laugardagur, desember 08, 2007

Hinsta ferðalag pabba

Á föstudagsmorgun 30. nóvember síðastliðinn lagði „pabbi“( Emil afi ) uppí sitt síðasta ferðalag. Að þessu sinni var um enga smáferð að ræða því brottfararstaður var líkami hans á Seyðisfirði en endastöðin mér alls ókunn sem og hvernig ferðahögum var háttað.

Mér var hugsað til þerra fjölmörgu ferða pabba á síðustu árum suður og hvernig alltaf hefur hið undarlegasta veður skollið á við komu hans. Ef það var ekki snjókoma eða snjóbylur, á öllum árstímum, þá mætti sú þykkasta þoka sem ég hef nokkurn tíman augum litið á þessum landshluta og engu líkara en kallinn hefði dregið Austfjarðarþokuna með sér í höfuðborgina.

Það kom því ekki að óvart að veðrið fyrir austan var stormur & stórbylur og lágu allar samgöngur niðri á svæðinu og ekkert var flogið um allt land því pabbi var á ferðinni og ferðalagið líklega með þeim umfangsmeiri sem menn ráðast í, þótt farangurinn sé jafnvel lítill.

Ætli mér verði ekki alltaf hugsað til pabba þegar að snjór og þoka láta á sér kræla þar sem ég verð á ferð og þykir mér afskaplega vænt um að eiga áminningu um pabba til frambúðar sem skýtur upp kollinum í tíma og ótíma.

Í dag fór svo jarðarför hans fram og gekk allt vel fyrir sig, veðrið var kalt og stillt og mikil ról var yfir öllu og stutt í grín stöku sinnum sem mér þótti vænt um og pabba hefði fundist það líka. Þakka öllum sem komu að útförinni: fjölskyldu, vinum, vandamönnum og örðum sem lögðu sitt að mörkum.

Það var svo margt sem á pabba að þakka að ég mun líklega aldrei geta talið það upp án þess að týnast í gömlum minningum.

Takk fyrir allt „pabbi“.

1 ummæli:

Helgamma sagði...

Já...einmitt