föstudagur, febrúar 25, 2011

Sushi

Fórum með Bónerhópnum á Fiskimarkaðinn um kvöldið. Ég var hæstánægður með að komast þ.s. ég átti von á að vera heima með slappa stelpu en er alltaf til að komast út að fá sushi.
Maturinn var æðislegur og þykir mér alveg merkilegt hvað mér þykir "vænt" um sushi...kannski bara vegna þess að ég fæ það sjaldan. Enn merkilegra er þó að ég skuli borða þennan mat þ.s. ég er enginn aðdáandi að hráum mat og þá sérstaklega ekki fisks. Auk þess er ég nú ekki mikið fyrir annað en steikta ýsu og vil helst ekki sjá lax. En ég læt mig hafa allt sem mér er boðið uppá á sushi bökkum og held að það sé nú aðallega vegna þess að ég kann vel við sojasósu og washabi ;)
Skálað á Fiskimarkaðnum
Við drógum okkur svo fyrst af öllum til hlés, enda lítill herramaður heima fyrir sem þarf að fá móður sína mjög reglulega =)

Stóra pabbastelpan

Sunna átti bókaðann tíma í morgun í hálskirtlatöku. Það er erfitt að þurfa að undirbúa barn fyrir svona...en jafnvel erfiðara að undirbúa foreldrana.
Hún var nú samt alveg með þetta á hreinu að læknirinn væri að fara að skera hálsinn og svo fengi hún ís.
Þannig að á föstudagsmorgni var hún orðin vel dópuð af verkjalyfjum þegar við fórum inn á móttökuherbergi þ.s. hún fór í föt í eigu þvottahúss spítalanna. Þrátt fyrir að hafa ekkert borðað síðan kvöldið áður var hún nokkuð hress...en ætli verkjalyfin hafi ekki átt þátt í því. Hún var undarlega "spræk" og hafði mjög gaman að gretta sig í spegilinn og skoða á sér tunguna...svona eins og þetta væri allt mjög merkilegt ;)
Henni stóð nú ekki alveg á sama þegar við vorum komin inná skurðstofuna og þar var uppsloppað fólk og allt mjög bjart. Hún passaði að vera þétt uppað mér en gaf ekkert upp um að hún væri óörugg og gerði allt eins og henni var sagt. Lagðist uppá borðið og fékk svo grímu á meðan hún hélt í hendurnar á mér þangað til hún sofnaði.
Sunna og pabbi
Við foreldrarnir & Sindri fengum svo að bíða frammi. Nokkru síðar máttum við koma inn og sátum yfir henni sofnaði í góða stund. Við vorum viðbúin hinu versta þegar hún myndi vakna. Á öðru rúmi var einn ekki sáttur við uppvakninguna og fylgdist maður því vel með Sunnu til að vera tilbúin þegar hún kæmi til meðvitundar. Góður tími leið og svo loks fór að bera á hreyfingu. Tók munnstykkið út úr henni og á móti kom eitt stórt bros. Við vorum hálf gáttuð hvað hún var góð en bjuggumst s.s. alveg við að það myndi breytast, ef ekki strax þá bara þegar verkjalyfin hættu að virka. Hún settist síðan upp og sagðist vera ringluð. Fékk ís og mátti velja að horfa á DVD eða lesa bók og valdi hið síðara þannig að ég fékk að lesa nokkrar bækur fyrir hana. Síðan mátti hún bara fara og læknirinn sagði að hún mætti borða það sem hún vildi.
Það var ekki að sjá að hún hefði verið í aðgerð þegar heim var komið. Vildi bara borða og leika. Fékk aðallega ís til að byrja með, en var strax komin í brauð og síðan fylgi kex og popp á eftir þó svo að foreldrarnir voru ekki par hrifnir af þessu fyrir hálsinn.
Allt hefur gengið vel en verður henni nú samt haldið heima nokkra daga fram í næstu viku og reynt að hafa hana í ró til að tryggja að allt fari vel...svona eins mikil ró og er á heimilinu ;)
Sunna að lokinni hálskirtlatökunni

mánudagur, febrúar 14, 2011

Í tilefni þriðjudags...

...fórum við út að borða á Hereford (kemur að óvart ;). Það var nú ekki með ráðum gert að gera það á valentínusardaginn, en ekkert verra =) Það vildi svo vel til að gömul bekkjasystir sendi mér 2 fyrir 1 á Hereford sem hún hafði fengið á nuid.is, takk Jóhanna. Það hefur komið oftar fyrir að við höfum nýtt svona góðar gjafir velunnara og var maturinn, eins og oft áður, afskaplega góður ;)