fimmtudagur, mars 10, 2011

Bjartur körfuboltastrákur

Bjartur gat loksins byrjað að æfa körfubolta í vetur. Það var ekki í boði fyrir 5 ára í fyrra en reyndar er einn fjölgreinatíma (karfa, fótb. og hand.) sem hann hefur engan áhuga á og mætir ekki í. Hef ekki hugmynd um af hverju hann er svona hrifinn af körfubolta þ.s. enginn sem við þekkjum spilar/æfir eða horfir á þessa annars ágætis íþrótt. En hann hefur áhuga og finnst ekki leiðinlegt að taka þátt í mótum og sérstaklega að fá verðlaunapening ;)
Starfið hjá byrjendaflokknum er til fyrirmyndar og alltaf gott þegar að fólk skilur að þetta snýst um fólk og að gera eitthvað meira heldur en að æfa. Guðbjörg & Dagbjört sem sjá um þetta eiga skilið gott hrós fyrir frábært starf.

Fyrstu helgina í mars var Nettómótið sem var fyrsta mótið sem mátti gista á. Þegar Bjartur hafði fengið staðfest að ég gæti komið með sem liðstjóri var hann til í að taka þátt, ekki alveg tilbúinn að gista einn (enda þekkir hann ekki krakkana það mikið enn). Þá hófst undirbúningur með fjáröflun þ.s. hann var ótrúlega duglegur. Hringdi út í ættingja og sá sjálfur um að lista hvað væri í boði og skrifa niður hvað hver ætlaði að kaupa. Honum fannst þetta mjög spennandi og fannst rosalega merkilegt að fólk skyldi vilja kaupa vörur af honum. Þegar vörurnar voru svo komnar keyrðum við feðgar þær út og fengu allir sem versluðu kaupauka frá Bjarti: bíómiði + popp á "Hvernig á að temja drekann sinn" heima hjá okkur. Hann hafði teiknað mynd sem af Náttofsa og prentuðum við út bíómiða sem Bjartur sá svo um að gata miðann þannig að flipi væri sem hægt væri að rífa af svo allt væri eins og alvöru. Nú bíður hann bara spenntur eftir bíógestum ;)

Nettómótið var í alla staði frábært. Það var ótrúlega gaman að taka þátt í þessu og kynnast krökkunum (og foreldrum) aðeins betur. Skipulagið á mótinu var til fyrirmyndar og skipulagið hjá G&D var enn meira til fyrirmyndar. Bíó, sund, hoppukastali, körfuboltaleikir, pizzuveisla, kvöldvaka, sofið á loftdýnu í þrengslum, verðlaunaafhending, hangs, bílferðir...bara gaman =) Nokkrar myndir frá mótinu, aðallega frá Haukum 9 sem var liðið okkar.

Engin ummæli: