þriðjudagur, desember 31, 2013

Annáll 2013


Ég hef gaman af því að fara yfir liðið ár og rifja upp helstu atriði. Ár er stærsta tímaeining sem ég nota og því finnst mér þetta alltaf skemmtilegt að fara yfir myndir ársins sem og allar blog-færslurnar hér.

Það virðist alltaf verða meira og meira að gera og minni og minni tími, enda ekki að búast við öðru þegar þessi 4 yndislegu börn stækka með hverju árinu. Ekki hjálpaði veikindatíð sem stóð síðasta vetur og vonandi verður aldrei aftur svona mikið af veikindum á heimilinu en Sindri átti erfitt að ná sér í ról og náði yfirleitt í eitthvað í hverjum mánuði.

Í upphafi árs var ég fenginn í smá Agile innleiðingu og hélt síðan námskeið um vorið sem heppnaðist vel og mjög lærdómsríkt. Auk þess var ég í stóru verkefni sem tók góðan tíma frá öðru stóran hluta af árinu en var jafnframt mjög skemmtilegt að halda utan um það og vinna í teyminu sem sá um það þó svo að vinnutíminn hafi oft ekki verið mjög fjölskylduvænn ;)
Einnig komst ég á námskeið hjá manni sem ég er búinn að vera að bíða eftir að kæmi aftur til landsins ;)

Þannig að draumar um frí áttu alveg rétt á sér. Helgamma kom um páskana sem var afskaplega notalegt og mörgum fannst erfitt að horfa á eftir henni í flugvélina.
Við skelltum okkur svo á Seyðisfjörð snemma um sumarið til að ná afmæli hjá Degi sem var ánægjulegt að hafa náð og náðum líka smá sól sem var ekki mikið að sýna sig fyrri sunnar. Skoðaði Tvísöng sem ég hafði aldrei séð og hafi séstaklega gaman af því að sjá hann líka hinu megin úr firðinum...svona eins og Barbapabbahús í fjallinu ;)
Fjallaskokk með Monsa var mjög skemmtilegt og hlakka ég til að taka það aftur næsta sumar.
Fjallaferð með Frænku í Lundarfarinu, afmælishátíð Hugins og gjörningur, dagsferð í Skálanes og margar góðar stundir í þessu annars frekar stutta fríi þar sem ég átti ekki mikið frí inni.

Réðst á baðið einn daginn sem var alveg kominn tími á...en þær framkvæmdir sem voru planaðar kláruðust nú ekki á árinu þannig að þetta verður nokkra ára framkvæmd =)

Ári eftir Brúðkaupspartýið skelltum við okkur í kósy ferð bara tvö sem var einstaklega notalegt.
Okkur tókst líka að hitta fólk og stunda smá félagslíf þar sem við fórum meðal annars 2 óvissuferðir, helgarferð í Veiðileysu og Hrekkjavöku.

Jólin komu svo í öllu sínu veldi þar sem dagatöl fjöskyldunnar, Bínu og mitt töldu niður dagana til jóla og áttum við gott jólafrí þar sem sleðaferðir og notalegheit voru ríkjandi.
Krílin kvöddu svo árið á Sævanginum í góðu yfirlæti og umkringd yndislegu fólki og áramótasprengjum sem krakkarnir fengu að skjóta upp...og Dagný reyndar aðeins of æst í þeim málum. Þegar að stóra kakan var komin út á götu var hún allt í einu búin að redda sér eld á stjörnublys og farin að kveikja á áður en að nokkur gat stoppað hana. Það fór þó allt vel og árið gekk í garð eins og önnur =)

B&L í lok árs 2013

Nokkrar sekúndur frá 2013


Hér er smá brot af 2013 í formi sekúndna sem er skeytt saman...ætla nú ekkert að taka sérstaklega fram hvaða forrit þetta var þar sem það er hálfgert drasl og ég mun ekki notað það aftur...en gaman að gera svona úttekt í þessu formi =)

Gámlársdagur


Rétt áður en við fórum í til Möllu&Þrastar á gamlárs náðum við mynd af okkur. Það er nú ekki alltaf sem við munum eftir því og ekki alltaf sem það tekst heldur að framkvæma það ;)

sunnudagur, desember 29, 2013

Sleðaferðir


Einstaklega vel hefur viðrað til sleðaferða og höfum við náð nokkrum ferðum. Stelpurnar hafa verið duglegastar að fara og náðum við einni ferð þar sem allir voru saman í dag. Brekkunar hjá Víðistaðatúni eru helsti staðurinn þar margir eru yfirleitt að renna og lítið sem hægt er að klessa á. Færið er reyndar aðeins of gott, búið að vera smá blautt og frysta þannig að það er ekkert sérstklega auðvellt að fóta sig...eða þægilegt þegar dottið =)

fimmtudagur, desember 26, 2013

Jólaboð á 2. í jólum


Það er árlegt jólaboð hjá Bödda&Bekku á annan í jólum þar sem systurnar og fjölskyldur mæta + Balli afi.
Það er alltaf gaman að hittast og einnig alltaf gaman að fá hangikjöt (sérstaklega ef það er bara einu sinni ;) Ekki verra þegar það eru nokkrar tegundir í boði og hægt að smakka munninn. Síðan er alltaf eitthvað fleira á boðstólum sem er hægt að gæða sér af...enda eru jólin til þess ;)

Síðan er alltaf sest til við Trivial keppni. Yfirleitt er það nú stelpur vs. strákar en á ár var einnig bætt við ungir vs. aldnir. Það var skemmtileg nýbreytni...en það er nú yfirleitt skemmtilegra í kynakeppninni þar sem þar er rifist svo skemmtilega mikið ;)

þriðjudagur, desember 24, 2013

Aðfangadagur 2013


Um morguninn fórum við að vanda til tengdó í morgunkakó. Þó svo við náum nú ekki að vera eldsnemma á ferðinni þá náðum vel við fyrir hádegi ;)
í hádeginu var það möndlugrautur en skammturinn var nú ekki stór þar sem ég bauð ekki uppá hann á Þorláksmessu í ár. Yfirleitt hef ég gert það til að fá þá í heimsókn sem eiga hjá mér pakka...en þar sem flestir voru komnir til skila þá sleppti ég þessu í ár...en passaði nú samt að elda nóg til að geta borðað í amk 2 daga ;)
Fjölskyldufólk kom svo í smá aðfangadagsheimsókn til tengdó með pakka og síðan heldum við heim á leið til að byrja að elda.
Allir voru klæddir, búið að leggja á borðið og við sest klukkan sex þegar að jólin gengu í garð.
Pakkar fylgdu svo eftir mikið át hjá þeim sem gáfu sér tíma í það og tókst okkur að komast nokkur greiðlega í gegnum þá.
Sumir voru orðnir þreyttir og þegar nokkrir tímar voru eftir af deginum voru flestir dottnir útaf.
Ánægjulegur dagur að vanda =)

fimmtudagur, desember 19, 2013

Sindri 3 ára


Hann er alltaf sami kallinn og grallarinn hann Sindri. Jafnframt er hann alltaf mesta barnið enda er hann borinn saman við hina litlu snillingana ;) En hann átti nú erfitt ár að baki þar sem hann var allt of reglulega veikur en hefur verið mun betri eftir sumar ( og fiskleysi ) þannig að þetta er allt á réttri leið.

En hann kann að stjórna fólkinu í kringum sig og fær yfirleitt það sem hann vill...með góðu eða með sínum leiðum ;)

þriðjudagur, desember 03, 2013

Jóladagatal Bínu 2013


Bína hefur undanfarin ár gefið mér bjór-jóladagatal og það var víst lögnu kominn tími til að ég útbjó dagatal handa henni líka =)

Ég fann útklippanlega pakka á netinu og rétt fyrir desember fór ég í að klippa þá út. Það hefði ég betur gert fyrr því þetta var mun meira verk ég hafði gert ráð fyrir og var ég langt fram á nótt að koma þessu öllu saman...en lærði líka í leiðinni að í hönnunina vantaði "vængi/flipa" á hliðarnar á lokinu sem ég bætti við og urðu kassarnir þá mun lokanlegri.

Það var því súkkulaði og annað góðgæri sem hún fékk á hverjum degi...og síðan var síðasti pakkinn með smá auka =)

mánudagur, desember 02, 2013

Jóladagatal Loga 2013


24 innpakkaðir...einn dag...þetta er hluti af jólunum & því að eiga yndislega konu =) Hún fékk meira að segja smá innanbúðaraðstoð í ár þannig að það ættu allir jólabjórarnir að hafa náð í pakkana...spennandi að sötra á þessu og sjá hver stendur uppi sem sigurvegarinn í ár ;)

sunnudagur, desember 01, 2013

Jóladagatal Krílanna 2013

Dagatalið í ár voru útklippt snjókorn yfir fjölskyldunni. Hver snjókorn var klippt út og allir lituðu sig í fjölskyldunni, snjókornin merkt og miðar með skemmtilegum atriðum sem fjölskyldan á að gera smeygt í gegnum götin og síðan sjókorn rifið uppá hverjum morgni af spenntum krökkum ;)

