laugardagur, júní 29, 2013

Sindri fyndni


Ég og Sindri skelltum okkur á "Borum borum" gjörning sem var á laugardagsmorgni uppi hjá réttum í tilefni 100 ára afmælishátiðar Hugins. Þó svo að þessi gjörningur hafi nú mest lítið með íþróttastarfið að gera þá var þetta bara gaman og góð ámynning á hvað bæta þarf samgöngur í fjörðinn. 
Sindri byrjaði á að nappa af mér myndavélinni og mynda mig og fleira. Síðan þegar ég tók hana af honum þá lagði hann af stað uppað gangmunanum sem var hluti af gjörningnum. Ég elti hann í rólegheitunum þar sem ég hafði ekki heyrt að það væri stranglega bannað að fara þangað fyrr en gjörningurinn væri búinn. Sem betur fer var hlaupið á eftir okkur og við stoppaðir af áður en Sindri komst inn að fikta í sprengiefninu.
Þegar kom að því að smala öllum inní rétt þá stóð okkar maður á malarhól og benti öllum skilmerkilega hvert átti að fara eins og hann væri að stjórna...og hætti ekki fyrr en allir voru komnir á sinn stað.
Síðan var á endanum sprengt fyrir göngunum og það fannst mínum manni nú ekki lítið merkilegt og gat talað um það í góðan tíma á eftir. Hann er ákveðinn ungur maður sem þykist ráða ýmsu ;)

þriðjudagur, júní 25, 2013

Lundarfar


Þá var komið að því að fara með Frænku uppí Sesseljulund eins og Jóhann var búinn að skipuleggja að gera í þessari Íslandsför. Hann og Bragi (með hjálp frá fleirum) smíðuðu Lundarfar og síðan var haldið til Frænku þar sem fleiri ættingjar bættust í hópinn.
Ferðin gekk vel og hafði Frænka það notalegt á hásætinu með sterka burðarmenn sem sáu til þess að hún þurfti ekki að stíga niður fæti alla leiðina.
Svo var stoppað í (eða hjá) Lundinum og nestið tekið upp og verðurblíðunnar notið áður en haldið var aftur niður með Frænku prinessu og fylgdarlið =)

Skokkað á Seyðis


Monsi fór með mér út að skokka á Seyðis í góðu veðri. Sérstaklega var þó gaman að hann fór með uppí Fjarðarsel og þaðan hlupum við gönguslóða í fjallshlíðunum inn að bæ sem ég hafði sérstaklega gaman af. Það var mjög skemmtilegt að hlaupa þarna og man ég ekki hvort ég hafi nú farið þessa gönguleið áður en finnst ég hafa verið á ferð þarna á skíðum fyrir mjög mörgum árum =)

laugardagur, júní 22, 2013

Dagsafmæli


Dagur hélt uppá stórafmæli með alsherjar veislu og þar sem allir bræðurnir mættu ásamt systurinni þá varð ég að mæta og var þetta partý því ástæða snemmbúins sumarfrís í ár. Partýið stóð líka undir væntingum þar sem var grillað á 4 grillum og matur & drykkur flæddu út um allt og ofan í alla langt fram eftir. Við yfirgáfum nú stuðið löngu eftir miðnætti þegar allir krakkarnir voru sofnaði nema Bjartur. Hann hafði hreiðrað um sig í herbergi Sólar og lesið syrpur fram eftir kvöldi. Þegar hann kom svo loksins hafði hann sérstaklega gaman að því hvað allir voru hressir og í miklu stuði...enda var þetta alvöru partý sem lifði lengi og voru margar góðar sögur og nokkrar myndir =)

Kominn í sumarfrí

Þá er ég kominn í frí.  Síðast færsla var fyrir mörgum mánuðum og þarf ég að fylla inní það tímabil við tækifæri ;)

Nú erum við komin á SEY í fínasta veður og ligg ég í steik þó svo að veðurspár segi að það sé skýað og 11 stiga hiti...feels like 20. Þannig að útlit er fyrir að við verðum hér fram yfir mánaðarmót :)

föstudagur, júní 21, 2013

Tvísöngur


Skelltum okkur í smá gönguferð uppí Tvísöng. Gaman að sjá þessa viðbót við skemmtilega staði til að heimsækja á Seyðisfirði og líka gaman að vera hinu megin í firðinu og taka eftir "barbapabbahúsinu" ;)

miðvikudagur, júní 12, 2013

Barnalán

Langaði alltaf í 5 börn...alveg frá því ég var "lítill" en hugsaði samt að 3 væru "lágmark" og get ekki sagt annað en að ég sé hæstánægður með þeesi 4 sem við Bína eigum. Ég held að þetta sé þokkalegur árangur...ég fengi 2 í einkunn fyrir hvert þá væri þetta 8 sem ég tel mjög gott...Bína fengi 10 í einkunn fyrir að þurfa að sjá um mig líka ;)

miðvikudagur, júní 05, 2013

Bjartur 9 ára


Bjartur var alsæll með nýtt hjól. Fékk reyndar ekki litinn sem hann vildi, en hann tekur sig vel út í bláu =)
Hann er nú mikið fyrir að nördast í tölvunni eins og pabbi sinn og því upplagt að fá eitthvað sem vekur áhugann á útiveru í sumar.

laugardagur, júní 01, 2013

Mission Hafnarfjörður


Það var heilmikið stuð í óvissuferð Víðivalla í ár. Búið var að skipta í í lið og gefa öllum hlutverk löngu áður og mikið keppnisskap komið í mannskapinn...sem og drykkjuskap ...en aðallega bara gott skap ;)
Eftir að hafa skottast út um allan fjörðinn þá enduðum við öll á saman stað og skemmtum okkur fram eftir nóttu og var þetta frábær dagur í alla staði =)

miðvikudagur, maí 01, 2013

Sunna balletmær


Enn eitt árið í balletnum búið hjá Sunnu og annað skiptið sem að hún er með í sýningu í Borgarleikhúsinu. Ótrúlega gaman að fá að fylgjast með henni á sviðinu og vissulega vorum við öll (Ég, Böddi, Bekka, Bjartur, Dagný & Þyrí) að rifna úr stolti, en Bína var baksviðs að passa ballerínurnar.
Kynnarnir voru þeir sömu og í fyrra og ég held að Bjartur hafi skemmt sér enn betur en í fyrra ;)
Dagný fannst frekar flott að sjá alla þessa dansa og endaði sitjandi á tröppum uppað sviðinu þar sem hana langaði mest að vera komin upp líka og verður væntanlega þar með systur sinni að ári.

þriðjudagur, apríl 30, 2013

Agile námskeið


Það var góður eftirmiðdagur með góðu fólki sem kom á Scrum & Kanban grunnnámskeið hjá BEZTA (Dokkunni) sem ég sá um að kenna og meira um það á Agile síðunni minni.

laugardagur, apríl 27, 2013

Dagný ballerína


Enn einu árinu lokið hjá Dangý í ballet með sýningu fyrir alla fjölskylduna. Það var leikið áður en sýningin byrjaði og síðan byrjuðu þær að dansa og voru rosalega flottar. Sindra var nú farið að leiðast undir lokin þannig að hann skellti sér út á gólfið líka. Sunna ætlaði að fjarlægja hann en endaði bara að þau tóku þátt í restinni af sýningunni hennar Dagnýjar og henni fannst það ekkert leiðinlegt ;) Myndir frá sýningunni.

fimmtudagur, apríl 25, 2013

Sunna hlaupadrottning


Víðavangshlaupið á Víðistaðatúni var í haldið í sólskyni á köldum degi. Dagný var það kalt að hún endaði á að gefast upp í hlaupinu.
Sunna ákvað að hlaupa ekki með systur sinni í ár og stóð tilbúin í sömu sporunum í hálftíma áður en var ræst.
Ég hjálpaði Dagný & Sindri að komast áfram og rétt heyrði í hátalarakerfinu "Sunna Logadóttir" og náði að smella mynd af henni á pallinum.
Síðan hljóp Bjartur (reyndu að finna hann) og eftir það drifum við okkur heim að fá heitt kakó hjá mömmu.

mánudagur, apríl 01, 2013

Helgamma í heimsókn


Helgamma kom til okkar yfir páskana og var það að vanda ánægjuleg heimsókn. Það eru alltaf allir hæstánægðir að hafa hana á heimilinu og það gaf okkur líka góða ástæðu til að bjóða heim í smá grímupartý sem Sunna átti inni eftir að hafa misst af öskudeginum vegna veikinda. Þar mættu ýmsar verur eins og galdranornir og kanínur.
Páskar með tilheyrandi páskaeggjaleit, notalegir morgnar, farið á leikvelli, í lestarferð, heimsóknir og ýmsilegt var brallað.
Það voru hálf leið andlit sem horfðu á eftir Helgömmu fara í flugvélina og sumir voru ekki sáttir við brottkvarf Hebböggu, Hebbu eða Evu eins og Sindri var byrjaður að kalla hana...nú bíðum við bara spennt eftir að hún komi aftur =)

laugardagur, mars 30, 2013

Mótorhjólagengið


Snorri fékk sér mótorhjól um daginn og við kíktum í heimsókn til Gauta & co. þar sem allir fengu að fara út og prófa hjólið. Síðan var líka svissað rafmagninu á og prófað að flauta og þá var ekki aftur snúið. Sindri var manna verstur í að fluta út í eitt og varð svo ekki sáttur ef rafmagnið var tekið af ;)
Hann var ekki leiður að finna svo mótorhjólið aftur í sumarfríinu á Seyðis og fiktaði þá eins og hann gat þannig að hann fitkaði meira segja í því eina sem hann átti ekki að fikta í og endurstillti teljarann.

þriðjudagur, mars 26, 2013

Sunna dundari í vinnunni minni


Páskafrí hjá skólakrökkunum. Bjartur sáttur við að geta verið heima í tölvunni en Sunna er ekki jafn mikið fyrir að vera ein í reiðleysi allan daginn þannig að hún kom með mér í dag. Hún gat dundað við ýmsilegt og meðan annars að fá að lita á tússtöflu þar sem hún teiknaði mynd af sér og Sindra enda eru þau ágætis vinir og síðan var myndinskreytti meira. Það fer nú ekki mikið fyrir henni og hún og sumir vinnufélagar spurðu hvort hún væri alltaf svona róleg ;)
Á svona dögum langar mann að geta verið bara í fríi og eytt meiri tíma með þeim :| en ef ég man rétt þá fengum við okkur ís á leiðinni heim og vorum nú ekkert allt of lengi í vinnunni, ótrúlegur lúxus að geta fært tíma til og unnið það upp seinna (þá eru allir sáttir).

sunnudagur, mars 03, 2013

Farinn í frí?


Dreymdi að ég var í ókunnri vinnu en þurfti að taka mér frí...sem mér þótti mjög leitt og erfitt...var ekki að fara að gera neitt...bara að fara í frí...merkilegt að vera svo bent á þetta "hvetjandi" myndband þar sem umræðuefnið er það sama.
Ætli þetta sé ekki bara tengt því hvað mikði er í gangi og ég þarf að ná að komast yfir ýmislegt þess dagana. En ég náði mér í þetta forrit og gaman að prófa að ná sekúndu af hverjum degi saman í eina myndbands"súpu" =)

föstudagur, mars 01, 2013

Hleðslustöð (fyrsta útgáfa)


Oft hefur verið rætt um það á heimilinu að vera með hleðslustöð þar sem símar & fleiri iPod-dar geta fengið hleðslu en aldrei neitt verið gert í því. Þegar snjallsímar eru nú komnir á heimilið var orðið tímabært að gera eitthvað í málinu.
Á mánudaginn var skipulagsdagur og allir heima og ég í fríi...þó ég hafi nú meira gaman af því að nýta þessa daga í að fara á flakk með krökkunum þá gafst tækifæri á að koma upp þessari margumræddu hleðslustöð. Ég vissi nefnilega að það var ein ein hvít plastskóhilla fyrir mér í geymslunni eftir að við settum 2 inní eldhús undir blöð og fleira en þær voru bara seldar 3 saman í pakka.
Þannig að gat var gert fyrir fjöltengi og síðan skorið út fyrir snúrum og allt þrætt, tengt & hengt uppá vegg og svona leit þetta út hrátt á gólfinu áður en ég hengdi upp.

Nokkur sóðaskapur fylgdi þessu og fékk ég góða hjálp frá Sunnu við að þrífa...og Sindra sem var reyndar meira áhugasamur um að sóða út og fikta í verkfærunum ;)
Þegar ég setti snúrurnar varð ég að skipulagsnördast aðeins og merkja þær með plastperlum þannig að báðir endar á hverri snúru eru "litamerktir" eins og sést á myndinni efst...það er bara eitthvað við svona skipulag sem ég fíla pínu ;)
Þegar að allt var tilbúið var kominn tími fyrir Sindra að taka smá kríu og héldum við okkur því heima þennan skipuldagsdaginn =)

fimmtudagur, febrúar 28, 2013

Agile fyrir alla


Bauðst að koma að Agile innleiðingu hjá fyrirtæki út í bæ eftir að hafa hitt vinkonu í kjúklingabiðröðinni í Samkaup fyrir áramót. Ég sló til og hafði mjög gaman að kíkja á þau tvo morgna og hlakka til að fá að heyra hvernig þetta gengur & þróast hjá þeim.

sunnudagur, febrúar 17, 2013

Veikindatíð


Eins og oft áður byrjar árið á því að við klárum veikindadaga barna. Fyrst byrjaði smá flesna og síðan tók hlaupabóla við hjá Dagný eina viku og Sindra næstu viku. Síðan var flensan tekin með trompi: fyrst Sunna í viku og síðan Bína í viku. Bjartur og ég tókum þetta á um sólahring og fórum einna best út úr þessu tímabili ;)