miðvikudagur, janúar 14, 2009

Fjölskyldurúm

Sá umfjöllun um daginn að hjónarúm ættu með réttu að vera kölluð fjölskyldurúm og var að hugsa þetta aðeins:
Fyrir nokkrum árum endurnýjuðum við rúmið okkar. Fyrsta rúmið sem við versluðum var skilað fljótlega og uppfært í Tempur. Það leit vel út til að byrja með en var líka skilað vegna annmarka og þá aðallega að ég fór bara versnandi í bakinu í því með hverri nóttu þrátt fyrir að hafa kunnað mjög vel við mig í því fyrstu dagana. Við enduðum svo á "klassísku" 160cm gormarúmi sem ég held að útleggist Queen size uppá góða íslensku. Til að miðla af reynslu minni mæli ég með gormarúmi og ætla bara að tíunda eina ástæðu hér: Krakkarnir hafa afskaplega gaman að hoppa í því og annan hvern dag er öllum sængum og koddum hent frammúr og þau hoppa sig snarvitlaus þar til þau gefast upp eða einhver meiðir sig...lítið er þó um að taka til eftir sig ;)
Nánast á hverri nóttu kemur einhver uppí til okkar og þykir mér það afskaplega notalegt. Sunna gengur í svefni upp að rúminu og bíður eftir að Bína taki hana uppí...það veit enginn hversu lengi hún nennir að bíða en þó hefur komið fyrir að hún hefur fundist sofandi á gólfinu þannig að hún virðist ekki bíða endalaust eftir upplyftingu. Bjartur er þaulvanur að koma sér fyrir í rúminu án þess að ég verði þess var...en reyndar hafa þú nú alltaf sótt meira í Bínu þegar þau skríða uppí og minnist ég að hafa sé krakkahrúgu ofan á henni einhvern morguninn án þess að ég hefði orðið var við nokkuð brölt um nóttina.
Það kemur fyrir að Bjartur fær að sofna í rúminu okkar og fer ég þá yfirleitt með hann í sitt rúm þegar ég gegn til náða. Um daginn var hann einmitt sofandi á koddanum mínum og ég var eitthvað tvístígandi hvort ég ætti að færa hann. Endaði á því að ég gerði það en vaknaði svo um nóttinu og sá hann við hliðina á mér með duddu. "Hvað er hann að gera með duddu" hugsaði ég og byrjaði að draga dudduna út úr honum. Þegar duddan var komin úr kjaftinum byrjaði krakkinn að væla yfir því og horfði ég lengi á hann þangað til loksins rann upp fyrir mér að þetta var Sunna. Hún var, skiljanlega, hundfúl við duddumissinn en sofnaði um leið og duddann var kominn á sinn stað ;)
Annan morgun fyrir stuttu er ég reis upp reyndi ég að vekja Bjart, Sunnu og Bínu sem öll lágu eins og hráviði í rúminu en enginn var að nenna á fætur. Ég horfði yfir hópinn og hugsaði með mér að vonandi verður Bjartur enn kúrandi hjá okkur þegar Dagný byrjar að koma uppí til okkar...en kannski við verðum að vera komin með aðeins stærra rúm til að rúma allan hópinn, ætli næsta skref sé ekki King size ;)
Þannig að fjölskyldurúmið er rétt að nefna rúmið í dag en kannski við Bína eigum eftir að vera í hjónarúmi þegar fram sækir...ég vona a.m.k. að krakkarnir verði ekki unglingahópur sem skríður enn upp á milli mömmu og pabba ;)

5 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Skemmtileg frásögn af fjölskyldurúminu ykkar :)

Kv.Auður Lísa

Nafnlaus sagði...

Hahahah kannast sko við svona fjölskyldurúm. Við vorum í 150 cm og oft með báða stóru guttana okkar upp í. Ég get alveg sagt þér að það rúmast ekkert sérstaklega vel hjá okkur!! Tveir fullorðnir einn 8 ára og einn 5 ára gutti í einu slíku queen size. Við hjónin lágum á sitthvoru náttborðinu á meðan strákarnir sváfu í miðju rúminu... agalega næs. Erum sem betur fer búin að splæsa í einu 180 cm rúmi núna svo þriðji gemlingurinn eigi sjéns á að koma upp í:)

Nafnlaus sagði...

Þegar ég var yngri vorum við oft þrjú stykki uppí hjá mömmu og pabba í þeirra 150cm rúmi! Ég var elst og svaf oft bara til fóta;) Núna er okkar rúm 150 cm og það vill nú oft verða ansi þröngt þegar báðir ungarnir skríða uppí. Sérstaklega fyrir mig, því ég og krakkarnir erum oft með hálft rúmið og Jobbi svo með hinn helminginn;) Heyrist það verið svipað á ykkar heimili;)

Nafnlaus sagði...

Dóttir mín er mikið fyrir að sofa uppi í rúmi hjá foreldrum sínum en því miður förum við í baki og hálsi og sofum ekkert þegar hún liggur þar :( Þannig að við erum bara með auka dýnu a gólfinu sem hún kemur og sefur á. Strákurinn hefur aldrei sýnt rúmi foreldra sinna neinn áhuga.

Hvað hoppið varðar þá er ekki leyfilegt að hoppa í rúmum/sófum hér, en við erum með trambólín í stofunni ef hoppuþörfin gerir vart við sig, sem og rólu í barnaherberginu sem er ansi vinsæl.

harpa sagði...

Kaupiði ykkur bara koju.. svo getiði skipst á að sofa í þeirri efri.. nennir enginn að príla þangað ;)