miðvikudagur, desember 31, 2008

Gleðilegt nýtt ár...

...og takk fyrir það sem er að liðna ;)

þriðjudagur, desember 09, 2008

Þrítugur

Logi litliNotalegt að vera vakinn af fjölskyldunni sem kom færandi hendi með gjafir handa gamla manninum sem kominn er á fertugsaldurinn( merkilegt hvað það hljómar verra en að vera orðinn þrítugur ). Bjartur listamaður teiknaði mynd handa pabba sínum alveg eins og E.T. að hnykkla vöðvana. Sunna krútt hafði hjálpað til og Bína búin að setja í ramma svo myndin er tilbúin til að fara uppá vegg. Dagný brosti sýnu breiðasta í tilefni dagsins og morgunmaturinn tilbúinn þegar ég kom fram. Yndisleg börn, yndisleg unnusta, yndislegt líf ;)

laugardagur, desember 06, 2008

Næturjólaverslunarferð

Ég fór í kvöld í afmælisveislu til Magna niðri miðbæ Reykjavíkur. Alltaf gaman að hitta hann og aðra gamla menntskælinga sem ég hef ekki séð í óratíma og var þetta vel heppnuð samkoma þótt ég hafði mætt full seint til leiks...en það þarf nú að sinna fjölskyldunni fyrst ;)
Ég var bílandi þannig að ég fór þegar vel var gengið yfir miðnætti en var búinn að ákveða að kíkja í Hagkaup á leiðinni heim, svona fyrst þeir hafa opið allan sólahringinn. Þetta var afskaplega afslappandi verslunarferð og er víst líka að skila sér í sölu hjá þeim. Það var eitthvað af fólki að renna í gegn, mestmegnis yngra fólk en afskaplega róleg inní búðinni. Reyndar þegar ég gekk framhjá nammiganginum var eins og ég væri kominn inní eina partýið í bænum. Þar var allt krökkt af fólki að fylla á nammipoka af slikki. Veit ekki hvaða þörf grípur fólk til að skella sér í búð um miðja nótt að versla nammi? En ég ráfaði í rólegheitunum um og fann ýmislegt sem ég hafði ætlað mér að finna og fleira sem fékk að fara með heim. Mikil búbót fyrir andlega geðheilsu að versla á svona tíma...alveg sama þótt það kosti kannski meira =)
Merkileg hvað það er góð tilfinning að koma heim þ.s. Bína og 3 krakkar sofa sínu værasta...ætla að skella mér uppí og ná nokkrum tímum þangað til að þau ráðast öll uppí, en það er alveg merkilegt hvað þau vakna alltaf snemma um helgar ;)

mánudagur, desember 01, 2008

Dagurinn þinn

Um daginn(september) tókum við upp dag hvers og eins sem virkar þannig að Bjartur á 5. hvers mánaðar og Sunna á 21. þ.s. við gerum eitthvað sérstaklega að þeirra ósk eða fyrir þau. Þann 5. sept. vorum við reyndar fyrir austan en hann fékk að ráða hádegismat og kvöldmat hjá Helgömmu og var hæstánægður með að fá allt sem hann vildi ;) Á Sunnudaginn( sunnudagurinn 21. sept. ) var dagurinn hennar Sunnu og fórum við öll að sjá Einar Áskel í Þjóðleikhúsinu. Sunna sat hin stilltasta og minnti mikið á bróður sinn sem gat verið yfirmáta settlegur í fjölmenni þegar hann var yngri. Bjartur hafi mjög gaman að og var þetta mjög fróðlegt fyrir svona mikla spekinga eins og hann ;)
Við Bína eigum saman 9. hvers mánaðar sem er mjög gott því þá getum við nýtt amk einn dag í mánuði til að reyna að gera eitthvað bara tvö. Í sept. fórum við á Hereford og klikkar það nú sjaldan. Ég át á mig gat( jafnvel tvö ) sem endaði með því að Bína þurfti að keyra heim þ.s. öll mín líkamsstarfssemi fór í meltinguna. Tengdó passaði fyrir okkur eins og svo oft og er afskaplega gott að eiga góða að og ekki skemmir fyrir að krökkunum finnst fátt skemmtilegra en að losna við okkur út úr húsi og fá afa&ömmu í staðin ;)
Í október vorum við merkilega upptekin af því að undirbúa og taka á móti Dagnýju litlu ;) og í nóvember voru skírn og bústaðarferð til þess að gera lítið úr þessum dögum en gengur vonandi betur í desember og kannski Dagný fái líka sérstaka meðferð 11. hvers mánaðar ;)

laugardagur, nóvember 29, 2008

"Kreppa"

Það er víst ástand á Íslandi, og í þetta skiptið getum við víst ekki kennt neinum um nema sjálfum okkur. Þótt almúginn hafi nú reyndar engu ráðið þá kaus samt einhver þetta fólk og enginn tekur ábyrgð hér fyrir neinu né neinu frekar en vanalega. Ástandið köllum við kreppu og þótt hún sé byrjuð ímynda ég mér að hún eigi fyrst eftir að láta finna fyrir sér eftir áramót. Vonandi fer land og þjóð ekki of illa út úr þessu og vona ég að samlandar og fleiri sjái til þess...ég er enn of upptekinn í barnauppeldi til þess að taka þátt í þess ;)
Kreppa þarf þó reyndar ekki að vera slæm. Reyndar held ég að eini tíminn sem að góðar hugmyndir séu framkvæmdar sé í kreppu. Þá þarf virkilega að láta hendur standa fram úr ermum og gengur ekkert fyllerí eins og við höfum lifað við síðustu ár.
Ég er blessunarlega laus við að vera með lán í erlendri mynt en verðbólgan mun leika mig grátt á næstunni þ.s. ég er víst langt frá því að vera skuldlaus og verð líklega aldrei. Ég er einnig nokkuð nægjusamur þannig að ég tek þessu með statískri ró og reyni að sjá jákvæðu hliðarnar( að mínu mati ):
Loksins fækkaði @ndsk. fríblöðunum sem ég bað aldrei um að fá í póstkassann hjá mér.
Færri bílar, minni umferð og gott ef það er ekki bara minna af bílum að berjast um bílastæðin við blokkina okkar.
Nægjusemin loksins ríkjandi í stað fyllerísins sem ráðið hefur ríkjum( eða riðið hefur rækjum... ég man aldrei þetta orðatiltæki ;)

Ábyggilega fullt af atriðum sem ég man síðar, þá mun ég skella þeim inn sem athugasemd og þú mátt líka segja mér frá jákvæðri upplifun þinni af "kreppuni" í athugasemdunum ;)

fimmtudagur, nóvember 27, 2008

Hálsbólga

Fékk hálsbólgu í fyrsta skiptið á ævinni...án þess að verða fárveikur. Síðastliðin ár hef ég fengið hálsbólgu amk 4 sinnum á ári en þá fylgir henni beinverkir, kvef, og hiti sem hefur endað með mig uppí sófa/rúmi í 3-4 daga. Ég fór um daginn til galdrakellingar( hómópati ) sem benti mér á ólífulauf sem ég hef verið að taka daglega í nokkra mánuði til að byggja upp ónæmiskerfið og ég er ekki frá því að þetta sé heldur betur að skila sér. Þannig að ég upplifið í fyrsta skiptið að vera með hálsbólgu án þess að vera bólginn í hálsinum. Kannski var þetta bara eitthvað annað en ég hef amk ekki verið veikur lengi og ætla aldrei aftur að verða veikur, ég er búinn að fá nóg fyrir lífstíð ;)

mánudagur, nóvember 24, 2008

Sumarbústaðarferð

Áttum rosalega góða helgi í Karrakoti( þúsund þakkir fyrir lánið Malla & Þröstur ). Alltaf jafn yndilslegt að komast út úr bænum í bústað. Maður gerir allt of lítið af því og vonandi bætir maður það upp með fleiri ferðum á næstunni ;)

þriðjudagur, nóvember 11, 2008

Dagný

Merkilegt hvað nýjasti meðlimurinn er rólegur og vær. Var undirbúinn hverju sem er þegar ég yrði pabbi í þriðja sinn en er bara búinn að svífa á bleiku skýi síðan hún kom og held að nú muni ég ekki aftur finna fyrir tilfinningunni að það vanti einn í krakkahópinn ;)
Dagný og pabbi á skírnardaginn.

sunnudagur, nóvember 09, 2008

Alvöru hvítlaukspressa

Mig hefur lengið langað í "alvöru" hvítlaukspressu þ.s.ég eyðilegg alltaf þessar ódýru eða þær eru bara ekki nógu góðar. Helstu kostir "alvöru" hvítlaukpressu eru:
...auðvelld í þrifum
...þolir mikið átak
...nýtir laukinn vel
Vitir menn, fékk ég ekki svoleiðis í þrítugsgjöf frá móður minni fyrir helgi. Ég þurfi að vígja hana strax og var hent í pizzu og hvítlauksbrauð. Ég er ekki frá því að það hafi heyrst ánægjuandvarp þegar ég beytti nýju alvöru hvítlaukspressunni í fyrsta skiptið svo fullkomin er hún =)

sunnudagur, október 12, 2008

laugardagur, september 20, 2008

Brúðkaupsdagurinn mikli 20.09.2008

Hlín & Jói innilegar hamingjuóskir með brúðkaupið á laugardaginn og takk fyrir okkur. Óla & Rannveigu sendum við einnig innilegar hamingjuóskir alla leið austur á Skálanes og leitt að geta ekki verið á staðnum.
Það var kannski eins gott að við erum upptekin í óléttu þ.s. við vorum búin að stefna á þennan dag nokkuð lengi en ákveðið að bíða betri tíma þegar að fjölskyldan er orðin fullmönnuð. Gott að aðrir nýttu hann ;)

miðvikudagur, september 03, 2008

Nýr bíll

Gamli góði bíllinn okkar er víst of lítill fyrir fimm manna fjölskyldu, nánar tiltekið of lítill til að rúma 3 barnabílstóla. Vorum við búin að sættast á að kaupa Previu. Þrátt fyrir að þær eru full dýrar, eyða miklu og hætt var að flytja þær inn f. nokkrum árum þá er þetta stór bíll sem okkur leist báðum vel á. Við lögðum því leið okkar upp Toyota umboð þar sem gamli var söluskoðaður. Þegar sölumaðurinn þuldi upp allt sem þeir fundu að bílnum okkar hugsaði ég að það væri ekki nokkrum manni óhætt að stíga uppí hann og hvað þá að keyra honum aftur, svo ófögrum orðum fór hann um hann. Ekki batnaði það þegar hann tilkynnti okkur að hann gæti látið okkur fá 150þ fyrir hann. Ég hafði nú kannski ekki gert mér miklar væntingar en þetta var aðeins..., nei, mikið minni en ég hafði búist við. Við ákváðum að hugsa þetta aðeins og fórum í mat.
Yfir matnum vorum við að velta fyrir okkur hvort við myndum ekki bara láta slag standa og taka feitt bílalán til að láta þetta gerast. Ákveðið var að kíkja fyrst uppí B&L og prófa Trajet og sjá hvað B&L myndi taka fyrir bílinn. Við fundum Trajet til að prófa á meðan þeir söluskoðuðu okkar og tókum smá rúnt um Árbæinn.
Þegar við komum til baka prentaði hann út einhvern pappír sem á stóð upphæð litlu hærri en við höfðum fengið áður en það skemmtilega var að þetta var bara áætlaður viðgerðarkostnaður og leit því út fyrir að fengjum mun meira fyrir gamla hjá B&L. Síðan var bara málið hvað við gætum sett gamla uppí. Þeir áttu einn Verso á bílaplani þeirra skammt frá. Bínu hafði einmitt fundist þeir svo flottir og við sáum okkur strax leik á borði: skipta gamla uppí Verso og mæta svo með hann uppí Toyota umboð ;) Þannig að við skelltum okkur til Ingvars Helgasonar þ.s. Versóinn stóð.
Þegar við komum inná bílasöluna hitti ég ekki gamlan vinnufélaga. Við höfðum unnið saman í 3 mánuði fyrir 10 árum og það besta var að hann var bara að láni hjá IH þennan eina dag en var að öllu jöfnu uppí B&L.
Við prófuðum Verso-inn og leist bara vel á, enda ekkert stefnt á að eiga hann lengi. Gegnum frá viðskiptunum sem enduðu á að fá 950þ fyrir gamla bílinn sem við vorum næstum því búin að láta fyrir 150þ fyrr um daginn. Nú er Bína hæstánægð með að eiga Verso þótt honum verður nú skipt út fljótlega ;)

þriðjudagur, september 02, 2008

Nýtt baðherbergi

Við vorum svo séð að láta gera upp baðið á meðan við vorum í sumarfríi. Reyndar losaði ég sjálfur baðið og braut upp flísarnar en fékk gott fólk í að klára að rífa klósettið, flísa og pípa. Ég hengdi nú reyndar upp hillur og vaskinn en lét fróðari menn um að pípa. Það var líka kominn tími á að taka þetta 36 ára baðherbergi í gegn. Þannig að nú er allt nýtt og ekkert eftir nema eitthvað smotterí eins og að finna veggljós, ljós undir speglaskápinn og klósettrúlluhaldara/stand. Þetta kostaði reyndar að íbúðin var öll undirlögð í pússningsryki( og er það enn sumstaðar ), einnig tók þetta verulega á taugarnar að bíða eftir vörum frá Byko og IKEA. Reyndar gafst ég upp á því að bíða eftir Byko og keypti bara annað en ég hafði lagt upp með, en það var ekki svo langt frá þannig að það sleppur. En Byko í Kauptúni er ekki uppáhaldsbúðin mín, allt of stór. Þannig að eftir mikið búðarráp og afgreiðslubið, þrif, uppsetningar, meiri þrif, bið og þónokkra hundraðþúsundkalla þá erum við komin með nýtt baðherbergi. Verst að maður þarf að selja á næstunni til að koma öllum þessum krökkum fyrir ;)

mánudagur, september 01, 2008

"Einn" heima

Krakkarnir sofnuðu nokkuð fljótt í kvöld enda var afskaplega róleg stemmning á heimilinu. Róleg tónlist flæddi um alla íbúðina úr stofunni og slökkt var á sjónvarpi og næstum öllum ljósum. Í myrkrinu lá ég í mestu makindum í baði með kertaljós og hafði það notalegt "einn" heima ;)

Merkilegt hvað lífið breytist mikið þegar börn bætast í hópinn. Svo ekki sé talað um það þegar þau eru orðin tvö...ég get engan vegin ímyndað mér hvað að verður mikil vinna að hafa þrjá orma hlaupandi um...en það verður ábyggilega enn skemmtilegra ;)

sunnudagur, ágúst 31, 2008

Sól, blíða og grilluð pizza

Ég og krakkarnir fórum í gær uppí íþróttasal HÍ þ.s. við lékum okkur í bandý og boltaleik í góðan klukkutíma. Jobbi kom með tvíburana og Röggi og frú með stelpurnar. Undir lok tímans var Sunna orðin afskaplega lítil. Síðar um daginn var hún rokinn upp í hita og var bara í móki allan daginn, aðallega sofandi eða réttara sagt rænulaus.
Dæmigert var því þ.s. að Sunna var að ná sér í dag að það var heilmikil blíða en ekki hægt að fara með alla familiuna út. Ég kláraði þó einhver þrif eftir framkvæmdir og skelli svo pizzu á grillið.
Að grilla pizzu er eitthvað sem ég hef ætlað mér að gera í mörg ár og eftir að ég fékk grillaða pizzu hjá Palla&Erlu í sumar varð ég að fara að láta verða af þessu. Ég var ekki svikinn og var útkoman sérstaklega góð. Svo góð að ég verð að prófa þetta aftur við fyrsta tækifæri. Held reyndar að það hafi hjálpað mikið að ég geymdi pizzadeigið í ísskápnum síðan í gær, þarf að rannsaka/endurtaka þetta við fyrsta tækifæri og má bara ekki gleyma að opna bjór næst, enda á alltaf að opna bjór þegar maður kveikir upp í girllinu ;)

Nördaskapur

Ég rakst á nördasíðu þ.s. eru kassamódel af ýmsum persónum og þegar ég rakst á StrongBad( gítarbréfið er í uppáhaldi hjá mér ) varð ég að prófa þetta. Datt í hug að þetta gæti verið eitthvað sniðugt fyrir Bjart en um eftir amk hálftíma af klippi var ég nokkuð viss um að hann hefði ekki þolinmæði fyrir þetta. Á endanum birtist StrongBad þó í höndunum á mér og án þess að ég þyrfti að líma eða hefta nokkuð. Var þessi gjörningur algjörlega tilgangslaus, tók mikinn tíma og veitti mér litla ánægju...mæli samt með þessu HAHAHAA =)

miðvikudagur, ágúst 27, 2008

Sveigjanlegur vinnutími...

...er að mínu mati gulls ígildi og ég veit ekki betur en silfur sé málið og gull betra ;)

miðvikudagur, júlí 30, 2008

Svergie 2008

Skelltum okkur til Palla&Erlu í sumarfríinu og hægt er að sjá myndir úr ferðinni og svo eru hér einhverjir punktar frá því sem við gerðum:

1. dagur miðvikudagurinn 16. júlí 2008
Vöknuðum snemma í flug. Bjartur ekki að nenna því, enda fóru þau bæði seint að sofa kvöldið áður. Sóttum Balla og hann skutlaði okkur á völlinn. Bjartur svaf í fluginu en Sunna sofnaði ekki fyrr en rétt fyrir lendingu þannig að hún var svoldið stúrin. Fundum bílinn hans Smára á bílastæðinu og brunuðum af stað, enda þurfi Bína nauðsynlega að komast á klósett. Þegar við vorum að komst inní Sisjön hverfið fórum gleymdum við afleggjaranum, alveg eins og í fyrra. Það gerði nú ekki mikið til þ.s. við rötuðum úr þeim ógöngum frá því í fyrra ;) Þegar við komum duttu Bjartur og Óðinn Bragi strax í leik eins og þeir hefði síðast hist í gær og vissum við ekki af þeim.

2. dagur fimmtudagurinn 17. júlí 2008
Dröttuðumst á fætur og svo fór ég og lagði mig kl. 10. Kl. 11 var ég vakinn við að Sunna væri týnd. Hófst þá heilmikið hlaup um hverfið þ.s. ekkert sást eða heyrðist til hennar. Erla fann svo Sunnulinginn inní runna hjá nágrannanum þ.s. hún var búin að skoða sig af og var að kalla á pabba sinn.
Fórum á rólóið í hverfinu enda var Bjartur búinn að bíða lengi að fá að komast aftur á sjóræningjaskipið og kíkinn sem er þar. Þeim kemur alltaf jafn vel saman og Óðinn Bragi mjög góður að leyfa Bjarti að leika sér með riddarabrynjuna( hjálm og sverð ) endalaust.

3. dagur föstudagurinn 18. júlí 2008
Sofið frameftir. Palli kom svo heim úr vinnunni og ákveðið að fara á Outlet í fataleiðangur. Ég tók lítið af fötum með mér þannig að það var ágætist hugmynd að reyna að finna eitthvað á góðu verði. Fann nú reyndar ekkert nema íþróttaskó. Allar vörur sem ég skoðaði voru á himinháu verði, þannig að ég virðist vera með mjög dýra smekk ;) Komum við í Coop á leiðinni heim og síðan var pizza um kvöldið, enda víst hefð að hafa pizzu á föstudagskvöldum.

4. dagur laugardagurinn 19. júlí 2008
Þokkalegasta veður en samt gæti skollið á rigning þannig að það var ákveðið að sleppa Slottskogen og kíkja í Lek og Bus land, leikjaland sem leit nú ekki út fyrir að vera merkilegt við fyrstu sýn en 3 tímar voru merkilega fljótir að líða og hafði ég ekkert minna gaman af heldur en krakkarnir en fann þó fyrir því að vera "aðeins" of stór ;) Risastór klifurgrind sem var auðvelt að týnst í á öllum 3 hæðunum( eða uþb ), kúlulaug, kúlubyssukastali og fl. Burger King á leiðinni heim þ.s. Taco Bar var að loka og ekki hægt að afgreiða þótt ekki væri búið að loka. BK svindlaði nú eitthvað á okkur og ekki fengu allir matinn sinn, en þetta dugði og var allt í lagi þ.s. ekki var nú um neina hollustu að ræða.

5. dagur sunnudagurinn 20. júlí 2008
Palli loksins kominn í sumarfrí e. næturvakt. Ég og Bína fengum að fara í verslunarferð. Sunna kom með og var ekki til friðs þannig að ekki tókst að eyða nema um nokkrum tugum þúsundkalla í föt ;) Fórum á rólóvöll með krökkunum þ.s. endalaus eltingaleikur var upphafður eins og í fyrra og stelpurnar vildu bara róla. Íslenskt lambalæri í boði P&E um kvöldið sem var alveg himneskt.

6. dagur mánudagurinn 21. júlí 2008
Brakandi blíða þegar komið var fram um morguninn eftir rigningar gærkvöldsins. Þegar allir voru komnir á ról og búnir að ná áttum var ákveðið að halda í Liseberg tívolíið þ.s. veðurspáin fyrir morgundaginn sýnir meiri rigningu. Komum ekki fyrr en á hádegi í Lieseberg. Fyrsta tækið, Víkingaskipin, reyndust biluð um leið og strákarnir voru búnir að koma sér fyrir en það var bara haldið áfram för allan daginn og garðurinn ekki yfirgefinn fyrr en um 6. Rússibaninn var í uppáhaldi hjá Bjarti sem fyrr. Allir hálf búnir á því eftir hasarinn í dag þótt Freyja Sif hafi bara sofið sínu værasta í garðinum á meðan Sunna tók sér bara smá lúr en var merkilega góð m.v. að þurfa að hanga í kerrunni í allan dag í sól og hita.

7. dagur þriðjudagurinn 22. júlí 2008
Skýin stoppuðu stutt við í morgunsárið og komin var brakandi blíða uppúr 10. Við Palli fórum með krakkana út á fótboltavöll þ.s. mest var gaman að sulla í polli. Stelpurnar voru fastar í berjamó. Í hádeginu var orðið brakandi og fórum ég og strákarnir á leikvelli og klifurtréð. Fundum fullt af Hallon berjum og var ákveðið að taka með dollur á morgun og koma heim færandi hendi með ber handa öllum. Ég og Palli færðum markisuna framar svo hurðin á pallinn næði að opnast betur. Við skruppum svo aðeins í Maxi þ.s. við náðum að kaupa slatta af skóm og Sunna fékk að frekjast. Kvöldverðurinn var úti undir markísunni en gekk nú út á lítið annað en að reyna að hafa hemil á stelpunum sem létu öllum illum látum á meðan matnum stóð. Síðan fóru krakkarnir niður að horfa á skrípó að vanda og eins og síðustu 2 kvöld kom Sunna upp og vildi bara hanga með foreldrunum og fá óskipta athygli og meira að borða fyrir átökin við að fara að sofa, en hún hefur ekki verið sú stilltasta síðan við komum. Kannski er henni jafn heitt og mér, en mér er búið að vera heitt síðan ég kom og líklega verð ég ekki búinn að venjast þessum hita áður en ég fer ;)

8. dagur miðvikudagurinn 23. júlí 2008
Smá skýjafar var velkomið þegar við strákarnir fórum í berjatúr og sóttum nokkuð af hallon(bróm-)berjum og nokkur kirsuber þ.s. við fórum líka á leikvellina því þeir höfðu ekki mikla eirð í sér að tína endalaust af berjum af runnunum. Óðinn Bragi, Freyja Sif og Erla fór að sækja Magga og Önnu Dóru sem komu heldur betur með góða veðrið með sér, en Anna Dóra kemur víst alltaf með það með sér. Einnig voru þau drekkhlaðin íslenskum munaðarvörur s.s. lambakjöti og Cherios. Ég gerði tilraun til að finna mér buxur því ljósu buxurnar mínar eru víst komnar á síðasta snúning en eftir ábyggilega tveggja tíma rölt um Maxi( verslunarmiðstöðina ) þá fór ég þaðan með eina stuttermaskyrtu( og þá er ég kominn með 4 nýja stuttermaskyrtur, 4 skó, einhverjar brækur en engar buxur hef ég fundið enn og þarf því víst að fara aftur í búðir ). Bína fann einnig einhvern H&M bækling þannig að nú þarf að fara þangað líka því henni vantar allt sem er í bæklingnum og meira að segja farin að tala um að við þurfum að eignast einn strák í viðbót til að kaupa einhver strákaföt á. Ætli besta leið til að fá konu til að vilja eignast börn sé ekki að rétta henni barnafatalista?

9. dagur fimmtudagurinn 24. júlí 2008
Vöknuðum um 10 leitið þ.s. krakkarnir fóru ekki að sofa fyrr en um 11. Steikjandi hiti kominn yfir 26° strax um morguninn. Eitthvað varð hitinn nú meiri yfir daginn, 27° sagði einhver heimasíða en í sól var þetta nær 34° og nánast ólíft á ströndinni við Sísjönvatn. Náðum að hanga þar í um/yfir 3 tíma. Geitungarnir voru full sólgnir í mig en með því að skella mér í smá sundsprett tókst mér að slá á þá og hitann. Markisan sló vel á sólina seinnipart dags og allir voru vel búnir á því eftir daginn. Ekki liggur enn fyrir hvað eigi að aðhafast á morgun enda er veðurspáin ekkert nema sól og hiti og erfitt að athafna sig í svona veðri.

10. dagur föstudagurinn 25. júlí 2008

Bjarti tókst að vekja alla kl. 9 sem var ágætt að vera komin á fætur fyrir 10, en ekki allir sáttir við það að hann skyldi öskra "Mamma" um leið og hann vaknaði. Brakandi blíða var enn á lofti og séð framá hana næstu daga. Eins gott að skella sér bara í dýragarðinn í dag þ.s. það er föstudagur og á morgun yrði líklega fjölmennara í garðinum. Komumst af stað uppúr 11 og vorum komin inní garð eitthvað rétt uppúr 12. Það gekk nú reyndar ekki áfallalaust því ég hafði skrifað niður nákvæmar leiðbeiningar hvernig ætti að komast í dýragarðinn sem við fylgdum fullkomlega og vorum kominn á réttan stað, fyrir utan litla gæludýrabúð í miðri Borås. Sem betur fer hafði ég skoðað hvar sundlaugin var nokkurn vegin og vissi að við áttum að keyra upp götu 42. Í ljós kom svo að sundlaugin var við hliðina á dýragarðinum sem útskýrði mikið fyrir mér...en samt var ég ekkert að furða mig á því að dýragarður væri í miðri borginni ;) En uppúr hádegi komumst við inn og vorum við Bína yfir okkur hrifin af afríkudýrunum. Við fórum hægri rúntinn, sem Erla hafði mælt með, og komum því fljótlega að Savannah svæðinu þ.s. gíraffi tók á móti okkur. Við æstumst öll upp og þegar við sáum fíla, sebrahesta og fleiri dýr vorum við alveg gáttuð. Borðum yfir Savannah en vorum svo hrakin burt af geitungaher sem er farinn að æsast þessa dagana í hitanum. Litlu aparnir voru ákaflega skemmtilegir og höfðu allir mjög gaman að horfa á þá hlaupa og klifra. Bjartur stalst til að gefa dádýrum smá að borða, en samt ekki því sem var með horn ;) Selum var svo gefið og léku þeir listir sínar fyrir áhorfendur. Stuttu síðar komumst við út eftir um 5 tíma rölt. Afskaplega góður dagur og við vorum ánægð með að hafa skellt okkur. Komumst nokkuð auðveldlega úr bænum með hjálp skilta og hættum að nota leiðbeiningarnar mínar af netinu. En þá sáum við að bremsuljós var komið á bílinn, það hafði sést í örfár sekúndur seinustu daga en nú logaði það. Þegar við höfðum ráðfært okkur við handbókina komumst við að því að þ.s. bremsurnar virkuðu væri þetta ekkert til að hafa áhyggjur af strax. Þá sáum við það sem verra var að hitinn á vatninu var kominn upp úr öllu valdi. Gerðum tilraun til að fara út af hraðbrautinni en fundum hvergi opna búð eða skrifstofu. Héldum förinni áfram sem endað á því að við vorum búin að drepa á bílnum út í vegkanti. Fundum smá vatn og svo frostlög sem gerðu mest lítið. Náðum að keyra smá og renna þó nokkra kílómetra í drepandi hita þangað til við fundum Flugger verksmiðju og búð þ.s. ég fékk vatn á vatnskassann. Síðan var brunað heim með bremsuljósið logandi, en bremsurnar virkuðu þó. Eitthvað þóttumst við vera farin að þekkja leiðina heim en þegar við uppgötvuðum að við vorum á leiðina til Malmö þá snerum við við og komumst á heilu og höldnu á áfangastað. Um kvöldið setti ég svo bremsuvökva á bílinn og hann orðinn sem nýr ;)
Myndir úr dýragarðinum

11. dagur laugardagurinn 26. júlí 2008
Allir komnir með nóg af þessu veðri. Við Palli héldum okkur heima við með krakkana og fórum ekki út fyrir hússins dyr nema undir markisuna á pallinum. Konurnar fóru í búðir og var víst ágætis loftkæling í flestum búðum. Hitastigið úti fór í um 32° en rétt þolanlega 29° innandyra. Ég nenni varla að leggjast út í smá sólbað því hitinn er bara of mikill og kannski engin ástæða til að mæta eldrauður í brúðkaup á morgun ;) Hitinn hélst stöðugur allan daginn og ólíft, nema í bílnum með Palla þ.s. loftkæling var. Við ætluðum að sækja gifsplötur f. framkvæmdir Palla niðri í kjallara en komum 10 mín. eftir lokun. Hitinn er enn of mikill f. mig og virðist ég ætla að hafa rétt fyrir mér að ég muni ekki aðlagast þessum hita á þessum 14 dögum.

12. dagur sunnudagurinn 27. júlí 2008

Við vöknuðum snemma, svona um 8, þ.s. við vildum vera mætt tímanlega út á lestarstöð á leið til Köben í brúðkaup Helgu Bjartar og Ingibjörns. Loksins tókst okkur að vakna á undan öðrum ;) Pakkað var í tösku og Palli skutlaði okkur á Goteborgs Centralstation. Það fundum við miðasjálfsala og tókum út miðana okkar og biðum svo lestarinnar. Þegar við komum á sporið var ekki sama númer á lestinni þannig að við biðum en ég fékk svo upplýsingar um að þetta væri lestin og við rétt náðum almenningssætum. Ferðin var afskaplega þægileg. Reyndar varð lestin orðin full troðin þegar farið var frá Malmö og ekki bætti úr skák að par sem brussaði sér við hliðina á okkur lyktaði heldur illa, amk maðurinn. En þ.s. það var nú bara um hálftími yfir til Kaupmannahafnar var þetta ekkert alvarlegt, enda færði hann sig hinu megin við ganginn og slapp það þá til. Þegar til Köben var komið hoppuðum við beint upp á jarðhæðina í Hovedbanet, pöntuðum pylsu þó að afgreiðsludaman tæki sinn tíma í að athuga hitastigið á þeim með kjötmæli og spjalla svoldið við okkur, enda grunlaus um það að við höfðum bara 20 mín til að komast í kirkjuna. Með pylsurnar fórum við út og fundum leigubíl. Leigubílstjórinn var arabi með túrban. Hann jánkaði þegar ég spurði hvort hann væri laus og jánkaði líka þegar ég spurði hvort við mættum borða pylsurnar í bílnum. Hann skildi engan vegin þegar ég sagði "Sankt Pauls Plads" sem endað í því að ég sýndi honum heimilisfangið á SMS-i sem ég hafði sent sjálfum mér. Hann jánkaði þá eitthvað og keyrði af stað, stoppaði á rauðu ljósi og tók upp kort af borginni og byrjaði að leita. Ekki var það alveg til að róa okkur með ekki nema um 10 mínútur til stefnu þ.s. daman í pylsuafgreiðslunni þurfti að spjalla svo mikið. Hann fann þetta nú fljótlega og sagði að þetta væri ekki langt sem ég samsinnti og sagði að hann ætti að ná þessu á 8 mín. sem ég hafði fengið uppgefið á netinu. Þegar ég hafði troðið pylsunni í mig, sem var merkilega m.v. þær sem ég hafði fengið í Svíþjóð, þurfti ég að drífa mig í jakkafötin. Spurði nú leigubílstjórna hvort ekki væri í lagi að ég skipti um föt og hann jánkaði, en var það nú bara svo honum brygði nú ekki við að sjá mig á nærbuxunum allt í einu. Rétt tókst að troða mér í fötin og þá vorum við komin. Í samskiptum okkar við að gera upp ferðina rann það upp fyrir mér að líklega var hann ekki mjög slyngur í enskunni og kannski hafði hann ekkert skilið hvað ég var að segja allan tímann ;) Stukkum beint inní kirkjuna rétt áður en dyrunum var lokað. Athöfnin var mjög falleg og að henni lokinni var hoppað upp í rútu og haldið af stað út úr bænum. Klt. síðar voru allir á herbergjunum sínum og gera til tilbúna og 5:30 var tekið á móti brúðhjónunum. Veisluhöld gengu vel fyrir sig og maturinn æði, allt var vel skipulegt og heppnaðist alveg rosalega vel og umhverfið var æðislegt.
Myndir úr brúðkaupinu

13. dagur mánudagurinn 28. júlí 2008
Vaknaði í svitabaði um 8 og gafst upp á að reyna að sofa lengur enda skein sólin á herbergisgluggann okkar. Morgunmaturinn í boði brúðhjónanna var glæsilegur og síðan var farið með rútu aftur til Köben. Hún stoppi f. utan Hovedbanet sem hentaði okkur afskaplega vel. Gengum á ráðhústorgið og tókum nokkur skref upp strikið, svona fyrst Bína hafði aldrei komið til Köben. Biðum svo bara eftir lestinni á stöðinni. Vorum í almenningsstæðum til Malmö en þar tókum við X2000 lest sem hafði veitingavagn og góð flugvélasæti og var það afskaplega notalegt ferðalag alla leið til Gautaborgar. Bjartur og Erla tóku á móti okkur á lestarstöðinni og rosalega gott að knúsa strákinn sinn aftur. Hann hafði verið stunginn af geitungi á ströndinni en bar sig vel. Þegar við komum heim fékk ég smá knús frá Sunnu en hún vildi fara strax aftur til mömmu sinnar, enda eru börnin heilmikil mömmubörn.

14. dagur þriðjudagurinn 29. júlí 2008
Einhver ský voru á lofti þegar við komum á fætur um 8 leitið í morgun, hálf uppgefin eftir danmerkurferðalagið. Skýin voru nú ekkert sérstaklega að stoppa við. Við Bína fórum með strákana í dótabúðir um morguninn þ.s. þeir fengu sinn hvorn LEGO kassann. Skúr kom á meðan við vorum í búðum og hafa líklega öll blóm, tré og plöntur hrópað af gleði. Skúrinn var þó skammur og allt orðið þurrt stuttu síðar. Fórum svo í Slottskogen um 4 leitið en stuttu eftir að við vorum komin á stóra leikvöllinn var ákveði að drífa sig heim þ.s. skýjabakki og þrumur voru komnar ískyggilega nærri. Ekki var Sunna ánægð að vera tekin strax af leikvellinum svona rétt þegar hún var að byrjað. Ekkert varð nú úr veðrinu en við létum þetta gott heita og héldum heim.

15. dagur miðvikudagurinn 30. júlí 2008
Fórum á fætur snemma á íslenskum tíma kl. 6, sem er nú reyndar bara 8 í Svíþjóð en telst snemma m.v. okkur ;) Eftir morgunmat var farið með restina af farangri og okkur út í bíl eftir að hafa knúsað og kysst alla á Sisjönvegi 491.
Brunuðum beint á flugvöllinn og skildum bílinn hans Smára eftir á P6( beint undir skilti merkt K6 ). Innritun var nú ekki hafin þegar við mættum og síðan var ég með allt snyrtidót í tösku sem mátti ekki fara í handfarangur þannig að ég þurfti að fara með hana aftur í innritun. Aftur fengum við sæti aftast í flugvélinni en að þessu sinni var það Sunna sem sofnaði fljótlega, enda var hún orðin stúrin og búin að vera erfið síðan við fórum í gegnum öryggishliðið á flugvellinum.

mánudagur, júní 09, 2008

Frekur örbygljuofn

Berglind benti Bínu á það um daginn hversu frekur örbylgjuofninn okkar er og það er nokkuð til í því. Hann verður nefnilega alveg brjálaður þegar hann hefur lokið við að hita og linnir ekki látum fyrr en hann er tæmdur. Við erum orðin svo vön þessu að það er gaman að fá ábendingu um eitthvað svona sem ætti að fara í manns fínustu. Kanski hefur hönnuðurinn af honum alltaf verið að gleyma matnum sínum í ofninum og viljað fá áminningu?

þriðjudagur, júní 03, 2008

Tón-list

Einhverntíman lofaði ég sjálfum mér að gefa út sólóplötu fyrir þrítugt en þ.s. það virðist að mér muni takast að eignast 3 barnið áður en ég verð þrítugur þá hef ég ekki verið jafn iðinn við að standa við tólistarsköpunina enda nóg að gera í öðru.

Ég keypti mér samt POD X3 sem Snorri bróðir greip með til landsins frá BNA þar sem hann og dæturnar voru í heimsókn hjá Jóhanni( ég þarf nú að fara að kíkja til hans við tækifæri ;). Seinustu 2 kvöld hef ég eytt góðum tíma í að fikta í græjunni og held að þetta auðveldi mér ýmislegt og aldrei að vita nema ég reyni að vinna í sólóplötunni í tíma og "ótíma"( verð að fara að kaupa mér uppruna orðanna til að skilja svona orð ). Enda er þetta nú bara áhugamál og þarf ekki að vera uppá marga fiska ;)

þriðjudagur, maí 27, 2008

Lífið er fínt

Í gær var starfsdagur hjá Bínu og ég því einn með krakkana heima. Þau eru orðin ágætis félagar og voru afskaplega stillt. Fyrir matinn lékum okkur inní herbergi í playmobile. Bjartur var afskaplega duglegur að borða og eitthvað datt ofan í Sunnulinginn líka. Eftir matinn léku þau saman inní herbergi á meðan ég tók til í eldhúsinu og síðan var farið inní rúm að lesa. Þau völdi sitthvora bókina og síðan kúrðum við öll saman og lásum báðar bækurnar undir sæng. Að liggja í rúminu með krakkana og lesa fyrir þau er alveg yndislegt. Ég er ekki frá því að mig hafi dreymt um þetta í mörg ár og nú eru þau bæði orðin nógu stór til lesa fyrir saman og enn eitt að bætast í hópinn eftir nokkra mánuði. Hvað get ég sagt annað en að lífið er fínt ;)

föstudagur, maí 16, 2008

Heitir pottar

Tók að mér smá vefuppsetningu, fyrir Trefjar sem vantaði nýjan vef fyrir heitu pottana. Nýtti tækifærið til að prófa að setja upp Joomla hjá Símanum og gekk það ágætlega, amk útgáfu 1, en prófaði ekki 1.5, geri það síðar.

Hef séð ýmsa hér á landi sem þykjast vita eitthvað um Joomla en merkilegt að þeir sem gefa sig út fyrir að kunna eitthvað á það virðast nú ekki klárir á ýmsum grunnþáttum...kanski ég hripi einhverntíman niður þessa grunnþætti ;)

En auðvitað er tilgangur þessarar færslu að vekja athygli á því að heitir pottar eru ágætir ;)

mánudagur, maí 05, 2008

Flug fyrir klink

Var að spá í að fara til Seyðis seinustu helgina í apríl. Á mánudegi fór ég að skoða flugið en það kostaði yfir 50 þúsund og fara með fjölskylduna svo ég var ekki alveg till í það fyrir 5 daga ferð. Á þriðjudeginum kom svo klinktilboð hjá flugfélaginu. Reyndar var það auglýst sem tilboð aðra leiðina, þannig að ég bókaði bara aðra leiðina fyrst og svo hina, báðar á klink-i ;) Þannig að við fengum 4 daga ferð og kostaði flugið undir 15 kúlum, þannig að við vorum alveg í skýjunum yfir því. Ef að það væri alltaf svona ódýrt að fljúga myndi ég alltaf vera að skreppa austur ;)

miðvikudagur, apríl 23, 2008

Þursabit?

Í gærmorgun vorum við feðgar á leiðinni leikskólann þegar ég lyfti honum upp með þeim afleiðingum að eitthvað í bakinu ákvað að gefa sig. Ég átti bágt með að komast til vinnu þótt ég væri í bíl og hélt í mér að öskra ekki alla leiðina. Í vinnunni var ég iðinn við að standa upp og hreyfa mig til að reyna að liðka bakið. Þegar ég var spurður í annað sinn hvort ég væri með þursabit varð ég að fletta því upp þ.s. ég vissi ekkert um þursabit. Í leit minni á netinu rakst ég á eftirfarandi setningu:

"Hins vegar hefur komið í ljós að verkirnir hverfa fljótar og minni hætta er á að þeir verði langvarandi ef sjúklingurinn hreyfir sig eins mikið og hann mögulega getur og reynir að lifa eðlilegu lífi."

Sem vakti undarlega mikla kátínu í mínum litla huga þegar ég sá sjálfan mig fyrir mér hlaupandi um í vinnunni.

Þegar þarna var komið sögu var ég nokkuð viss um að ég væri nú ekki svona illa haldin en samt las ég hina greinina sem ég hafði flett upp og rakt á eftirfarandi atriði:
  • Ef þú hættir skyndilega að hafa stjórn á þvaglátum eða ef þú verður tilfinningalaus í klofinu leitaðu þá samstundis til læknis.

  • Ef þú missir mátt í öðrum eða báðum fótum hafðu þá samband við lækni strax.

  • Ef verkirnir verða óbærilegir leggðu þá íspoka á svæðið þar sem verstu verkirnir eru í u.þ.b. 10-15 mínútur. Mikilvægt er þó að hafa íspokann ekki of lengi á auma svæðinu.

  • Ef verkirnir hafa varað lengi getur verið gott að læra styrktaræfingar og vera síðan duglegur við að gera æfingarnar. Læknar, sjúkraþjálfarar og hnykkjarar (kírópraktorar) geta kennt þér æfingarnar.


Og átti ég bágt með mig að lesa þetta þ.s. mér fannst þetta allt óskaplega fyndið...sem einhverjum finnst kanski óviðeigandi? En ég úrskurðaði því að ég væri ekki með þursabit eða aðra alvarlega bakverki og var það staðfest í fyrramálið þegar ég var orðinn mun betri...kanski vegna þess hversu mikið ég hló ;)

mánudagur, mars 24, 2008

Að hreyfa sig ekki

Eftir að hafa státað mig af því að vera farinn að hreyfa mig( sem var fyrir mánuði síðan ) þá hef ég ekki farið að lyfta né í sund. Aðallega hafa það verið veikindi sem hafa verið að ganga frá mér og krökkunum, en Bína hefur sloppið nokkuð vel í gegnum þetta veikindatímabil síðustu vikna( sjö, níu, þrettán ). Síðan fluttist saumaklúbburinn hjá "skvísunum" yfir á þriðjudag um daginn. Ekki það að skilja að ég taki þátt í einhverjum saumaklúbb hjá einhverjum "skvísum" en einhver varð að passa að þessir gríslingar sem leika hér lausum halda fengju eitthvað að borða og færu í háttinn á meðan "skvísan" á heimilinu fór og hitti hinar "skvísu" vinkonur sínr. En nú fer ég að drattast aftur af stað, enda ekki seinna vænna að nýta þetta hálfsárs kort áður en það rennur út...nú þarf sumarið bara að fara að kíkja svo við komumst í sund ;)

sunnudagur, mars 09, 2008

Betri gæði á myndböndum hjá YouTube

Var að lesa bloggið hjá root og rakst þá á umfjöllun hans um myndbönd á netinu þ.s. vísað er í grein um að betri gæði séu komin á YouTube. Skemmtilegt að geta horft á Kraft & Hreysti í mun betri gæðum heldur en koma sjálfgefin upp á YouTube síðunni minni. Kann alltaf vel að meta þegar ég læri eitthvað nýtt ;)

fimmtudagur, febrúar 21, 2008

Að hreyfa sig

Fyrir áramót keypti ég mér líkamsræktarkort í Naulius eftir margra ára hlé frá því að lyfta. Enda var heldur betur kominn tími að styrkja sig aðeins meðfram bandýiðkun. Sem betur hefur mér tekist að halda bandýiðkun inní vikuskipulaginu þrátt fyrir barneignir og vinnu seinustu ára...en seinast þegar ég stundaði lyftingar var ég í háskólanum =)
Ég ætlaði nú að finna stað í Hafnarfirði en Salalaugin var með lengri opnunartíma þannig að ég get kíkt þangað eftir að krakkarnir eru stofnaðir. Ekki skemmir heldur fyrir að geta bara farið í stund í staðin fyrir að lyfta. Ég gerði það í gær þ.s. ég nennti ekki að lyfta og tók bara nokkrar sundferðir í staðin. Auk þess er þetta laugin sem við stundum mest þ.s. rennibrautin er lang skemmtilegust á höfuðborgarsvæðinu og laugin líka mjög skemmtileg.
Ekki svo að skilja að ég sé mikill lyftingarmaður en lappirnar voru farnar að kvarta sáran...sem barst svo uppí munn á mér og til eyrna Bínu sem þurfti að hlusta á mig væla undan eymslum eftir hvern bandýtíma. Eftir aðeins nokkra mánuði virðist ég var laus við þreytu og pirring í löppum öllum til mikillar ánægju.

fimmtudagur, febrúar 14, 2008

Gleym mér ei

Það hlaut að koma að því að ég gerði mér ferð á Vitabar til að smakka gráðostaborgarann þeirra. Það er búið að vera á dagskrá hjá mér í ábyggilega 7 ár, þannig ég var orðinn verulega spenntur.
Staðurinn var einmitt eins og ég ímyndaði mér, lítil búlla alveg laus við að þykjast vera fín og flott. Við Hugi skruppum í hádeginu í gær. Vorum seinir fyrir og rétt náðum sæti...virtist vera fullt þarna allt hádegið. Borgarinn var óaðfinnanlega góður og tel ég hann slá út Colossus á Ruby Tuesday( þetta er farið að hljóma eins og ég sé einhver hamborgarasérfræðingur....mér finnst þeir reyndar alltaf góðir ). Bráðinn gráðostur og piparsósa ásamt litlum bjór, dós af kók, frönskum og tómatsósu mynduðu yndislegt partý í maganaum á mér og ætla ég að upplifa þetta bragð aftur sem fyrst ;)

miðvikudagur, febrúar 06, 2008

Hvert hringir þú "óvart"?

Farsímanotendur kannast kannski við að hringja óvart í fyrsta símanúmerið í símaskránni. Að öllum líkindum er það einhver sem byrjar á A og í mínu tilfelli er það góður maður að nafni Andri sem hefur fengið nokkur símtöl í gegnum árin frá mér án þess að ég hafi sagt nokkurn skapaðan hlut þ.s. ég hafði "óvart" hringt í hann.

Ákvað því að gera breytingu hjá mér og setja nafnið á Bínu sem "Aðal skvísan", þá hringdi ég "óvart" í hana héðan í frá...hvort sem hún verður ánægð með það eða ekki ;)

mánudagur, janúar 28, 2008

Málningarhelgi

Eftir upphringingu á föstudagsmorguninn sem lýsti óspennandi lífreysnlu á leikskólanum eru allir að ná sér á strik. Ég slapp við að vera viðstaddur þannig að ég fékk bara vægt sjokk m.v. Bínu sem var á staðnum. Á laugardaginn "drattaðist" ég loks til að mála "hjónaherbergið". Reyndar erum við Bína ekki enn hjón...og "hjónaherbergið" er þar að auki litla 6fm barnaherbergið... en það er efni í margar spennandi færslur sem birtast hér á næstu vikum...bíddu spennt(ur)!

En herbergið kemur bara vel út með "blautan sand" á veggjunum ;)

P.s nýjar myndir komu um daginn og einnig nokkur video.

miðvikudagur, janúar 23, 2008

Fékk póst um daginn um hvernig á að greina heilablæðinu(Slag)

1.Biðja manneskjuna að HLÆJA
2.Biðja manneskjuna að LYFTA BÁÐUM HANDLEGGJUM
3.Biðja manneskjuna að SEGJA EINA EINFALDA SETNINGU
(sem er í samhengi) ( t.d. ...Sólin skín í dag).

Ef viðkomandi á í erfiðleikum með eitthvert þessara atriða -
hringið þá strax í neyðarnúmerið 112 og lýsið einkennunum.

Ekkert að því að hafa svona upplýsingar við höndina þannig að ég sendi mér eftirfarandi sem SMS:

Heilablæðing?

1.HLÆJA
2.LYFTA BÁÐUM HANDLEGGJUM
3.SEGJA EINA EINFALDA SETNINGU

Gat ekki eitth. 112

miðvikudagur, janúar 16, 2008

Bjartur fær gleraugu

Bjartur fór til augnlæknis í dag eftir að kom í ljós í þriggja og hálfs árs skoðuninni að hann notaði annað augað lítið. Niðurstaðan er að hann er með latt auga og gæti þurft að láta líma yfir það í smá tíma með lepp. Einnig er hann fjarsýnn og verður því að fá gleraugu. Hann er ekki alveg sáttur við þessa breytingu þannig að við verðum að reyna að finna leið til að gera þetta meira spennandi fyrir honum ;)

Átti nú alveg von á að hann fengi gleraugu en þá vegna nærsýni sem hann hefði erft frá okkur. Einnig kom þetta að óvart því hann er afskaplega duglegur að teikna og klippa. Stundum vill hann sitja nálægt sjónvarpinu( þótt hann fái það ekki ) þannig að ekkert hefur bent til þess að hann væri fjarsýnn.

Annars er janúar undirlagður í læknaheimsóknum, viðhaldseftirlitið á Bjarti ;)