fimmtudagur, nóvember 16, 2006

Pabbi í annað sinn

Nú erum við að ná vísitölufjölskyldunni eftir að systa litla kom í heiminn 21. október síðastliðinn. Alltaf miðaði ég fæðinguna við þegar við áttum Bjart og var búinn að undirbúa mig að taka 1-2 daga í þetta ævintýri. Bína hafði verið með smá( mjög væga ) verki á föstudeginum( 20. okt. ) síðan kl. 4 um nóttina, en ekkert alvarlegt. Hún fór í mat með vinkonum sínum og bjuggumst við alveg eins við að þetta yrði svona í nokkra daga. Um kvöldið endaði með að við fórum uppá fæðingardeild um 11 leitið og tveimur og hálfum tíma seinna var stelpan mætt. Allt gekk mjög vel fyrir sig í þetta skiptið og tók skemmtilega stuttan tíma. Ég fann þó alveg fyrir því að vera hálf gagnlaus á staðnum. Sérstaklega þar sem Bína var ofan í vatni og allt gekk vel. Rembingurinn tók svo stuttan tíma að þar gat ég ekki einu sinni komið með hvatningarorð. Ég fékk að halda á glaðloftsrörinu og klippa á naflastrenginn. Enda kannski ekki hægt að búast við að karlmenn séu að taka of mikinn þátt þ.s. þeir eru nú bara nýkomnir með leyfi til að vera viðstaddir. Samt sem áður var þetta æðisleg lífsreynsla eins og í fyrra skiptið.
Daginn eftir kom Bjartur og við feðgar fórum og náðum í barnabílstól og svo stungum við af Hreiðrinu. Þar var reyndar æðislegt að vera, en við vildum bara komast heim og byrja að aðlagast nýju lífi. Næstu 2 dagar voru merkilega erfiðir en síðan fór að myndast einhverskonar regla.
Skírn næstu helgi þannig að það er alltaf nóg að gera. Veit að ég/við erum ekki dugleg að setja inn fréttir og myndir, en tel okkur hafa margt mikilvægara að gera eins og stendur, en vonandi kemst þetta líka í "rútínu" =)

sunnudagur, september 17, 2006

Gamall draumur rætist

Var að skoða gegnum gamalt "drasl" frá því á menntaskólaárunum. Aðallega var ég nú að rifa upp SHAPE tímann og rakst á eitt og annað skemmtilegt. Þar á meðal eftirfarandi blaðagrein og myndina sem hér fylgir: Gamall draumur rætist Egilsstöðum - Þessar tvær gínur á myndinni eiga það sameiginlegt að íklæðast fötum frá versluninni Okkar á milli á Egilsstöðum. Ekkert fleira er þeim sameiginlegt því önnur er manneskja en hin er bara venjuleg gína. Af sérstökum áhuga falaðist þessi ungi maður eftir því að fá að "leika" eða "vera" útstillingargína fyrir ofangreinda verslun. Hann heitir Logi Helguson og sagði að hann hefði átt þann draum sem lítill strákur og sýna föt. Hvort þetta uppfyllir sýningarþörfina er ekki vitað en a.m.k. hefur gamall draumur Loga orðið að veruleika. Man ég eftir því þegar ég sat inná Kaupfélagssjoppunni og horfði yfir á Okkar á milli þ.s. gína stóð fyrir utan innganginn. Fékk ég þá snilldarhugmynd að það gæti verið mjög fyndið að "leika" gínu og bregða svo fólki þegar það kæmi upp að versluninni. Vitir menn, eigendur verslunarinnar voru alveg til í þetta. Það var afskaplega gaman að því að bjóða fólk velkomið þegar það kom upp tröppurnar en flestir voru nú bara að virða fyrir sér fötin á gínunni sem stóð þarna og átti síst von á því að hún myndi tala eða hreyfa sig. Enginn fór nú illa út úr þessum saklausu hrekkjum mínum og fékk ég nærbuxurnar að launaum ;)

Big date

þriðjudagur, ágúst 08, 2006

Málningarhelgi

Engin var útilegan þessa verslunarmannahelgi, enda nóg að gera í málningarvinnu á baðherberginu. Nýtti tækifærið fyrst það var löng helgi og pússaði aðeins á baðinu og málaði svo, enda kominn tími á baðveggina. Pússningarvinnan minnti mig óþægilega á tímann þegar við vorum að taka íbúðina í gegn og hefði ég alveg viljað sleppa þeirri upprifjun, hún hefur kannski kallað fram í mér gamla þreytu :) Megnið af helginni fór í að taka baðið i gegn en okkur tókst að kíkja í sund og fjöruferð. Skrapp líka í bílskúrinn hjá Tóta týnda á föstudaginn þar sem vel valdir menn mættu og glömruðu á hljóðfæri fram eftir kvöldi, alltaf gaman að djamma með góðum mönnum ;)

sunnudagur, júlí 30, 2006

Sumarfrí 2006

Seyðisfjörður
Sumar2006 - Seyðis
Alltaf gott að komast "heim" á Seyðisfjörð. Ekki verra þegar gist er hjá Helguömmu og við fáum afnot af gamla herberginu "mínu" sem Rakel hefur yfirumsjón með þessa dagana. Þótt við séum ekki alltaf heppin með veður á Seyðisfirði gerir það ekkert til þótt að rigning eða þoka láti sjá sig, þá er afsökun fyrir því að hanga inni og gera ekki neitt. Merkilegt hvað bæjarstæðið er orðið gróið og hvað það hefur minnkað síðan ég var lítill...eða ég bara stækkað =)
Nánast allir afkomendur Emilsafa mættu í fjörðinn og voru Skógar fengnir til að hýsa þá sem ekki komust fyrir á Múlaveginum, þótt þar hefðu nú þónokkrir komist fyrir auk gesta. Sól kom með trampólínið sitt og höfðu allir mesta gaman af því. Bjartur tók ástfóstri við það og ákvað að foreldrar hans ættu að kaupa svona handa honum. Snorri var þó líklegast ósáttastur við það þegar honum tókst að flúga af því( þrátt fyrir að öryggisnet umlukti það ). Kubb var spilað í garðinum í hvert sinn sem sólin lét sjá sig og entust sumir leikir klukkutímum saman. Bjartur dró allar sem hann gat í bílferðir með sér og einokaði ömmu sína og aðra sem gerðu eins og hann vildi.
Ekki tókst mér nú að slá garðinn nema tvisvar sinnum, en þungbúin seinni vika varð til að hamla grasvexti þannig að ekki þurfti að slá eins mikið og ég hafði vonast eftir.
Sumar2006 - Ferðalag

Kárahnjúkar
Dagur og co. leiddu ferðalag uppá virkjunarsvæðið. Fyrsta stopp var hjá steinbrú í Hallormsstað og þurfti að leyfa ungviði að spretta úr spori og klifra um svæðið á eftir þeim eldri. Síðan var haldið upp að upplýsingamiðstöð Landsvirkjunar. Eftir litla "lautarferð" á túninu fyrir framan upplýsingamiðstöðina var haldið innfyrir og forvitnast hvernig Landsvirkjun upphóf virkjunina. Leiðin lá svo uppá virkjunarsvæðið þ.s. við stoppuðum á útsýnissvæði fyrir ofan stíflurnar þ.s. landið mun fara undir innan skamms. Ekki get ég nú sagt að ég hafi séð neitt sem ekki mátti sökkva fyrir mér, enda hefur mér alltaf verið sama um þessa virkjun en veit þó ekki hvað ferfætlingum og vængberum muni finnast þegar stöðuvatnið verðum komið uppá hálendið. Tókum svo stórgrýttan veg að Magnahelli en þá ákváðum nokkrir að halda heim á leið. Ákváðum að reyna á aðra leið til baka sem reyndist vera bæði lengri og torfærari. Heim komust þó allir að lokum þótt að ein bifreið hefði gefist upp á leiðinni en hægt var að pakka betur í hina bílana.
Sumar2006 - Kárahnjúkar

Bjólfurinn

Í morgunblíðu einni var ákveðið að drífa fólk uppá Bjólfinn. Fyrir hádegi tókst að koma fólki í bíla og bruna upp fjallabaksveginn að snjóflóðgörðumunum. Útsýnið var mjög skemmtilegt og hafði ég mjög gaman af því að koma loksins uppá Bjólfinn en hafði fram að þessu aðeins gengið bakvið hann( og leikið mér fyrir framan hann og í hlíðum hans ). Það rétt passaði að þokubakkar fóru að faðma fjallið þegar við vorum komin niðrí bæ og hætti að sjást uppí garðasvæðið.
Sumar2006 - Séð út fjörðinn

Afmælisveisla Emils
Haldið var uppá áttræðisveislu Emilsafa sem reyndar átti sér stað á seinasta ári, en veislunni var frestað fram á sumarið. Veðrið gat brugðið til sólar eða rigningar. Bræðurnir börðu óð til sólar á tunnugrillin sem fengin voru til matreiðslunar og eins og Gauti var glampandi sól þegar afmælið hófs, en verst var að hún hélst ekki nema nokkrar mínútur og snérist veður þá í ágætis rigningu. Gestir létu það ekki á sig fá og sumir hverjir héldu sig innandyra en aðrir stóðu vaktina í tjaldbúðunum og sá gestgjafinn til þess að ylja þeim um hjartarætunar með hressandi drykkjum. Margt var um manninn og þétt setið og vanhugaði ekki nokkurn mann um mat né drykk eins lengi og veislan lifði. Sumir tjaldbúanna héldu lengi í fögnuðinn og heppnaðist veislan afskaplega vel þótt ringdi allan tímann.

Sumarfrí á Seyðis

Þá er sumarfríinu í ár formlega lokið. Við tókum okkur flugvél á Seyðis og vorum þar í góðu yfirlæti í 2 vikur. Nánast allir afkomendur Emilsafa mættu í afmælisveislu sem frestað hafði verið þangað til núna í sumar. Smá ferðir voru faranar og eins og alltaf fer maður með sökknuð í huga, en veit að það verður alltaf jafn gott að komast austur í fallegasta fjörðinn fljótlega. Stutt yfirlit yfir það helsta úr ferðinni auk panorama mynda og myndir á meðan allir voru á Múlaveginum sem og myndir þegar allir voru farnir.

sunnudagur, júní 04, 2006

Viðey

Loksins steig ég á land í Viðey. Umferðarstofa fór þangað á föstudaginn 2. júní í tilefni af því að við vorum valin fyrirmyndarstofnun í ríkisrekstri. Siglingin var merkilega stutt og af verðursfarslegum ástæðum hafði verið hætt við siglingu fyrir matinn. Ekki veit ég hvernig sú niðurstaða var fundin þ.s. veðrið var eins og það gerist best á höfuðborgarsvæðinu þannig að líklega er aldrei farið í þessar siglingar :) Í Viðey beið okkur fordrykkur og svo var haldið inná Viðeyjarstofu þ.s. góður matur og skemmtiatriði mynduðu vel heppnaða kvöldstund. Nokkrar panorama myndir úr Viðey.
Eftir miðnætti voru svo pókerspilin dregin upp á Hagamelnum hjá Huga og gerðum við( Hugi, Einar, Logi og Einar Magnús ) heiðarlega tilraun til að sjá við pókermeistaranum Gunnari Geir en án árangurs og endaði allt lausbært fé í góðri geymslu hjá honum, enda vanur spilari á ferð :)

Viðey2006 - Höfnin
Ferðalangar mætti í fordrykk.

Viðey2006 - Skýjafar
Viðraði með eindæmum vel á eynni.

Viðey2006 - fyrir utan
Á leið heim eftir vel heppnaða kvöldstund.

fimmtudagur, júní 01, 2006

Barcelona 2006

Barcelona 2006
Brottför
17. apríl

Eins og búast mátti við var seinkun á fluginu( enda flogið með flugfélagi sem ég hafði nú einhverntíman sagst aldrei munu aftur ferðast með...og gott ef Bína sagði það ekki einhverntíman líka ) þannig að við fórum ekki í loftið fyrr en kl. 17( í stað 14 ). Starfsfólkinð á flugstöð Leifs var nú ekkert sérstaklega upplífgandi, kanski vegna mikilla framkvæmda þar og engu líkara en að íslendingar hafi veirð að opna fyrstu flugstöðina sína fyrir 2 mánuðum, eða kanski finnst þeim bara ekkert skemmilegt að vinna þarna?
En flugið vara það sem búast mátti við. Ég steinsofnaði áður en við fórum í loftið og vaknaði við einhverjar 'kellingar' fyrir aftan mig sem voru í góðum gír og gátu ekki hætt að gelgjast um hvað þær ætluðu að kaupa og djamma( ætli þær hafi ekki verið enn fastar í þeim gír síðan 2000 ). Komum seint á hótelið og létum okkur nægja að fara í rúmið, enda var klukkan orðin 2 að nóttu.
Hótelið

