sunnudagur, júlí 30, 2006

Sumarfrí 2006

Seyðisfjörður
Sumar2006 - Seyðis
Alltaf gott að komast "heim" á Seyðisfjörð. Ekki verra þegar gist er hjá Helguömmu og við fáum afnot af gamla herberginu "mínu" sem Rakel hefur yfirumsjón með þessa dagana. Þótt við séum ekki alltaf heppin með veður á Seyðisfirði gerir það ekkert til þótt að rigning eða þoka láti sjá sig, þá er afsökun fyrir því að hanga inni og gera ekki neitt. Merkilegt hvað bæjarstæðið er orðið gróið og hvað það hefur minnkað síðan ég var lítill...eða ég bara stækkað =)
Nánast allir afkomendur Emilsafa mættu í fjörðinn og voru Skógar fengnir til að hýsa þá sem ekki komust fyrir á Múlaveginum, þótt þar hefðu nú þónokkrir komist fyrir auk gesta. Sól kom með trampólínið sitt og höfðu allir mesta gaman af því. Bjartur tók ástfóstri við það og ákvað að foreldrar hans ættu að kaupa svona handa honum. Snorri var þó líklegast ósáttastur við það þegar honum tókst að flúga af því( þrátt fyrir að öryggisnet umlukti það ). Kubb var spilað í garðinum í hvert sinn sem sólin lét sjá sig og entust sumir leikir klukkutímum saman. Bjartur dró allar sem hann gat í bílferðir með sér og einokaði ömmu sína og aðra sem gerðu eins og hann vildi.
Ekki tókst mér nú að slá garðinn nema tvisvar sinnum, en þungbúin seinni vika varð til að hamla grasvexti þannig að ekki þurfti að slá eins mikið og ég hafði vonast eftir.
Sumar2006 - Ferðalag

Kárahnjúkar
Dagur og co. leiddu ferðalag uppá virkjunarsvæðið. Fyrsta stopp var hjá steinbrú í Hallormsstað og þurfti að leyfa ungviði að spretta úr spori og klifra um svæðið á eftir þeim eldri. Síðan var haldið upp að upplýsingamiðstöð Landsvirkjunar. Eftir litla "lautarferð" á túninu fyrir framan upplýsingamiðstöðina var haldið innfyrir og forvitnast hvernig Landsvirkjun upphóf virkjunina. Leiðin lá svo uppá virkjunarsvæðið þ.s. við stoppuðum á útsýnissvæði fyrir ofan stíflurnar þ.s. landið mun fara undir innan skamms. Ekki get ég nú sagt að ég hafi séð neitt sem ekki mátti sökkva fyrir mér, enda hefur mér alltaf verið sama um þessa virkjun en veit þó ekki hvað ferfætlingum og vængberum muni finnast þegar stöðuvatnið verðum komið uppá hálendið. Tókum svo stórgrýttan veg að Magnahelli en þá ákváðum nokkrir að halda heim á leið. Ákváðum að reyna á aðra leið til baka sem reyndist vera bæði lengri og torfærari. Heim komust þó allir að lokum þótt að ein bifreið hefði gefist upp á leiðinni en hægt var að pakka betur í hina bílana.
Sumar2006 - Kárahnjúkar

Bjólfurinn

Í morgunblíðu einni var ákveðið að drífa fólk uppá Bjólfinn. Fyrir hádegi tókst að koma fólki í bíla og bruna upp fjallabaksveginn að snjóflóðgörðumunum. Útsýnið var mjög skemmtilegt og hafði ég mjög gaman af því að koma loksins uppá Bjólfinn en hafði fram að þessu aðeins gengið bakvið hann( og leikið mér fyrir framan hann og í hlíðum hans ). Það rétt passaði að þokubakkar fóru að faðma fjallið þegar við vorum komin niðrí bæ og hætti að sjást uppí garðasvæðið.
Sumar2006 - Séð út fjörðinn

Afmælisveisla Emils
Haldið var uppá áttræðisveislu Emilsafa sem reyndar átti sér stað á seinasta ári, en veislunni var frestað fram á sumarið. Veðrið gat brugðið til sólar eða rigningar. Bræðurnir börðu óð til sólar á tunnugrillin sem fengin voru til matreiðslunar og eins og Gauti var glampandi sól þegar afmælið hófs, en verst var að hún hélst ekki nema nokkrar mínútur og snérist veður þá í ágætis rigningu. Gestir létu það ekki á sig fá og sumir hverjir héldu sig innandyra en aðrir stóðu vaktina í tjaldbúðunum og sá gestgjafinn til þess að ylja þeim um hjartarætunar með hressandi drykkjum. Margt var um manninn og þétt setið og vanhugaði ekki nokkurn mann um mat né drykk eins lengi og veislan lifði. Sumir tjaldbúanna héldu lengi í fögnuðinn og heppnaðist veislan afskaplega vel þótt ringdi allan tímann.

Engin ummæli: