miðvikudagur, júní 29, 2005

Megadauða tónleikar

Dave Mustain og félagar voru í heilmiklum rokkfíling þegar þeir stigu á stokk á Nasa á mánudagskvöldið. Ég var nú með blendnar tilfinningar þegar ég heyrði að tónleikarnir væru komnir inná Nasa frá Kaplakrika en það var ekki ekki verra. Drýsill steig fyrst á svið og var gaman að sjá Eirík Hauks taka fram rokkröddina, þó ég þekki nú ekki til þessarar sveitar frá fyrri tíð. Þegar Dave loksins lét sjá sig með Megadeth á svið var nokkuð ólýsanleg tilfinning, enda hef ég verið aðdáandi hans í þónokkur ár, eða það er tónlistarhæfileikum hans en annað í hans lífi er kannski mis gáfulegt. Það var frábært að fá þá á svona "lítinn" stað þ.s. manni leið næstum eins og að bandið væri að spila bara fyrir mig á köflum. Þótt að Megadeth menn hafi ekki verið með neina sýningu eða að hafa fyrir einhverjum tilþrifum eða klæðaburði skipti það engu þar sem tónlistin var svo mögnuð og spilamennskan nánast óaðfinnanleg. Eftir tónleikana var maður hálf orðlaus og átti ekki nógu góð orð til að lýsa upplifuninni, en þetta var "helvítis" rokk sem vel var virði að vera með hellu á öðru eyra út næstu viku =)

föstudagur, júní 24, 2005

Bústaður

Farið var í Grímsnesið, nánar tiltekið í Hraunborgir, á sólríkum 17. júní. Verið var með eindæmum gott þann föstudaginn og laugardaginn líka. Bekka&Böddi, Valgeir, Balli og Lilja&Svala komu með og bættist Harpa við á laugardaginn. Á laugardeginum fórum við í Slakka þar sem dýrin voru skoðuð í yndælis veðri. Á sunnudaginn týndist liðið svo heim eftir góða helgarferð, en við krílin vorum eftir. Guðjón&Harpa kíktu í formúlu/grill, en formúlan var nú hálf döpur en grillið heppnaðist hinsvegar mjög vel. Þar var nýsjálensk nautalund sem hafði marinerast í hvítlauk í nokkra daga í aðalhlutverki, en ekki síðri var gráðostasósan. Heilmikil rigning tók við á sunnudeginum en birti þó með kvöldinu þegar létta fór á skýjunum. Helga Björt, Anna og Matthildur komu í heimsókn á þriðjudaginn og var létt stelpnapartý sett af stað á meðan ég fór með Bjart í pottinn og síðan í háttinn, en við kallarnir höfðum mest lítið til málanna að leggja hjá kellunum :) Á miðvikudaginn fórum við að skoða Gullfoss og Geysi, þó það hafi nú verið Gullfoss og Strokkur sem tekinn er við af Geysi gamla. Þá var vind farið að lægja og sólin aftur sýnileg af íseyjunni. Fimmtudaginn fórum við og skoðuðum okkur um á Sólheimum og vorum mjög hrifin af staðnum. Böddi&Bekka komu í heimsókn um kvöldið og komu í grillrest en eitthvað var eftir af nautalundinni sem og gráðostasósunni sem ég átti mjög erfitt með að skilja mig frá. Við Bína fórum svo í pottin og klárum bjórinn sem til var í bústaðnum þannig að svefn var ekki eins mikill og óskast hefði verið fyrir seinustu nótt í bústað, enda vorum við hálf uppgefin þegar við komum heim á föstudeginum =)

Ferðalag á Austurlandið

Keyrðum á Akureyri 2. júní og gekk ferðin norður til Akureyrar mjög vel. Bjartur svaf frá göngunum til Staðaskála. Þá tókum við smá matarpásu og heldum förinni áfram. Bína tók við akstrinum og ég datt alveg út alla leiðina á Blönduós. Þá var tekið smá stopp þ.s. Bína var farin að þreytast og ég tók aftur við og kláraði á Akureyri. Við gistum eina nótt á farfuglaheimilinu Stórholti sem okkur líkaði ákaflega vel. Fengum stórt og mjög snyrtilegt herbergi, mun betra en við áttum von á að fá á farfuglaheimili og munum við ábyggilega gista aftur á Stórholtinu. Daginn eftir fórum við og kíktum á Emil afa þar sem hann hafði það notalegt á Sjúkrahúsinu á Akureyri. Hann leit bara þokkalega út og hafði Bjartur heilmikið gaman af því að kíkja á kallana á sjúkrahúsinu. Við héldum svo áfram ferð og enduðum á Seyðisfirði eins og áætlað var nokkrum tímum seinna. Eins árs afmæli var haldið á Múlaveginum á sjómannadaginn og var heilmikið stuð þar á bæ. Veðrið var nokkuð gott en kaldur gustur var nokkuð stöðugur inn fjörðinn. Heilmikið var gert af því að liggja í leti og hafa það notalegt og vorum við ekkert á stressa okkur á að gera eitt né neitt, enda höfðum við það mjög gott hjá Helgu ömmu. Lagt var aftur að stað heim næsta sunnudag í fínu keyrsluverðri undir breiðum skýjabökkum. Við stoppuðum á Höfn og fengum okkur smá snæðing á Ósinum og heldu áfram. Þegar við vorum komin framhjá fyrirhuguðum gistingarstað á heimferðinni ákváðum við að klára bara keyrsluna af á einu bretti. Bjartur var nú ekki alveg sáttur við að stuttu seinna sem endaði með því að við stoppuðum og fórum með hann útí móa að teygja úr honum. Þá kom heilmikill ropi eftir mjólkurþamb í bílnum sem hafði verið að pirra kallinn. Haldið var áfram og gekk heimferðin bara nokkuð vel, þótt Bjartur hafi nú ekki sofið mikið á heimleiðinni.