miðvikudagur, janúar 11, 2006

Enn eitt árið liðið

Nýtt ár gengið í garð og alltaf eitthvað nóg að gera. Jólin voru afskaplega góð þótt ég væri að vinna fram á Þorlák. Ég er alveg á því að vinna ekki lengur en til svona 18. desember ár hvert, það er fínn tími til að byrja að slappa af fyrir hátíðarnar. En ég ræð nú ekki öllu, kannski sem betur fer?
Við fórum á Burknavellina með pakkaflóðið og vorum þar mestöll jólin í góðu yfirlæti. Bjartur var afskaplega þægur og góður með eldavélina sína framan af aðfangsdagskvöldi en undir lokin var hann orðinn alveg ruglaður á öllum pökkunum. En hann var ákaflega duglegur að rífa utan af pökkunum og hver smásnifsi af pappír var farið með beint í ruslið sem flýtti ekki fyrir afpökkuninni. Það gæti þurft að bíða með einhverja pakka á næsta ári þangað til daginn eftir til að halda andlegri heilsu hjá honum í jafnvægi en undir lokin gekk þetta bara út á að rífa utan af þeim( og auðvitað setja allt í ruslið ). Svo þurfti að leika sér að hverju dóti í smá stund og opna svo fleiri pakka, hann var orðinn mjög duglegur að sækja nýja pakka og fannst þetta vera hin mesta skemmtun. Smávægileg veikindi voru að reyna að hafa áhrif á hátíðirnar en það var reynt að halda þeim niðri eftir fremsta megin.
Síðan var flogið til Seyðisfjarðar þar sem héldum áramótin á Múlaveginum. Merkilegt hvað tíminn er alltaf fljótur að líða í firðinum þrátt fyrir að manni finnst maður ekki gera neitt... afskaplega rólegt og gott þar. Kannski er það bara vegna þess að maður er alltaf í fríi þegar farið er á Seyðis, en í minningunni var þetta alltaf svona þótt maður væri að vinna. Ekki tókst okkur að hitta alla og enga nógu mikið, eftir viku vorum við komin aftur heim og byrjað að snúa aftur sólahringnum við og koma rútínunni í sitt horf þangað til um páskana :)

Engin ummæli: