föstudagur, ágúst 31, 2012

Gamification

Skráði mig í námskeið á netinu í Gamification sem byrjar mjög vel. Þegar eru tvær vikur búnar og fyrsta verkefnið sem var aðeins 5 spurningar en þó þurfti ég að hugsa mig vel um á 2 þeirra og önnur fannst mér snúin, en þetta endaði allt rétt eftir smá íhugun.

Námskeiðið er skemmtilega sett upp:
  • Myndskeið í hverri viku (um 5 stykki sem eru um 10 mín að lengd) og í þeim koma spurningar inná milli sem hægt er að svara, svona til að sjá hvort allir eru ekki öruglega að meðtaka ;)
  • 4 krossapróf þar sem niðurstöðurnar birtast strax og búið er að svara og skýring á möguleikunum. Reyndar er hægt að taka það oftar en einu sinni, á eftir að sjá hvernig það virkar.
  • 3 skrileg verkefni sem aðrir nemendur fara yfir og gefa einkunn (það verður fróðlegt, amk nóg af fólki en það voru 8000 nemendur búnir að skrá sig)
  • Lokapróf sem er krossapróf með áherslu á seinni hluta námskeiðsins
Fyrirlestrarnir eru stuttir og skemmtilegir og þægilegt að sjá kennarann samhliða (inná) glærunum og hann er líka aðeins að brjóta þetta upp t.d. með að hafa falin skilaboð í fyrstu myndböndunum...sem ég á enn eftir að reyna að leysa ;)
Mæli með að skoða Coursera því þarna eru námskeið af öllum toga og allir ættu að geta fundið eitthvað við sitt hæfi.

sunnudagur, ágúst 19, 2012

Sunna fótboltastelpa

fótboltastelpur á hliðarlínunni
Fyrsta fótboltamótið hjá Sunnu var í dag. Við mættum snemma og fljótlega fylltist allt af ungum fótboltakeppendum og foreldrum. Þær voru nú ekki alveg með á nótunum hvað var að gerast í fyrsta leik og gaman að því hvað það þurfti að útskýra allt fyrir þeim. En þær voru fljótar að ná þessu og næsti leikur var á móti "gestaliði" sem vildi svo vel til að vera foreldrar. Þeim tókst nokkuð auðveldlega að sigra okkur og skemmtilegt að fá að taka þátt í mótinu með þeim (eða móti þeim).
Leikirnir voru kláraðir og gaman að sjá að leik loknum tókust þær í hendur og síðan dönsuðu liðin sem voru að spila saman í hring og sungu "Ole". Ég er ekki viss um það verði alltaf svo mikil samheldni í framtíðinni hjá þessum fótboltastelpum ;)
Síðan var verðlaunaafhending og myndataka af liðinu. Frábært mót og gaman að taka þátt og sjá þessar upprennandi fótboltastjörnur taka sín fyrstu skref.

laugardagur, ágúst 18, 2012

Snorri

Snori bjórflöskur
Nonni&Begs redduðu mér Snorra sem er aðeins fáanlegur í flugstöðinni...veit ekki hvort Snorri sjálfur væri ánægður með það ;)
Einstaklega íslenskur bjór með blóðbergi sem gerir hann einstaklega "náttúrulegan". Bína var mjög hrifin af honum en það eru enn aðrir Borgara sem ég tek fram yfir hann, en skemmtileg viðbót við fjölskylduna.

fimmtudagur, ágúst 16, 2012

Gleðiganga í rigningu

Krakkarnir komnir í pollaföt
Við létum okkur ekki vanta í gleðigönguna í ár, frekar en síðustu ár. Full mikil rigning var og var myndavélin skilin eftir en það náðist þó ein mynd af krökkunum tilbúnir í pollagöllum áður en haldið var út í rigninguna og tekið þátt í gleðinni =)

miðvikudagur, ágúst 15, 2012

Vann mér inn broskall

Broskall á dagspassa í mu.is
Ég þurfti reyndar ekki að hafa mikið fyrir því að vinna mér inn þennan broskall um daginn. Í Fjölskyldu- & Húsdýragarðinum hafa í sumar verið uppblásnar kúlur sem hægt er að fara út á vatn. Ég fór...og fékk þennan broskall...þetta er reyndar til að merkja þar sem hver dagspassi má bara fara einu sinni...en ég held að þessi broskall hafi átt vel við því áhorfendur virtust skemmta sér vel. Ég tók nú ekki mikið eftir því en allir foreldrar voru mjög brosmildir þegar ég kom úr kúlunni og margir ábyggilega haft gaman af að horfa á mig veltast um. Þetta var samt alveg merkilega erfitt og var ég alveg búinn í góðan tíma á eftir =)

þriðjudagur, ágúst 14, 2012

Opið eða lokað

Ég & stelpurnar á svölunum að borða ís
Ég set ýmsar upplýsingar hingað á netið og einnig ljósmyndir af fjölskyldunni fyrir hvern sem er til að sjá og skoða. Ég spái ekki mikið um réttindi upplýsinga og trúi því að allt efni á sig sjálft og hver sem er ætti að geta notað það til að byggja á. Þetta var vel orðað hjá góðum kennara sem kenndi mér við Háskóla Íslands þegar hann sagði Góðar hugmyndir eru til tvenns nýtilegar: að græða á þeim eða stela þeim.
Hvernig hugmyndir þarfnast annara hugmynda er mjög vel lýst í þessum fyrirlesti og einnig annar skemmtilegur um kynlíf hugmynda sem styður þetta.

En þó að ég trúi á fresli hugmynd og myndi vilja að efni væri merkt með opnum leyfum þá er spurning hvort það réttlætir það að ég setji myndir (eða upplýsingar) af börnunum mínum á netið?
Þó að ég geti sagt að ég eigi þessi börn þá eiga þau sig sjálf (að mestu) en ég ber ábyrgð á þeim og hagur þeirra er vissulega framar öllu. Því velti ég fyrir mér hvort þeirra gögn ættu að vera lokuð...flest allt eru þetta upplýsingar fyrir mig, þau, okkur, fjölskyldu og vini sem ættu jafnvel ekki að vera opnar fyrir hverjum sem er? Eða þá að ég ætti að minnsta kosti að stjórna því hver hefur aðgang að þeim?

Ekki nóg með að ég þarf að lifa með þessari ákvörðun heldur þurfa þau líka að lifa með henni og ég vil ekki að þetta geti á nokkurn hátt skaðað þau.

Er ég of auðtrúa að það sé í lagi að hafa allt opið og aðgengilegt eða er það ofsóknaræði að loka allar upplýsingarnar af?

mánudagur, ágúst 13, 2012

Að horfa á eftir börnunum

krakkarnir
Fylgdi Sunnu í dag á leikjanámskið áður en að hún byrjar í grunnskóla. Merkilegt hvað tíminn líður hratt og þau vaxa fljótt upp. Ekki nóg með að hún hjólaði sjál alla leiðina heldur ætlaði Bjartur að fylgja henni heim, en hann mætir klukkutíma seinna á sitt leikjanámskeið.

Þegar ég fylgist með krökkunum vildi ég geta gefið þeim allt og uppfyllt allar þeirra óskir...en sem betur fer get ég það ekki. Þetta er þeirra líf og þau verða að upplifa það á sínum forsendum og hafa lítið að gera með að fá allt uppí hendurnar. Ég mun vissulega gera allt sem í mínu valdi stendur til að hjálpa þeim og vil allt fyrir þau gera en ég verð líka að leyfa þeim að vaxa í friði.

Stundum dettur maður í það far að reyna að stjórna þeim og "móta" þau eftir mínum hugmyndum. Í staðin þarf ég að reyna að leiðbeina þeim í rétta átt ef þau fara ranga leið og vera til staðar ef þau þarfnast mín. En ég þarf reyndar líka að gefa mér tíma til að verja með þeim í þeirra "heimi". Það er merkilegt hvað ég get verið upptekinn við að sinna hlutum sem mér finnst mikilvægir og vissulega finnst mér ég eiga að gera það...en í raun skipta þeir engu máli þegar krakkarnir vilja hafa mann nálægt og gera (nánast) hvað það sem hugmyndaflugið dregur þau áfram í. Ef þau hafa áhuga á einhverju ætti það að vera nóg og ættu bara að fá stuðning í því, hversu óþolandi eða skítugt það kann að vera ;)

Stundum verð ég þó að ráða, en ég verð að komast inná að gera það að sameiginlegri niðurstöðu í stað þess að vera alltaf að stjórna og vinna með þeim að lausnum sem allir eru sáttir við (win-win).

Um daginn fékk Dagný martröð að pabbi(ég) væri skrímsli og mamma talaði við eins og ekkert væri eðilegra. Ég vil ekki vera skrímsli í augum barna minna og þarf að hugsa hvernig ég er kem fram við þetta yndislega fólk "mitt" þannig að ég verði aldrei skrímsli í þeirra augum...nema bara í stakri martröð =)

mánudagur, ágúst 06, 2012

Sumarfrí á Seyðis

krílin 2012
Eftir nokkra góða saga í sólinni heima fyrir skelltum við okkur með skarann í bílferð austur á Seyðisfjörð. Náðum að keyra með smástoppum alla leið á Akureyri þar sem við skelltum okkur í sund. Að baðferð lokinni fengum við okkur að borða og héldum ferðinni áfram og komum óvænt á Múlaveginn undir kvöld.
Blíðviðri tók á móti okkur á Seyðisfirði og mörg ár síðan við höfum fengið lengt í góðu veðri þar…ætli það hafi ekki verið svona gott því enginn vissi af komu okkar ;)
Sindri var með streptó og eitthvað þurfti ég nú að ná mér í pest og þrátt fyrir að reyna að halda henni í skefjum með verkjatöflum var ég orkulítill næstu vikuna.
Þrátt fyrir að við gerðum nú ekkert merkilegt þá er alltaf gott að vera í fríi (heima) á Seyðis. Hefði viljað hitta meira fólk og drekka meiri bjór, en það tókst að taka kortu með Snorra, fá spákaffi, njóta veðursins, sundferðir, hoppa á trampólínu, lækjarferðir, leikvellir, út að borða á Skaptfell (loksins fengum við okkur pizzu þar) og síðan haft það gott eins og hægt er að sjá af myndunum frá fríinu á Seyðis.
Eftir um 2 vikur lögðum við af stað heim og ákváðum að fara suðurleiðina. Vorum nú ekki jafn snemma á ferðinni eins og þegar við komum og lögðum ekki af stað fyrir rétt fyrir hádegi. Eftir klukkutíma ældi fyrsti krakkinn og næsti klukkutíma seinna þannig að það leit nú ekki út fyrir að þetta yrði auðveld ferð. Tókum sundferðina á Höfn þar sem við vorum svo "sein" fyrir og þurfti að þrífa suma eftir bílveikina.
Sindri var þá kominn einhverja augnsýkingu sem ágerðist yfir daginn og þegar við renndum inní bæinn fórum við með hann beint uppá vakt þar sem hann fékk lyf við auganu og var hann þá orðinn eins og vel kýldur slagsmálahundur en alveg merkilegt hvað hann var duglegur og lét ekki í sér heyra fyrr en þegar við renndum í hlað á vaktinni.
Hann náði sér svo strak og við áttum notalega daga heima þar til nú er sumarfríið á enda í ár og myndirnar í júlí eru bara af ferðum í húsdýragarðinn (enda fínt að nýta kortið). Rólegt og notalegt frí og gott að ná góðum tíma á Seyðis í góðu veðri =)