gamli - Pizzabotn Loga

sunnudagur, desember 19, 2010

Barn er oss fætt

Velkominn í heiminn...


Skruppum uppá fæðingardeild í gær og stuttu síðar mætti drengurinn, 14 merkur og 52 cm. Allt þetta þetta fljótt og vel og hafa það allir mjög gott. Gistum nóttina á Hreiðrinu og fórum svo heim morguninn eftir.

Hérna eru nokkrar myndir af kappanum. Velkominn í heiminn "stóri" strákur (en hann er stærsta barnið okkar...og þau verða ekki fleiri ;)

laugardagur, desember 18, 2010

Jólakortin tilbúin

Þá er búið að hanna/prenta jólakortin. Í fyrra tókst mér að fá í gegn mjög gott tilboð á prentuninni. En það var nú bara vegna misskilnings hjá þeim sem prentaði þau fyrir mig, en kostaði mig samt sem áður þras og tvær ferðir þ.s. fyrri prentunin klikkaði hjá þeim. Ákvað því að gera þetta sjálfur í ár. Hef verið með prentara í "geymslu" í nokkur ár og þegar ég ætlaði að kaupa ný blekhylki í hann sá ég að það var ódýrara að kaupa nýjan prentara. Sló til að gera það þ.s. sá prentari gat prentað á allt blaðið án þess að skilja eftir hvítan ramma. Prentarinn var ódýrari en blekið, og þó svo að ekki sé nema 50% fylling á bleki sem fylgir nýjum prenturum dugði það til að prenta jólakortin í ár, enda voru þau hönnuð til að vera "blekvæn" m.v. það sem maður gerir oft á þessum tíma ;)



Nú er bara að gefa sér kvöldstund í að skrifa þau...líklegast verður nú ekki mikið um rauðvín yfir þessum skrifum í ár þ.s. það gæti þurft að skjótast fyrirvaralaust á fæðingardeildina ;)

laugardagur, desember 11, 2010

Jólatréið fellt

Fórum í jólatrésleiðangur með Degi og co. (+ Rakel) uppí Katlagil. Þar var nú reyndar meiri órækt heldur en skógrækt en eftir göngutúr upp hlíðina fann Dagur fínasta blágreni sem hann fékk dygga hjálp við frá smáfólkinu að fella. Við enduðum svo á að finna (að því við teljum vera) rauðgreni í fínni stærð sem ætti að verða ágætis jólatré þegar búið verður að fylla það af skrauti. Það eina sem vantaði var að hafa snjó...en það var reyndar ágætt að hafa ekki meiri kulda ;)


Bjartur með hanagal, Sunna hermir og Dagný hristir hausinn =)

laugardagur, desember 04, 2010

Jóladagatal Krílanna 2010

Ekki nóg með að Bína hafi fundið tíma (og orku) til að gera dagatal handa mér þá stóð hún líka fyrir fjölskyldudagatali.

Hún er algjört yndi. Á hverjum morgni les Bjartur hvað á að gera og þegar allir eru komnir heim er sameinast í að gera það. Afskaplega skemmtileg að hafa svona sem tryggir að allir geri eitthvað saman =)

fimmtudagur, nóvember 25, 2010

Bestu jól ever?

Bína gaf mér jóladagatal...24 pakkar...einn á dag:

...og hún mældi með að geyma þetta á köldum stað ;) Ég hef aldrei verið jafn spenntur fyrir jólunum...þetta verða klárlega bestu jólin ever ;)

föstudagur, nóvember 05, 2010

Lucky Luke

Úrslitakvöldið í 2. mótinu hjá Bjólfi var kvöld... Mótið fór ekki vel af stað hjá mér en á fyrsta kvöldi var ég 3ji maður út og var ekki vel settur þ.s. það voru bara 3 kvöld. Annað kvöldið gekk mun betur og með sigri náði að komast uppí annað sætið, en þó 4 stigum á eftir Iðnaðarmanninum. Í kvöld byrjaði kvöldið á því að ég tvöfaldaði mig fljótlega á kostnað Elvis, sem var einstaklega óheppinn og endaði með að hann kvaddi þennan heim. Eftir það var ég nokkuð vel settur og þegar Massinn fékk A10 fulla húsið var ég heldur betur vel settur með AQ fulla húsið og náði að byggja vel í haginn fyrir lokin. 99 gerði sig tvisvar, í fyrra skiptið hærra par en floppspil og græddi vel á því en í seinna skiptið voru níurnar ekki sigurstranglegar móti drollunum hans Eika. En vitir menn, nía í turn gerði út um Eika og var þá staðan orðin mjög vænlega fyrir endaleikinn. Ég og Massinn áttum smá rimmu undir lokin sem ég hafði svo fyrir rest og tryggði mér þannig efsta sætið í mótinu. Ekki slæmt að ná að stela efsta sætinu , en á fyrsta mótinu stalst ég í fyrsta sætið með að jafna Bósa að stigum þó svo að ég mætti bara á 3 af 4 kvöldum í því móti.

Bjólfur poker club
Lomminn á mikið lof skilið fyrir frábært utanumhald. Þetta er komið aðeins lengra en 5 spila pókerkvöld sem reglulega voru tekin yfir bjór fyrir aldamótin og á hann heiðurinn af þessum félagsskap.

fimmtudagur, október 21, 2010

SSSól 4 ára

Sunna Sæta Sól varð loksins 4 ára í dag. Hún er búin að bíða allt árið eftir þessum degi. Hún er alltaf jafn yndisleg þessi litla elska eins og hún hefur alltaf verið frá því hún kom. Hún var vakin með gjöfum og fékk svo að baka köku í leikskólanum og ráða svoldið. Um kvöldið fékk hún að ráða hvað væri í matinn...ömmu&afa var boðið í súrmjólk með cherios (sem er uppáhaldið þessa dagana). Ekki fengu/þurftu nú allir að borða afmælismatinn hennar ;)
Yndislegt að eiga svona góða stelpu og hafa hana hjá sér...

mánudagur, október 11, 2010

Miss D tveggja

Finnst svo stutt síðan Dagný mætti að það er merkilegt að hún er orðin 2ja ára og verðandi stóra systir. Í tilefni afmælisins var hún vakin með gjöfum: teikniborð frá krökkunum og púðastól frá foreldrunum. Hún var hin kátasta með allt, enda ekki við öðru að búast frá henni; hún er alltaf svo hress og kát. Þó hún sé lítilli 2ja ára heldur hún að hún sé 4 ára verðandi 6 ára. Það hefur sína kosti að alast upp með stórum systkinum og hluti af uppeldi hennar hefur verið frá Sunnu. Alveg magnað hvað þær eru góðar vinkonur og sú yngri apar allt eftir hinni. Þannig að það mætti segja að hamingjan skíni af henni alla daga...í það minnsta er alltaf mikið líf í kringum hana og hún alltaf til í að lífga uppá partýið =)

sunnudagur, október 10, 2010

Hræðilegur matur, hræðilegur pabbi

Byrjum daginn á því að fara í sund og vorum snemma á ferðinni, afskaplega gott hvað við vorum snemma komin út úr húsi og langt síðan við höfum farið í sund. Það bara varð að nýta veðrið í eitthvað annað en að taka til ;)
Síðan var ákveðið að fara í afmælisgjafaleiðangur og eftir búðaráp voru allir orðnir svangir þannig að við fórum á ónefndan hamborgarastað (sem við skulum kalla M). Förum að jafnaði bara einu sinni á ári þangað og ég ætla að reyna að lofa mér því að fara aldrei aftur þangað, maturinn smakkaðist ágætilega til að byrja með en þegar máltíðinni var lokið var þetta bara hræðilegt. Sem betur fer vildu krakkarnir bara ís, þau höfðu meira vit á matnum en við ;)
Fórum svo í leikfangabúð þ.s. ég fann einhverja skrímslagrímu og setti upp. Gekk svo í áttina að Dagný sem átti sér einskis ills von. Hún leit á mig og svona 2 sekúndum seinna umbreyttist andlit hennar í skelfingarsvip og ótta. Hún var ekki ánægð með pabba sinn að vera að hrekkja sig svona. Óskaplega erfitt að eiga svona hræðilegan pabba og hún vildi ekki ræða þetta. En þrátt fyrir hræðilegan mat og hræðilegan pabba tókst okkur að kaupa afmælisgjafir fyrir öll afmæli í október. Það voru víst 7 gjafir sem við komum heim með, og létta buddu ;)

miðvikudagur, október 06, 2010

Gott er að hafa mikinn mat, og marga helgidaga

Við héldum uppá 3 ára trúlofunarafmælið í kvöld með því að fara út að borða á....jú, jú Hereford eins og hefur gerst stöku sinnum í gegnum árin. Eins og oft áður fékk Bína að keyra heim þ.s. ég hafði nóg með mig eftir matinn eins og svo oft áður ;)

sunnudagur, október 03, 2010

Ungababbi

Afskapleg góð helgi er nú að renna sitt skeið. Bína fór með vinkonunum í bústað og var ég því einn heima með krakkana. Föstudagurinn var í rólegheitum heima, allir elduðu pizzur og síðan var kósýkvöld með tilheyrandi sjónvarpsglápi og meðlæti =)
Á laugardeginum byrjaði dagskráin snemma. Ballet sýning hjá Sunnu og voru allir rosalega duglegir. Bjartur hjálpaði til við myndatökuna og Dagný sat framan af stillt og horði á Sunnu fylgja öllum fyrirmælum Guðbjargar balletkennara með sóma. Þegar tíminn var hálfnaður gafst Dagný uppá að sitja kyrr og fór og tók þátt í dansinum. Verður að segjast að hún stóð sig merkilega vel og fylgdi systur sinni í einu og öllu.
Að sýningu lokinni var farið heim og við gæddum okkur á snúðum úr bakarínu. Dagný tók smá kríju og allir voru klæddir fyrir afmælisveislu og stóru krakkarnir máluðu sitt hvort afmæliskortið. Nokkrum tímum seinna vorum við mætt í 2 ára afmæli Bryjnars Arnars þar sem kökur og leikur voru í aðalatriði og gat ég spjallað svoldið við fólk þ.s. krakkarnir voru afskaplega dugleg að dunda sér. Síðan héldum við heim á leið og Böddi&Bekka komu og pössuðu svo ég gat skotist á árshátið um kvöldið.
Náði heim fyrir lok dags og höfðu þau verið góð að vanda. Þurftu nú samt að rífa sig snemma á fætur eins og alltaf er gert um helgar (en aldrei á virkum dögum) þannig að aðeins bar á þreytu hjá 3ja barna föðurnum í dag ;)

föstudagur, október 01, 2010

miðvikudagur, september 01, 2010

Helgama

Helgamma var hjá okkur í nokkra daga og var það afskaplega notalegt. Krakkarnir voru hæstánægðir með hafa hana til að leika við og notalegt fyrir Bjart að komast snemma heim úr skólanum með hana heima. Hún og Bragi voru í Svíþjóð og við heimkomu fór Bragi norður að veiða og Helga greip tækifærið og stoppaði nokkra daga, enda ekki annað hægt þegar það er herbergi sem heitir Helgömmuherbergi ;)
Þegar þau komu að utan sýndi hún mér flugmiðann sinn þar sem stóð á "Helgama" og tók mig smá stund að fatta að þetta var auðvitað nafið hennar: Helga Martina. Ég hafði aldrei hugsað út í þetta hvað Helgamma nafnið væri nálægt nafninu hennar...skemmtilegt að uppgötva þetta svona =)

Í kvöld keyrðum við hana svo á flugvöllinn og kvöddum hana. Henni var veifað alveg frá því hún fór út í vél og þangað til að vélin fór af stað og reglulega kallað "Bless Helgamma". Sumir áttu svoldið bágt með að kveðja og horfa á eftir henni...en við verðum bara að ná henni aftur í heimsókn sem fyrst ;)

mánudagur, ágúst 30, 2010

Bjartur skólastrákur

Fyrir viku hóf Bjartur skólagöngu sína. Fyrsti dagurinn var nú bara skólasetning og annar dagurinn fundur með kennara. Þann daginn kom hann svo með mér í vinnuna og lék sér fram eftir degi og tókst svo að draga mig út í góða veðrið. Fengum okkur ís og skoðuðum Landnámssýninguna 871 sem var mjög áhugaverð. Vorum hátt í 2 tíma þarf og fengum afbragðs góða þjónustu og var ég hálf undrandi hvað safnvörðurinn sinnti okkur vel. Bjartur hafði afskaplega gaman að þessu og byrjaði strax að rukka um að koma með systur sínar og fleiri =)
En skólinn byrjaði svo á miðvikudaginn og hefur gengið mjög vel. Bjartur kann vel við sig og hefur verið svo heppinn að Svala frænka hans kemur oft á morgnanna og fylgir honum í skólann. Ekki slæmt að eiga stóra og góða frænku ;)
Merkilegt hvað hann stækkar fljótt og mér finnst nú ekki vera langt síðan ég sá hann fyrst.

föstudagur, ágúst 20, 2010

Pearl Jam tribute

Mig hefur dreymt lengi um að sjá Magna spila tónleika til heiðurs Pearl Jam. Í byrjun sumars missti ég af þeim tónleikum en þeir voru endurteknir í kvöld. Leit nú reyndar ekki út fyrir að ég kæmist en það reddaðist allt að lokum og þökk sé fleirum áhugasömum drattaðist ég niður i miðbæ Reykjavíkur uppúr miðnætti.
Missti bara af 2 lögum og tónleikarnir voru alveg magnaðir. Þó ég muni nú líklega seint lenda á tónleikum sem slá út Megadeth þá voru þetta með þeim betri sem ég hef séð/heyrt enda ekki leiðinlegt að heyra góð lög í góðum flutningi. Reyndar hafði ég nú alltaf ætlað að spila með Magna á svona tónleikum, en að var nú bara betra að fá að sitja út í sal og njóta =)

laugardagur, ágúst 14, 2010

Nördahittingur

Það er amk árlega sem við hittumst nokkrir "gamlir" Vefsýnarnördar og yfirleitt er það til að svala nördanum innra með okkur. Bjór og tölvuleikur er yfirleitt það sem ræður kvöldinu ásamt fuðurlegu spjalli. root er nýfluttur aftur til landsins eftir að hafa stundað akademíuna erlendis og var upplagt að taka hitting í tilefni komu hans. Svo mikill var nú kjaftagangurinn á okkur að ekkert varð úr nördaleikjum en enduðum í pókerspili langt fram á nótt. Smu tók fyrsta pottinn en ég hrökk í gang eftir það og þrátt fyrir höfðinglegar móttökur og gestristni tókst Fuji ekki að hafa sigur. Alltaf gott að hitta góða nörda og eiga með þeim góða kvöldstund...he he.

föstudagur, ágúst 06, 2010

Afréttarinn 2010

Linda & Siggi buðu í Afréttarann 2010 helgina eftir verslunarmannahelgi. Ekki var þó verið að halda uppá fyrri helgi, meira verið að fagna að þau væru bæði komin á fertugsaldurinn. Alltaf gaman að hitta hópinn, en eins og oft náðu ekki allir að mæta. Það var samt fullt af fólki, þekkti nú fæsta nema vinkonuhópinn og maka, en það var flæðandi af áfengi og hljómsveit, þannig að það var allt eins og best var á kosið. Eftir nokkra bjóra var ég orðinn vel "afréttaður" þótt ég hafi nú ekki verið á því sjálfur og var þá haldið heim. Einhver sönnunargögn má finna sem talin voru birtingarhæf ;)

miðvikudagur, ágúst 04, 2010

Bjólfur poker club logo

Pókerklúbbinn vantaði logo og ég var beðinn um að kokka eitthvað saman. Datt strax í hug að hafa stafina ofan á útlinum Bjólfs og hripaði niður hugmyndina.

Komst í að gera þetta einhverju seinna, skellti upp nokkrum tillögum og efir nokka klukkutíma og skjót/skýr svör frá Lommanum þá var niðurstaðan ljós:
Þannig að virðulegi klúbburinn er kominn með logo fyrir veturinn og gaman að sjá hvernig rissuhugmyndin varð að veruleika...maður gerir of lítið af því að skjalfesta allt sem maður tekur sér fyrir hendur.

þriðjudagur, ágúst 03, 2010

Sumarfrí 2010

Í ár átti að taka lífinu með ró í bænum og fyrir austan. Fasteignamálin fengu einnig smá orku sem skilaði sér í því að við fluttum en varð einnig til þess að við komumst ekki austur. Þótti það nú verra þ.s. allir voru mjög spenntir að kíkja til Helgömmu en það verður bara að bíða að sinni og nú getur hún bara komið og gist =)

Föstudagurinn 2. júlí
Bjartur kvaddi leikskólann og síðan byrjaði fríið á bústað í Brekkuskógi. Böddi og Bekka voru komin í frí þannig að þau gátu komið með. Þau voru á undan okkur uppí bústað og gátu varað okkur við að það væri kolagrill þannig að við gátum stoppað í búð og keypt kol.

Laugardagurinn 3. júlí
Þessi dagur var sannkallaður pottadagur hjá Dagný. Henni tókst að fara 3 ferðar yfir daginn í heita pottinn og alltaf fann hún fólk til að fara með sér út enda þykir henni ekki leiðinlegt í pottinum frekar en öðrum :) Fórum í búðarferð í Selfoss og skelltum nauti á grillið um kvöldið.

Sunndagurinn 4. júlí
Fórum í kaffi í Karrakot hjá Möllu og Þresti. Síðar um daginn komu Valgeir & Þyri. Einnig bættust við Nonni & Berglind & co. Bjartur var hæstánægður að fá strákana í heimsókn í bústaðinn og voru þeir Emil Gauti alveg týndir í leikjum.

Mánudagurinn 5. júlí
Gestirnir heldu heim á leið og við héldum bara að mest leiti til í bústaðnum. Kíktum í heitu pottarnir uppí þjónustumiðstöð og þar var bara gaman, hefðum þurft að fatta að fara þangað á meðan fleiri voru í bústaðnum. Eftir pottana í blíðviðri var farið að tröllaleira og boðið uppá Sóða Jóa (Sloppy Joes) í kvöldmat.

Þrijudagurinn 6. júlí
Vaknaði snemma með Sunnu og sótti Dagný sem var búin að vera að biðla til móður sinnar að taka sig uppúr barnarúminu í smá tíma. Dagný vaknar iðulega snemma og Sunna rífur sig upp um leið og hún heyrir í henni. Ekki alveg jafn mikil morgunkúarar og Bjartur.
Smá búðarferð inná Laugavatn. Stoppuðum á leikvelli en flúðum fljótlega vegna mýfluguárása.

Miðvikudagurinn 7. júlí
Fórum í smá ferð inná Slakka þar sem krakkarnir fengu að halda á kanínum, kettlingum, músum ásamt því að skoða fleiri dýr og svæðið. Smá stopp í Geysi í hinu mesta roki og vorum við í mesta basli með að komast upp "brekkuna". Auðveldara var þó að fara niður þótt að sumir fuku bara beint á andlitið.

Fimmtudagurinn 8. júlí
Ákváðum að taka heimferðina degi fyrr þ.s. við nenntum ekki að þrífa á föstudagsmorgni. Keyrðum framhjá Þingvöllum en þ.s. krakkarnir voru allir sofandi stoppuðum við ekkert þar í þetta sinn.

Föstudagurinn 9. júlí
Fyrir hádegi var ég á einhverju fasteignastússi þ.s. frjósemisíbúðin hefur nú loksins verið seld og við á leiðinni í stærra. Glampandi sól og ákveðið að gera eitthvað. Valið stóð á milli Fjölskyldu- og Húsdýragarðsins eða Nauthólsvíkur. Ég var fylgjandi þess síðara og fékk mínu fram við mis góðar undirtektir hjá yngra fólkinu. Allir voru þó sáttir á ströndinni í dag. Létu nú pabba um að kíkja í sjóinn, enda er hann full kaldur fyrir óeinangraða krakka. Ég tók 2 stuttar ferðir til að kæla mig niður og alltaf hressandi, svona fyrir utan saltbragðið. En unga fólkið, og sérstaklega Dagný, voru hæstánægð með að sulla í heitapottinum allan daginn. Allir vel útiteknir um eftir góðan dag á ströndinni og héldum til Bödda&Bekku í grill um kvöldið þ.s. eldri krakkarnir fengu að gista þ.s. við þykjumst ætla að taka smá til hendinni á morgun og ná góðri Sorpuferð.
Náði cash game með Bjólfi um kvöldið og var alveg fram á nótt. Náði að þrefalda það sem ég kom með og var reyndar nálægt því að klára allan þann pening sem ég tók með mér...passa alveg uppá að vera ekkert að spila fyrir meira en mér finnst of mikið (sem er mjög lítið ;)

Laugardagurinn 10. júlí
Tiltekt fram eftir degi. Náðum að taka búr og þvottahúsið í gegn, sem og barnaherbergið og ýmislegt. Smá sorpuferð með mest lítið, bara sem var drasl í búrinu. Fínt að nýta rigningardag í svona =) Maður er bara orðinn spenntur fyrir að komast í "nýtt".

Sunnudagurinn 11. júlí
Fjölskyldu- og húsdýragarðurinn var nýttur í góðviðrinu. Veðrið var hrikalega gott. Sofnaði hjá skipinu í hitanum. Afskaplega notalegt og magnað hvað þessi börn eru orðin stór og sjálfbjarga að dunda sér. Bjartur hitti Andrew vin sinn og þeir voru á fullu að leika.

Mánudagurinn 12. júlí
Íbúðastúss gegnum síma og email...alveg orðinn leiður á þessu ;)
Bína fór í klippingu og mæðraskoðun þannig að við fórum á leikskólaleikvöllinn og í búð, svo heim að borða. Þegar allir voru búnir að borða var klukkan hálf 1 og Dagný sofnaði við matarborðið =)
Skelltum okkur í Hellisgerði. Reyndar dró ský fyrir sólu þegar við mættum þangað og varð svoldið svalt, en eftir 10m var allt orðið heiðskýrt og bongóblíða tók við. Lágum þar og sleiktum sólina fram eftir degi.

Þriðjudagurinn 13. júlí
Morgunkaffi á Völlunum. Hangið heima í rigningunni, krakkarnir fóru út að leika.

Miðvikudagurinn 14. júlí
Enn verið að stússast í fasteignamálum. Merkilegt mikið af pappír og fleira sem þarf að flytja milli landshluta. Fórum í Fjölskyldu- og Húsdýragarðinn í boði Atlantsolíu. Alltaf gaman þar.

Fimmtudagurinn 15. júlí
Sleiktum sólina út í garði. Skrapp með stelpunum í fjöru/strandferð.

Föstudagurinn 16. júlí
Enn heldur blíðan áfram. Fer að verða svoldið þreytandi...nei, mætti bara koma einn rigningardagur á milli, svona fyrir blómin og tiltekt ;)
D var heit í nótt og var haldið inni í dag. Lék samt á alls oddi eins og vanalega, ótrúlegt hvað þessi stelpa er skemmtileg, hún er bara eitt stórt bíó.
Fór með eldri krakkana í sund í Álftaneslaug. Heilmikið stuð í öldulauginni og rennibrautin er nú ekki leiðinleg. S vildi ekki fara með í fyrstu ferð þannig að við strákarnir vorum einir. Þegar ég kom niður vissi ég ekki hvað sneri upp og niður og var góðan tíma að ná áttum í litlu lauginni sem tekur við eftir rennibrautina. Síðan samþykkti S að koma með og voru þær ferðir mun hægari en alveg jafn skemmtilegar =)
Skruppum í Bónus á Völlunum (því þar fær maður enn kassana utan af börnunum sem eru langt bestir því þeir þola svo mikið) og fengum svo B&B í old school pizzu um kvöldið.

Laugardagurinn 17. júlí
DSL Skutluðum Degi og Sól að sækja bílinn sinn inní HF og D sofnaði, var að spjalla við Sunnu um að það væru bara 2 vakandi þegar heyrist í D "Ég er vöknuð".
Nauthólsvík með Degi og Ingu og Sól. Rjómablóða allan daginn, létum okkur svo hverfa þegar að góð ský mættu á svæðið en þau hurfu nú fljótt og sólin baðaði bæinn áfram.
Þau komu svo í kjúlla um kvöldið.

Sunnudagurinn 18. júlí
Blíðan heldur áfram. Garðurinn var bara tekinn á blíðviðrið í dag. Það var ekki ský að sjá í allan dag og hitinn vel yfir 20° allan daginn. Tókum fram gúmmíbátinn og fylltum af vatni og fleira til að blása upp var leikið með út í garði.

Mánudagurinn 19. júlí
Næstum alveg jafn gott veður og í gær. Kíktum aftur í Naut. og mundum eftir gúmmíbátnum í þetta skiptið. Það var rosalega gaman að kíkja með krakkana út á bát. Fyrst var Sunna ein með mér og Dagný bættist svo við og fannst þetta alveg viðurstyggilega fyndið. Við feðgar fórum svo í góða ferð út fyrir víkina. Ætluðum að kíkja á pramma en brjálaður hettumávur var með unga á honum og hleypti okkur ekki uppá hann. B kíkti uppá stóra prammann og síðan dóluðum við um og fylgdumst með hettumávunum stinga sér og veiða síli handa unganum. Afskaplega notalegt og fullt af fólki á ströndinni.

Þriðjudagurinn 20. júlí
MU með Monsa og co. Keypti árskort, á ábyggilega eftir að nýta það í vetur líka með krakkaskarann, þannig að það er um að gera að prófa þetta og þeim finnst miklu meira gaman að geta farið aftur og aftur í tækin, sérstaklega þegar það er ekki stappað í garðinum að geta hoppað milli tækja án þess að þurfa að bíða í röð.
Ætluðum svo á Fabrikkuna en fórum bara á Eldsmiðjuna.

Miðvikudagurinn 21. júlí
Fínasta veður, sól og blíða þannig að það var tekin Nauthólsvíkin með Monsa og co. Vorum mætt fyrir hádegi og entumst reyndar ekki nema í nokkra tíma. Hallur afi heilsaði uppá okkur, hann kom auga á mig við grillið þegar hann var að horfa yfir víkina. Síðan var bara tekið sjósund með Monsa og var að leika við krakkana í víkinni.

Fimmtudagurinn 22. júlí
Skrifuðum undir fasteignakaup. Loksins er sá áfangi frá og fáum við í síðasta lagi afhent fyrsta laugardag í Ágúst en vonandi fyrr. Um kvöldið vorum við að tala við Helgömmu í tövunni þegar að Dagný hoppar yfir alla í sófanum. Hún er svo mikill villingur, enda var hún hálf drusluleg (sem og aðrir) eftir þetta hopp.

Föstudagurinn 23. júí
Ætluðum í sund en snerist í hellidembu og rok þannig að það var bara hangið heima. Þrifið og elduð skúffukaka, svo komu Monsi og co í heimsókn í pizzu og sá sem er að taka íbúðina okkar uppí kom að skoða hana, svona til að staðfesta að hún væri í samræmi við myndirnar. Hann átti von á að þau myndu afhenda sína innan nokkurra daga þannig að við flytjum vonandi fyrr en seinna ;) Fyllti nokkra kassa af drasli, er að verða búinn að fylla geymsluna =)

Laugardagurinn 24. júlí
Álftanessundlaugin með Monsa og co. Inception um kvöldið, vorum í vandræðum með pössun þegar að Dagur og co komu til bjargar og pössuðu farm á nótt (því myndir var í lengra lagi).

Sunnudagurinn 25. júlí
Pakkaði í nokkra kassa. Hálf lítið sofinn þ.s. D vaknar allaf á "réttum" tíma. Smá göngutúr og pizza um kvöldið og svo sjónvarpsgláp. Bjartur fór með Binna í stólnum sem hann fékk í gær með Degi & Ingu. Hann var búinn að vera mjög spenntur að fá stólinn til að geta tekið Binna með á hjólinu, enda er hann afskaplega góður við Binna sinn og hugsar vel um hann.

Mánudagurinn 26. júlí
Dagný fór með Svölu í göngutúr, kaka var elduð og ég fór með Sunnu í búðir (kassaleiðangur).

Þriðjudagurinn 27. júlí
Pakk, pakk, pakk...
Ég og Bjartur fórum í Sundhöll Reykjavíkur. Ekki málið f. hann að hoppa af stóra stökkbrettinu og gerði það nokkrum sinnum og fannst það bara gaman. Hvorki nýlegasta né hreinlegasta sundlaugin en skemmtilegt að fara á stökkbretti og kafa djúpt.

Miðvikudagurinn 28. júlí
Aftur komin bongó blíða, krakkarnir út að leika og ég tók til og var að pakka. Fengum geymsluna á Hjallabraut 35, gott að ná að byrja að flytja. RL plastkassarnir eru snilld, þótt ég eigi nú meira en 50 þá finnst mér vanta nokkra í viðbót...kannski ég tæmi nú bara nokkra í staðin.

Fimmtudagurinn 29. júlí
Flutningar, geymslan er að verða tóm. Fengum rosalega góða súpu hjá Bekku&Bödda um kvöldið.
Verður snilld næst þegar maður flytur að eiga stóra krakka sem hjálpa til, og sjá sjálf um sitt dót =)

Föstudagurinn 30. júlí
Fengum afhent, byrjað að sparsla og gera tilbúið f. málningu.

Laugardagurinn 31. júlí
Málað í allan dag (og þó ekki allt klárað). Böddi reddaði alveg að það náðist að mála svona mikið. Ég rétt náði að fara á undan honum og líma meðfram og leggja á gólfin. Um kvöldið kláraði ég svo að mála þannig að hægt væri að flytja.

Sunnudagurinn 1. ágúst
Flutningar í fínu veðri. Dagur, Inga & Sól og Gauti & Svava hjálpuðu til. Algjör snilld að fá þá bræður og fjölskyldur og frábært að Dagur kom með kerru og einnig var troðið í bílinn hjá Gauta. Var líka með sendibílinn frá Bödda þannig að þetta voru nokkrar ferðir sem við bræður tókum, enda var það allt í góðu þ.s. það var stutt að fara. Tókst að flytja allt á 6 tímum og svo pizza á nýjum stað um kvöldið.
Fyrsta nóttin í nýrri íbúð var bara afskaplega notaleg, gott að ná að klára þetta allt á 3 dögum.

Mánudagurinn 2. ágúst
Tiltekt á Hjallabraut 23. Þegar ég var svo að taka niður ljósaseríurnar endaði ég á að slá út rafmagninu og öryggin voru búin...hef ætlað að kaupa ný til að eiga niðri, fínt að gera það núna áður en ég fer.

Þriðjudagurinn 3. ágúst
Fríið búið og byrjaði aftur að vinna í dag. Keypti öryggi og skilaði Hjallabraut 23 til nýrra eigenda um kvöldið.



Myndir úr sumarfrínu 2010

föstudagur, júlí 09, 2010

Harpan

Keyrði framhjá Hörpunni í dag og "þetta" leit út fyrir að vera krumpaður pakki sem væri við það að hrynja...skulum vona að endanlega útkoman verði betri ;)

miðvikudagur, júní 30, 2010

Trampólín

Var að bera búslóðina með Degi bróður um daginn ásamt góðu fólki og þegar allt var að verða komið var trampólínið eftir. Það varð úr að ég fengi það lánað og var því láni tekið afskaplega vel á heimilinu. Trampólínið var komið upp um kvöldið og strax byrjað að hoppa. Síðan var reynt að kíkja á það færi gafst næstu daga. Krakkarnir í blokkinni hafa ekki látið sig vanta og augljóst að sumir hafa ekkert annað að gera en að hoppa allan daginn ;) Stundum þurfti nú að segja þeim að hætta þessu þegar klukkan var orðin full margt að mati gamla mannsins og þegar verðandi unglingar voru mættir á svæðið með tilheyrandi látum var því umsvifalaust lokað. Í dag pakkaði ég því saman þ.s. útlit er fyrir rigningu næstu daga. Undrandi ungmenni hafa sést í garðinum seinnipartinn. Hafa þau horft vonleysislega á staðinn þar sem trampólínið var og ráfað um í von að þetta sé bara martröð og að þau vakni fljótlega og trampólínið sé á sínum stað. Sumir hafa meira að segja gert sér ferð hingað upp og spurt hvað hafi orðið um það =)
Annars þætti mér nú gaman að vita hvort ekki sé til eitthvað alíslenskt og kjánalegt orð yfir "trampólin"?

þriðjudagur, júní 22, 2010

Sumarhátíð Víðivalla

Frábært veður og sumarhátíðin var með eindæmum góð í alla staði í ár. Það er frábært fólk í þessu ráði og þessi leikskóli er alveg yndislegur. Ekkert nema gott um daginn að segja, allir saddir og sælir og enginn að væla þótt að Pollapönk hefði sungið nokkrum sinnum Vælubílinn =)

Hér má sjá systurnar og glittir í gamla á bakvið á grillinu ;)

Lán í óláni

Var með mánaðargamla tölvu meðferðis í dag þ.s. ég þurfti að fara með hana í tékk því það var galli í skjánum sem var að há mér. Þeir áttu nú ekki jafn auðvelt með að sjá hvað ég var að tala um þegar ég mætti með hana í búðina þannig að ég var bara settur á biðlista uppá að koma tölvunni í skoðun. Þegar ég fór svo aftur til vinnu lagði ég í gjaldskylt bílastæði rétt hjá Landakoti en gleymdi tölvunni þ.s. hún var í svörtum bakpoka og á gólfinu farþegamegin.
Þegar ég kem svo aftur í bílinn eftir vinnu er hliðarglugginn brotinn og taskan horfin. Augljóslega vera nógu mikill friður þarna til að athafna sig. Við tók að hringja í lögguna, tryggingar og reyna að redda viðgerð.

Daginn eftir var bíllinn sem nýr og kostaði nú minna en ég átti von á. Tryggingar borguðu tölvuna, þannig að ég hafði bara mist töskuna og aðra tölvuhluti sem voru í töskunni en enginn stórskaði af þeim missi. Þegar ég var að fara að panta nýja tölvu rak ég augu alveg eins notaða vél á netinu sem hafði verið sett til sölu daginn áður en minni var stolið. Sá var staðsettur í Hafnarfirði og borgaði ég uppsett verð hjá honum þannig að tryggingarnar dugðu. Tókst einnig að endurheimta flestar ljósmyndir af minniskortunum í myndavélunum með einhverjum galdratólum sem geta sótt eyddar myndir aftur. Þannig að ég tapaði ekki nema smá vinnu og tiltekt í tölvunni, en losnaði við gallaða skjáinn ;)

föstudagur, júní 11, 2010

Pókerklúbburinn Bjólfur

Lokakvöldið í fyrsta pókermóti Bjólfs var í kvöld. Ég hafði nú reyndar ætlað mér í ferð með góðu fólki fyrr um daginn og fram á kvöld, en þ.s. ekki tókst að redda pössun var ég upptekinn þegar sú ferð hófst. Áhuginn á að mæta var alveg til staðar þrátt fyrir að það væri nokkuð fyrirséð að Bósi myndi hirða lokapot mótaraðarinnar, þá var samt hægt að spila uppá pott kvöldsins. 2 aukamenn mættu og byrjað var að spila og þegar að búið var að loka fyrir re-buy þá datt forystumaðurinn út þannig að opið var fyrir 3 að slá hann út auk þess sem ég gat jafnað hann. Með þokkalegri spilamennsku og örlítilli heppni tókst mér að vinna kvöldið og náði því potti kvöldsins sem og hálfum lokapottinum. Skemmtilegt að ná að komast upp þrátt fyrir að hafa misst af fyrsta kvöldinu og var því bara á 3 kvöldum af 4. En það er alltaf gaman að taka póker og ekki verra ef maður vinnur ;)

sunnudagur, júní 06, 2010

Fjölskyldudagur í Selvík

Fjölskyldudagur í Selvík var í dag hjá starfsmannafélaginu. Það eru komin þónokkur ár síðan ég fór í Selvík með Halli&Sæunni og var það algjör paradís fyrir mig og Hall bróður að geta hlaupið um svæðið og ekki síst að geta farið út á bátana. Í minningunni var reyndar eyjan rétt fyrir utan brygguna þ.s. ég man að við gerðum okkur ferðir þangað til að skoða hana. Þegar ég sá nú hvað hún var langt í burtu brá mér heldur, ég hafði einhvernveginn frekar átt von á að hún yðri enn nær, en hún virkaði reyndar enn minni þ.s. hún var svo óskaplega langt í burtu. Þannig að þetta hefur verið ágætis ferðalag á sínum tíma hjá okkur bræðrum. Það verður gaman að geta einhverntíman verði þarna að sumri til með krakkana...en maður verður víst að eiga nóg af punktum til að fá sumarútlutunun, þannig að háannatíminn verður bara að bíða betri tíma.
En dagurinn var afskaplega góður, nóg var að borða, skemmtiatriði, hoppukastali o.fl. Minigolfið átti nú mestan áhuga hjá þeim stærri en Dagný vildi bara vaða og varð alveg hundfúl ef hún var tekin uppúr fjörborðinu. Veðrið var svo gott að við vorum orðin uppgefin eftir nokkra tíma og heldum aftur heim, södd og sæl eftir góðan dag.

laugardagur, maí 29, 2010

Faust

Þessi leiksýning var alveg við mitt hæfi. Drungalegir tónar, loftfimleikar, djöflar og púkar í bland við leit að hamingju. Hilmir Snær fannst mér sérstaklega koma að óvart og ég er ekki viss um að ég hefði þekkt hann ef ég hefði ekki vitað að hann væri í sýningunni. Verð að mæla með þessari sýningu...það eina sem vantaði að hún væri lengri ;)

Krakkarnir fengu að kíkja til Möllu&Þrastar á meðan og voru hæstánægð með að fá að fara í pottinn hjá þeim. Enda rjómablíða og svo endaði dagurinn með grillveislu og Eurovision á Sævanginum.

fimmtudagur, maí 27, 2010

Fyrsta útskriftin

Bjartur útskrifaðist í dag af leikskólanum. Salurinn var fullur af stoltum foreldrum þegar Álfarnir (elstu bekkingar) héldu tónleika þ.s. þau sungu hvert lagið á fætur öðru við fögnuð áhorfenda. Síðan fengu þau útskriftarplagg og þegar allir voru byrjaði að gæða sér að kræsingum fékk hver og einn möppu með myndum, teikningum og fleiru sem þau hafa gert síðan þau byrjuðu á Víðivöllum.
Afskaplega ánægjuleg stund og gott að vita hvað vel er haldið utan um börnin á leikskólanum.
Nú er það bara sumarfrí í júlí og svo byrjar stóri strákurinn í grunnskóla í ágúst...magnað hvað manni finnst stutt síðan hann mætti á svæðið =)

Kveð fyrirmyndar fólk

Í dag fór ég í síðbúið kveðjukaffi í fyrirmyndar stofnum sem ég hef alið manninn síðasta hálfa fimmta árið, frá árbyrjun 2006, en sagði skilið við þann góða stað síðustu mánaðarmót. Það er alltaf erfitt að segja skilið við góðan stað og gott fólk og að einhverju leiti skilur maður alltaf eftir hluta af sjálfum sér. Þessi fjögur ár voru ákaflega góð og þykir mér afskaplega vænt um alla sem ég kynntist þar enda stóðum við okkur mjög vel og þau munu halda áfram að gera það án mín =) Góð orð féllu í minn garð í dag og get ég ekki annað en þakkað kærlega fyrir falleg blóm sem nú prýða stofuna, Takk kæra starfsfólk Umferðarstofu fyrir mig =)

Ástæða þess að ég skipti um vinnu er að um áramótin ákvað ég að það væri kominn tíma til að ögra sjálfum mér og gera eitthvað "nýtt". Þó ég muni nú seint segja skilið við tölvurnar þá ákvað ég að brydda uppá einhverju öðruvísi á ferilskránni og víkka sjóndeildarhringinn. Eftir stutta leit náðust samningar við Landsbankann sem ég gekk til liðs við fyrir tæpum mánuði.
Nóg er að gera það að komast inní margt sem ég hef aldrei séð áður, þannig að ég er enn meira upptekinn en áður. Mér líst vel á teymið sem ég er í, þar eru menn mikið fyrir að hreyfa sig sem mér fellur ákaflega vel. Þannig að ég er á fullu að kynnast nýju fólki, nýrri menningu, nýjum aðferðum...og líst bara vel á =)

sunnudagur, maí 02, 2010

Leikhúsfólk

Krakkarnir fengu að fara baksviðs í leikhúsið hjá Halli afa fyrir síðustu sýninguna á Oliver. Bjartur var búinn að Hall til að sýna sér sviðsmyndina þ.s. hann hafði svo gaman af síðust heimsókn í leikhúsið. Við fengum að sitja út í sal og fylgjast með söngupphitun hjá krökkunum og höfðu allir gaman af. Bjartur hafði farið með okkur áður að sjá sýninguna og hafði mestan áhuga á leikmyndinni og öllu sem finna mátti baksviðs. Stelpurnar sátu saman og voru bara augun að horfa á alla krakkana dansa og syngja.
Tvemur morgnum seinna voru þær enn syngjandi saman Ólíver, Ólíver. Spurning hvort þær verði einhverntíman syngjandi á sviði...undir stjórn stóra bróðurs ;)

laugardagur, apríl 17, 2010

Ekki eru allar ferðir til fjár

Náði að mæta í annað pókerkvöldið (af fjórum) á yfirstandandi season-i hjá pókerklúbbnum Bjólfi í gær. Það hafði fjölgað aðeins í hópnum og þurfti að spila á 2 borðum sem kom ekki að sök þ.s. Lommarinn var búinn að smíða þetta líka eðal pókerborð sem hann getur verið stoltur af. Massinn bauð heim í höllina og var aðstaðan í bílskúrnum eins og í bestu casino-um og því minnsta mál að rúma 2 borð.
Ég fékk sæti við nýja borðið sem ég get bara ekki hætt að lofsama. Samt er það víst bara prototypa og er Lomminn strax farinn að huga að nýju borði.
Náði að hanga inni fram að bubble en datt þá út þannig að ég fékk nú litið fyrir minn snúð annað en þónokkur stig í lokakeppninni. Þrátt fyrir að hafa misst af fyrsta kvöldinu er ég fyrir miðri deild af 15 leikmönnum og á alveg fræðilegan möguleika stóra pottinum...ef mér tekst að gera góða/stóra hluti á næstu 2 mótum.
Alltaf gott að hitta góða menn og taka póker =)

sunnudagur, apríl 04, 2010

Spakt skyldi elzta barn á bæ og vel vanið

Í morgun fengu allir að leita að páskaeggjunum sínum. Allir fengu vísbendingar sem leiddu á aðrar vísbendingar og á endanum fundu allir eggið sitt. Bjartur var ekki par sáttur við að hafa ekki fengið að fela eggin með mér í morgun en þ.s. ég var snemma á fótum hafði ég falið þau. En hann tók því nú bara nokkuð vel og fór í staðin að útbúa vísbendingar handa mér. Eins mikill snillingur og hann er þá átti ég nú ekki von á að hann gæti skipulagt þetta fram í tímann þannig að röðin á vísbendingunum yrði rétt. En vitir menn, hann er ekki snillingur fyrir ekki neitt ;) Þetta var ótrúlega góður vísbendingaleikur hjá honum og hérna er hægt að sjá myndir af leiknum.

Annars eru páskarnir bara yndislegir að vanda. Fórum ekki austur í ár en fengum Helgömmu og Braga suður og höfum bara verið að hafa það notalegt í bænum og skipulagið snýst aðallega um mat hér og þar ;)

sunnudagur, mars 21, 2010

Allt er það gott, sem af korni kemr


Eldsmiðjan er einn af mínum uppáhalds pizzastöðum og Pizza Rustica (Nautahakk / Pepperoni / Rjómaostur / Piparostur) hjá þeim er nýjasta uppháldið hjá mér =)

föstudagur, mars 19, 2010

Sönn hreysti veiklast ekki í mótgánginum

Ég vil óska sjálfum mér til hamingju með daginn, það er ár síðan ég var síðast skráður veikur í vinnunni og hef því ekki misst úr dag vegna veikinda núna síðasta árið. Reyndar hef ég misst úr daga vegna veikinda barna og þurft að taka frí vegna starfsdaga á leikskólanum og ekki er það svo gott að ég verði ekki veikur en ég hef ekki lengið rúmfastur síðasta árið sem er mikil framför og eru áætlanir um að verða veikindalaus á góðu róli =)

laugardagur, febrúar 27, 2010

Hún sér ei sólina fyrir henni

Ég, Sunna og Bjartur fórum í búð í dag. Bjartur var á leið í afmælisveislu og í leiðinni var Sunna með gamla duddu meðferðis. Hafði hún gefið Dagnýju allar duddurnar sínar en hélt þessari eftir og hafði verið ákveðið að nota hana til að borga fyrir Ariel dúkku sem við sáum daginn áður. Hún var hæstánægð með dúkkuna og meira en fús að láta af hendi síðustu dudduna í staðin fyrir uppáhalds prinessuna sína sem tekur nú þátt í einu og öllu með henni þessa dagana =)

föstudagur, febrúar 19, 2010

Nýir siðir koma með nýum herrum

Pönkþemað í vinnunni í dag var alveg magnað. Tiltektardagurinn fór alveg út um þúfur á öllum hæðum þegar pönkararnir af 2. hæðinni gengu berseksgang um húsið. Við héldum nú aðallega til í æfingarhúsnæðinu sem við innréttuðum utan um pönkhljómsveina okkar FOKKYOU. Allir á hæðinni voru meðlimir eða grúppíur/rótarar og var rokkað fram eftir degi. Aðalfundur starfsmannafélagsins var svo eftir vinnu þar sem hörðustu partýdýrin héldu stuðinu áfram langt fram eftir kvöldi og héldum svo innreið í bæinn...

laugardagur, febrúar 13, 2010

Góðra manna gleði er gulli betri

Árshátíð Hafnarfjarðarbæjar var í kvöld og hituðum við upp með að hitta starfsfólkið á Víðivöllum í forpartýi. Skemmtilegt fólk og allt of sjaldan sem maður hittir það. Þegar allir voru komnir í banastuð var kominn tími til að leggja land undir fót og hitta alla hina Hafnfirðingana. Rétt tókst að samala liðinu út í rútu án þess að hafa of mikil læti til að styggja nágranna partýstaðarins.
Árshátin var með eindæmum glæsileg og í þetta skiptið héldu Hafnfirðingar í útrás á Brodway í Reykjavík, ekki margir sem stunda útrás á þessum tímum sem herja á landið.
Merkilegt að ég skuldi aldrei hafa komið inná þennan stað fyrr =)

miðvikudagur, janúar 20, 2010

Sjón er sögur ríkari

Fórum á Avatar í kvöld og ég hlýt að vera kominn með sjónskekkju eða eitthvað sem er þess valdandi að ég upplifði myndina bara í tvívídd.

mánudagur, janúar 18, 2010

Hann kennir selum að synda

Við feðgar förum stundum tveir í sund. Það er afskaplega notalegt að eiga svona stóran strák og honum finnst ekki leiðinlegt að fara í sund. Enda eru það bara leikferðir þar sem hoppað er á milli busllauga, heitra potta og rennibrauta en sneiðum framhjá köldum sundlaugum. Auk þess er einangrunin ekki það mikil á litla kappanum að það sé hægt að bjóða honum uppá of mikinn kulda, sérstaklega svona á miðjum "vetri". En hann er alltaf jafn ánægður með þessar ferðir, enda fær hann að gera það sem honum sýnist og pabbinn er ekkert að skipta sér of mikið af honum og tekur bara þátt í leikjunum. Þegar pabbinn vill reyndar fara uppúr kemur nú annað hljóð í kútinn en hann fær nú yfirleitt að gera nokkra hluti áður en sundlaugin er yfirgefin og þá er hann oftast orðinn hálf þreyttur og sáttur við að komast uppúr =)

miðvikudagur, janúar 13, 2010

Samr er maðr, þótt fíngrgull fjölgi

Fór með Palla í hádegistilboð á Devitos í dag. Langt svíðan við höfum lagt leið okkar þangað, en ekki annað hægt fyrst hann var á landinu og í bænum. Við stunduðum þennan stað á hverjum laugardegi í þónokkur ár. Skammturinn er sá sami og jafn góður og áður þótt hann hafi tvöfaldast í verði síðan við fyrst byrjuðum að stunda hann. Fátt betra en góður matur með góðum ;)

sunnudagur, janúar 10, 2010

Tvist í kröppum dans

Fórum með Bjart á Ólíver Tvist og höfðum mjög gaman af. Höfðum smá áhyggjur af því að þetta væri kannski of mikið fyrir litla hjartað, en hann er nú orðinn svo stór og skilur fullkomlega að leikhús er ekki raunverulegt. Hann hringdi í afa sinn strax daginn eftir og óskaði eftir að fá að skoða sviðið, alveg heillaður eftir að hafa fengið að skoða sviðið af Kardemommubænum fyrir skemmstu hjá afa sínum.
Fínast sýning og gæti vel hugsað mér að fara aftur og sjá hina yngstu leikarana en stóru barnahlutverkunum er skipt milli tveggja. Finnst mér það helsti kostur leikhússins að bjóða uppá sömu sýninguna með mismunandi leikurum. Þá er hægt að sjá sömu sýninguna tvisvar með mismunandi túlkun mismunandi leikara.

föstudagur, janúar 08, 2010

Grasið vex

Dagný orðin leikskólastelpa og gengur bara merkilega vel að komast inní leikskólalífið =) Bína er líka byrjuð að vinna og þá eru allir í fjölskyldunni, að mér undantöldum, á sama vinnustað. Ég tek nú smá þátt í starfinu þar, svona til að gefa eitthvað til baka ;)