föstudagur, apríl 24, 2009

Kjörvilltr er sá, sem kýs hið lakara

Á morgun eru víst alþingiskosningar og ekki seinna vænna að gera upp hug sinn. Því miður eru auð atkvæði ekki talin með svo þeir sem skila auðu geta alveg eins setið heima. Ég væri mest til í að auðir seðlar myndu telja í auð þingsæti, þá myndi ég skilað auðu, stuðlað að fækkun alþingismanna( sem mætti nú alveg fækka niður í bara ráðherra eins og ég skrifaði í byrjun árs ). Enn verra finnst mér þó að þurfa að kjósa málefnin og fólkið saman þ.s. ég er ekkert endilega "hrifinn" af frambjóðendum í mínu kjördæmi en hef ákveðna skoðun á hvaða forsætisráðherra ég vil hafa eða reyndar hvern ég vil ekki sjá þar. Þannig að þótt ég vilji ekki endilega kjósa einhvern einstakling verð ég að gera það ef ég hef ákveðið hvaða flokk ég ætla að kjósa.

Í þessu meingallaða kerfi er ég er víst "neyddur" til að kjósa einhvern af flokkunum og ætli það sé ekki best að hripa niður hvað mér finnst um hvern og einn:

Borgarahreyfingin
Kemur sterk inn fyrir þá sem vilja nýta atkvæði sitt en geta ekki með nokkru móti kosið "gömlu" flokkana. Alltaf erfitt að vita hvernig nýjum flokkum vegnar, en þeir hafa nú metnaðarfullar hugmyndir um breytingar.

Framsókn
Ætla bara ekki að leggjast af, enda eru þeir með öfluga markaðsdeild og ná alltaf að plata nógu marga til að halda velli. Þótt þeir skipti um forystu og lofi öllu fögru þá mun ég seint gefa þeim tækifæri.

Frjálslyndir
Aðframkominn flokkur sem hefur ekkert skjól til að leita í á þessum tímum.

Lýðræðishreyfingin
Kannski sprottin af góðum grunni en forystusauðurinn fer út um þúfur, þá ætti hann nú kannski réttilega heima á alþingi með hinum hirðfíflunum ;)

Samfylkingin
Tími Jóhönnu loksins kominn en verst að það er ekki góður tími.

Sjálfstæðisflokkurinn
Eftir að hafa "næstum" rænt þjóðina sjálfstæðinu má nú deila um nafn hans( t.d. mætti kalla hann ósjálfstæðisflokkinn eða sjálfæðisflokkinn ). Sýnist þeir vita uppá sig skömmina og reyna að komast hjá því að vera í stjórn svo þeir geti kennt vinstristjórninni um þá erfiðu tíma sem verða næstu árin.

Vinstri Grænir
Eins vinstrisinnaður og ég er þá eru VG svo miklir afturhaldskommatittir stundum að það er hálf sorglegt.

Ath. að mínar skoðar byggjast aðallega á fordómum( sú skoðun eða tilfinning sem ég hef á tilteknu máli hverju sinni, rökfærð á hvaða hátt sem mér sýnist ).

Fann líka gamla færslu sem ég skrifaði um stjórnmálaflokkana fyrir hart nær 6 árum og er ég nokkuð sammála því sem þar kemur fram enn. Vonandi kemur eitthvað gott út úr þessu öllu saman...

3 ummæli:

Atli sagði...

Nokkuð ljóst að þú ert að fara að x-a við S ;)

Logi Helgu sagði...

Já, var nú ekki að reyna að fela það neitt. Reyndi samt að úthúða engum of mikið ;)

Nafnlaus sagði...

Má til með að deila með þér því sem rifjað var upp yfir kjötsúpu í afmæli í gær. Mamma sagði víst einhvern tímann á góðri stundu yfir vindli, um framsóknarmenn. "Það er svo merkilegt með framsóknarmenn að í kringum kosningar koma þeir alltaf skríðandi fram eins og pöddur undan steini". Ég er pínu sammála þessu.
Kv. Inga Hanna