Þetta er alltaf skemmtilegur undirbúningur fyrir jólin og margt sem við tökum uppá vegna þessa sem hefði annars aldrei verið gert...þannig að Bínu gerir jólin enn skemmtilegri hjá okkur =)

Þessi hugmynd fór meira að segja í fjöldaframleiðslu hjá vinafólki okkar fyrir jólin, þar sem sjókallinn frá því í fyrra var fyrirmyndin og gaman að sjá góða hugmynd komast inní fleiri fjölskyldur.

laugardagur, nóvember 30, 2013

Sunna bellerína


Sunna sýndi í dag í balletnum í síðasta tíma fyrir jól. Hún var búin að vera með okkur að horfa á systur sínu og steig svo á gólfið með sínum hóp. Alltaf jafn gaman að horfa á þessu dúkkulísu dansa og verður vonandi sem lengst í þessu =)

Dagný ballerína


Síðasti balletttíminn hjá Dagný fyrir jól og þá var slegið upp sýningu fyrir vini & vandamenn. Þær verða alltaf flottari með hverju árinu og gaman að skoða myndir frá þessum litlu ballerínum síðustu ár. Vonandi verða þær systur síðan einhverntíman saman á sviðinu enda eru þær farnar að sýna heima fyrir saman og eru flottar saman. Það er aldrei langt í sprellið hjá Dagný kátu =)

þriðjudagur, nóvember 05, 2013

Vinkonuafmælisveisla


Sunna & Elsa héldu saman uppá afmælið í dag og það var ekki leiðinlegt að geta hlaupið um og leikið með bekkjarfélögunum í Ævintýralandinu þar sem var haldið vel utan um alla.

föstudagur, nóvember 01, 2013

Hrekkjavaka 2013

Úlfurinn ræðst til atlögu á Rauðhettu
Það var flottur hópur sem mætti uppí Kaldársel í Hrekkjavökupartý hjá starfsmönnum Víðivalla. Ég hafði vit á því að hafa myndavélina með þannig að eitthvað er til að myndum frá þessari skemmtilegu samkomu fallega fólksins =)

laugardagur, október 26, 2013

Kósy á Hótel Geysi


Við fengum rómantíska ferð fyrir 2 í brúðkaupsgjöf fyrir ári og náðum loksins að skella okkur. Ferðinni var heitið á Hótel Geysi þar sem við áttum saman notalegar stundir bara tvö ein...merkilega sjaldan sem að það gerist hjá okkur ;)
Kuldi og myrkur og kósýheit sem var afsaklega ánægjulegt að eiga með Bínu minni...jafnvel náum við nú fleiri svona ferðum notalegum ferðum saman á næstunni...þó svo að við verðum nú líklega oftar en ekki með krakkana í för hvert sem við förum =)

mánudagur, október 21, 2013

Sunna 7 ára


Sunna er alltaf jafn yndileg og góð...þó hún geti líka alveg sýnt smá unglingastæla þá er það nú fyrirgefið fljótt þar sem hún er svo góð við alla í kringum sig. Það er líka kannski erfitt að vera svona góð alltaf ;)
Hún sver sig í Múlavegsættina og má oft sjá Rakel & Helgu í henni...sem er bara gaman að sjá andlitin í ættingjunum á heimilinu ;)
Á afmælidaginn var hún vakin í rúmminu við söng og fékk úlpu og ísvél...hún er smá ískellinging og það var efst á óskalistanum í ár...þá er eftir að vera dugleg við að læra á það og búa til okkar eigin ís =)

föstudagur, október 11, 2013

Dagný 5 ára


Hún gengur undir ýmsum nöfnum þessi elska: Dagný káta, Skrípó, Dagný sprengirós, Miss D... og hún er svo sannarlega vel að þeim komin. Það er aldrei lognmolla í kringum þessa skvísu og yndi að fylgjast með henni vaxa og dafna.
Á afmælisdagin var hún vöknuð þegar að fjölskyldan gekk út svefnherbergisganginn og söng afmælissönginn en þá var engin Dagný frammi...þá heyrist af litlu músíkröddi "Ég er inná klóóósetti". Höfðum við þá öll gengið framhjá henni án þess að taka eftir henni þar =)
Hún fékk græna úlpu og diskókúlu sem var efst á óskalistanum og mikil ánægja með...spurning hvort að Dagný diskó hafi ekki mætt á svæðið í framhaldinu...amk var hún fljót að skipuleggja diskó í Kaldárseli/leikskólanum og fór með hana einhverju seinna þangað og var diskó í náttfötum =)
Það er ekki hægt að búast við öðru en brosi frá henni...enda fæddist hún brosandi ;)

