föstudagur, júní 24, 2005

Ferðalag á Austurlandið

Keyrðum á Akureyri 2. júní og gekk ferðin norður til Akureyrar mjög vel. Bjartur svaf frá göngunum til Staðaskála. Þá tókum við smá matarpásu og heldum förinni áfram. Bína tók við akstrinum og ég datt alveg út alla leiðina á Blönduós. Þá var tekið smá stopp þ.s. Bína var farin að þreytast og ég tók aftur við og kláraði á Akureyri. Við gistum eina nótt á farfuglaheimilinu Stórholti sem okkur líkaði ákaflega vel. Fengum stórt og mjög snyrtilegt herbergi, mun betra en við áttum von á að fá á farfuglaheimili og munum við ábyggilega gista aftur á Stórholtinu. Daginn eftir fórum við og kíktum á Emil afa þar sem hann hafði það notalegt á Sjúkrahúsinu á Akureyri. Hann leit bara þokkalega út og hafði Bjartur heilmikið gaman af því að kíkja á kallana á sjúkrahúsinu. Við héldum svo áfram ferð og enduðum á Seyðisfirði eins og áætlað var nokkrum tímum seinna. Eins árs afmæli var haldið á Múlaveginum á sjómannadaginn og var heilmikið stuð þar á bæ. Veðrið var nokkuð gott en kaldur gustur var nokkuð stöðugur inn fjörðinn. Heilmikið var gert af því að liggja í leti og hafa það notalegt og vorum við ekkert á stressa okkur á að gera eitt né neitt, enda höfðum við það mjög gott hjá Helgu ömmu. Lagt var aftur að stað heim næsta sunnudag í fínu keyrsluverðri undir breiðum skýjabökkum. Við stoppuðum á Höfn og fengum okkur smá snæðing á Ósinum og heldu áfram. Þegar við vorum komin framhjá fyrirhuguðum gistingarstað á heimferðinni ákváðum við að klára bara keyrsluna af á einu bretti. Bjartur var nú ekki alveg sáttur við að stuttu seinna sem endaði með því að við stoppuðum og fórum með hann útí móa að teygja úr honum. Þá kom heilmikill ropi eftir mjólkurþamb í bílnum sem hafði verið að pirra kallinn. Haldið var áfram og gekk heimferðin bara nokkuð vel, þótt Bjartur hafi nú ekki sofið mikið á heimleiðinni.

Engin ummæli: