mánudagur, júlí 07, 2003

Aðgengi að vefsíðum

Velkomin á Netið


Netið býður alla velkomna, suma þó meira en aðra,
því vefsíður eru í flestum tilfellum hannaðar
fyrir almenna notendur sem nota hefðbundna vafra á heimilistölvum. 
Margir notendur tengjast þó vefnum með öðrum hætti
og sumir þeirra hafa sérþarfir.  Sem dæmi má
nefna blinda sem geta t.d. látið talgervla lesa fyrir sig síður,
sjóndapra sem vilja geta stjórnað bakgrunnslit eða stærð
leturs, hreyfihamlaða sem þurfa lágmarks hreyfingu um síður
og jafnvel notendur án músar sem geta aðeins notað happaborðið.
Þessum hópum tilheyrir orðið allstór hluti notenda
á vefnum og sé tillit tekið til þarfa þeirra getur
það einfaldað aðgengi allra notenda og aukið notagildi
vefs til muna.


Í dag eru það ekki aðeins vafrar í heimilistölvum
sem sækja og birta efni af Vefnum, heldur einnig mörg önnur
tæki s.s. farsímar, lófatölvur og talgerflar. 
Mörg þessara tækja bjóða upp á mun takmarkaðri
framsetningu efnis en venjulegir vafrar og þurfa því notendur
þeirra oft fremur að reiða sig á skipulega framsetningu
efnis en útlit vefs.  Mikilvægt er því að
hanna vefi og viðhalda þeim með tilliti til þessarar tækni
þannig að sem flestir geti notið þeirra. Þannig má
bæta aðgengi og auka notagildi vefja með fleiri notkunarmöguleikum.


Íslenskar síður fyrir alla


Íslenskir nethönnuðir eru að vakna til meðvitundar
um framsetningu efnis á vefnum.  Við erum að slíta
barnsskónum þegar kemur að margmiðlunarframsetningu efnis
og farin að færa okkur í smekklegar og vel fram settar vefsíður
sem bæta aðgengi upplýsinga á netinu.


Á vefsíðunni vefur.is
má finna síðu þar
sem efnið er sérstaklega sett fram fyrir sjónskerta. Þar
er hægt að breyta lit á texta og bakgrunni, auk þess
sem hægt er að stækka og minnka textann.  Þarna má
sjá gott dæmi um hvernig sjónskertum er gert auðveldara
fyrir.


Blindrafélag Íslands, blind.is,
notast við aðskilnað efnis og framsetningar með hjálp
Cascading Style Sheets, skammstafað CSS. Þar er efnininu raðað
rökrétt á síðunni og kemur hún því
á skilvirkan hátt fram við upplestur í talgervli. 
Einnig auðveldar þessi uppsetning aðgengi að síðunni
gegnum aðra miðla en tölvuvafra.  Þessi leið hefur
verið að ryðja sér til rúms og nýtist bæði
eigendum vefsvæða og gestum því hún auðveldar
viðhald vefsins og færir notendum efnið á skilvirkari hátt
en áður.


Netsamfélagið er að leggja af stað í gjöfula
ferð í skipulagningu og framsetningu efnis á Netinu sem mun
auðvelda og bæta aðgengi að upplýsingum og einfalda
viðhald á þeim. 


Uppbygging og innihald


Við hönnun vefsíðna er mikilvægt að skipta efninu
í einingar og raða þeim þannig að efni síðunnar
berist notandanum á rökréttan hátt.  Þannig
vill notandi jafnan sjá efni síðunnar á undan auglýsingum
eða löngu efnisyfirliti.  Einnig er mikilvægt að hafa
í huga að önnur tæki en vafrar sjá oft aðeins
textaútgáfu af vefsíðum en ekki grafíska framsetningu
og myndir.  Með CSS má birta texta á mjög grafískan
hátt og þannig losna við mikið magn mynda sem geta torveldað
bæði viðhald og aðgengi.  Við skulum líta
á nokkur atriði sem ber að hafa í huga við smíði
vefsíðna.


Mannlegur lestur


Uppsetning útlits ætti ætíð vera þannig
að hægt sé að lesa í gegnum síðuna í
töluðu máli, þ.e. sem texta.  Þannig er góð
hugmynd að merkja allt í HTML-kóðanum sem ekki er texti
með lýsandi og skiljanlegum textalýsingum.  Ef um myndir
er að ræða má nota svokölluð ALT-tög til
að gefa lýsingu á þeim eða hlutverki þeirra
og ef lýsingin er löng má gjarnan fylgja D-hlekkur. 
D-hlekkur er tengill á síðu með ítarlýsingu
á viðkomandi hlut.  Texta þarf nánast aldrei að
merkja sérstaklega, en þó eru til undantekningar eins og
skammstafanir sem skilgreina vþarf sérstklega þannig að
notandinn geti greint þann texta sem skammstöfun.  Skammstafanir
eru merktar með ACRONYM-taginu og orðstyttingar með ABBR-taginu.
Einnig er gott að nota fyrirsagnir (H-tög) til þess að brjóta
niður efni og flokka það.  Þessar skilgreingar hjálpa
talgervlum að fletta í gegnum helstu atriði í efni vefs
á fljótlegan og þægilegan hátt.


