mánudagur, nóvember 22, 2004

Komin aftur suður

Þá er fjölskyldan komin aftur suður eftir að hafa verið í góðu yfirlæti hjá Helgu ömmu á Seyðisfirði. Litlu mátti þó mun að ekkert varð af ferðinni austur eftir að hitinn fór af íbúðinni á miðvikudagskvöldið. Kuldakastið fór svo í mig að á fimmtudagsmorgun var ég orðinn veikur og kom hiti ekki aftur fyrr en á föstudagsmorgun. Var heilsan rétt svo nægilega góð til ferða og var ákveðið að láta slag standa og skellt sér austur í myrkrið. Áfengi og verkjatöflur voru óspart nýttar til að halda lífinu í mér yfir helgina og koma mér á einhverja af þeim uppákomum sem á staðnum voru, en samt fór nú mestur tími í að sitja heima í hitanum. Veikindin hafa nú horfið úr hálsinum og hefur þetta verið snýtudagur mikill en ekki get ég þó sagt að hann hafi verið góður. Afskaplega gott að koma heim í heita íbúð, en þegar við fórum var hiti nýkominn í ofnana og seinustu minningar hér voru bara kuldi. Nú fer að koma tími á að leggjast til svefns og vona að vinnuheilsa verði komin í kroppinn í fyrramálið.

Engin ummæli: