mánudagur, desember 24, 2007

Jólakveðja 2007

Smá jólakveðja á netinu fyrir alla tölvunörda sem eiga leið hér um ;)

sunnudagur, desember 23, 2007

Jólin nálgast

Þrátt fyrir ýmis veikindi á heimilinu hefur jólunum ekki verið frestað. Ég hafði vonast eftir nokkrum dögum til að klára það sem þurfti en mér varð ekki af þeirri ósk minni. Þannig að í gær fór ég til læknis og fékk sýklalyf sem hafa strax tekið til við að drepa allt óæskilegt o.fl. í líkamanum. Jólin eru því komin aftur á dagskrá nema að Sunna vakni með slæma hlaupabólu á Þorláksmessu eða Aðfangadag og verði alveg ómöguleg.
Með hjálp lyfja tókst að versla seinustu gjafir í dag og er næstum allt tilbúið...aukagjafir sem má sleppa og vefjólakveðjan hefur ekki enn fengið neina athygli og verður ábyggilega reddað á morgun. Hinn árlegi DVD diskur sem ég tek yfir helstu athafnir krakkana sem safna yfir árið er að vanda á eftir áætlun. Enda er það heilmikið verk sem ég hef ekki náð að klára nema yfir hátíðarfríið..svona þegar að jólin eru loksins komin og jóla-stressið líður úr manni.

miðvikudagur, desember 19, 2007

Ammæli

Ég átti víst afmæli um daginn, en það fór nú lítið fyrir því þ.s. ég var enn fyrir austan eftir jarðarförina hans pabba og flaug ekki heim fyrr en seinnipart dags. Það var afskaplega notalegt á Seyðisfirðir, allt hvítt og stillt og sjaldan hefur ég tekið eftir jafn rólegu veðri á Fjarðarheiðinni. Dúnalogn og hvítt yfir öllu án þess þó að vera of bjart til að ég fengi ofbirtu í augun...svo mikill tölvunörd :)
Það var best að koma heim og knúsa Bínu og krakkana, þótt ég væri full seint á ferðinni og næði ekki miklum tíma með þeim áður en þau litlu fóru í rúmið.
Nú er bara að sjá hvort ég láti drauminn rætast og gef mér tíma til að koma með sóloplötu fyrir næsta afmæli. Það er draumur hvers tónlistarmanns að gefa út sóloplötu og þótt ég þykist nú ekki mikill músíkant þá hef ég gaman að því að spila á gítar á kvöldin, verst bara hvað tíminn hverfur oft þegar ég geri það. En það er nú nóg annað að gera en fyrst að hljómsveitirnar mínar eru í fríi þessa dagana þá kannski nýtir maður tímann til þess að klára þetta frá áður en ég verð formlega farinn kominn á fertugsaldurinn ;)

laugardagur, desember 08, 2007

Hinsta ferðalag pabba

Á föstudagsmorgun 30. nóvember síðastliðinn lagði „pabbi“( Emil afi ) uppí sitt síðasta ferðalag. Að þessu sinni var um enga smáferð að ræða því brottfararstaður var líkami hans á Seyðisfirði en endastöðin mér alls ókunn sem og hvernig ferðahögum var háttað.

Mér var hugsað til þerra fjölmörgu ferða pabba á síðustu árum suður og hvernig alltaf hefur hið undarlegasta veður skollið á við komu hans. Ef það var ekki snjókoma eða snjóbylur, á öllum árstímum, þá mætti sú þykkasta þoka sem ég hef nokkurn tíman augum litið á þessum landshluta og engu líkara en kallinn hefði dregið Austfjarðarþokuna með sér í höfuðborgina.

Það kom því ekki að óvart að veðrið fyrir austan var stormur & stórbylur og lágu allar samgöngur niðri á svæðinu og ekkert var flogið um allt land því pabbi var á ferðinni og ferðalagið líklega með þeim umfangsmeiri sem menn ráðast í, þótt farangurinn sé jafnvel lítill.

Ætli mér verði ekki alltaf hugsað til pabba þegar að snjór og þoka láta á sér kræla þar sem ég verð á ferð og þykir mér afskaplega vænt um að eiga áminningu um pabba til frambúðar sem skýtur upp kollinum í tíma og ótíma.

Í dag fór svo jarðarför hans fram og gekk allt vel fyrir sig, veðrið var kalt og stillt og mikil ról var yfir öllu og stutt í grín stöku sinnum sem mér þótti vænt um og pabba hefði fundist það líka. Þakka öllum sem komu að útförinni: fjölskyldu, vinum, vandamönnum og örðum sem lögðu sitt að mörkum.

Það var svo margt sem á pabba að þakka að ég mun líklega aldrei geta talið það upp án þess að týnast í gömlum minningum.

Takk fyrir allt „pabbi“.