Stillanleg framsetning


Margir notendur eiga erfitt með að lesa smáan texta og litblinda
gerir sumum lífið leitt við flakk á Netinu.  Fyrir
litblinda er gott að geta valið með einhverjum hætti hvernig
bakgrunnslitur texta er og breytt leturstærð.  Sniðugt er
að bjóða upp á að hægt sé að stækka
letur og minnka, fyrir þá sem erfitt eiga með að lesa smáan
texta.  Þessi eiginleiki er til staðar í flestum vöfrum
en margir notendur vita ekki af honum og er því jafnvel gott að
hafa þessar stillingar á síðunni sjálfri. 
Þetta atriði er mun auðveldara í útfærslu
með góðum aðskilnaði á efni og framsetningu sem
fæst með notkun CSS.


Lágmarks tækjabúnaður


Öll virkni síðu ætti vera aðgengileg að lágmarki
með hnappaborði.  Sumir notendur hafa ekki tölvumús,
eða hún er biluð, og þá vilja þeir geta ferðast
um síður með hnapapborðinu.  Þetta er einnig mikilvægt
að hafa til hliðsjónar fyrir önnur tæki sem birta
efni á síðu með grafísku viðmóti þeirra,
en bjóða ekki upp á notkun músarbendils, t.d. sumar
tegundir lófatölva.


Samræmi í framsetningu


Reyna skal að halda samræmdri uppbyggingu og útliti á
milli síðna innan sama vefs.  Þannig verður notandinn
ekki fyrir skyndilegum breytingum og þarf ekki að læra á
nýtt útlit síðunnar.  Útlæga tengla,
tengla sem liggja á aðra vefi, er gott að merkja með einhverjum
hætti til að notandinn viti af breytingunni áður en hann
smellir á hlekkinn.  Einnig skulu tenglar sem opna nýjan
vafra vera merktir.  Mikilvægt er að notandanum sé ekki
komið á óvart með óvæntum breytingum á
umhverfi sínu.  Uppbygging útlits og leiðakerfis getur
verið flókin við fyrstu sýn og oft þarf að skýra
virkni og uppbyggingu fyrir notanda þegar hann kemur í heimsókn.


Rétt notkun á tækni


Veftækni er gagnleg til að hámarka aðgengi og til að
tryggja notagildi vefja og efnis þeirra til framtíðar. 
Veftækni ætti alltaf að nota samkvæmt stöðlum,
séu þeir til staðar, því ef ný tæki
koma á markaðinn sem byggja á fyrirliggjandi veftækni,
t.d. HTML og CSS, gera þau jafnan ráð fyrir að síður
noti þessa tækni samkvæmt stöðlum.  Tæknin
sem notuð er til framsetningar á efni ætti að vera vel
skilgreind og í helst í almennri notkun.  Ef notuð er
sérstök tækni við framsetningu efnis er gott að skýra
frá því á vefnum hvaða hugbúnað þarf
til að geta skoðað efnið og helst þarf að bjóða
upp á aðgengi að efninu á hefðbundnu sniði fyrir
þá sem hugsanlega geta ekki notað gefna tækni. 
Ef síða er t.d. á Flash-sniði skal notandinn látinn
vita af því fyrir fram og boðið upp á hefðbundna
textaframsetningu á efni síðunnar.


Þumalfingursreglan


Við uppsetningu á vefsíðum þarf að huga að
mörgu til að allir geti vel við unað.  Mikilvægt
er að skoða vefsíðuna sem texta einvörðungu því
við það gefst betri innsýn í þann heim sem
sumir skoða Netið í.  Til þessa má nota vafrann
Lynx sem er textavafri og sýnir aðeins texta á síðum. 
Til er netúgáfa
af Lynx
frá Delorie software
sem er mjög auðveld í notkun og sýnir hvernig textaútgáfa
af síðum lítur út.  Þumalfingursreglan er
að allt efni á að vera lesanlegt á einn eða annan
hátt sem texti.  Til að auðvelda hönnunina geturðu
ímyndað þér að þú sért að
lýsa síðunni í gegnum síma.  Allt sem þú
sérð verðurðu að geta lýst í orðum
og getur þá fundið heppilegar lýsingar fyrir aðra
hluti en texta.


Vel framsett framtíð


Með því að tileinka sér aðskilnað efnis
og framsetningar við smíði vefa er hægt að auka notagildi
og aðgengi að vefsíðum án þess að fórna
útlitinu.  Í stað þess að festa efni í
framsetningu er því stjórnað í gegnum CSS þannig
að efnið sjálft er ómengað af framsetningarhlutanum.
  Með réttri notkun á CSS er hægt að einfalda
eigendum vefsvæða viðhald og veita notendum þægilegra
aðgengi að upplýsingum.  Sú hugsjón að
auðvelda aðgengi allra að Netinu er kostur allra. Notendur verða
ánægðari og geta nálgast upplýsingar á
fleiri en einn hátt.  Vefhönnuðir eiga auðveldara með
að viðhalda vefnum og hagurinn er mikill fyrir eigendur því
viðhald verður auðveldara og vefsíðurnar betri.

Tökum CSS fagnandi og gerum okkar til að bæta Netið.


Tenglar ítarefnis á ensku


Web Content Accessability Guidelines 2.0 ( http://www.w3.org/TR/WCAG20/#overview-design-principles
)


Core Techniques for Web Content Accessibility Guidelines 1.0  ( http://www.w3.org/TR/WCAG10-CORE-TECHS/#text-equivalent
)


How People with Disabilities Use the Web ( http://www.w3.org/WAI/EO/Drafts/PWD-Use-Web/
)

Engin ummæli: