Skelltum okkur til Palla&Erlu í sumarfríinu og hægt er að sjá myndir úr ferðinni og svo eru hér einhverjir punktar frá því sem við gerðum:
1. dagur miðvikudagurinn 16. júlí 2008
Vöknuðum snemma í flug. Bjartur ekki að nenna því, enda fóru þau bæði seint að sofa kvöldið áður. Sóttum Balla og hann skutlaði okkur á völlinn. Bjartur svaf í fluginu en Sunna sofnaði ekki fyrr en rétt fyrir lendingu þannig að hún var svoldið stúrin. Fundum bílinn hans Smára á bílastæðinu og brunuðum af stað, enda þurfi Bína nauðsynlega að komast á klósett. Þegar við vorum að komst inní Sisjön hverfið fórum gleymdum við afleggjaranum, alveg eins og í fyrra. Það gerði nú ekki mikið til þ.s. við rötuðum úr þeim ógöngum frá því í fyrra ;) Þegar við komum duttu Bjartur og Óðinn Bragi strax í leik eins og þeir hefði síðast hist í gær og vissum við ekki af þeim.
2. dagur fimmtudagurinn 17. júlí 2008
Dröttuðumst á fætur og svo fór ég og lagði mig kl. 10. Kl. 11 var ég vakinn við að Sunna væri týnd. Hófst þá heilmikið hlaup um hverfið þ.s. ekkert sást eða heyrðist til hennar. Erla fann svo Sunnulinginn inní runna hjá nágrannanum þ.s. hún var búin að skoða sig af og var að kalla á pabba sinn.
Fórum á rólóið í hverfinu enda var Bjartur búinn að bíða lengi að fá að komast aftur á sjóræningjaskipið og kíkinn sem er þar. Þeim kemur alltaf jafn vel saman og Óðinn Bragi mjög góður að leyfa Bjarti að leika sér með riddarabrynjuna( hjálm og sverð ) endalaust.
3. dagur föstudagurinn 18. júlí 2008
Sofið frameftir. Palli kom svo heim úr vinnunni og ákveðið að fara á Outlet í fataleiðangur. Ég tók lítið af fötum með mér þannig að það var ágætist hugmynd að reyna að finna eitthvað á góðu verði. Fann nú reyndar ekkert nema íþróttaskó. Allar vörur sem ég skoðaði voru á himinháu verði, þannig að ég virðist vera með mjög dýra smekk ;) Komum við í Coop á leiðinni heim og síðan var pizza um kvöldið, enda víst hefð að hafa pizzu á föstudagskvöldum.
4. dagur laugardagurinn 19. júlí 2008
Þokkalegasta veður en samt gæti skollið á rigning þannig að það var ákveðið að sleppa Slottskogen og kíkja í Lek og Bus land, leikjaland sem leit nú ekki út fyrir að vera merkilegt við fyrstu sýn en 3 tímar voru merkilega fljótir að líða og hafði ég ekkert minna gaman af heldur en krakkarnir en fann þó fyrir því að vera "aðeins" of stór ;) Risastór klifurgrind sem var auðvelt að týnst í á öllum 3 hæðunum( eða uþb ), kúlulaug, kúlubyssukastali og fl. Burger King á leiðinni heim þ.s. Taco Bar var að loka og ekki hægt að afgreiða þótt ekki væri búið að loka. BK svindlaði nú eitthvað á okkur og ekki fengu allir matinn sinn, en þetta dugði og var allt í lagi þ.s. ekki var nú um neina hollustu að ræða.
5. dagur sunnudagurinn 20. júlí 2008
Palli loksins kominn í sumarfrí e. næturvakt. Ég og Bína fengum að fara í verslunarferð. Sunna kom með og var ekki til friðs þannig að ekki tókst að eyða nema um nokkrum tugum þúsundkalla í föt ;) Fórum á rólóvöll með krökkunum þ.s. endalaus eltingaleikur var upphafður eins og í fyrra og stelpurnar vildu bara róla. Íslenskt lambalæri í boði P&E um kvöldið sem var alveg himneskt.
6. dagur mánudagurinn 21. júlí 2008
Brakandi blíða þegar komið var fram um morguninn eftir rigningar gærkvöldsins. Þegar allir voru komnir á ról og búnir að ná áttum var ákveðið að halda í Liseberg tívolíið þ.s. veðurspáin fyrir morgundaginn sýnir meiri rigningu. Komum ekki fyrr en á hádegi í Lieseberg. Fyrsta tækið, Víkingaskipin, reyndust biluð um leið og strákarnir voru búnir að koma sér fyrir en það var bara haldið áfram för allan daginn og garðurinn ekki yfirgefinn fyrr en um 6. Rússibaninn var í uppáhaldi hjá Bjarti sem fyrr. Allir hálf búnir á því eftir hasarinn í dag þótt Freyja Sif hafi bara sofið sínu værasta í garðinum á meðan Sunna tók sér bara smá lúr en var merkilega góð m.v. að þurfa að hanga í kerrunni í allan dag í sól og hita.
7. dagur þriðjudagurinn 22. júlí 2008
Skýin stoppuðu stutt við í morgunsárið og komin var brakandi blíða uppúr 10. Við Palli fórum með krakkana út á fótboltavöll þ.s. mest var gaman að sulla í polli. Stelpurnar voru fastar í berjamó. Í hádeginu var orðið brakandi og fórum ég og strákarnir á leikvelli og klifurtréð. Fundum fullt af Hallon berjum og var ákveðið að taka með dollur á morgun og koma heim færandi hendi með ber handa öllum. Ég og Palli færðum markisuna framar svo hurðin á pallinn næði að opnast betur. Við skruppum svo aðeins í Maxi þ.s. við náðum að kaupa slatta af skóm og Sunna fékk að frekjast. Kvöldverðurinn var úti undir markísunni en gekk nú út á lítið annað en að reyna að hafa hemil á stelpunum sem létu öllum illum látum á meðan matnum stóð. Síðan fóru krakkarnir niður að horfa á skrípó að vanda og eins og síðustu 2 kvöld kom Sunna upp og vildi bara hanga með foreldrunum og fá óskipta athygli og meira að borða fyrir átökin við að fara að sofa, en hún hefur ekki verið sú stilltasta síðan við komum. Kannski er henni jafn heitt og mér, en mér er búið að vera heitt síðan ég kom og líklega verð ég ekki búinn að venjast þessum hita áður en ég fer ;)
8. dagur miðvikudagurinn 23. júlí 2008
Smá skýjafar var velkomið þegar við strákarnir fórum í berjatúr og sóttum nokkuð af hallon(bróm-)berjum og nokkur kirsuber þ.s. við fórum líka á leikvellina því þeir höfðu ekki mikla eirð í sér að tína endalaust af berjum af runnunum. Óðinn Bragi, Freyja Sif og Erla fór að sækja Magga og Önnu Dóru sem komu heldur betur með góða veðrið með sér, en Anna Dóra kemur víst alltaf með það með sér. Einnig voru þau drekkhlaðin íslenskum munaðarvörur s.s. lambakjöti og Cherios. Ég gerði tilraun til að finna mér buxur því ljósu buxurnar mínar eru víst komnar á síðasta snúning en eftir ábyggilega tveggja tíma rölt um Maxi( verslunarmiðstöðina ) þá fór ég þaðan með eina stuttermaskyrtu( og þá er ég kominn með 4 nýja stuttermaskyrtur, 4 skó, einhverjar brækur en engar buxur hef ég fundið enn og þarf því víst að fara aftur í búðir ). Bína fann einnig einhvern H&M bækling þannig að nú þarf að fara þangað líka því henni vantar allt sem er í bæklingnum og meira að segja farin að tala um að við þurfum að eignast einn strák í viðbót til að kaupa einhver strákaföt á. Ætli besta leið til að fá konu til að vilja eignast börn sé ekki að rétta henni barnafatalista?
9. dagur fimmtudagurinn 24. júlí 2008
Vöknuðum um 10 leitið þ.s. krakkarnir fóru ekki að sofa fyrr en um 11. Steikjandi hiti kominn yfir 26° strax um morguninn. Eitthvað varð hitinn nú meiri yfir daginn, 27° sagði einhver heimasíða en í sól var þetta nær 34° og nánast ólíft á ströndinni við Sísjönvatn. Náðum að hanga þar í um/yfir 3 tíma. Geitungarnir voru full sólgnir í mig en með því að skella mér í smá sundsprett tókst mér að slá á þá og hitann. Markisan sló vel á sólina seinnipart dags og allir voru vel búnir á því eftir daginn. Ekki liggur enn fyrir hvað eigi að aðhafast á morgun enda er veðurspáin ekkert nema sól og hiti og erfitt að athafna sig í svona veðri.
10. dagur föstudagurinn 25. júlí 2008
Bjarti tókst að vekja alla kl. 9 sem var ágætt að vera komin á fætur fyrir 10, en ekki allir sáttir við það að hann skyldi öskra "Mamma" um leið og hann vaknaði. Brakandi blíða var enn á lofti og séð framá hana næstu daga. Eins gott að skella sér bara í dýragarðinn í dag þ.s. það er föstudagur og á morgun yrði líklega fjölmennara í garðinum. Komumst af stað uppúr 11 og vorum komin inní garð eitthvað rétt uppúr 12. Það gekk nú reyndar ekki áfallalaust því ég hafði skrifað niður nákvæmar leiðbeiningar hvernig ætti að komast í dýragarðinn sem við fylgdum fullkomlega og vorum kominn á réttan stað, fyrir utan litla gæludýrabúð í miðri Borås. Sem betur fer hafði ég skoðað hvar sundlaugin var nokkurn vegin og vissi að við áttum að keyra upp götu 42. Í ljós kom svo að sundlaugin var við hliðina á dýragarðinum sem útskýrði mikið fyrir mér...en samt var ég ekkert að furða mig á því að dýragarður væri í miðri borginni ;) En uppúr hádegi komumst við inn og vorum við Bína yfir okkur hrifin af afríkudýrunum. Við fórum hægri rúntinn, sem Erla hafði mælt með, og komum því fljótlega að Savannah svæðinu þ.s. gíraffi tók á móti okkur. Við æstumst öll upp og þegar við sáum fíla, sebrahesta og fleiri dýr vorum við alveg gáttuð. Borðum yfir Savannah en vorum svo hrakin burt af geitungaher sem er farinn að æsast þessa dagana í hitanum. Litlu aparnir voru ákaflega skemmtilegir og höfðu allir mjög gaman að horfa á þá hlaupa og klifra. Bjartur stalst til að gefa dádýrum smá að borða, en samt ekki því sem var með horn ;) Selum var svo gefið og léku þeir listir sínar fyrir áhorfendur. Stuttu síðar komumst við út eftir um 5 tíma rölt. Afskaplega góður dagur og við vorum ánægð með að hafa skellt okkur. Komumst nokkuð auðveldlega úr bænum með hjálp skilta og hættum að nota leiðbeiningarnar mínar af netinu. En þá sáum við að bremsuljós var komið á bílinn, það hafði sést í örfár sekúndur seinustu daga en nú logaði það. Þegar við höfðum ráðfært okkur við handbókina komumst við að því að þ.s. bremsurnar virkuðu væri þetta ekkert til að hafa áhyggjur af strax. Þá sáum við það sem verra var að hitinn á vatninu var kominn upp úr öllu valdi. Gerðum tilraun til að fara út af hraðbrautinni en fundum hvergi opna búð eða skrifstofu. Héldum förinni áfram sem endað á því að við vorum búin að drepa á bílnum út í vegkanti. Fundum smá vatn og svo frostlög sem gerðu mest lítið. Náðum að keyra smá og renna þó nokkra kílómetra í drepandi hita þangað til við fundum Flugger verksmiðju og búð þ.s. ég fékk vatn á vatnskassann. Síðan var brunað heim með bremsuljósið logandi, en bremsurnar virkuðu þó. Eitthvað þóttumst við vera farin að þekkja leiðina heim en þegar við uppgötvuðum að við vorum á leiðina til Malmö þá snerum við við og komumst á heilu og höldnu á áfangastað. Um kvöldið setti ég svo bremsuvökva á bílinn og hann orðinn sem nýr ;)
Myndir úr dýragarðinum
11. dagur laugardagurinn 26. júlí 2008
Allir komnir með nóg af þessu veðri. Við Palli héldum okkur heima við með krakkana og fórum ekki út fyrir hússins dyr nema undir markisuna á pallinum. Konurnar fóru í búðir og var víst ágætis loftkæling í flestum búðum. Hitastigið úti fór í um 32° en rétt þolanlega 29° innandyra. Ég nenni varla að leggjast út í smá sólbað því hitinn er bara of mikill og kannski engin ástæða til að mæta eldrauður í brúðkaup á morgun ;) Hitinn hélst stöðugur allan daginn og ólíft, nema í bílnum með Palla þ.s. loftkæling var. Við ætluðum að sækja gifsplötur f. framkvæmdir Palla niðri í kjallara en komum 10 mín. eftir lokun. Hitinn er enn of mikill f. mig og virðist ég ætla að hafa rétt fyrir mér að ég muni ekki aðlagast þessum hita á þessum 14 dögum.
12. dagur sunnudagurinn 27. júlí 2008
Við vöknuðum snemma, svona um 8, þ.s. við vildum vera mætt tímanlega út á lestarstöð á leið til Köben í brúðkaup Helgu Bjartar og Ingibjörns. Loksins tókst okkur að vakna á undan öðrum ;) Pakkað var í tösku og Palli skutlaði okkur á Goteborgs Centralstation. Það fundum við miðasjálfsala og tókum út miðana okkar og biðum svo lestarinnar. Þegar við komum á sporið var ekki sama númer á lestinni þannig að við biðum en ég fékk svo upplýsingar um að þetta væri lestin og við rétt náðum almenningssætum. Ferðin var afskaplega þægileg. Reyndar varð lestin orðin full troðin þegar farið var frá Malmö og ekki bætti úr skák að par sem brussaði sér við hliðina á okkur lyktaði heldur illa, amk maðurinn. En þ.s. það var nú bara um hálftími yfir til Kaupmannahafnar var þetta ekkert alvarlegt, enda færði hann sig hinu megin við ganginn og slapp það þá til. Þegar til Köben var komið hoppuðum við beint upp á jarðhæðina í Hovedbanet, pöntuðum pylsu þó að afgreiðsludaman tæki sinn tíma í að athuga hitastigið á þeim með kjötmæli og spjalla svoldið við okkur, enda grunlaus um það að við höfðum bara 20 mín til að komast í kirkjuna. Með pylsurnar fórum við út og fundum leigubíl. Leigubílstjórinn var arabi með túrban. Hann jánkaði þegar ég spurði hvort hann væri laus og jánkaði líka þegar ég spurði hvort við mættum borða pylsurnar í bílnum. Hann skildi engan vegin þegar ég sagði "Sankt Pauls Plads" sem endað í því að ég sýndi honum heimilisfangið á SMS-i sem ég hafði sent sjálfum mér. Hann jánkaði þá eitthvað og keyrði af stað, stoppaði á rauðu ljósi og tók upp kort af borginni og byrjaði að leita. Ekki var það alveg til að róa okkur með ekki nema um 10 mínútur til stefnu þ.s. daman í pylsuafgreiðslunni þurfti að spjalla svo mikið. Hann fann þetta nú fljótlega og sagði að þetta væri ekki langt sem ég samsinnti og sagði að hann ætti að ná þessu á 8 mín. sem ég hafði fengið uppgefið á netinu. Þegar ég hafði troðið pylsunni í mig, sem var merkilega m.v. þær sem ég hafði fengið í Svíþjóð, þurfti ég að drífa mig í jakkafötin. Spurði nú leigubílstjórna hvort ekki væri í lagi að ég skipti um föt og hann jánkaði, en var það nú bara svo honum brygði nú ekki við að sjá mig á nærbuxunum allt í einu. Rétt tókst að troða mér í fötin og þá vorum við komin. Í samskiptum okkar við að gera upp ferðina rann það upp fyrir mér að líklega var hann ekki mjög slyngur í enskunni og kannski hafði hann ekkert skilið hvað ég var að segja allan tímann ;) Stukkum beint inní kirkjuna rétt áður en dyrunum var lokað. Athöfnin var mjög falleg og að henni lokinni var hoppað upp í rútu og haldið af stað út úr bænum. Klt. síðar voru allir á herbergjunum sínum og gera til tilbúna og 5:30 var tekið á móti brúðhjónunum. Veisluhöld gengu vel fyrir sig og maturinn æði, allt var vel skipulegt og heppnaðist alveg rosalega vel og umhverfið var æðislegt.
Myndir úr brúðkaupinu
13. dagur mánudagurinn 28. júlí 2008
Vaknaði í svitabaði um 8 og gafst upp á að reyna að sofa lengur enda skein sólin á herbergisgluggann okkar. Morgunmaturinn í boði brúðhjónanna var glæsilegur og síðan var farið með rútu aftur til Köben. Hún stoppi f. utan Hovedbanet sem hentaði okkur afskaplega vel. Gengum á ráðhústorgið og tókum nokkur skref upp strikið, svona fyrst Bína hafði aldrei komið til Köben. Biðum svo bara eftir lestinni á stöðinni. Vorum í almenningsstæðum til Malmö en þar tókum við X2000 lest sem hafði veitingavagn og góð flugvélasæti og var það afskaplega notalegt ferðalag alla leið til Gautaborgar. Bjartur og Erla tóku á móti okkur á lestarstöðinni og rosalega gott að knúsa strákinn sinn aftur. Hann hafði verið stunginn af geitungi á ströndinni en bar sig vel. Þegar við komum heim fékk ég smá knús frá Sunnu en hún vildi fara strax aftur til mömmu sinnar, enda eru börnin heilmikil mömmubörn.
14. dagur þriðjudagurinn 29. júlí 2008
Einhver ský voru á lofti þegar við komum á fætur um 8 leitið í morgun, hálf uppgefin eftir danmerkurferðalagið. Skýin voru nú ekkert sérstaklega að stoppa við. Við Bína fórum með strákana í dótabúðir um morguninn þ.s. þeir fengu sinn hvorn LEGO kassann. Skúr kom á meðan við vorum í búðum og hafa líklega öll blóm, tré og plöntur hrópað af gleði. Skúrinn var þó skammur og allt orðið þurrt stuttu síðar. Fórum svo í Slottskogen um 4 leitið en stuttu eftir að við vorum komin á stóra leikvöllinn var ákveði að drífa sig heim þ.s. skýjabakki og þrumur voru komnar ískyggilega nærri. Ekki var Sunna ánægð að vera tekin strax af leikvellinum svona rétt þegar hún var að byrjað. Ekkert varð nú úr veðrinu en við létum þetta gott heita og héldum heim.
15. dagur miðvikudagurinn 30. júlí 2008
Fórum á fætur snemma á íslenskum tíma kl. 6, sem er nú reyndar bara 8 í Svíþjóð en telst snemma m.v. okkur ;) Eftir morgunmat var farið með restina af farangri og okkur út í bíl eftir að hafa knúsað og kysst alla á Sisjönvegi 491.
Brunuðum beint á flugvöllinn og skildum bílinn hans Smára eftir á P6( beint undir skilti merkt K6 ). Innritun var nú ekki hafin þegar við mættum og síðan var ég með allt snyrtidót í tösku sem mátti ekki fara í handfarangur þannig að ég þurfti að fara með hana aftur í innritun. Aftur fengum við sæti aftast í flugvélinni en að þessu sinni var það Sunna sem sofnaði fljótlega, enda var hún orðin stúrin og búin að vera erfið síðan við fórum í gegnum öryggishliðið á flugvellinum.
miðvikudagur, júlí 30, 2008
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
1 ummæli:
frábært að geta rifjað upp samveruna á blogginu þínu. Þarf að fara að blogga sjálfur svo ég viti hvað ég var að gera í síðustu viku.
Takk annars fyrir frábærar vikur. Hlakka til að sjá ykkur á klakanum.
Skrifa ummæli