Við erum á fínasta hóteli( enda var það farastjórinn sem bókaði það og víst alveg ótengt Heimsferðum er mér sagt ). Við skiptum reyndar um herbergi strax eftir fyrstu nóttina þ.s. við fengum tvískipt rúm og það var ekkert sérstaklega þægilegt að liggja ofan á samskeytunum. Auk þess vorum við svo sniðug þegar við komum að skella loftinu á heitt og setja það í botn en komumst að því morgununinn eftir að það er bara loftkæling og herbergið ískalt, sem gerði ekki að sök því það var sól úti. Morgunmaturinn er svo margrétta að hann dugir mér nánast fram á kvöldmat, og ekki slæmur í þokkabót af hótelmat að vera.
Veðrið

Heldur betur hefur ræst úr veðrinu. Þegar við fórum var spáð rigningu og skýjuðu en ekkert hefur bólað að rigningunni og sól verið mest allan tímann og viðraði vel flesta daga.

Barcelona2006 - yfir bænum

Fyrsti dagur
18. apríl

Fórum í rútuferðalag um bæinn þ.s. við kíktum á Sígröðu Fjölskylduna( Sagrada Familia ), Guell Park og á útsýnishæð yfir bæinn. Það var full mikil keyrsla að ná yfir þessa staði og keyra gegnum bæinn í leiðinni, þannig að stutt stopp voru á hverjum stað og hefðum við viljað hafa meiri tíma, en a.m.k. er ég búinn að 'kíkja' á helstu staðina þannig að ég þarf ekki að stressa mig meira en ég nenni á að skoða þá nánar. Á römblunni fórum við inná markaðinn og keyptum kíló af jarðaberjum á 1 evru. Ég hef ekki fengið svona góð jarðaber síðan ég var lítill heima í jarðabergjagarðinum á Seyðis og eru komin þónokkur ár sem ég hef leitast við að finna hið rétta/ferska jarðaberjabragð. Allir ávextir hér eru reyndar á sterum og spánverjar hljóta að fara að stækka af því að éta þá innan skamms ;)

Síðan um kvöldið fór allur hópurinn( um 70 manns ) út að borða á Tapaz bar. Tapaz er algjör snilld að því leitinu til að spjánverjar hafa fundið leið til þess að nota allan afgangs/ónýtan mat og hent saman í 'smárétti' sem þeir geta rukkað túrista helling fyrir. Þetta var eitthvað það versta sem ég hef smakkað og smakkað ég allt nema einn rétt sem var hrár fiskihaugur( ég hefði meira að segja fengið mér susji frekar en að bragða á þessu...var sama lykt og af gólfi í fiskvinnslunni(leyfi ég mér að segja) ). En það merkilega var að þetta var mjög gaman að reyna að borða þetta og hlægja að matnum, kom merkilega að óvart hversu vel allir skemmtu sér yfir þessum mat, enda var áfengið notað til að skola niður hinu og þessu óbragði ;)

Barcelona2006 - Tapaz

Annar dagur
19. apríl

Bína fór ásamt kennurum í skoðunarferðir um skóla. Á meðan svaf ég og drattaðist svo í búðir áður en að við söfnuðumst nokkrir fylgifiskar saman og hittum kennarana á vísindasafninu hjá Tibidabo fjalli. Við ætluðum og renna í gegnum það og fara svo í verslunarleiðangur en safnið var svo stór að við gáfumst upp og fórum heim, held að við höfum kanski náð meira en helmingnum af því sem þar var að sjá( og gera ). Komum heim og fengum okkur dýrlegar pizzur á veitingastað rétt hjá hótelinu, efst á römblunni. Bína lagðist svo í bað eftir erfiðan dag og ég fann mér internetkaffi og fór í hraðbankann. Bankinn var reyndar með heilmikið vesen við mig og líklega er einhver núna komin með lykilnúmerin mín og farinn að versla eða bankinn hafði af mér 450 evrur áður en hann vildi láta mig fá 220 evrur sem ég þurfti nokkrar tilraunir til að fá af honum.
Kom heim og sá þá á yfirlitinu að bankinn hafði haft af mér þessar evrur, og hér er mér sagt að það taki 45 daga að leiðrétta þetta, efst nú stórlega um að ég fái þessa $ aftur.
Þriðji dagur
20. apríl

Bína fór í fleiri skóla þannig að ég svaf fram að hádegi. Drattaðist svo á fætur og fór og skipti skóm f. Bínu( sem betur fer hafði hún tekið eftir að þeir voru ekki sömu stærðar ). Ekki hægt að segja annað en þetta sé ómögulegur staður til að versla þ.s. enginn virðist kunna ensku eða skilja hvað maður er að segja( og því miður kann ég ekki spænsku...eða katalónsku ). Hitti nokkra maka þegar ég kom heim á hótelið, eftir erfið viðskipti við búðarkellingarnar, sem biðu fyrir utan hótelið og búnir að vera það síðan ég fór. Þá voru konurnar á leiðinni heim og stuttu síðar kom Bína mín. Við skelltum okkur á einhvern matsölustað fyrir hornið þ.s. ég pantaði lítinn(little) bjór og Bína pantaði aspassúpu...að hún hélt. Þegar bjórinn kom var það líters bjór og Bína fékk 12 aspasstöngla raðaða fallega upp með appelsínugulri sósu. Dæmi um það hvað er nú skemmtilegt að vera í landi þ.s. enginn talar ensku :) Bína fór svo í annan skóla og ég danglaðist um búðir. Þegar hún kom aftur var verslað á mig, þannig að þá var bara eftir að kaupa á Bjart =)

Barcelona2006 - hópurinn

Fjórði dagur
21. apríl

Vöknuðum hæfilega snemma og fórum í Glorias verslunarmiðstöðina. Þar var verslaður hellingur á Bjart og kortið fékk heldur betur að finna fyrir því :) Um kvöldið var svo farið á gosbrunnasýningu sem hefði mátt vera í meiri myrkri. Síðan var haldið uppí Tibidabo fjall á fínasta veitingastað Barcelona( 3-4 vikna pöntunartími ) í gömlum kastala. Hann sérhæfir sig í unglambakjöti og gesturinn fær aldrei að gleyma því á meðan hann er á staðnum að hann er að borða lítið lamb, mynd af litlu lambi á diskum og glösum. Forrétturinn var ýmsilegt kjötmeti, þar á meðal pylsa sem líktist blóðmör einna helst, en bragðaðist nú mun betur. Þegar forréttinum var lokið og búið að hreinsa af borðunum mætti einn þjónninn með tvö afskaplega hrörleg læri og gekk um salinn eins og þetta væru verðlaunalæri. Síðan byrjuðu þjónarnir að bera inn hvern annan diskinn af mauksoðnum lambalærisbeinum með skinni og öllu( me me með ullinni og öllu ). Ekkert var verið að skemma matinn með meðlæti( þótt að nokkur kálblöð hafi verið á hliðarskálum ) og litlu lömbin soðin yfir stórum saltkornum sem var eina kryddið sem kjötið fékk. Bína var ekki alveg að fíla þessa matreiðslu á litla lambinu en þessi matur féll vel að mínum maga og át ég þangað til að líkaminn sagði stopp og gafst upp til þess að melta það sem búið var að innbyrða. Rúta tekin heim og heldu margir gleðinni áfram langt fram eftir nóttu.

Barcelona2006 - Matur

Fimmti dagur
22. apríl

Skoðunarferð um gotneska hverfið, gengum upp Römbluna eftir það og síðan fengum við okkur aðra gómsæta pizzu á Marsano Pizza. Reyndum að ná okkur í smá lit á sundlaugarbakkanum en skýin voru ekki alveg á því að leyfa okkur það. Röltum svo meira um búðir, átum góðan mat og nú á að koma sér uppá hótel og fara snemma í hátttinn, enda Bjartur og Ísland á morgun og við þurfum að vakna kl. 4 í nótt( jibbí ).

Barcelona2006 - Gamli bærinn

Myndir úr ferðinni
Skoða myndaalbúmið frá ferðinni
Google Earth
Hérna eru nú bara helstu staðir, hótelið og eitthvað sem mig langaði að kíkja á( af því sem ekki er í fastri dagskrá hjá okkur ) sett fram með hjá GoogleEarth
Barcelona.kmz
Sækja skjal (1 K)

fimmtudagur, mars 23, 2006

Bústaðarhelgi að baki

Skruppum í bústað um helgina á Flúðir og var það ákaflega notalegt. Reyndar var nú um hús að ræða sem var ekki verra, enda allt til alls, uppþvottavél og hvað eina. Palli&Erla&Óðinn Bragi komu með og voru þeir Bjartur rosalega góðir saman um helgina. Bjuggu sér til hús í kojunum, hlupu fram og aftur, hermdu eftir hvor öðrum, léku sér og voru bara afsakaplega góðir saman. Ásdís og Þóra bættust svo í hópinn á laugardaginn og þótti mér merkilegt hvað okkur tókst að gera lítið annað en að hanga, borða og sötra bjór...enda var bara alveg nóg í bland við það að hafa börnin með í för. En maður þarf að gera meira af þessu og held að það sé nokkuð öruggt að maður verður að fara aftur þarna í bústað og þá í lengri tíma en bara yfir helgi =)

þriðjudagur, febrúar 14, 2006

Eru eldveggir drasl?

Fór á fyrirlestur hjá Theódór Ragnari Gíslasyni um daginn uppí HíR
undir yfirskiptinni "Eldveggir eru drasl". Theódór vinnur að
tölvuöryggismálum hjá Tölvumiðstöð sparisjóðanna[Ts] og er einn af okkar
fremstu sérfræðingum á því sviði hér á landi.

Mjög áhugavert var að sjá að á Íslandi má finna menn sem hafa haft það að
atvinnu að brjótast inní tölvukerfi og finna veikleika þeirra, en Theódór
starfaði við það iðju í sex ár áður en hann byrjaði nýlega hjá Ts. Sagði
meðal annars að hann hefði komst yfir ársskýrslur löngu fyrir birtingu,
aðgangi að pósti forstjóra, tók upp allar aðgerðir notenda á video o.fl. Á
þessum sex árum hafði hann brotist inn í hátt 100 fyrirtæki og komast inn í
lang flestum tilfellum og aðeins einu sinni nappaður þegar að notanadi lét
kerfisstjóra vita að eitthvað undarlegt væri á seyði( fékk reyndar að svitna
með kæru frá lögreglunni á bakinu, en forstjórinn vildi sjá hversu langt
tæknimenn hans myndu ganga með málið ).

Í ljós kom að eldveggirnir eru nú ekki drasl, heldur væri það meira
áhyggjuefni hversu mikla trú fólk hefði á þeim og treysti því að vera öruggt
á bakvið þá. Útskýrði Theódór hvernig hann braust inná vefkerfi fyrirtækja
með því að senda ruslpóst þar sem notendur opnuðu fyrir hugbúnað hans til að
tengjast framhjá eldveggjum og beint inná tölvur starfsmanna( sýnidæmið var
nú reyndar bara þegar hann náði yfirráðum yfir tölvu móður sinnar ).

Góð vísa er aldrei of oft kveðin og alltaf er gott að hafa vaðið fyrir neðan
sig, líta til beggja hliða þegar ferðast er yfir internetið og aldrei að
taka við pósti frá ókunnugum...svipað og í umferðinni =)

miðvikudagur, febrúar 01, 2006

Nýr vinnustaður

Eftir góð 2+ ár hjá Hug hélt ég til nýrra starfa hjá Umferðarstofu í dag. Það var nú ekkert í planinu hjá mér að yfirgefa Hug og fer ég þaðan með góðar minningar af góðum tíma sem ég átti með góðu fólki. Hef ekkert nema gott um Hug að segja en það var ýmislegt sem ég var spenntur fyrir hjá Umferðarstofu. Tölvudeildin er mjög lítil og hugbúnaðarþróunardeildin enn minni sem er gaman að detta aftur inní. Ekki skemmir að vinna aftur á makka, það er eitthvað sem ég held að ég hafi mjög gott af því að gera og ekki slæmt þegar maður fær góðan vinnuhest til að keyra á. Fyrsti dagurinn var mjög fljótur að líða þar sem smá stress kom upp á vef sem opna á í fyrramálið og var ég í því að koma þessu fyrir horn svo allt væri nú sómasamlegt í fyrramálið. Fullt af nýjum andlitum sem ég hitti í dag og gaman að hitta gamla Vefsýnarmenn aftur sem hafa hreiðrað um sig í US. Alltaf gaman að gera eitthvað nýtt og US leggst mjög vel í mig eftir fyrsta daginn =)

föstudagur, janúar 27, 2006

Gamall draumur rætist

Ég held að ég hafi fyrst sýnt Apple tölvum áhuga þegar Hugi tók mig með sér á kynningu á OS X í gömlu Applebúðina þegar hún var stödd í Skaftahlíðinni. Fyrir mér voru Apple vélar ofvaxnar ritvélar og hafði ég engan áhuga á þeim, en átti ekki von á því sem tók á móti mér. Viðmót nýja stýrikerfisins var ljósárum á undan Windows og ekki var hægt að segja annað um vélarnar. Eftir kynninguna varð ég dolfallinn og í minningunni var Cube vél keyrandi þetta allt, en það gæti þó hafa verið seinna sem hún kom til sögunnar, en minningin er góð og var ég staðráðinn í því að eignast svona vél einn daginn. Stuttu seinna fékk fyrstu Apple vélina hjá Vefsýn og fljótlega var PC vélin gefin og hefur ekki verið fjárfest í PC vél á heimilið síðan þá( enda nenni ég ekki að eyða tíma í viðhald á tölvun, hef nóg annað að gera ). Nú í ársbyrjum 2006 tóku stofugræjurnar svo uppá því að neita að spila geisladiska þannig að hugmyndin hjá mér var að versla hátalara fyrir iPod-dinn en þegar ég sá Cube vél til sölu stökk ég á það, enda ekki á hverjum degi sem þessar vélar eru til sölu( enda 5 ára gamlar og voru bara á markaði í 1 ár. Fyrir nokkra þúsundkalla var vélin mín, en reyndar vantaði í hana harðan disk en að öðru leiti í mjög góðu ásigkomulagi. Þegar 120GB Barracuda skrímsli var komið í vélina heyrðist ekki minnsta hjóð í vélinni, enda viftulaus hönnun sem hentar ágætlega til notkunar í stofunni. Smellpassar í stofuna og nú er hægt að hlusta á tónlist og jafnvel leiðir maður netsnúru í vélina einn daginn svo hún sé tengd. Bjartur er líka hinn ánægðasti með hana en hann fær að leika sér nokkuð óáreittur í henni við misjafna hamingju föður síns sem undrast alltaf hversu einfalt sonur sinn á með að eyða út lögum og gera einhvern óskunda af sér þótt ekki sé nema 18 mánaða.

miðvikudagur, janúar 11, 2006

Enn eitt árið liðið

Nýtt ár gengið í garð og alltaf eitthvað nóg að gera. Jólin voru afskaplega góð þótt ég væri að vinna fram á Þorlák. Ég er alveg á því að vinna ekki lengur en til svona 18. desember ár hvert, það er fínn tími til að byrja að slappa af fyrir hátíðarnar. En ég ræð nú ekki öllu, kannski sem betur fer?
Við fórum á Burknavellina með pakkaflóðið og vorum þar mestöll jólin í góðu yfirlæti. Bjartur var afskaplega þægur og góður með eldavélina sína framan af aðfangsdagskvöldi en undir lokin var hann orðinn alveg ruglaður á öllum pökkunum. En hann var ákaflega duglegur að rífa utan af pökkunum og hver smásnifsi af pappír var farið með beint í ruslið sem flýtti ekki fyrir afpökkuninni. Það gæti þurft að bíða með einhverja pakka á næsta ári þangað til daginn eftir til að halda andlegri heilsu hjá honum í jafnvægi en undir lokin gekk þetta bara út á að rífa utan af þeim( og auðvitað setja allt í ruslið ). Svo þurfti að leika sér að hverju dóti í smá stund og opna svo fleiri pakka, hann var orðinn mjög duglegur að sækja nýja pakka og fannst þetta vera hin mesta skemmtun. Smávægileg veikindi voru að reyna að hafa áhrif á hátíðirnar en það var reynt að halda þeim niðri eftir fremsta megin.
Síðan var flogið til Seyðisfjarðar þar sem héldum áramótin á Múlaveginum. Merkilegt hvað tíminn er alltaf fljótur að líða í firðinum þrátt fyrir að manni finnst maður ekki gera neitt... afskaplega rólegt og gott þar. Kannski er það bara vegna þess að maður er alltaf í fríi þegar farið er á Seyðis, en í minningunni var þetta alltaf svona þótt maður væri að vinna. Ekki tókst okkur að hitta alla og enga nógu mikið, eftir viku vorum við komin aftur heim og byrjað að snúa aftur sólahringnum við og koma rútínunni í sitt horf þangað til um páskana :)