sunnudagur, september 29, 2013

Veiðileysa

Áttum skemmtileg helgi með skemmtilegu fólki þegar við fórum á Veiðileysu. Komum í niðamyrkri og snjókomu og ótrúlega skemmtilegt að sjá fjörðinn hvítann um morguninn. Bílferð á laugardeginum þar sem við fórum um svæðið og enduðum í sundi í Krossneslaug í frábæru veðri þar sem útsýnið var stórkostlegt.
Það var mikið étið eins og venjan er í svona ferðum og fór enginn svangur heim ;) Ég náði mér líka í góðan svefn svona þrátt fyrir að hafa næstum fryst aðra í herberginu með því að opna gluggann fyrir svefninn. Hlegið og keyrt og í alla staði frábær ferð og nokkrar myndir í september albúminu =)

laugardagur, september 14, 2013

Óvissuferð Bóner 2013

Við erum búin að vera upptekin í mörgu öðru en að skipuleggja óvissuferð og ekki einna vænnan en að skella henni á þó það hafi verið ári of seint. Ekkert var nú sérstaklega mikið um óvissu og aðal málið (fyrir mér) að hitta þetta fólk án barna og með mökum sem er allt of sjaldan ;)
Pizzugerð, leikir, spil, út að leika, leigubílaferðir, út að borða og áfengisdrykkja...og sumir náðu að halda svo lengi að enda á balli. Fínasti dagur með góðu fólki =)

laugardagur, ágúst 17, 2013

Horft á eftir krökkunum


Keyrði eldri krakkana í skólann því það var svo agalega slæmt veður (í hausnum á Sunnu). Horfði svo á eftir þeim hlaupa í skólann þar sem Sunna elti Bjart sem fór einhverjar lengri leið.
Stundum finnst mér ég ekki vera nógu mikill hluti af þeirra lífi, stundum vildi ég geta gert allt fyrir þau og með þeim...en sem betur fer er ég ekki að hanga of mikið yfir þeim...hver vill hafa foreldra sínu yfir sér þegar verið er að alast upp ;)
En það er ótrúlega gaman að taks sér tíma og þakka fyrir hvað það er skemmtilegt fólk í kringum okkur, það er um að gera að njóta þess...amk aðeins á milli þess sem allt er í gangi.

þriðjudagur, ágúst 06, 2013

Saffran með Sunnu

Skelltum okkur á Saffran með Sunnu. Hún er alltaf jafn yndæl og umhyggjusöm þó hun geti verið pirrandi líka þegar hún tekur uppá því að vera þrjósk & þver. Hún tók einmitt uppá því á Saffran og vildi ekki velja neitt af matseðlinum og ekkert nógu gott fyrir hana og endaði á að borða pizzuna með mér =)

sunnudagur, ágúst 04, 2013

Baðherbergið bætt


Verslunarmannahelginni var varið/eytt á baðinu. Það var kominn tími til að taka það í gegn: upprunalegar flísar sem voru búnar að skila sínu og innrétting sem okkur dreymdi um að losna við.
Planið var að taka flísar, baðkar & klósettið seinna en Bína kom því í gegn að rífa út baðið líka, sem var mjög gott að hún kom í gegn svona fyrst við vorum að þessu ;)
Það voru allir mjög duglegir að hjálpa: Sunna var dugleg að taka flísar, Sindri braut flísarnar niður í mjöl, Bjartur stúderaði, Dagný söng, Bína náði smá tíma líka, Böddi var ómissandi að festa baðið, Sunna & Dagný máluðu slatta, Reynir pípaði, Þröstur keyrði baðið. Frábært að fá góða hjálp frá góðu fólki þó svo að verkið tók langan tíma og ekki fyrirséð hvenær verður búið...enda ekki áætlað að klára fyrr en í fyrsta lagi á næsta ári ;)

fimmtudagur, júlí 18, 2013

Hveiti & pizza


Ég er smá nörd fyrir pizzagerð og ætli þetta séu ekki yfir 300 pizzur sem ég elda á ári...jafnvel ein á dag ;) Síðustu árin hef ég verið að nota Kornax hveiti og stundum verið í smá samskiptum við þau ef ég rakst á eitthvað sem mér fannst mega fara betur. Þau hafa alltaf brugðist vel við því og í kvöld var bankað uppá hjá mér og fékk ég poka fullan af góðgæti hjá þeim. Mér fannst þetta hálf vandræðalegt því ég er nú ekki stórnotandi en ánægjulegt að fyrirtæki hugsi vel um sína vöru & viðskiptavini. Ég hafði mikinn áhuga á að ná að spjalla við færanda gjafanna og fræðast aðeins um Kornax en það voru nokkrir litlir einstaklingar á fullu á heimilinu sem ég þurfti að sinna, þannig að ég gaf mér lítinn tíma og þakkaði pent fyrir.
Þó ég ætli ekki að segja að hveitið skiptir öllu máli þá er ég mun ánægðari með þetta hveiti heldur en annað sem ég hef prófað og auk þess þykir mér alltaf skemmtilegra að geta verið í viðskiptum við fyrirtæki sem standa mér nær, þó ekki sé nema að þau séu íslensk ;)
Þannig að ég er ánægður viðskiptavinur þeirra og geri ráð fyrir að vera það áfram =)

miðvikudagur, júlí 17, 2013

Einn heima


Skrítið að vera einn heima, man ekki hvenær það gerðist síðast og nokkuð viss að það hefi nú aldrei verið í 2 daga áður.
Þakka fyrir síma, samskiptamiðla og Facetime til að halda smá sambandi við fólkið mitt...hlakka til að fá þau heim =)
Annars nýtti ég tímann til að fara út að hlaupa þegar mér sýndist...enginn sem þurfti að sinna, þannig að ég var alveg frjáls til að ráða mér. Hlaup, matur og smá sjónvarp fyrir háttinn...notalegt, en fínt að þetta er bara í 2 daga ;)

mánudagur, júlí 01, 2013

Skálanes

Við náðum loksins ferð með óðalsbóndanum & fjölskyldu út í Skálanes. Palli&Erla og co. voru líka með í för þar sem þau voru á sama tíma á Seyðis og Helga nýtti tækifærið og kom með =)
Byrjuðum á bílferðum frá flugvellinum að Austdalsánni og þar skildum við okkar eftir og dreifðum okkur í bílana.
Stoppuðum á ströndinni, skellum upp báli og fórum í sjósund og hlýjuðum okkur við eldinn.
Endaði svo með kvöldmat í Skálanesi eftir að búið var að leggjast í pottinn yrst firðinum...æðislegur dagur, takk fyrir okkur, nokkrar myndir =)

laugardagur, júní 29, 2013

Sindri fyndni


Ég og Sindri skelltum okkur á "Borum borum" gjörning sem var á laugardagsmorgni uppi hjá réttum í tilefni 100 ára afmælishátiðar Hugins. Þó svo að þessi gjörningur hafi nú mest lítið með íþróttastarfið að gera þá var þetta bara gaman og góð ámynning á hvað bæta þarf samgöngur í fjörðinn. 
Sindri byrjaði á að nappa af mér myndavélinni og mynda mig og fleira. Síðan þegar ég tók hana af honum þá lagði hann af stað uppað gangmunanum sem var hluti af gjörningnum. Ég elti hann í rólegheitunum þar sem ég hafði ekki heyrt að það væri stranglega bannað að fara þangað fyrr en gjörningurinn væri búinn. Sem betur fer var hlaupið á eftir okkur og við stoppaðir af áður en Sindri komst inn að fikta í sprengiefninu.
Þegar kom að því að smala öllum inní rétt þá stóð okkar maður á malarhól og benti öllum skilmerkilega hvert átti að fara eins og hann væri að stjórna...og hætti ekki fyrr en allir voru komnir á sinn stað.
Síðan var á endanum sprengt fyrir göngunum og það fannst mínum manni nú ekki lítið merkilegt og gat talað um það í góðan tíma á eftir. Hann er ákveðinn ungur maður sem þykist ráða ýmsu ;)

þriðjudagur, júní 25, 2013

Lundarfar


Þá var komið að því að fara með Frænku uppí Sesseljulund eins og Jóhann var búinn að skipuleggja að gera í þessari Íslandsför. Hann og Bragi (með hjálp frá fleirum) smíðuðu Lundarfar og síðan var haldið til Frænku þar sem fleiri ættingjar bættust í hópinn.
Ferðin gekk vel og hafði Frænka það notalegt á hásætinu með sterka burðarmenn sem sáu til þess að hún þurfti ekki að stíga niður fæti alla leiðina.
Svo var stoppað í (eða hjá) Lundinum og nestið tekið upp og verðurblíðunnar notið áður en haldið var aftur niður með Frænku prinessu og fylgdarlið =)

Skokkað á Seyðis


Monsi fór með mér út að skokka á Seyðis í góðu veðri. Sérstaklega var þó gaman að hann fór með uppí Fjarðarsel og þaðan hlupum við gönguslóða í fjallshlíðunum inn að bæ sem ég hafði sérstaklega gaman af. Það var mjög skemmtilegt að hlaupa þarna og man ég ekki hvort ég hafi nú farið þessa gönguleið áður en finnst ég hafa verið á ferð þarna á skíðum fyrir mjög mörgum árum =)

laugardagur, júní 22, 2013

Dagsafmæli


Dagur hélt uppá stórafmæli með alsherjar veislu og þar sem allir bræðurnir mættu ásamt systurinni þá varð ég að mæta og var þetta partý því ástæða snemmbúins sumarfrís í ár. Partýið stóð líka undir væntingum þar sem var grillað á 4 grillum og matur & drykkur flæddu út um allt og ofan í alla langt fram eftir. Við yfirgáfum nú stuðið löngu eftir miðnætti þegar allir krakkarnir voru sofnaði nema Bjartur. Hann hafði hreiðrað um sig í herbergi Sólar og lesið syrpur fram eftir kvöldi. Þegar hann kom svo loksins hafði hann sérstaklega gaman að því hvað allir voru hressir og í miklu stuði...enda var þetta alvöru partý sem lifði lengi og voru margar góðar sögur og nokkrar myndir =)

Kominn í sumarfrí

Þá er ég kominn í frí.  Síðast færsla var fyrir mörgum mánuðum og þarf ég að fylla inní það tímabil við tækifæri ;)

Nú erum við komin á SEY í fínasta veður og ligg ég í steik þó svo að veðurspár segi að það sé skýað og 11 stiga hiti...feels like 20. Þannig að útlit er fyrir að við verðum hér fram yfir mánaðarmót :)

föstudagur, júní 21, 2013

Tvísöngur


Skelltum okkur í smá gönguferð uppí Tvísöng. Gaman að sjá þessa viðbót við skemmtilega staði til að heimsækja á Seyðisfirði og líka gaman að vera hinu megin í firðinu og taka eftir "barbapabbahúsinu" ;)

miðvikudagur, júní 12, 2013

Barnalán

Langaði alltaf í 5 börn...alveg frá því ég var "lítill" en hugsaði samt að 3 væru "lágmark" og get ekki sagt annað en að ég sé hæstánægður með þeesi 4 sem við Bína eigum. Ég held að þetta sé þokkalegur árangur...ég fengi 2 í einkunn fyrir hvert þá væri þetta 8 sem ég tel mjög gott...Bína fengi 10 í einkunn fyrir að þurfa að sjá um mig líka ;)

miðvikudagur, júní 05, 2013

Bjartur 9 ára


Bjartur var alsæll með nýtt hjól. Fékk reyndar ekki litinn sem hann vildi, en hann tekur sig vel út í bláu =)
Hann er nú mikið fyrir að nördast í tölvunni eins og pabbi sinn og því upplagt að fá eitthvað sem vekur áhugann á útiveru í sumar.

laugardagur, júní 01, 2013

Mission Hafnarfjörður


Það var heilmikið stuð í óvissuferð Víðivalla í ár. Búið var að skipta í í lið og gefa öllum hlutverk löngu áður og mikið keppnisskap komið í mannskapinn...sem og drykkjuskap ...en aðallega bara gott skap ;)
Eftir að hafa skottast út um allan fjörðinn þá enduðum við öll á saman stað og skemmtum okkur fram eftir nóttu og var þetta frábær dagur í alla staði =)

miðvikudagur, maí 01, 2013

Sunna balletmær


Enn eitt árið í balletnum búið hjá Sunnu og annað skiptið sem að hún er með í sýningu í Borgarleikhúsinu. Ótrúlega gaman að fá að fylgjast með henni á sviðinu og vissulega vorum við öll (Ég, Böddi, Bekka, Bjartur, Dagný & Þyrí) að rifna úr stolti, en Bína var baksviðs að passa ballerínurnar.
Kynnarnir voru þeir sömu og í fyrra og ég held að Bjartur hafi skemmt sér enn betur en í fyrra ;)
Dagný fannst frekar flott að sjá alla þessa dansa og endaði sitjandi á tröppum uppað sviðinu þar sem hana langaði mest að vera komin upp líka og verður væntanlega þar með systur sinni að ári.

þriðjudagur, apríl 30, 2013

Agile námskeið


Það var góður eftirmiðdagur með góðu fólki sem kom á Scrum & Kanban grunnnámskeið hjá BEZTA (Dokkunni) sem ég sá um að kenna og meira um það á Agile síðunni minni.

laugardagur, apríl 27, 2013

Dagný ballerína


Enn einu árinu lokið hjá Dangý í ballet með sýningu fyrir alla fjölskylduna. Það var leikið áður en sýningin byrjaði og síðan byrjuðu þær að dansa og voru rosalega flottar. Sindra var nú farið að leiðast undir lokin þannig að hann skellti sér út á gólfið líka. Sunna ætlaði að fjarlægja hann en endaði bara að þau tóku þátt í restinni af sýningunni hennar Dagnýjar og henni fannst það ekkert leiðinlegt ;) Myndir frá sýningunni.

fimmtudagur, apríl 25, 2013

Sunna hlaupadrottning


Víðavangshlaupið á Víðistaðatúni var í haldið í sólskyni á köldum degi. Dagný var það kalt að hún endaði á að gefast upp í hlaupinu.
Sunna ákvað að hlaupa ekki með systur sinni í ár og stóð tilbúin í sömu sporunum í hálftíma áður en var ræst.
Ég hjálpaði Dagný & Sindri að komast áfram og rétt heyrði í hátalarakerfinu "Sunna Logadóttir" og náði að smella mynd af henni á pallinum.
Síðan hljóp Bjartur (reyndu að finna hann) og eftir það drifum við okkur heim að fá heitt kakó hjá mömmu.

mánudagur, apríl 01, 2013

Helgamma í heimsókn


Helgamma kom til okkar yfir páskana og var það að vanda ánægjuleg heimsókn. Það eru alltaf allir hæstánægðir að hafa hana á heimilinu og það gaf okkur líka góða ástæðu til að bjóða heim í smá grímupartý sem Sunna átti inni eftir að hafa misst af öskudeginum vegna veikinda. Þar mættu ýmsar verur eins og galdranornir og kanínur.
Páskar með tilheyrandi páskaeggjaleit, notalegir morgnar, farið á leikvelli, í lestarferð, heimsóknir og ýmsilegt var brallað.
Það voru hálf leið andlit sem horfðu á eftir Helgömmu fara í flugvélina og sumir voru ekki sáttir við brottkvarf Hebböggu, Hebbu eða Evu eins og Sindri var byrjaður að kalla hana...nú bíðum við bara spennt eftir að hún komi aftur =)

laugardagur, mars 30, 2013

Mótorhjólagengið


Snorri fékk sér mótorhjól um daginn og við kíktum í heimsókn til Gauta & co. þar sem allir fengu að fara út og prófa hjólið. Síðan var líka svissað rafmagninu á og prófað að flauta og þá var ekki aftur snúið. Sindri var manna verstur í að fluta út í eitt og varð svo ekki sáttur ef rafmagnið var tekið af ;)
Hann var ekki leiður að finna svo mótorhjólið aftur í sumarfríinu á Seyðis og fiktaði þá eins og hann gat þannig að hann fitkaði meira segja í því eina sem hann átti ekki að fikta í og endurstillti teljarann.

þriðjudagur, mars 26, 2013

Sunna dundari í vinnunni minni


Páskafrí hjá skólakrökkunum. Bjartur sáttur við að geta verið heima í tölvunni en Sunna er ekki jafn mikið fyrir að vera ein í reiðleysi allan daginn þannig að hún kom með mér í dag. Hún gat dundað við ýmsilegt og meðan annars að fá að lita á tússtöflu þar sem hún teiknaði mynd af sér og Sindra enda eru þau ágætis vinir og síðan var myndinskreytti meira. Það fer nú ekki mikið fyrir henni og hún og sumir vinnufélagar spurðu hvort hún væri alltaf svona róleg ;)
Á svona dögum langar mann að geta verið bara í fríi og eytt meiri tíma með þeim :| en ef ég man rétt þá fengum við okkur ís á leiðinni heim og vorum nú ekkert allt of lengi í vinnunni, ótrúlegur lúxus að geta fært tíma til og unnið það upp seinna (þá eru allir sáttir).

sunnudagur, mars 03, 2013

Farinn í frí?


Dreymdi að ég var í ókunnri vinnu en þurfti að taka mér frí...sem mér þótti mjög leitt og erfitt...var ekki að fara að gera neitt...bara að fara í frí...merkilegt að vera svo bent á þetta "hvetjandi" myndband þar sem umræðuefnið er það sama.
Ætli þetta sé ekki bara tengt því hvað mikði er í gangi og ég þarf að ná að komast yfir ýmislegt þess dagana. En ég náði mér í þetta forrit og gaman að prófa að ná sekúndu af hverjum degi saman í eina myndbands"súpu" =)

föstudagur, mars 01, 2013

Hleðslustöð (fyrsta útgáfa)


Oft hefur verið rætt um það á heimilinu að vera með hleðslustöð þar sem símar & fleiri iPod-dar geta fengið hleðslu en aldrei neitt verið gert í því. Þegar snjallsímar eru nú komnir á heimilið var orðið tímabært að gera eitthvað í málinu.
Á mánudaginn var skipulagsdagur og allir heima og ég í fríi...þó ég hafi nú meira gaman af því að nýta þessa daga í að fara á flakk með krökkunum þá gafst tækifæri á að koma upp þessari margumræddu hleðslustöð. Ég vissi nefnilega að það var ein ein hvít plastskóhilla fyrir mér í geymslunni eftir að við settum 2 inní eldhús undir blöð og fleira en þær voru bara seldar 3 saman í pakka.
Þannig að gat var gert fyrir fjöltengi og síðan skorið út fyrir snúrum og allt þrætt, tengt & hengt uppá vegg og svona leit þetta út hrátt á gólfinu áður en ég hengdi upp.

Nokkur sóðaskapur fylgdi þessu og fékk ég góða hjálp frá Sunnu við að þrífa...og Sindra sem var reyndar meira áhugasamur um að sóða út og fikta í verkfærunum ;)
Þegar ég setti snúrurnar varð ég að skipulagsnördast aðeins og merkja þær með plastperlum þannig að báðir endar á hverri snúru eru "litamerktir" eins og sést á myndinni efst...það er bara eitthvað við svona skipulag sem ég fíla pínu ;)
Þegar að allt var tilbúið var kominn tími fyrir Sindra að taka smá kríu og héldum við okkur því heima þennan skipuldagsdaginn =)

fimmtudagur, febrúar 28, 2013

Agile fyrir alla


Bauðst að koma að Agile innleiðingu hjá fyrirtæki út í bæ eftir að hafa hitt vinkonu í kjúklingabiðröðinni í Samkaup fyrir áramót. Ég sló til og hafði mjög gaman að kíkja á þau tvo morgna og hlakka til að fá að heyra hvernig þetta gengur & þróast hjá þeim.

sunnudagur, febrúar 17, 2013

Veikindatíð


Eins og oft áður byrjar árið á því að við klárum veikindadaga barna. Fyrst byrjaði smá flesna og síðan tók hlaupabóla við hjá Dagný eina viku og Sindra næstu viku. Síðan var flensan tekin með trompi: fyrst Sunna í viku og síðan Bína í viku. Bjartur og ég tókum þetta á um sólahring og fórum einna best út úr þessu tímabili ;)

föstudagur, febrúar 15, 2013

Tími og ekki


Allt of mikið að gera og allt of mikið í gangi...virðist oft vera á þessum tíma ársins...eða kannski er þetta alltaf svona ;) Allar vígstöðvar á fullu og erfitt að ná utan um nokkurn skapaðan hlut. Einhvern veginn tekst mér alltaf að kenna tímaleysi um þegar vandamálið er frekar mínar ákvarðanir um að reyna að gera allt ;)
En þá er bara að taka til, klára það sem þarf að klára...leyfa öðru að bíða og endurskipuleggja svo...amk leyðist manni ekki ;)

laugardagur, janúar 19, 2013

Grænmetið sem hvarf

Sunna hóf skáldsagnaferilinn um daginn. Hún kom ítrekað að fá leiðbeiningar um hvernig ætti að skrifa orð rétt og tók góðan tíma að myndaskreyta, klippa og setja söguna í rétt form. Það var því orðin eftirvæting að sjá hversu löng þessi saga væri miðað við tímann sem fór í hana og hér má sjá frumraun hennar...meistarastykki og ekki hægt að segja annað en þetta byrjar vel hjá henni =)