þriðjudagur, september 02, 2008

Nýtt baðherbergi

Við vorum svo séð að láta gera upp baðið á meðan við vorum í sumarfríi. Reyndar losaði ég sjálfur baðið og braut upp flísarnar en fékk gott fólk í að klára að rífa klósettið, flísa og pípa. Ég hengdi nú reyndar upp hillur og vaskinn en lét fróðari menn um að pípa. Það var líka kominn tími á að taka þetta 36 ára baðherbergi í gegn. Þannig að nú er allt nýtt og ekkert eftir nema eitthvað smotterí eins og að finna veggljós, ljós undir speglaskápinn og klósettrúlluhaldara/stand. Þetta kostaði reyndar að íbúðin var öll undirlögð í pússningsryki( og er það enn sumstaðar ), einnig tók þetta verulega á taugarnar að bíða eftir vörum frá Byko og IKEA. Reyndar gafst ég upp á því að bíða eftir Byko og keypti bara annað en ég hafði lagt upp með, en það var ekki svo langt frá þannig að það sleppur. En Byko í Kauptúni er ekki uppáhaldsbúðin mín, allt of stór. Þannig að eftir mikið búðarráp og afgreiðslubið, þrif, uppsetningar, meiri þrif, bið og þónokkra hundraðþúsundkalla þá erum við komin með nýtt baðherbergi. Verst að maður þarf að selja á næstunni til að koma öllum þessum krökkum fyrir ;)

mánudagur, september 01, 2008

"Einn" heima

Krakkarnir sofnuðu nokkuð fljótt í kvöld enda var afskaplega róleg stemmning á heimilinu. Róleg tónlist flæddi um alla íbúðina úr stofunni og slökkt var á sjónvarpi og næstum öllum ljósum. Í myrkrinu lá ég í mestu makindum í baði með kertaljós og hafði það notalegt "einn" heima ;)

Merkilegt hvað lífið breytist mikið þegar börn bætast í hópinn. Svo ekki sé talað um það þegar þau eru orðin tvö...ég get engan vegin ímyndað mér hvað að verður mikil vinna að hafa þrjá orma hlaupandi um...en það verður ábyggilega enn skemmtilegra ;)

sunnudagur, ágúst 31, 2008

Sól, blíða og grilluð pizza

Ég og krakkarnir fórum í gær uppí íþróttasal HÍ þ.s. við lékum okkur í bandý og boltaleik í góðan klukkutíma. Jobbi kom með tvíburana og Röggi og frú með stelpurnar. Undir lok tímans var Sunna orðin afskaplega lítil. Síðar um daginn var hún rokinn upp í hita og var bara í móki allan daginn, aðallega sofandi eða réttara sagt rænulaus.
Dæmigert var því þ.s. að Sunna var að ná sér í dag að það var heilmikil blíða en ekki hægt að fara með alla familiuna út. Ég kláraði þó einhver þrif eftir framkvæmdir og skelli svo pizzu á grillið.
Að grilla pizzu er eitthvað sem ég hef ætlað mér að gera í mörg ár og eftir að ég fékk grillaða pizzu hjá Palla&Erlu í sumar varð ég að fara að láta verða af þessu. Ég var ekki svikinn og var útkoman sérstaklega góð. Svo góð að ég verð að prófa þetta aftur við fyrsta tækifæri. Held reyndar að það hafi hjálpað mikið að ég geymdi pizzadeigið í ísskápnum síðan í gær, þarf að rannsaka/endurtaka þetta við fyrsta tækifæri og má bara ekki gleyma að opna bjór næst, enda á alltaf að opna bjór þegar maður kveikir upp í girllinu ;)

Nördaskapur

Ég rakst á nördasíðu þ.s. eru kassamódel af ýmsum persónum og þegar ég rakst á StrongBad( gítarbréfið er í uppáhaldi hjá mér ) varð ég að prófa þetta. Datt í hug að þetta gæti verið eitthvað sniðugt fyrir Bjart en um eftir amk hálftíma af klippi var ég nokkuð viss um að hann hefði ekki þolinmæði fyrir þetta. Á endanum birtist StrongBad þó í höndunum á mér og án þess að ég þyrfti að líma eða hefta nokkuð. Var þessi gjörningur algjörlega tilgangslaus, tók mikinn tíma og veitti mér litla ánægju...mæli samt með þessu HAHAHAA =)

miðvikudagur, ágúst 27, 2008

Sveigjanlegur vinnutími...

...er að mínu mati gulls ígildi og ég veit ekki betur en silfur sé málið og gull betra ;)

miðvikudagur, júlí 30, 2008

Svergie 2008

Skelltum okkur til Palla&Erlu í sumarfríinu og hægt er að sjá myndir úr ferðinni og svo eru hér einhverjir punktar frá því sem við gerðum:

1. dagur miðvikudagurinn 16. júlí 2008
Vöknuðum snemma í flug. Bjartur ekki að nenna því, enda fóru þau bæði seint að sofa kvöldið áður. Sóttum Balla og hann skutlaði okkur á völlinn. Bjartur svaf í fluginu en Sunna sofnaði ekki fyrr en rétt fyrir lendingu þannig að hún var svoldið stúrin. Fundum bílinn hans Smára á bílastæðinu og brunuðum af stað, enda þurfi Bína nauðsynlega að komast á klósett. Þegar við vorum að komst inní Sisjön hverfið fórum gleymdum við afleggjaranum, alveg eins og í fyrra. Það gerði nú ekki mikið til þ.s. við rötuðum úr þeim ógöngum frá því í fyrra ;) Þegar við komum duttu Bjartur og Óðinn Bragi strax í leik eins og þeir hefði síðast hist í gær og vissum við ekki af þeim.

2. dagur fimmtudagurinn 17. júlí 2008
Dröttuðumst á fætur og svo fór ég og lagði mig kl. 10. Kl. 11 var ég vakinn við að Sunna væri týnd. Hófst þá heilmikið hlaup um hverfið þ.s. ekkert sást eða heyrðist til hennar. Erla fann svo Sunnulinginn inní runna hjá nágrannanum þ.s. hún var búin að skoða sig af og var að kalla á pabba sinn.
Fórum á rólóið í hverfinu enda var Bjartur búinn að bíða lengi að fá að komast aftur á sjóræningjaskipið og kíkinn sem er þar. Þeim kemur alltaf jafn vel saman og Óðinn Bragi mjög góður að leyfa Bjarti að leika sér með riddarabrynjuna( hjálm og sverð ) endalaust.

3. dagur föstudagurinn 18. júlí 2008
Sofið frameftir. Palli kom svo heim úr vinnunni og ákveðið að fara á Outlet í fataleiðangur. Ég tók lítið af fötum með mér þannig að það var ágætist hugmynd að reyna að finna eitthvað á góðu verði. Fann nú reyndar ekkert nema íþróttaskó. Allar vörur sem ég skoðaði voru á himinháu verði, þannig að ég virðist vera með mjög dýra smekk ;) Komum við í Coop á leiðinni heim og síðan var pizza um kvöldið, enda víst hefð að hafa pizzu á föstudagskvöldum.

4. dagur laugardagurinn 19. júlí 2008
Þokkalegasta veður en samt gæti skollið á rigning þannig að það var ákveðið að sleppa Slottskogen og kíkja í Lek og Bus land, leikjaland sem leit nú ekki út fyrir að vera merkilegt við fyrstu sýn en 3 tímar voru merkilega fljótir að líða og hafði ég ekkert minna gaman af heldur en krakkarnir en fann þó fyrir því að vera "aðeins" of stór ;) Risastór klifurgrind sem var auðvelt að týnst í á öllum 3 hæðunum( eða uþb ), kúlulaug, kúlubyssukastali og fl. Burger King á leiðinni heim þ.s. Taco Bar var að loka og ekki hægt að afgreiða þótt ekki væri búið að loka. BK svindlaði nú eitthvað á okkur og ekki fengu allir matinn sinn, en þetta dugði og var allt í lagi þ.s. ekki var nú um neina hollustu að ræða.

5. dagur sunnudagurinn 20. júlí 2008
Palli loksins kominn í sumarfrí e. næturvakt. Ég og Bína fengum að fara í verslunarferð. Sunna kom með og var ekki til friðs þannig að ekki tókst að eyða nema um nokkrum tugum þúsundkalla í föt ;) Fórum á rólóvöll með krökkunum þ.s. endalaus eltingaleikur var upphafður eins og í fyrra og stelpurnar vildu bara róla. Íslenskt lambalæri í boði P&E um kvöldið sem var alveg himneskt.

6. dagur mánudagurinn 21. júlí 2008
Brakandi blíða þegar komið var fram um morguninn eftir rigningar gærkvöldsins. Þegar allir voru komnir á ról og búnir að ná áttum var ákveðið að halda í Liseberg tívolíið þ.s. veðurspáin fyrir morgundaginn sýnir meiri rigningu. Komum ekki fyrr en á hádegi í Lieseberg. Fyrsta tækið, Víkingaskipin, reyndust biluð um leið og strákarnir voru búnir að koma sér fyrir en það var bara haldið áfram för allan daginn og garðurinn ekki yfirgefinn fyrr en um 6. Rússibaninn var í uppáhaldi hjá Bjarti sem fyrr. Allir hálf búnir á því eftir hasarinn í dag þótt Freyja Sif hafi bara sofið sínu værasta í garðinum á meðan Sunna tók sér bara smá lúr en var merkilega góð m.v. að þurfa að hanga í kerrunni í allan dag í sól og hita.

7. dagur þriðjudagurinn 22. júlí 2008
Skýin stoppuðu stutt við í morgunsárið og komin var brakandi blíða uppúr 10. Við Palli fórum með krakkana út á fótboltavöll þ.s. mest var gaman að sulla í polli. Stelpurnar voru fastar í berjamó. Í hádeginu var orðið brakandi og fórum ég og strákarnir á leikvelli og klifurtréð. Fundum fullt af Hallon berjum og var ákveðið að taka með dollur á morgun og koma heim færandi hendi með ber handa öllum. Ég og Palli færðum markisuna framar svo hurðin á pallinn næði að opnast betur. Við skruppum svo aðeins í Maxi þ.s. við náðum að kaupa slatta af skóm og Sunna fékk að frekjast. Kvöldverðurinn var úti undir markísunni en gekk nú út á lítið annað en að reyna að hafa hemil á stelpunum sem létu öllum illum látum á meðan matnum stóð. Síðan fóru krakkarnir niður að horfa á skrípó að vanda og eins og síðustu 2 kvöld kom Sunna upp og vildi bara hanga með foreldrunum og fá óskipta athygli og meira að borða fyrir átökin við að fara að sofa, en hún hefur ekki verið sú stilltasta síðan við komum. Kannski er henni jafn heitt og mér, en mér er búið að vera heitt síðan ég kom og líklega verð ég ekki búinn að venjast þessum hita áður en ég fer ;)

8. dagur miðvikudagurinn 23. júlí 2008
Smá skýjafar var velkomið þegar við strákarnir fórum í berjatúr og sóttum nokkuð af hallon(bróm-)berjum og nokkur kirsuber þ.s. við fórum líka á leikvellina því þeir höfðu ekki mikla eirð í sér að tína endalaust af berjum af runnunum. Óðinn Bragi, Freyja Sif og Erla fór að sækja Magga og Önnu Dóru sem komu heldur betur með góða veðrið með sér, en Anna Dóra kemur víst alltaf með það með sér. Einnig voru þau drekkhlaðin íslenskum munaðarvörur s.s. lambakjöti og Cherios. Ég gerði tilraun til að finna mér buxur því ljósu buxurnar mínar eru víst komnar á síðasta snúning en eftir ábyggilega tveggja tíma rölt um Maxi( verslunarmiðstöðina ) þá fór ég þaðan með eina stuttermaskyrtu( og þá er ég kominn með 4 nýja stuttermaskyrtur, 4 skó, einhverjar brækur en engar buxur hef ég fundið enn og þarf því víst að fara aftur í búðir ). Bína fann einnig einhvern H&M bækling þannig að nú þarf að fara þangað líka því henni vantar allt sem er í bæklingnum og meira að segja farin að tala um að við þurfum að eignast einn strák í viðbót til að kaupa einhver strákaföt á. Ætli besta leið til að fá konu til að vilja eignast börn sé ekki að rétta henni barnafatalista?

9. dagur fimmtudagurinn 24. júlí 2008
Vöknuðum um 10 leitið þ.s. krakkarnir fóru ekki að sofa fyrr en um 11. Steikjandi hiti kominn yfir 26° strax um morguninn. Eitthvað varð hitinn nú meiri yfir daginn, 27° sagði einhver heimasíða en í sól var þetta nær 34° og nánast ólíft á ströndinni við Sísjönvatn. Náðum að hanga þar í um/yfir 3 tíma. Geitungarnir voru full sólgnir í mig en með því að skella mér í smá sundsprett tókst mér að slá á þá og hitann. Markisan sló vel á sólina seinnipart dags og allir voru vel búnir á því eftir daginn. Ekki liggur enn fyrir hvað eigi að aðhafast á morgun enda er veðurspáin ekkert nema sól og hiti og erfitt að athafna sig í svona veðri.

10. dagur föstudagurinn 25. júlí 2008

Bjarti tókst að vekja alla kl. 9 sem var ágætt að vera komin á fætur fyrir 10, en ekki allir sáttir við það að hann skyldi öskra "Mamma" um leið og hann vaknaði. Brakandi blíða var enn á lofti og séð framá hana næstu daga. Eins gott að skella sér bara í dýragarðinn í dag þ.s. það er föstudagur og á morgun yrði líklega fjölmennara í garðinum. Komumst af stað uppúr 11 og vorum komin inní garð eitthvað rétt uppúr 12. Það gekk nú reyndar ekki áfallalaust því ég hafði skrifað niður nákvæmar leiðbeiningar hvernig ætti að komast í dýragarðinn sem við fylgdum fullkomlega og vorum kominn á réttan stað, fyrir utan litla gæludýrabúð í miðri Borås. Sem betur fer hafði ég skoðað hvar sundlaugin var nokkurn vegin og vissi að við áttum að keyra upp götu 42. Í ljós kom svo að sundlaugin var við hliðina á dýragarðinum sem útskýrði mikið fyrir mér...en samt var ég ekkert að furða mig á því að dýragarður væri í miðri borginni ;) En uppúr hádegi komumst við inn og vorum við Bína yfir okkur hrifin af afríkudýrunum. Við fórum hægri rúntinn, sem Erla hafði mælt með, og komum því fljótlega að Savannah svæðinu þ.s. gíraffi tók á móti okkur. Við æstumst öll upp og þegar við sáum fíla, sebrahesta og fleiri dýr vorum við alveg gáttuð. Borðum yfir Savannah en vorum svo hrakin burt af geitungaher sem er farinn að æsast þessa dagana í hitanum. Litlu aparnir voru ákaflega skemmtilegir og höfðu allir mjög gaman að horfa á þá hlaupa og klifra. Bjartur stalst til að gefa dádýrum smá að borða, en samt ekki því sem var með horn ;) Selum var svo gefið og léku þeir listir sínar fyrir áhorfendur. Stuttu síðar komumst við út eftir um 5 tíma rölt. Afskaplega góður dagur og við vorum ánægð með að hafa skellt okkur. Komumst nokkuð auðveldlega úr bænum með hjálp skilta og hættum að nota leiðbeiningarnar mínar af netinu. En þá sáum við að bremsuljós var komið á bílinn, það hafði sést í örfár sekúndur seinustu daga en nú logaði það. Þegar við höfðum ráðfært okkur við handbókina komumst við að því að þ.s. bremsurnar virkuðu væri þetta ekkert til að hafa áhyggjur af strax. Þá sáum við það sem verra var að hitinn á vatninu var kominn upp úr öllu valdi. Gerðum tilraun til að fara út af hraðbrautinni en fundum hvergi opna búð eða skrifstofu. Héldum förinni áfram sem endað á því að við vorum búin að drepa á bílnum út í vegkanti. Fundum smá vatn og svo frostlög sem gerðu mest lítið. Náðum að keyra smá og renna þó nokkra kílómetra í drepandi hita þangað til við fundum Flugger verksmiðju og búð þ.s. ég fékk vatn á vatnskassann. Síðan var brunað heim með bremsuljósið logandi, en bremsurnar virkuðu þó. Eitthvað þóttumst við vera farin að þekkja leiðina heim en þegar við uppgötvuðum að við vorum á leiðina til Malmö þá snerum við við og komumst á heilu og höldnu á áfangastað. Um kvöldið setti ég svo bremsuvökva á bílinn og hann orðinn sem nýr ;)
Myndir úr dýragarðinum

11. dagur laugardagurinn 26. júlí 2008
Allir komnir með nóg af þessu veðri. Við Palli héldum okkur heima við með krakkana og fórum ekki út fyrir hússins dyr nema undir markisuna á pallinum. Konurnar fóru í búðir og var víst ágætis loftkæling í flestum búðum. Hitastigið úti fór í um 32° en rétt þolanlega 29° innandyra. Ég nenni varla að leggjast út í smá sólbað því hitinn er bara of mikill og kannski engin ástæða til að mæta eldrauður í brúðkaup á morgun ;) Hitinn hélst stöðugur allan daginn og ólíft, nema í bílnum með Palla þ.s. loftkæling var. Við ætluðum að sækja gifsplötur f. framkvæmdir Palla niðri í kjallara en komum 10 mín. eftir lokun. Hitinn er enn of mikill f. mig og virðist ég ætla að hafa rétt fyrir mér að ég muni ekki aðlagast þessum hita á þessum 14 dögum.

12. dagur sunnudagurinn 27. júlí 2008

Við vöknuðum snemma, svona um 8, þ.s. við vildum vera mætt tímanlega út á lestarstöð á leið til Köben í brúðkaup Helgu Bjartar og Ingibjörns. Loksins tókst okkur að vakna á undan öðrum ;) Pakkað var í tösku og Palli skutlaði okkur á Goteborgs Centralstation. Það fundum við miðasjálfsala og tókum út miðana okkar og biðum svo lestarinnar. Þegar við komum á sporið var ekki sama númer á lestinni þannig að við biðum en ég fékk svo upplýsingar um að þetta væri lestin og við rétt náðum almenningssætum. Ferðin var afskaplega þægileg. Reyndar varð lestin orðin full troðin þegar farið var frá Malmö og ekki bætti úr skák að par sem brussaði sér við hliðina á okkur lyktaði heldur illa, amk maðurinn. En þ.s. það var nú bara um hálftími yfir til Kaupmannahafnar var þetta ekkert alvarlegt, enda færði hann sig hinu megin við ganginn og slapp það þá til. Þegar til Köben var komið hoppuðum við beint upp á jarðhæðina í Hovedbanet, pöntuðum pylsu þó að afgreiðsludaman tæki sinn tíma í að athuga hitastigið á þeim með kjötmæli og spjalla svoldið við okkur, enda grunlaus um það að við höfðum bara 20 mín til að komast í kirkjuna. Með pylsurnar fórum við út og fundum leigubíl. Leigubílstjórinn var arabi með túrban. Hann jánkaði þegar ég spurði hvort hann væri laus og jánkaði líka þegar ég spurði hvort við mættum borða pylsurnar í bílnum. Hann skildi engan vegin þegar ég sagði "Sankt Pauls Plads" sem endað í því að ég sýndi honum heimilisfangið á SMS-i sem ég hafði sent sjálfum mér. Hann jánkaði þá eitthvað og keyrði af stað, stoppaði á rauðu ljósi og tók upp kort af borginni og byrjaði að leita. Ekki var það alveg til að róa okkur með ekki nema um 10 mínútur til stefnu þ.s. daman í pylsuafgreiðslunni þurfti að spjalla svo mikið. Hann fann þetta nú fljótlega og sagði að þetta væri ekki langt sem ég samsinnti og sagði að hann ætti að ná þessu á 8 mín. sem ég hafði fengið uppgefið á netinu. Þegar ég hafði troðið pylsunni í mig, sem var merkilega m.v. þær sem ég hafði fengið í Svíþjóð, þurfti ég að drífa mig í jakkafötin. Spurði nú leigubílstjórna hvort ekki væri í lagi að ég skipti um föt og hann jánkaði, en var það nú bara svo honum brygði nú ekki við að sjá mig á nærbuxunum allt í einu. Rétt tókst að troða mér í fötin og þá vorum við komin. Í samskiptum okkar við að gera upp ferðina rann það upp fyrir mér að líklega var hann ekki mjög slyngur í enskunni og kannski hafði hann ekkert skilið hvað ég var að segja allan tímann ;) Stukkum beint inní kirkjuna rétt áður en dyrunum var lokað. Athöfnin var mjög falleg og að henni lokinni var hoppað upp í rútu og haldið af stað út úr bænum. Klt. síðar voru allir á herbergjunum sínum og gera til tilbúna og 5:30 var tekið á móti brúðhjónunum. Veisluhöld gengu vel fyrir sig og maturinn æði, allt var vel skipulegt og heppnaðist alveg rosalega vel og umhverfið var æðislegt.
Myndir úr brúðkaupinu

13. dagur mánudagurinn 28. júlí 2008
Vaknaði í svitabaði um 8 og gafst upp á að reyna að sofa lengur enda skein sólin á herbergisgluggann okkar. Morgunmaturinn í boði brúðhjónanna var glæsilegur og síðan var farið með rútu aftur til Köben. Hún stoppi f. utan Hovedbanet sem hentaði okkur afskaplega vel. Gengum á ráðhústorgið og tókum nokkur skref upp strikið, svona fyrst Bína hafði aldrei komið til Köben. Biðum svo bara eftir lestinni á stöðinni. Vorum í almenningsstæðum til Malmö en þar tókum við X2000 lest sem hafði veitingavagn og góð flugvélasæti og var það afskaplega notalegt ferðalag alla leið til Gautaborgar. Bjartur og Erla tóku á móti okkur á lestarstöðinni og rosalega gott að knúsa strákinn sinn aftur. Hann hafði verið stunginn af geitungi á ströndinni en bar sig vel. Þegar við komum heim fékk ég smá knús frá Sunnu en hún vildi fara strax aftur til mömmu sinnar, enda eru börnin heilmikil mömmubörn.

14. dagur þriðjudagurinn 29. júlí 2008
Einhver ský voru á lofti þegar við komum á fætur um 8 leitið í morgun, hálf uppgefin eftir danmerkurferðalagið. Skýin voru nú ekkert sérstaklega að stoppa við. Við Bína fórum með strákana í dótabúðir um morguninn þ.s. þeir fengu sinn hvorn LEGO kassann. Skúr kom á meðan við vorum í búðum og hafa líklega öll blóm, tré og plöntur hrópað af gleði. Skúrinn var þó skammur og allt orðið þurrt stuttu síðar. Fórum svo í Slottskogen um 4 leitið en stuttu eftir að við vorum komin á stóra leikvöllinn var ákveði að drífa sig heim þ.s. skýjabakki og þrumur voru komnar ískyggilega nærri. Ekki var Sunna ánægð að vera tekin strax af leikvellinum svona rétt þegar hún var að byrjað. Ekkert varð nú úr veðrinu en við létum þetta gott heita og héldum heim.

15. dagur miðvikudagurinn 30. júlí 2008
Fórum á fætur snemma á íslenskum tíma kl. 6, sem er nú reyndar bara 8 í Svíþjóð en telst snemma m.v. okkur ;) Eftir morgunmat var farið með restina af farangri og okkur út í bíl eftir að hafa knúsað og kysst alla á Sisjönvegi 491.
Brunuðum beint á flugvöllinn og skildum bílinn hans Smára eftir á P6( beint undir skilti merkt K6 ). Innritun var nú ekki hafin þegar við mættum og síðan var ég með allt snyrtidót í tösku sem mátti ekki fara í handfarangur þannig að ég þurfti að fara með hana aftur í innritun. Aftur fengum við sæti aftast í flugvélinni en að þessu sinni var það Sunna sem sofnaði fljótlega, enda var hún orðin stúrin og búin að vera erfið síðan við fórum í gegnum öryggishliðið á flugvellinum.

mánudagur, júní 09, 2008

Frekur örbygljuofn

Berglind benti Bínu á það um daginn hversu frekur örbylgjuofninn okkar er og það er nokkuð til í því. Hann verður nefnilega alveg brjálaður þegar hann hefur lokið við að hita og linnir ekki látum fyrr en hann er tæmdur. Við erum orðin svo vön þessu að það er gaman að fá ábendingu um eitthvað svona sem ætti að fara í manns fínustu. Kanski hefur hönnuðurinn af honum alltaf verið að gleyma matnum sínum í ofninum og viljað fá áminningu?

þriðjudagur, júní 03, 2008

Tón-list

Einhverntíman lofaði ég sjálfum mér að gefa út sólóplötu fyrir þrítugt en þ.s. það virðist að mér muni takast að eignast 3 barnið áður en ég verð þrítugur þá hef ég ekki verið jafn iðinn við að standa við tólistarsköpunina enda nóg að gera í öðru.

Ég keypti mér samt POD X3 sem Snorri bróðir greip með til landsins frá BNA þar sem hann og dæturnar voru í heimsókn hjá Jóhanni( ég þarf nú að fara að kíkja til hans við tækifæri ;). Seinustu 2 kvöld hef ég eytt góðum tíma í að fikta í græjunni og held að þetta auðveldi mér ýmislegt og aldrei að vita nema ég reyni að vinna í sólóplötunni í tíma og "ótíma"( verð að fara að kaupa mér uppruna orðanna til að skilja svona orð ). Enda er þetta nú bara áhugamál og þarf ekki að vera uppá marga fiska ;)

þriðjudagur, maí 27, 2008

Lífið er fínt

Í gær var starfsdagur hjá Bínu og ég því einn með krakkana heima. Þau eru orðin ágætis félagar og voru afskaplega stillt. Fyrir matinn lékum okkur inní herbergi í playmobile. Bjartur var afskaplega duglegur að borða og eitthvað datt ofan í Sunnulinginn líka. Eftir matinn léku þau saman inní herbergi á meðan ég tók til í eldhúsinu og síðan var farið inní rúm að lesa. Þau völdi sitthvora bókina og síðan kúrðum við öll saman og lásum báðar bækurnar undir sæng. Að liggja í rúminu með krakkana og lesa fyrir þau er alveg yndislegt. Ég er ekki frá því að mig hafi dreymt um þetta í mörg ár og nú eru þau bæði orðin nógu stór til lesa fyrir saman og enn eitt að bætast í hópinn eftir nokkra mánuði. Hvað get ég sagt annað en að lífið er fínt ;)

föstudagur, maí 16, 2008

Heitir pottar

Tók að mér smá vefuppsetningu, fyrir Trefjar sem vantaði nýjan vef fyrir heitu pottana. Nýtti tækifærið til að prófa að setja upp Joomla hjá Símanum og gekk það ágætlega, amk útgáfu 1, en prófaði ekki 1.5, geri það síðar.

Hef séð ýmsa hér á landi sem þykjast vita eitthvað um Joomla en merkilegt að þeir sem gefa sig út fyrir að kunna eitthvað á það virðast nú ekki klárir á ýmsum grunnþáttum...kanski ég hripi einhverntíman niður þessa grunnþætti ;)

En auðvitað er tilgangur þessarar færslu að vekja athygli á því að heitir pottar eru ágætir ;)

mánudagur, maí 05, 2008

Flug fyrir klink

Var að spá í að fara til Seyðis seinustu helgina í apríl. Á mánudegi fór ég að skoða flugið en það kostaði yfir 50 þúsund og fara með fjölskylduna svo ég var ekki alveg till í það fyrir 5 daga ferð. Á þriðjudeginum kom svo klinktilboð hjá flugfélaginu. Reyndar var það auglýst sem tilboð aðra leiðina, þannig að ég bókaði bara aðra leiðina fyrst og svo hina, báðar á klink-i ;) Þannig að við fengum 4 daga ferð og kostaði flugið undir 15 kúlum, þannig að við vorum alveg í skýjunum yfir því. Ef að það væri alltaf svona ódýrt að fljúga myndi ég alltaf vera að skreppa austur ;)

miðvikudagur, apríl 23, 2008

Þursabit?

Í gærmorgun vorum við feðgar á leiðinni leikskólann þegar ég lyfti honum upp með þeim afleiðingum að eitthvað í bakinu ákvað að gefa sig. Ég átti bágt með að komast til vinnu þótt ég væri í bíl og hélt í mér að öskra ekki alla leiðina. Í vinnunni var ég iðinn við að standa upp og hreyfa mig til að reyna að liðka bakið. Þegar ég var spurður í annað sinn hvort ég væri með þursabit varð ég að fletta því upp þ.s. ég vissi ekkert um þursabit. Í leit minni á netinu rakst ég á eftirfarandi setningu:

"Hins vegar hefur komið í ljós að verkirnir hverfa fljótar og minni hætta er á að þeir verði langvarandi ef sjúklingurinn hreyfir sig eins mikið og hann mögulega getur og reynir að lifa eðlilegu lífi."

Sem vakti undarlega mikla kátínu í mínum litla huga þegar ég sá sjálfan mig fyrir mér hlaupandi um í vinnunni.

Þegar þarna var komið sögu var ég nokkuð viss um að ég væri nú ekki svona illa haldin en samt las ég hina greinina sem ég hafði flett upp og rakt á eftirfarandi atriði:
  • Ef þú hættir skyndilega að hafa stjórn á þvaglátum eða ef þú verður tilfinningalaus í klofinu leitaðu þá samstundis til læknis.

  • Ef þú missir mátt í öðrum eða báðum fótum hafðu þá samband við lækni strax.

  • Ef verkirnir verða óbærilegir leggðu þá íspoka á svæðið þar sem verstu verkirnir eru í u.þ.b. 10-15 mínútur. Mikilvægt er þó að hafa íspokann ekki of lengi á auma svæðinu.

  • Ef verkirnir hafa varað lengi getur verið gott að læra styrktaræfingar og vera síðan duglegur við að gera æfingarnar. Læknar, sjúkraþjálfarar og hnykkjarar (kírópraktorar) geta kennt þér æfingarnar.


Og átti ég bágt með mig að lesa þetta þ.s. mér fannst þetta allt óskaplega fyndið...sem einhverjum finnst kanski óviðeigandi? En ég úrskurðaði því að ég væri ekki með þursabit eða aðra alvarlega bakverki og var það staðfest í fyrramálið þegar ég var orðinn mun betri...kanski vegna þess hversu mikið ég hló ;)

mánudagur, mars 24, 2008

Að hreyfa sig ekki

Eftir að hafa státað mig af því að vera farinn að hreyfa mig( sem var fyrir mánuði síðan ) þá hef ég ekki farið að lyfta né í sund. Aðallega hafa það verið veikindi sem hafa verið að ganga frá mér og krökkunum, en Bína hefur sloppið nokkuð vel í gegnum þetta veikindatímabil síðustu vikna( sjö, níu, þrettán ). Síðan fluttist saumaklúbburinn hjá "skvísunum" yfir á þriðjudag um daginn. Ekki það að skilja að ég taki þátt í einhverjum saumaklúbb hjá einhverjum "skvísum" en einhver varð að passa að þessir gríslingar sem leika hér lausum halda fengju eitthvað að borða og færu í háttinn á meðan "skvísan" á heimilinu fór og hitti hinar "skvísu" vinkonur sínr. En nú fer ég að drattast aftur af stað, enda ekki seinna vænna að nýta þetta hálfsárs kort áður en það rennur út...nú þarf sumarið bara að fara að kíkja svo við komumst í sund ;)

sunnudagur, mars 09, 2008

Betri gæði á myndböndum hjá YouTube

Var að lesa bloggið hjá root og rakst þá á umfjöllun hans um myndbönd á netinu þ.s. vísað er í grein um að betri gæði séu komin á YouTube. Skemmtilegt að geta horft á Kraft & Hreysti í mun betri gæðum heldur en koma sjálfgefin upp á YouTube síðunni minni. Kann alltaf vel að meta þegar ég læri eitthvað nýtt ;)

fimmtudagur, febrúar 21, 2008

Að hreyfa sig

Fyrir áramót keypti ég mér líkamsræktarkort í Naulius eftir margra ára hlé frá því að lyfta. Enda var heldur betur kominn tími að styrkja sig aðeins meðfram bandýiðkun. Sem betur hefur mér tekist að halda bandýiðkun inní vikuskipulaginu þrátt fyrir barneignir og vinnu seinustu ára...en seinast þegar ég stundaði lyftingar var ég í háskólanum =)
Ég ætlaði nú að finna stað í Hafnarfirði en Salalaugin var með lengri opnunartíma þannig að ég get kíkt þangað eftir að krakkarnir eru stofnaðir. Ekki skemmir heldur fyrir að geta bara farið í stund í staðin fyrir að lyfta. Ég gerði það í gær þ.s. ég nennti ekki að lyfta og tók bara nokkrar sundferðir í staðin. Auk þess er þetta laugin sem við stundum mest þ.s. rennibrautin er lang skemmtilegust á höfuðborgarsvæðinu og laugin líka mjög skemmtileg.
Ekki svo að skilja að ég sé mikill lyftingarmaður en lappirnar voru farnar að kvarta sáran...sem barst svo uppí munn á mér og til eyrna Bínu sem þurfti að hlusta á mig væla undan eymslum eftir hvern bandýtíma. Eftir aðeins nokkra mánuði virðist ég var laus við þreytu og pirring í löppum öllum til mikillar ánægju.

fimmtudagur, febrúar 14, 2008

Gleym mér ei

Það hlaut að koma að því að ég gerði mér ferð á Vitabar til að smakka gráðostaborgarann þeirra. Það er búið að vera á dagskrá hjá mér í ábyggilega 7 ár, þannig ég var orðinn verulega spenntur.
Staðurinn var einmitt eins og ég ímyndaði mér, lítil búlla alveg laus við að þykjast vera fín og flott. Við Hugi skruppum í hádeginu í gær. Vorum seinir fyrir og rétt náðum sæti...virtist vera fullt þarna allt hádegið. Borgarinn var óaðfinnanlega góður og tel ég hann slá út Colossus á Ruby Tuesday( þetta er farið að hljóma eins og ég sé einhver hamborgarasérfræðingur....mér finnst þeir reyndar alltaf góðir ). Bráðinn gráðostur og piparsósa ásamt litlum bjór, dós af kók, frönskum og tómatsósu mynduðu yndislegt partý í maganaum á mér og ætla ég að upplifa þetta bragð aftur sem fyrst ;)

miðvikudagur, febrúar 06, 2008

Hvert hringir þú "óvart"?

Farsímanotendur kannast kannski við að hringja óvart í fyrsta símanúmerið í símaskránni. Að öllum líkindum er það einhver sem byrjar á A og í mínu tilfelli er það góður maður að nafni Andri sem hefur fengið nokkur símtöl í gegnum árin frá mér án þess að ég hafi sagt nokkurn skapaðan hlut þ.s. ég hafði "óvart" hringt í hann.

Ákvað því að gera breytingu hjá mér og setja nafnið á Bínu sem "Aðal skvísan", þá hringdi ég "óvart" í hana héðan í frá...hvort sem hún verður ánægð með það eða ekki ;)

mánudagur, janúar 28, 2008

Málningarhelgi

Eftir upphringingu á föstudagsmorguninn sem lýsti óspennandi lífreysnlu á leikskólanum eru allir að ná sér á strik. Ég slapp við að vera viðstaddur þannig að ég fékk bara vægt sjokk m.v. Bínu sem var á staðnum. Á laugardaginn "drattaðist" ég loks til að mála "hjónaherbergið". Reyndar erum við Bína ekki enn hjón...og "hjónaherbergið" er þar að auki litla 6fm barnaherbergið... en það er efni í margar spennandi færslur sem birtast hér á næstu vikum...bíddu spennt(ur)!

En herbergið kemur bara vel út með "blautan sand" á veggjunum ;)

P.s nýjar myndir komu um daginn og einnig nokkur video.

miðvikudagur, janúar 23, 2008

Fékk póst um daginn um hvernig á að greina heilablæðinu(Slag)

1.Biðja manneskjuna að HLÆJA
2.Biðja manneskjuna að LYFTA BÁÐUM HANDLEGGJUM
3.Biðja manneskjuna að SEGJA EINA EINFALDA SETNINGU
(sem er í samhengi) ( t.d. ...Sólin skín í dag).

Ef viðkomandi á í erfiðleikum með eitthvert þessara atriða -
hringið þá strax í neyðarnúmerið 112 og lýsið einkennunum.

Ekkert að því að hafa svona upplýsingar við höndina þannig að ég sendi mér eftirfarandi sem SMS:

Heilablæðing?

1.HLÆJA
2.LYFTA BÁÐUM HANDLEGGJUM
3.SEGJA EINA EINFALDA SETNINGU

Gat ekki eitth. 112

miðvikudagur, janúar 16, 2008

Bjartur fær gleraugu

Bjartur fór til augnlæknis í dag eftir að kom í ljós í þriggja og hálfs árs skoðuninni að hann notaði annað augað lítið. Niðurstaðan er að hann er með latt auga og gæti þurft að láta líma yfir það í smá tíma með lepp. Einnig er hann fjarsýnn og verður því að fá gleraugu. Hann er ekki alveg sáttur við þessa breytingu þannig að við verðum að reyna að finna leið til að gera þetta meira spennandi fyrir honum ;)

Átti nú alveg von á að hann fengi gleraugu en þá vegna nærsýni sem hann hefði erft frá okkur. Einnig kom þetta að óvart því hann er afskaplega duglegur að teikna og klippa. Stundum vill hann sitja nálægt sjónvarpinu( þótt hann fái það ekki ) þannig að ekkert hefur bent til þess að hann væri fjarsýnn.

Annars er janúar undirlagður í læknaheimsóknum, viðhaldseftirlitið á Bjarti ;)

mánudagur, desember 24, 2007

Jólakveðja 2007

Smá jólakveðja á netinu fyrir alla tölvunörda sem eiga leið hér um ;)

sunnudagur, desember 23, 2007

Jólin nálgast

Þrátt fyrir ýmis veikindi á heimilinu hefur jólunum ekki verið frestað. Ég hafði vonast eftir nokkrum dögum til að klára það sem þurfti en mér varð ekki af þeirri ósk minni. Þannig að í gær fór ég til læknis og fékk sýklalyf sem hafa strax tekið til við að drepa allt óæskilegt o.fl. í líkamanum. Jólin eru því komin aftur á dagskrá nema að Sunna vakni með slæma hlaupabólu á Þorláksmessu eða Aðfangadag og verði alveg ómöguleg.
Með hjálp lyfja tókst að versla seinustu gjafir í dag og er næstum allt tilbúið...aukagjafir sem má sleppa og vefjólakveðjan hefur ekki enn fengið neina athygli og verður ábyggilega reddað á morgun. Hinn árlegi DVD diskur sem ég tek yfir helstu athafnir krakkana sem safna yfir árið er að vanda á eftir áætlun. Enda er það heilmikið verk sem ég hef ekki náð að klára nema yfir hátíðarfríið..svona þegar að jólin eru loksins komin og jóla-stressið líður úr manni.

miðvikudagur, desember 19, 2007

Ammæli

Ég átti víst afmæli um daginn, en það fór nú lítið fyrir því þ.s. ég var enn fyrir austan eftir jarðarförina hans pabba og flaug ekki heim fyrr en seinnipart dags. Það var afskaplega notalegt á Seyðisfirðir, allt hvítt og stillt og sjaldan hefur ég tekið eftir jafn rólegu veðri á Fjarðarheiðinni. Dúnalogn og hvítt yfir öllu án þess þó að vera of bjart til að ég fengi ofbirtu í augun...svo mikill tölvunörd :)
Það var best að koma heim og knúsa Bínu og krakkana, þótt ég væri full seint á ferðinni og næði ekki miklum tíma með þeim áður en þau litlu fóru í rúmið.
Nú er bara að sjá hvort ég láti drauminn rætast og gef mér tíma til að koma með sóloplötu fyrir næsta afmæli. Það er draumur hvers tónlistarmanns að gefa út sóloplötu og þótt ég þykist nú ekki mikill músíkant þá hef ég gaman að því að spila á gítar á kvöldin, verst bara hvað tíminn hverfur oft þegar ég geri það. En það er nú nóg annað að gera en fyrst að hljómsveitirnar mínar eru í fríi þessa dagana þá kannski nýtir maður tímann til þess að klára þetta frá áður en ég verð formlega farinn kominn á fertugsaldurinn ;)

laugardagur, desember 08, 2007

Hinsta ferðalag pabba

Á föstudagsmorgun 30. nóvember síðastliðinn lagði „pabbi“( Emil afi ) uppí sitt síðasta ferðalag. Að þessu sinni var um enga smáferð að ræða því brottfararstaður var líkami hans á Seyðisfirði en endastöðin mér alls ókunn sem og hvernig ferðahögum var háttað.

Mér var hugsað til þerra fjölmörgu ferða pabba á síðustu árum suður og hvernig alltaf hefur hið undarlegasta veður skollið á við komu hans. Ef það var ekki snjókoma eða snjóbylur, á öllum árstímum, þá mætti sú þykkasta þoka sem ég hef nokkurn tíman augum litið á þessum landshluta og engu líkara en kallinn hefði dregið Austfjarðarþokuna með sér í höfuðborgina.

Það kom því ekki að óvart að veðrið fyrir austan var stormur & stórbylur og lágu allar samgöngur niðri á svæðinu og ekkert var flogið um allt land því pabbi var á ferðinni og ferðalagið líklega með þeim umfangsmeiri sem menn ráðast í, þótt farangurinn sé jafnvel lítill.

Ætli mér verði ekki alltaf hugsað til pabba þegar að snjór og þoka láta á sér kræla þar sem ég verð á ferð og þykir mér afskaplega vænt um að eiga áminningu um pabba til frambúðar sem skýtur upp kollinum í tíma og ótíma.

Í dag fór svo jarðarför hans fram og gekk allt vel fyrir sig, veðrið var kalt og stillt og mikil ról var yfir öllu og stutt í grín stöku sinnum sem mér þótti vænt um og pabba hefði fundist það líka. Þakka öllum sem komu að útförinni: fjölskyldu, vinum, vandamönnum og örðum sem lögðu sitt að mörkum.

Það var svo margt sem á pabba að þakka að ég mun líklega aldrei geta talið það upp án þess að týnast í gömlum minningum.

Takk fyrir allt „pabbi“.

mánudagur, nóvember 19, 2007

Morgungull gefur...

Í gærkvöld ætlaði ég mér að vakna eldsnemma á mánudagsmorgni og drífa mig í vinnuna á undan almennri umferð. Þá vissi ég ekki að dóttir mín var búin að breyta útvarpsstillingunni...þannig að kl. 6 í morgun fór langbylgjan af stað( og það er ekki ein af Bylgjustöðunum ) á tíðni 531 þ.s. heyrðist ekki einu sinni suð. Svaf ég því mínu værasta til 7 þegar að verkjaraklukkan fór í gang. Reyndar fór ég síðan ekki á fætur fyrr en kl. var orðin tíu mínútur í 8 og báðir krakkarnir vaknaðir. Mér þykir það reyndar afskaplega ljúft að vakna með fjölskyldunni og eiga smá tíma með þeim áður en mætt er til vinnu, þannig að ég þakka Sunnu bara fyrir að hafa "hjálpað" mér að sofa út ;)

þriðjudagur, nóvember 06, 2007

Paradiso

Veikindi hrjáðu krakkana í seinustu viku og þótt að Bjartur hafi verið nokkuð hress komu 2 massífar ælur frá honum. Ég tók að mér það skemmtilega verk að þrífa. Fyrri kom í holinu á miðvikudaginn og fór upp með öllu og út um allt. Daginn eftir var það eldhúsið og lág við að ég þyrfti að pússa hnífapörin í skúffunni svo víða fór gummsið. Ef eitthvað er verra heldur en að börnin manns séu veik þá er það þegar þau eru með gubbupest. "Ekkert" jafn "hressandi" og að þrífa upp ælu daga í röð. Föstudaginn var ælulaus, ég var einn heima um kvöldið og horfði á hina æðislegu Guest House Paradiso þ.s. sem skemmtilega vill til að æla kemur mikið við sögu undir lok myndarinnar ;)
Á laugardaginn virðist eitthvað hafa gefið sig eftir allt þetta ælu-áreiti og ég lagðist í magakveisu uppúr 2 um nóttina. Svaf af mér allan sunnudaginn og megnið af mánudeginum...en tókst að æla ekkert og er nú að skríða saman...á samt enn erfitt með að borða ;)

fimmtudagur, nóvember 01, 2007

Tennurnar enn í lagi

Great teethVið feðgar fórum til tannlæknis í gær. S.s. ekkert merkilegt nema hvað að ég held að ég hafi seinast farið fyrir 10 árum. Þegar ég settist í stólinn fór ég að hugsa út í hvað væri langt síðan ég síðast sat í tannlæknastól og var ekki alveg stemmdur fyrir einhverjar boranir og viðgerðir. En allt leit vel út fyrir utan að ég gnísti víst tönnum á nóttunni...þannig að ég hef sloppið fyrir horn og kannski ég láti ekki líða alveg jafn langan tíma þ.t. ég mæti næst ;)

sunnudagur, október 21, 2007

Trúlofuð

Bínaður & Logandi

Hringarnir Bínaður & Logandi rötuðu á fingur okkar 7. október.

sunnudagur, september 30, 2007

Laddi 6-tugur

Fórum í góðra vina hóp út að borða á Kringlukrána og svo á Ladda 6-tugan á eftir. Kráin kom mér að óvart því ég hélt að þetta væri algjör búlla en ekki "fínn" veitingastaður. Sýningin var skemmtileg og átti ég bágt með mig á kafla. Laddi var sérstaklega góður sem Bubbi enda hafði ég ekki séð hann í því "gervi" áður.

laugardagur, september 22, 2007

Óvissuferð Víðivalla

Komst óvænt með Bínu í óvissuferðina hjá Víðivöllum þegar að ljóst var að það var pláss og tengdó gátu passað. Farið var í rútuferð á Draugasetrið á Stokkseyri. Ég bjóst við meira af safninu, kanski var það vegna þess að við vorum í hóp og seinust, en ég hélt það væri meira "spooky" og bregð í gangi. En rútuferðin var afskaplega skemmtileg. Rútan var með klósett og skemmtileg tilviljun var að hægt var að koma höndinni inná klósettið með að teygja sig í gegnum ruslalúgu. Vakti þetta mikla kátínu og heilmikið skemmtiatriði út af fyrir sig ;)
Þegar komið var aftur fór ég heim og fékk Monsa&Ástu í mat. Reddaði svo pössun þannig að ég gat hitt fólkið aftur seinna um kvöldið í partý-i í næstu blokk. Þar var heilmikið stuð og endaði ég spilandi á gítar sem kom mér og Bínu að óvart því vanalega læt ég aðra um það...en það var bara svo mikið stuð að það var ekki hægt annað en að taka virkan þátt ;)

föstudagur, september 21, 2007

Astrópía & Colossus

Monsi kom í bæinn og við gömlu félagarnir ákvaðum að taka smá hitting. Ekki var nú hugur í mönnum að gera neitt af sér þannig að út að borða og bíó varð niðurstaðan...enda erum við orðnir hundgamlir ;)
Ekki mátti borða hvar sem var og ákveðið að fara á Ruby Tuesday. Ég var hæstánægður með að fara þangað því ég hafði hug á að prófa Colossus borgarann þeirra. Þegar kvikindið kom á borðið var ég smá stund að ákveða hvernig ég ætti að hafa mig við að koma honum ofan í mig. Stærðin passaði miðað við sjónvarpsauglýsinguna hjá þeim og var máltíðin hin mesta skemmtun fyrir bragðlaukana og magann. Að verki loknu var ég pakksaddur og sæll en ekki voru allir sáttir sem höfðu ekki pantað sér jafn vel útílátinn borgara.
Sem gamlir spilanördar fórum við á Astrópíu og urðum ekki fyrir vonbrigðum. Hin besta skemmtun, sérstaklega af íslenskri mynd að vera. Dalaði svoldið í seinnihlutanum en slapp fyrir horn. Mæli með henni, en vona samt að kaninn kaupi handritið og skellli upp aðeins "fagmannlegri" útgáfu ;)

fimmtudagur, september 20, 2007

Vekjaraklukkan

Í svefnherberginu er vekjaraklukka sem varpar klukkunni uppá vegg og vörpum við klukkunni uppí loft svo við sjáum glögglega að nóttu til hver staðan er. Ekki eru þó allir á eitt sáttir um það hvert klukkunni skal snúið. Iðulega hef ég fundið klukkuna þannig að búið er að varpa tímanum á vegginn bakvið klukkuna sem er svo nálægt að ekkert sést nema rauður punktur. Þegar ég hafði orð á því hver væri alltaf að fikta í klukkunni fékk ég þau skilaboð að Bjartur væri alltaf að fussa og sveija yfir þeim sem væri alltaf að rugla í klukkunni. Honum finnst mun flottara að sjá rauða punktinn við hliðina á klukkunni heldur en uppí loftinu þ.s. ekkert sést yfir daginn. Þegar að vekjaraklukkan datt svo úr sambandi eina nóttina reyndi ég sýna honum að klukkan ætti varpa uppá loft. Ég held að hann hafi alveg skilið það...nú er það bara Sunna sem þarf alltaf að fikta í klukkunni.

laugardagur, ágúst 25, 2007

Hljómsveitin Æði

Spilaði sem bassaleikari með Æði-inu í Salthúsinu á Grindavík. Magnað að stíga á svið með bandi sem ég hef aldrei spilað með áður og taka heilt ball. Gekk bara nokkuð vel en þó hafði ég pikkað upp rangt lag þegar við réðumst á "It's my life", ég byrjaði á "No Doubt" útgáfunni sem samin var af "Talk Talk" en restin af bandinu tók "Jon Bon Jovi" lagið...þannig að ég var svoldið týndur í því lagi ;)

laugardagur, ágúst 18, 2007

Brúðkaup 2007

Linda & Siggi gengu í það heilaga á Eskifirði. Við skelltum ormunum í pössun og mættum svo barnlaus en vel byrgð af áfengi á Mjóeyrina á Eskifirði. Föstudagskvöldið fékk athygli ýmissa áfengra drykkja og var setið yfir varðeldi langt fram á nótt. Þegar við skriðum í bólið voru við ásamt Begs&Nonna komin í grunnskólafíling í skólaferðalagi. Á endanum lognuðust þó allir útaf.
Laugardagurinn varð sumum erfiður og tók sinn tím að komast í gang. Mér tókst að koma mér út fyrir hádgi og kíkja á kraftatröll sem voru að keppja í álkasti á eyrinni. Eitt þeirra gekk uppað mér, benti á hvað aðstoðarmaður var að berjast við að nudda bakið á einutröllinu og sagði þrymjandi röddu „Þarna er hægt að fá nudd“ og hló dymjandi röddu. Ég píndi uppúr mér einhverskonar smátittlingahlátur til að styggja ekki dýrið enda hefði það auðveldlega getað pakkað mér samn og fleygt mér út í sjó. Það fór svo bara sína leið og ég hélt mig í hæfilegri fjarlæð á meðan keppninni stóð svo ég fengi ekki álið í hausinn sem þeir fleygðu lengra með hverju kantinu.
Brúðkaupið & veislan gengu svo í garð með tjútti fram eftir nóttu og eru má sjá nokkrar myndir frá helginni.

laugardagur, júlí 28, 2007

Steggjun 2007

Siggi spæder steggjaður í dag. Okkur tókst að finna ýmsar þrautir sem voru ekki efstar á óskalista hjá kappanum en hann stóð sig nokkuð vel. Ágrip á herlegheitunum má sjá hér.

miðvikudagur, júlí 18, 2007

Gautaborg 2007


Fjölskyldan vaknaði um miðja nótt við misjafnar undirtektir barnanna. Sunna var kát að vanda en Bjartur vildi bara halda áfram að sofa og geri það svo lengi sem hann gat áður en haldið var út á flugvöll. Mættum rétt fyrir flug og enduðum á því að hlaupa inní vél til að missa ekki af henni. Þriggja tíma flugið út tók fljótt af og auðveldaði mikið að fámennt var í vélinni og gátum við dreift úr okkur eins og við vildum.
Á flugvellinum í Gautaborg fórum við beinustu leið og sóttum bílaleigubílinn og lögðum af stað eftir að hafa lært á bílstólinn hans Bjarts, sem tók okkur reyndar góðan tíma. Við vorum vel búin leiðbeiningum um hvernig ætti að komast á leiðarenda til Palla&Erlu en tókst þrátt fyrir það að villast af leið. En við höfðum fengið fínar leiðbeiningar sem að redduðu okkur fljótt og örugglega til þeirra á endanum. Milt og gott veður passaði ákaflega vel til að sjá borgina í fyrsta sinn, þó að hún minnti mig nú meira á sveit heldur en borg þar sem við fórum um í fyrsta sinn.
Hverfið sem þau búa í kom afskaplega vel fyrir. Bílastæðið fyrir ofan og síðan er gengið inní íbúðarhverfið fyllt af endalausum raðhúsaröðum, trjám, runnum, barnaleikvöllum og Sænska fánann má sjá á öðru hverju húsi. Húsið þeirra var mjög huggulegt og gaman að sjá hvað þau voru búin að koma sér vel fyrir á þessum fáum mánuðum.
Bjartur og Óðinn Bragi duttu strax í leik og vissum við varla af þeim það sem eftir var ferðarinnar ;)


Þriðjudagurinn 10. júlí 2007


Sólin kíkti gegnum skýin og við fórum niðrí miðborg Gautaborgar. Við fylgdum P&E eftir niðri bæ og undruðumst hversu kunnug þau virtust vera orðin götuskipulaginu sem var okkur óskiljanlegt að öllu leiti. Tókum heljarinnar göngu um miðbæinn og kíktum í búðir sem urðu á leið okkar.
Tímatal í Svíþjóð virðist miðað út frá vikum frekar en dögum, og hefðum við því sagt að við værum í fríi í Svíþjóð í 28. viku.

Miðvikudagurinn 11. júlí 2007


Hellirigning tók á móti okkur um morguninn og var ákveðið að fara í Universeum vísindasafnið. Brunað niðri miðbæ og drifum okkur inn á safnið úr dembunni. Margt fróðlegt að sjá í safninu og strákarnir höfðu gaman að dýrunum og leiktækjum. Á leiðinni heim ákváðum við að troða í okkur pizzum á La Gondola veitingastaðinn vegna rigningar. Södd og sæl heldum við svo heimferðinni áfram á bílstæðið og svo beint heim að skella krökkunum í bólið.

Fimmtudagurinn 12. júlí 2007






Léttir skúrir voru ekkert að stoppa okkur í að komast í Lieseberg. Rigningin lét sjá sig fyrri hluta dags en þegar við vorum búin að gúffa í okkur hamborgurum undir berum himni, og smá dembu, lét hún sig hverfa. Bjartur var alveg í essinu sínu í öllum tækjunum og virtist ekki fá nóg og vildi bara meira og meira. Alveg á því að hann vildi mæta aftur í garðinn til að fara í stóru klessubílana þegar hann yrði orðinn stærri.

Föstudagurinn 13. júlí 2007


Dagurinn fór að mest í verslunarleiðangur þ.s. við reynum að fata fjölskylduna upp. Um kvöldið voru svo þrjár tegundir af grísalundum grillaðar og drukkið og kjaftað fram eftir kvöldi/nóttu eins og komið var í vana :)

Laugardagurinn 14. júlí 2007


Dagurinn var tekinn rólega og hangið heima fyrir. Slegið var upp pizzuveislu um kvöldið svona þ.s. P&E eru komin með pizzaofn sem varð nú að sýna hvað gæti. Eftir að allir voru útétnir og börnin sofnuð hlömmuðum við okkur fyrir framan sjónvarpið. Fyrst var gamall Rambó í sænska ríkissjónvarpinu og síðan var horft á nýjasta Bondinn...báðir stóðu þeir undir sýnu, enda berir að ofan nánast allan tímann.

Sunnudagurinn 15. júlí 2007


Gengið um Slottskogen

Fórum í Slotteskogen í sól og góðu veðri. Skógurinn er yndislegt útivistarsvæði. Þar er húsdýragarður sem strákarnir hlupu á eftir svínum. Á veitingahúsinu sem við fórum á var Salsa hljómsveit sem Bjartur var heillaður af að hann réð ekki við að dilla sér og vildi fara í dansskóla þegar hann kæmi heim. Gengum garðinn fram og aftur og strákarnir léku sér mikið á stóru leiksvæði. Um kvöldið var svo kjúlla skellt á grillið en endaði reyndar í ofninum þ.s. gasið var búið og það að finna fyllingu á gaskút var ekkert grín.

Mánudagurinn 16. júlí 2007


Við Sisjön vatn
Steikjandi sól og hiti er besta lýsing á deginum. Við fórum að Sisjön vatni sem er við hliðina á hverfinu þeirra og gengið nánast beint inní skóginn heiman frá P&E. Við vatnið var mikið stuð að sulla og hlaupa um á bryggjunni. Strákarnir gleymdu sér í leik og aðrir reyndu að sleikja sólina. Þegar komið var að heimferð voru allir búnir á því eftir veðurblíðuna.


Þriðjudagurinn 17. júlí 2007


Við tókum smá verslunarleiðangur til að byrgja okkur betur upp áður en við færum. Allir voru hálf búnir á því eftir góðviðri gærdagsins og því var dagurinn tekinn með mikilli róg enda voru stelpurnar hálf slappar.

Miðvikudagurinn 28. júlí 2007


Við kvöddum fjölskylduna að Sisjövägen 491 með virtum í ágætis veðri. Dvölin var ákaflega ljúf og góð og vonandi að við gerum þetta aftur innan skamms ;)

Myndir úr ferðinni

þriðjudagur, maí 15, 2007

Abbababb

Kominn í fæðingarorlof og hef einnig nýtt það í að mála íbúðina, svona þar sem Sunna er svo stillt ;) En annars rosalega gott að fá tíma til að vera heima og kynnast Sunnu aðeins meira en nokkra tíma í viku, ætla að vona að þeir lengi fæðingarorlofið í 1 ár fyrir verðandi foreldra. En þar sem seinasta færsla hérna var um leikrit ætla ég að hafa þessa líka þannig. Við fórum með Bjart að sjá Abbababb seinustu helgi ásamt Bödda&Bekku. Bjartur settist fremst á dýnur sem voru á gólfinu fyrir framan sviðið. Sýningin hófst og hann sat og hreyfði sig varla allan tímann. Sýningin var fínasta barnaskemmtun og hafði ég einnig gaman af þ.s. ég þekki lögin vel. Verst fannst mér þó að Sigurjón Kjartans var vant við látinn og því var Felix Bergsson í hlutverki Hr. Rokk, en ég hefði frekar viljað sjá Sigurjón þ.s. ég hef lúmskt gaman af honum. Þegar að komið var að hléi voru "stóru strákarnir" búnir að ræna Aroni Neista og Bjartur sat enn í sömu stöðu og þegar að leikritið hófst. Hann leyfði sér loksins að standa upp og var ekki lengi að finna ömmu&afa sem sátu rétt hjá dýnunum. Þá var minn orðinn afskaplega lítill og þráði ekkert heitar en að fara beinustu leið heim og líklega höfðu stóru diskó strákarnir verið aðeins of mikið fyrir hans litla hjarta. Við feðgar fórum að skoða trommusettið og ég útskýrði fyrir honum að þetta væri ekki í alvöru, heldur meira eins og að þau væru að segja okkur sögu. Á endanum róaðist litla hetjan og samþykkti að klára sýninguna, en þó bara með því skilyrði að fá að sitja hjá mömmu( enda var mæðradagurinn og vaknaði Bjartur með mikla mömmu-sýki ). Sýningin hélt áfram og allt fór vel að lokum, Aroni Neista var bjargað og allir krakkarnir í salnum( Bjartur meðtalinn ) hjálpuðu til við að blása á eldinn í skólanum svo hann slokknaði. Þegar við komum heim hafði Sunna tekið smá frekjukast á Balla&Valgeir og varð yfir sig ánægð þegar að mamma mætti á svæðið( enda mæðradagurinn ;)

miðvikudagur, mars 21, 2007

Pabbinn

Um daginn skruppum við í leikhús með Palla&Erlu. Tengdó passaði og við byrjuðum kvöldið á Vegaótum þ.s. ég hélt í vanann og fékk mér steikarsamloku. Við komum okkur svo niðrá Iðnó í rigningarveðri og fengum sæti aftast í salnum. Þegar að sýningin hófst var fljótlega ljóst að það myndu dropar falla í salnum og ekki leið á löngu þangað til ég var farinn að gráta af hlátri. Á tímabili þurfti ég að hætta að hlusta og einbeita mér að því að ná andanum. Í hláturssköllunum tókst mér að missa gleraugun í gólfið og tókst með erfiðismunum að ná þeim upp af gólfinu milli þess að hlæja, gráta og taka andköf. Seinni hluti var sem betur fer ekki jafn fyndinn því þá hefði ekki komist heill út af sýningunni. Mæli með þessu leikriti og sérstaklega fyrir unga foreldra sem eiga auðvelt að samsvara sér í foreldrahlutverkinu.

fimmtudagur, janúar 25, 2007

Tímaleysi?

Síðan að Sunna bættist í fjölskylduna hefur lítið fréttnæmt náð hér inn. Fréttaleysi er ekki þar um að kenna heldur frekar að nóg sé að gera. Þegar við vorum bara með Bjart var endalaus tími til að dást að honum og allaf gat annað okkar gert eitthvað annað. Nú er hins vegar alltaf nóg að gera fyrir okkur bæði og ekki hef ég hugmynd um hvað við gerðum áður en við eignuðumst Bjart.
Auk þess að verja tíma með fjölskyldunni og stunda fulla vinnu hef ég dottið í það að sinna tónlistaráhugamálinu með Kóngulóarbandinu sem vatt reyndar aðeins uppá sig á seinasta ári og varð til rokksveitin Disless og er stefnan að taka upp efni með báðum sveitum ár árinu. Síðan ætluðum við Hugi okkur að skella saman uppskriftavef og gæti orðið mjög skemmilegt... þegar ég "finn" tíma til að komast af stað þar :)
Seinustu tvö jól hef ég tekið saman myndbandsklippur ársins og unnið heima-DVD af Bjarti. Nú er ég kominn aðeins á eftir með það en tókst samt að taka saman og panta ljósmyndabók( frá MyPublisher ) frá fyrsta árinu hans Bjarts. Hún kom rosalega vel út og munu fleiri verða pantaðar, enda er langt síðan ég hætti að framkalla myndir og setja í myndaalbúm( nú er bara allt í tölvunni ).
Óli&Sigrún sendu okkur áramótaannál sem ég hafði mjög gaman af og ef tími gefst þá náum við Bína vonandi að taka seinasta ár út og koma því í vana því mér finnst það vera mjög skemmtilegt að geta rennt fljótlega yfir hvað maður gerði af sér á liðnu ári....nú er bara að skipuleggja tímann vel =)

fimmtudagur, nóvember 16, 2006

Pabbi í annað sinn

Nú erum við að ná vísitölufjölskyldunni eftir að systa litla kom í heiminn 21. október síðastliðinn. Alltaf miðaði ég fæðinguna við þegar við áttum Bjart og var búinn að undirbúa mig að taka 1-2 daga í þetta ævintýri. Bína hafði verið með smá( mjög væga ) verki á föstudeginum( 20. okt. ) síðan kl. 4 um nóttina, en ekkert alvarlegt. Hún fór í mat með vinkonum sínum og bjuggumst við alveg eins við að þetta yrði svona í nokkra daga. Um kvöldið endaði með að við fórum uppá fæðingardeild um 11 leitið og tveimur og hálfum tíma seinna var stelpan mætt. Allt gekk mjög vel fyrir sig í þetta skiptið og tók skemmtilega stuttan tíma. Ég fann þó alveg fyrir því að vera hálf gagnlaus á staðnum. Sérstaklega þar sem Bína var ofan í vatni og allt gekk vel. Rembingurinn tók svo stuttan tíma að þar gat ég ekki einu sinni komið með hvatningarorð. Ég fékk að halda á glaðloftsrörinu og klippa á naflastrenginn. Enda kannski ekki hægt að búast við að karlmenn séu að taka of mikinn þátt þ.s. þeir eru nú bara nýkomnir með leyfi til að vera viðstaddir. Samt sem áður var þetta æðisleg lífsreynsla eins og í fyrra skiptið.
Daginn eftir kom Bjartur og við feðgar fórum og náðum í barnabílstól og svo stungum við af Hreiðrinu. Þar var reyndar æðislegt að vera, en við vildum bara komast heim og byrja að aðlagast nýju lífi. Næstu 2 dagar voru merkilega erfiðir en síðan fór að myndast einhverskonar regla.
Skírn næstu helgi þannig að það er alltaf nóg að gera. Veit að ég/við erum ekki dugleg að setja inn fréttir og myndir, en tel okkur hafa margt mikilvægara að gera eins og stendur, en vonandi kemst þetta líka í "rútínu" =)

sunnudagur, september 17, 2006

Gamall draumur rætist

Var að skoða gegnum gamalt "drasl" frá því á menntaskólaárunum. Aðallega var ég nú að rifa upp SHAPE tímann og rakst á eitt og annað skemmtilegt. Þar á meðal eftirfarandi blaðagrein og myndina sem hér fylgir: Gamall draumur rætist Egilsstöðum - Þessar tvær gínur á myndinni eiga það sameiginlegt að íklæðast fötum frá versluninni Okkar á milli á Egilsstöðum. Ekkert fleira er þeim sameiginlegt því önnur er manneskja en hin er bara venjuleg gína. Af sérstökum áhuga falaðist þessi ungi maður eftir því að fá að "leika" eða "vera" útstillingargína fyrir ofangreinda verslun. Hann heitir Logi Helguson og sagði að hann hefði átt þann draum sem lítill strákur og sýna föt. Hvort þetta uppfyllir sýningarþörfina er ekki vitað en a.m.k. hefur gamall draumur Loga orðið að veruleika. Man ég eftir því þegar ég sat inná Kaupfélagssjoppunni og horfði yfir á Okkar á milli þ.s. gína stóð fyrir utan innganginn. Fékk ég þá snilldarhugmynd að það gæti verið mjög fyndið að "leika" gínu og bregða svo fólki þegar það kæmi upp að versluninni. Vitir menn, eigendur verslunarinnar voru alveg til í þetta. Það var afskaplega gaman að því að bjóða fólk velkomið þegar það kom upp tröppurnar en flestir voru nú bara að virða fyrir sér fötin á gínunni sem stóð þarna og átti síst von á því að hún myndi tala eða hreyfa sig. Enginn fór nú illa út úr þessum saklausu hrekkjum mínum og fékk ég nærbuxurnar að launaum ;)

Big date

þriðjudagur, ágúst 08, 2006

Málningarhelgi

Engin var útilegan þessa verslunarmannahelgi, enda nóg að gera í málningarvinnu á baðherberginu. Nýtti tækifærið fyrst það var löng helgi og pússaði aðeins á baðinu og málaði svo, enda kominn tími á baðveggina. Pússningarvinnan minnti mig óþægilega á tímann þegar við vorum að taka íbúðina í gegn og hefði ég alveg viljað sleppa þeirri upprifjun, hún hefur kannski kallað fram í mér gamla þreytu :) Megnið af helginni fór í að taka baðið i gegn en okkur tókst að kíkja í sund og fjöruferð. Skrapp líka í bílskúrinn hjá Tóta týnda á föstudaginn þar sem vel valdir menn mættu og glömruðu á hljóðfæri fram eftir kvöldi, alltaf gaman að djamma með góðum mönnum ;)

sunnudagur, júlí 30, 2006

Sumarfrí 2006

Seyðisfjörður
Sumar2006 - Seyðis
Alltaf gott að komast "heim" á Seyðisfjörð. Ekki verra þegar gist er hjá Helguömmu og við fáum afnot af gamla herberginu "mínu" sem Rakel hefur yfirumsjón með þessa dagana. Þótt við séum ekki alltaf heppin með veður á Seyðisfirði gerir það ekkert til þótt að rigning eða þoka láti sjá sig, þá er afsökun fyrir því að hanga inni og gera ekki neitt. Merkilegt hvað bæjarstæðið er orðið gróið og hvað það hefur minnkað síðan ég var lítill...eða ég bara stækkað =)
Nánast allir afkomendur Emilsafa mættu í fjörðinn og voru Skógar fengnir til að hýsa þá sem ekki komust fyrir á Múlaveginum, þótt þar hefðu nú þónokkrir komist fyrir auk gesta. Sól kom með trampólínið sitt og höfðu allir mesta gaman af því. Bjartur tók ástfóstri við það og ákvað að foreldrar hans ættu að kaupa svona handa honum. Snorri var þó líklegast ósáttastur við það þegar honum tókst að flúga af því( þrátt fyrir að öryggisnet umlukti það ). Kubb var spilað í garðinum í hvert sinn sem sólin lét sjá sig og entust sumir leikir klukkutímum saman. Bjartur dró allar sem hann gat í bílferðir með sér og einokaði ömmu sína og aðra sem gerðu eins og hann vildi.
Ekki tókst mér nú að slá garðinn nema tvisvar sinnum, en þungbúin seinni vika varð til að hamla grasvexti þannig að ekki þurfti að slá eins mikið og ég hafði vonast eftir.
Sumar2006 - Ferðalag

Kárahnjúkar
Dagur og co. leiddu ferðalag uppá virkjunarsvæðið. Fyrsta stopp var hjá steinbrú í Hallormsstað og þurfti að leyfa ungviði að spretta úr spori og klifra um svæðið á eftir þeim eldri. Síðan var haldið upp að upplýsingamiðstöð Landsvirkjunar. Eftir litla "lautarferð" á túninu fyrir framan upplýsingamiðstöðina var haldið innfyrir og forvitnast hvernig Landsvirkjun upphóf virkjunina. Leiðin lá svo uppá virkjunarsvæðið þ.s. við stoppuðum á útsýnissvæði fyrir ofan stíflurnar þ.s. landið mun fara undir innan skamms. Ekki get ég nú sagt að ég hafi séð neitt sem ekki mátti sökkva fyrir mér, enda hefur mér alltaf verið sama um þessa virkjun en veit þó ekki hvað ferfætlingum og vængberum muni finnast þegar stöðuvatnið verðum komið uppá hálendið. Tókum svo stórgrýttan veg að Magnahelli en þá ákváðum nokkrir að halda heim á leið. Ákváðum að reyna á aðra leið til baka sem reyndist vera bæði lengri og torfærari. Heim komust þó allir að lokum þótt að ein bifreið hefði gefist upp á leiðinni en hægt var að pakka betur í hina bílana.
Sumar2006 - Kárahnjúkar

Bjólfurinn

Í morgunblíðu einni var ákveðið að drífa fólk uppá Bjólfinn. Fyrir hádegi tókst að koma fólki í bíla og bruna upp fjallabaksveginn að snjóflóðgörðumunum. Útsýnið var mjög skemmtilegt og hafði ég mjög gaman af því að koma loksins uppá Bjólfinn en hafði fram að þessu aðeins gengið bakvið hann( og leikið mér fyrir framan hann og í hlíðum hans ). Það rétt passaði að þokubakkar fóru að faðma fjallið þegar við vorum komin niðrí bæ og hætti að sjást uppí garðasvæðið.
Sumar2006 - Séð út fjörðinn

Afmælisveisla Emils
Haldið var uppá áttræðisveislu Emilsafa sem reyndar átti sér stað á seinasta ári, en veislunni var frestað fram á sumarið. Veðrið gat brugðið til sólar eða rigningar. Bræðurnir börðu óð til sólar á tunnugrillin sem fengin voru til matreiðslunar og eins og Gauti var glampandi sól þegar afmælið hófs, en verst var að hún hélst ekki nema nokkrar mínútur og snérist veður þá í ágætis rigningu. Gestir létu það ekki á sig fá og sumir hverjir héldu sig innandyra en aðrir stóðu vaktina í tjaldbúðunum og sá gestgjafinn til þess að ylja þeim um hjartarætunar með hressandi drykkjum. Margt var um manninn og þétt setið og vanhugaði ekki nokkurn mann um mat né drykk eins lengi og veislan lifði. Sumir tjaldbúanna héldu lengi í fögnuðinn og heppnaðist veislan afskaplega vel þótt ringdi allan tímann.

Sumarfrí á Seyðis

Þá er sumarfríinu í ár formlega lokið. Við tókum okkur flugvél á Seyðis og vorum þar í góðu yfirlæti í 2 vikur. Nánast allir afkomendur Emilsafa mættu í afmælisveislu sem frestað hafði verið þangað til núna í sumar. Smá ferðir voru faranar og eins og alltaf fer maður með sökknuð í huga, en veit að það verður alltaf jafn gott að komast austur í fallegasta fjörðinn fljótlega. Stutt yfirlit yfir það helsta úr ferðinni auk panorama mynda og myndir á meðan allir voru á Múlaveginum sem og myndir þegar allir voru farnir.

sunnudagur, júní 04, 2006

Viðey

Loksins steig ég á land í Viðey. Umferðarstofa fór þangað á föstudaginn 2. júní í tilefni af því að við vorum valin fyrirmyndarstofnun í ríkisrekstri. Siglingin var merkilega stutt og af verðursfarslegum ástæðum hafði verið hætt við siglingu fyrir matinn. Ekki veit ég hvernig sú niðurstaða var fundin þ.s. veðrið var eins og það gerist best á höfuðborgarsvæðinu þannig að líklega er aldrei farið í þessar siglingar :) Í Viðey beið okkur fordrykkur og svo var haldið inná Viðeyjarstofu þ.s. góður matur og skemmtiatriði mynduðu vel heppnaða kvöldstund. Nokkrar panorama myndir úr Viðey.
Eftir miðnætti voru svo pókerspilin dregin upp á Hagamelnum hjá Huga og gerðum við( Hugi, Einar, Logi og Einar Magnús ) heiðarlega tilraun til að sjá við pókermeistaranum Gunnari Geir en án árangurs og endaði allt lausbært fé í góðri geymslu hjá honum, enda vanur spilari á ferð :)

Viðey2006 - Höfnin
Ferðalangar mætti í fordrykk.

Viðey2006 - Skýjafar
Viðraði með eindæmum vel á eynni.

Viðey2006 - fyrir utan
Á leið heim eftir vel heppnaða kvöldstund.

fimmtudagur, júní 01, 2006

Barcelona 2006

Barcelona 2006
Brottför
17. apríl

Eins og búast mátti við var seinkun á fluginu( enda flogið með flugfélagi sem ég hafði nú einhverntíman sagst aldrei munu aftur ferðast með...og gott ef Bína sagði það ekki einhverntíman líka ) þannig að við fórum ekki í loftið fyrr en kl. 17( í stað 14 ). Starfsfólkinð á flugstöð Leifs var nú ekkert sérstaklega upplífgandi, kanski vegna mikilla framkvæmda þar og engu líkara en að íslendingar hafi veirð að opna fyrstu flugstöðina sína fyrir 2 mánuðum, eða kanski finnst þeim bara ekkert skemmilegt að vinna þarna?
En flugið vara það sem búast mátti við. Ég steinsofnaði áður en við fórum í loftið og vaknaði við einhverjar 'kellingar' fyrir aftan mig sem voru í góðum gír og gátu ekki hætt að gelgjast um hvað þær ætluðu að kaupa og djamma( ætli þær hafi ekki verið enn fastar í þeim gír síðan 2000 ). Komum seint á hótelið og létum okkur nægja að fara í rúmið, enda var klukkan orðin 2 að nóttu.
Hótelið

Við erum á fínasta hóteli( enda var það farastjórinn sem bókaði það og víst alveg ótengt Heimsferðum er mér sagt ). Við skiptum reyndar um herbergi strax eftir fyrstu nóttina þ.s. við fengum tvískipt rúm og það var ekkert sérstaklega þægilegt að liggja ofan á samskeytunum. Auk þess vorum við svo sniðug þegar við komum að skella loftinu á heitt og setja það í botn en komumst að því morgununinn eftir að það er bara loftkæling og herbergið ískalt, sem gerði ekki að sök því það var sól úti. Morgunmaturinn er svo margrétta að hann dugir mér nánast fram á kvöldmat, og ekki slæmur í þokkabót af hótelmat að vera.
Veðrið

Heldur betur hefur ræst úr veðrinu. Þegar við fórum var spáð rigningu og skýjuðu en ekkert hefur bólað að rigningunni og sól verið mest allan tímann og viðraði vel flesta daga.

Barcelona2006 - yfir bænum

Fyrsti dagur
18. apríl

Fórum í rútuferðalag um bæinn þ.s. við kíktum á Sígröðu Fjölskylduna( Sagrada Familia ), Guell Park og á útsýnishæð yfir bæinn. Það var full mikil keyrsla að ná yfir þessa staði og keyra gegnum bæinn í leiðinni, þannig að stutt stopp voru á hverjum stað og hefðum við viljað hafa meiri tíma, en a.m.k. er ég búinn að 'kíkja' á helstu staðina þannig að ég þarf ekki að stressa mig meira en ég nenni á að skoða þá nánar. Á römblunni fórum við inná markaðinn og keyptum kíló af jarðaberjum á 1 evru. Ég hef ekki fengið svona góð jarðaber síðan ég var lítill heima í jarðabergjagarðinum á Seyðis og eru komin þónokkur ár sem ég hef leitast við að finna hið rétta/ferska jarðaberjabragð. Allir ávextir hér eru reyndar á sterum og spánverjar hljóta að fara að stækka af því að éta þá innan skamms ;)

Síðan um kvöldið fór allur hópurinn( um 70 manns ) út að borða á Tapaz bar. Tapaz er algjör snilld að því leitinu til að spjánverjar hafa fundið leið til þess að nota allan afgangs/ónýtan mat og hent saman í 'smárétti' sem þeir geta rukkað túrista helling fyrir. Þetta var eitthvað það versta sem ég hef smakkað og smakkað ég allt nema einn rétt sem var hrár fiskihaugur( ég hefði meira að segja fengið mér susji frekar en að bragða á þessu...var sama lykt og af gólfi í fiskvinnslunni(leyfi ég mér að segja) ). En það merkilega var að þetta var mjög gaman að reyna að borða þetta og hlægja að matnum, kom merkilega að óvart hversu vel allir skemmtu sér yfir þessum mat, enda var áfengið notað til að skola niður hinu og þessu óbragði ;)

Barcelona2006 - Tapaz

Annar dagur
19. apríl

Bína fór ásamt kennurum í skoðunarferðir um skóla. Á meðan svaf ég og drattaðist svo í búðir áður en að við söfnuðumst nokkrir fylgifiskar saman og hittum kennarana á vísindasafninu hjá Tibidabo fjalli. Við ætluðum og renna í gegnum það og fara svo í verslunarleiðangur en safnið var svo stór að við gáfumst upp og fórum heim, held að við höfum kanski náð meira en helmingnum af því sem þar var að sjá( og gera ). Komum heim og fengum okkur dýrlegar pizzur á veitingastað rétt hjá hótelinu, efst á römblunni. Bína lagðist svo í bað eftir erfiðan dag og ég fann mér internetkaffi og fór í hraðbankann. Bankinn var reyndar með heilmikið vesen við mig og líklega er einhver núna komin með lykilnúmerin mín og farinn að versla eða bankinn hafði af mér 450 evrur áður en hann vildi láta mig fá 220 evrur sem ég þurfti nokkrar tilraunir til að fá af honum.
Kom heim og sá þá á yfirlitinu að bankinn hafði haft af mér þessar evrur, og hér er mér sagt að það taki 45 daga að leiðrétta þetta, efst nú stórlega um að ég fái þessa $ aftur.
Þriðji dagur
20. apríl

Bína fór í fleiri skóla þannig að ég svaf fram að hádegi. Drattaðist svo á fætur og fór og skipti skóm f. Bínu( sem betur fer hafði hún tekið eftir að þeir voru ekki sömu stærðar ). Ekki hægt að segja annað en þetta sé ómögulegur staður til að versla þ.s. enginn virðist kunna ensku eða skilja hvað maður er að segja( og því miður kann ég ekki spænsku...eða katalónsku ). Hitti nokkra maka þegar ég kom heim á hótelið, eftir erfið viðskipti við búðarkellingarnar, sem biðu fyrir utan hótelið og búnir að vera það síðan ég fór. Þá voru konurnar á leiðinni heim og stuttu síðar kom Bína mín. Við skelltum okkur á einhvern matsölustað fyrir hornið þ.s. ég pantaði lítinn(little) bjór og Bína pantaði aspassúpu...að hún hélt. Þegar bjórinn kom var það líters bjór og Bína fékk 12 aspasstöngla raðaða fallega upp með appelsínugulri sósu. Dæmi um það hvað er nú skemmtilegt að vera í landi þ.s. enginn talar ensku :) Bína fór svo í annan skóla og ég danglaðist um búðir. Þegar hún kom aftur var verslað á mig, þannig að þá var bara eftir að kaupa á Bjart =)

Barcelona2006 - hópurinn

Fjórði dagur
21. apríl

Vöknuðum hæfilega snemma og fórum í Glorias verslunarmiðstöðina. Þar var verslaður hellingur á Bjart og kortið fékk heldur betur að finna fyrir því :) Um kvöldið var svo farið á gosbrunnasýningu sem hefði mátt vera í meiri myrkri. Síðan var haldið uppí Tibidabo fjall á fínasta veitingastað Barcelona( 3-4 vikna pöntunartími ) í gömlum kastala. Hann sérhæfir sig í unglambakjöti og gesturinn fær aldrei að gleyma því á meðan hann er á staðnum að hann er að borða lítið lamb, mynd af litlu lambi á diskum og glösum. Forrétturinn var ýmsilegt kjötmeti, þar á meðal pylsa sem líktist blóðmör einna helst, en bragðaðist nú mun betur. Þegar forréttinum var lokið og búið að hreinsa af borðunum mætti einn þjónninn með tvö afskaplega hrörleg læri og gekk um salinn eins og þetta væru verðlaunalæri. Síðan byrjuðu þjónarnir að bera inn hvern annan diskinn af mauksoðnum lambalærisbeinum með skinni og öllu( me me með ullinni og öllu ). Ekkert var verið að skemma matinn með meðlæti( þótt að nokkur kálblöð hafi verið á hliðarskálum ) og litlu lömbin soðin yfir stórum saltkornum sem var eina kryddið sem kjötið fékk. Bína var ekki alveg að fíla þessa matreiðslu á litla lambinu en þessi matur féll vel að mínum maga og át ég þangað til að líkaminn sagði stopp og gafst upp til þess að melta það sem búið var að innbyrða. Rúta tekin heim og heldu margir gleðinni áfram langt fram eftir nóttu.

Barcelona2006 - Matur

Fimmti dagur
22. apríl

Skoðunarferð um gotneska hverfið, gengum upp Römbluna eftir það og síðan fengum við okkur aðra gómsæta pizzu á Marsano Pizza. Reyndum að ná okkur í smá lit á sundlaugarbakkanum en skýin voru ekki alveg á því að leyfa okkur það. Röltum svo meira um búðir, átum góðan mat og nú á að koma sér uppá hótel og fara snemma í hátttinn, enda Bjartur og Ísland á morgun og við þurfum að vakna kl. 4 í nótt( jibbí ).

Barcelona2006 - Gamli bærinn

Myndir úr ferðinni
Skoða myndaalbúmið frá ferðinni
Google Earth
Hérna eru nú bara helstu staðir, hótelið og eitthvað sem mig langaði að kíkja á( af því sem ekki er í fastri dagskrá hjá okkur ) sett fram með hjá GoogleEarth
Barcelona.kmz
Sækja skjal (1 K)

fimmtudagur, mars 23, 2006

Bústaðarhelgi að baki

Skruppum í bústað um helgina á Flúðir og var það ákaflega notalegt. Reyndar var nú um hús að ræða sem var ekki verra, enda allt til alls, uppþvottavél og hvað eina. Palli&Erla&Óðinn Bragi komu með og voru þeir Bjartur rosalega góðir saman um helgina. Bjuggu sér til hús í kojunum, hlupu fram og aftur, hermdu eftir hvor öðrum, léku sér og voru bara afsakaplega góðir saman. Ásdís og Þóra bættust svo í hópinn á laugardaginn og þótti mér merkilegt hvað okkur tókst að gera lítið annað en að hanga, borða og sötra bjór...enda var bara alveg nóg í bland við það að hafa börnin með í för. En maður þarf að gera meira af þessu og held að það sé nokkuð öruggt að maður verður að fara aftur þarna í bústað og þá í lengri tíma en bara yfir helgi =)

þriðjudagur, febrúar 14, 2006

Eru eldveggir drasl?

Fór á fyrirlestur hjá Theódór Ragnari Gíslasyni um daginn uppí HíR
undir yfirskiptinni "Eldveggir eru drasl". Theódór vinnur að
tölvuöryggismálum hjá Tölvumiðstöð sparisjóðanna[Ts] og er einn af okkar
fremstu sérfræðingum á því sviði hér á landi.

Mjög áhugavert var að sjá að á Íslandi má finna menn sem hafa haft það að
atvinnu að brjótast inní tölvukerfi og finna veikleika þeirra, en Theódór
starfaði við það iðju í sex ár áður en hann byrjaði nýlega hjá Ts. Sagði
meðal annars að hann hefði komst yfir ársskýrslur löngu fyrir birtingu,
aðgangi að pósti forstjóra, tók upp allar aðgerðir notenda á video o.fl. Á
þessum sex árum hafði hann brotist inn í hátt 100 fyrirtæki og komast inn í
lang flestum tilfellum og aðeins einu sinni nappaður þegar að notanadi lét
kerfisstjóra vita að eitthvað undarlegt væri á seyði( fékk reyndar að svitna
með kæru frá lögreglunni á bakinu, en forstjórinn vildi sjá hversu langt
tæknimenn hans myndu ganga með málið ).

Í ljós kom að eldveggirnir eru nú ekki drasl, heldur væri það meira
áhyggjuefni hversu mikla trú fólk hefði á þeim og treysti því að vera öruggt
á bakvið þá. Útskýrði Theódór hvernig hann braust inná vefkerfi fyrirtækja
með því að senda ruslpóst þar sem notendur opnuðu fyrir hugbúnað hans til að
tengjast framhjá eldveggjum og beint inná tölvur starfsmanna( sýnidæmið var
nú reyndar bara þegar hann náði yfirráðum yfir tölvu móður sinnar ).

Góð vísa er aldrei of oft kveðin og alltaf er gott að hafa vaðið fyrir neðan
sig, líta til beggja hliða þegar ferðast er yfir internetið og aldrei að
taka við pósti frá ókunnugum...svipað og í umferðinni =)

miðvikudagur, febrúar 01, 2006

Nýr vinnustaður

Eftir góð 2+ ár hjá Hug hélt ég til nýrra starfa hjá Umferðarstofu í dag. Það var nú ekkert í planinu hjá mér að yfirgefa Hug og fer ég þaðan með góðar minningar af góðum tíma sem ég átti með góðu fólki. Hef ekkert nema gott um Hug að segja en það var ýmislegt sem ég var spenntur fyrir hjá Umferðarstofu. Tölvudeildin er mjög lítil og hugbúnaðarþróunardeildin enn minni sem er gaman að detta aftur inní. Ekki skemmir að vinna aftur á makka, það er eitthvað sem ég held að ég hafi mjög gott af því að gera og ekki slæmt þegar maður fær góðan vinnuhest til að keyra á. Fyrsti dagurinn var mjög fljótur að líða þar sem smá stress kom upp á vef sem opna á í fyrramálið og var ég í því að koma þessu fyrir horn svo allt væri nú sómasamlegt í fyrramálið. Fullt af nýjum andlitum sem ég hitti í dag og gaman að hitta gamla Vefsýnarmenn aftur sem hafa hreiðrað um sig í US. Alltaf gaman að gera eitthvað nýtt og US leggst mjög vel í mig eftir fyrsta daginn =)

föstudagur, janúar 27, 2006

Gamall draumur rætist

Ég held að ég hafi fyrst sýnt Apple tölvum áhuga þegar Hugi tók mig með sér á kynningu á OS X í gömlu Applebúðina þegar hún var stödd í Skaftahlíðinni. Fyrir mér voru Apple vélar ofvaxnar ritvélar og hafði ég engan áhuga á þeim, en átti ekki von á því sem tók á móti mér. Viðmót nýja stýrikerfisins var ljósárum á undan Windows og ekki var hægt að segja annað um vélarnar. Eftir kynninguna varð ég dolfallinn og í minningunni var Cube vél keyrandi þetta allt, en það gæti þó hafa verið seinna sem hún kom til sögunnar, en minningin er góð og var ég staðráðinn í því að eignast svona vél einn daginn. Stuttu seinna fékk fyrstu Apple vélina hjá Vefsýn og fljótlega var PC vélin gefin og hefur ekki verið fjárfest í PC vél á heimilið síðan þá( enda nenni ég ekki að eyða tíma í viðhald á tölvun, hef nóg annað að gera ). Nú í ársbyrjum 2006 tóku stofugræjurnar svo uppá því að neita að spila geisladiska þannig að hugmyndin hjá mér var að versla hátalara fyrir iPod-dinn en þegar ég sá Cube vél til sölu stökk ég á það, enda ekki á hverjum degi sem þessar vélar eru til sölu( enda 5 ára gamlar og voru bara á markaði í 1 ár. Fyrir nokkra þúsundkalla var vélin mín, en reyndar vantaði í hana harðan disk en að öðru leiti í mjög góðu ásigkomulagi. Þegar 120GB Barracuda skrímsli var komið í vélina heyrðist ekki minnsta hjóð í vélinni, enda viftulaus hönnun sem hentar ágætlega til notkunar í stofunni. Smellpassar í stofuna og nú er hægt að hlusta á tónlist og jafnvel leiðir maður netsnúru í vélina einn daginn svo hún sé tengd. Bjartur er líka hinn ánægðasti með hana en hann fær að leika sér nokkuð óáreittur í henni við misjafna hamingju föður síns sem undrast alltaf hversu einfalt sonur sinn á með að eyða út lögum og gera einhvern óskunda af sér þótt ekki sé nema 18 mánaða.

miðvikudagur, janúar 11, 2006

Enn eitt árið liðið

Nýtt ár gengið í garð og alltaf eitthvað nóg að gera. Jólin voru afskaplega góð þótt ég væri að vinna fram á Þorlák. Ég er alveg á því að vinna ekki lengur en til svona 18. desember ár hvert, það er fínn tími til að byrja að slappa af fyrir hátíðarnar. En ég ræð nú ekki öllu, kannski sem betur fer?
Við fórum á Burknavellina með pakkaflóðið og vorum þar mestöll jólin í góðu yfirlæti. Bjartur var afskaplega þægur og góður með eldavélina sína framan af aðfangsdagskvöldi en undir lokin var hann orðinn alveg ruglaður á öllum pökkunum. En hann var ákaflega duglegur að rífa utan af pökkunum og hver smásnifsi af pappír var farið með beint í ruslið sem flýtti ekki fyrir afpökkuninni. Það gæti þurft að bíða með einhverja pakka á næsta ári þangað til daginn eftir til að halda andlegri heilsu hjá honum í jafnvægi en undir lokin gekk þetta bara út á að rífa utan af þeim( og auðvitað setja allt í ruslið ). Svo þurfti að leika sér að hverju dóti í smá stund og opna svo fleiri pakka, hann var orðinn mjög duglegur að sækja nýja pakka og fannst þetta vera hin mesta skemmtun. Smávægileg veikindi voru að reyna að hafa áhrif á hátíðirnar en það var reynt að halda þeim niðri eftir fremsta megin.
Síðan var flogið til Seyðisfjarðar þar sem héldum áramótin á Múlaveginum. Merkilegt hvað tíminn er alltaf fljótur að líða í firðinum þrátt fyrir að manni finnst maður ekki gera neitt... afskaplega rólegt og gott þar. Kannski er það bara vegna þess að maður er alltaf í fríi þegar farið er á Seyðis, en í minningunni var þetta alltaf svona þótt maður væri að vinna. Ekki tókst okkur að hitta alla og enga nógu mikið, eftir viku vorum við komin aftur heim og byrjað að snúa aftur sólahringnum við og koma rútínunni í sitt horf þangað til um páskana :)

mánudagur, desember 12, 2005

Rokkaldurinn

Þá er rokkári 27 loksins gengið í garð hjá mér. Þónokkrir mundu nú eftir afmælinu og fékk þar á meðal varnaðarorð um að passa nú uppá mig á þessu mikilvæga ári fyrir tónlistarmenn. En þ.s. ég er nú ekki búinn að meika það, og fleiri hafa lifað af 27. árið í tónlistarheiminum heldur en hafa farist á því, þá tel ég mig hafa tölfræðina mín megin.

Þrátt fyrir að tónlistin sé aftur farin að taka tíma frá manni þá reynir maður að eiga sem mestan tíma fyrir fjölskylduna, þótt það oft ekki langur tími á hverjum degi. Um daginn kom Bjartur hlaupandi fram hlæjandi í átt að eldhúsborðinu þar sem við foreldrar hans vorum niðursokkin yfir morgunmatnum. Var þetta mjög óvanalegt miðað við litla þ.s. hann er meira fyrir að gráta ef hann vaknar einn í rúminu okkar, en hann fær iðulega að kíkja uppí til okkar undir morgun. Enda er hann búinn að vera óskaplega skemmtilegur og hress undanfarið og vonum að hann haldi því áfram. Fékk að gista hjá afa&ömmu 2 nætur um helgina, þ.s. foreldrar hans voru mjög uppteknir af skemmtanalífinu hjá sér.

12 dagar til jóla og flest allar gjafir tilbúnir, þó á eftir að klára hitt og þetta þannig að það er nóg að gera fram að jólum...

laugardagur, nóvember 12, 2005

Líkbrúðurin

Alltaf jafn gott þegar við Bína tökum okkur til og gerum eitthvað saman, þótt það sé ekki merkilegra en að skreppa á Vegamót og fá góðan mat á góðu verði og setjast svo í bíósal. Þar sem alltaf er svo mikið að gera er ákaflega gott að brjóta samverustundirnar upp með því að gera eitthvað út af vananum...og að fara í bíó er ekki eitthvað sem ég geri mjög oft. En þegar Tim Burton kemur með nýja mynd skellir maður sér :) Eins hrifinn og ég er af Nightmare before Christman þá er Corpse Bride ekki jafn spennandi, ekki við fyrstu sýn. Rosalega flott og skemmilegar persónur og brúður, en söguþráðurinn aðeins of rólegur og fyrirsjálanlegur fyrir mig. En engu að síður verður maður aldrei fyrir vonbrygðum á Tim Burton mynd, ekki ég allavegana...frekar að maður býst bara við svo miklu af honum þ.s. hann á nokkrar stórmyndir sem maður heldur uppá. Þannig að kvöldið var ákaflega gott og endaði fyrir framan sjónvarpið það sem svefninn var farinn að síga yfir alla í fjölskyldunni en Bjartur var nú afskaplega stilltur að vanda og löngu sofnaður hjá Ömmu&Afa.

mánudagur, nóvember 07, 2005

Svefnleysi

Helgarfríið á Seyðisfirði var allt og fljótt að líða, jafnvel þótt við mættum á fimmtudegi og fórum ekki fyrr en á mánudegi. Við hefðum alveg verið til í a.m.k nokkra daga heima á Múlaveginum =) Við náðum að hitta á Grím og foreldra þegar við kíktum í kvöldheimsókn í Garð. Grímur samþykkti ekkert annað en að taka þátt í kjaftaganginum og fékk að hoppa svoldið um líka. Þeir félagar, Bjartur og Grímur, hittist á fimmtudeginum og sýndi mikla tónlistarhæfileika þegar þeir tvímenntu á píanóið í Garði.
Ari Björn og Bjartur fóru saman í íþróttir með fleiri krökkum og léku sér svo saman á sunnudaginn. Ari Björn keyrði Bjarti í flotta bílnum sínum og sýndi okkur kisuna sína, en passaði nú líka uppá að Bjartur væri ekkert að leika sér of mikið að dótinu sínu. Símon og Ásta buðu okkur svo í gæs á sunnudagskvöldið sem endaði í nokkrum bjórum og værum blundi þegar heim var komið. Vonandi verðum við nú aftur á Seyðis um áramótin.
En nú er maður kominn aftur heim og alltaf nóg að gera, enda farið að styttast til jóla og það er nóg sem þarf að undirbúa og skipuleggja í jólagjafamálum. Stefnan var nú hjá mér að versla allar jólagjafirnar á netinu, og fá þeir bara sendar heim þannig að ég þyrfti ekki að fara í búð, en það urðu nú bara nokkrar sem voru pantaðar á endanum...þetta hefst kanski einhver jólin( þegar maður er orðinn of gamall til að fara í búð ). Kóngulóarbandið er eitthvað að spá í að koma jólalagi í spilun í ár þannig að það er alltaf nóg annað að gera heldur að skirfa eitthvað röfl hérna og merkilegt hvað mér tekst aldrei þessa dagana að koma mér í rúmmið fyrr miðnætti er löngu liðið...

fimmtudagur, október 27, 2005

Heimahagarnir

Halló heimur...eða halló röfl/blogg, ég er á lífi...damn hvað það er sorglegt að tilkynna að maður sé á lífi...og enn sorglegra að tilkynna það í bloggið sitt. En þótt að margt merkilegt hafi gerst síðan ég fór á Megadeth tónleika þá hef ég bara verið kjaftstopp síðan þá...það var nokkuð merkilegt að hafa æskuhetjuna sína á svona smá sviði á Íslandi í nokkra metra fjarlægð og gott ef hann var ekki bara nokkuð edrú =)
Til að stikla á því helsta síðan...Verslunarmannahelgin var í góðra vina hóp á Akureyri, vetur kom snemma á höfuðborgarsvæðinu, Bjartur byrjaður að spjalla og telja, Bína byrjuð að vinna, hin ýmsu afmæli og fleira sem mætti finna í mynaalbúmum og Kóngulóarbandið komið aftur á ról...
En nú erum við fjölskyldan komin austur á Seyðisfjörð og höfum það gott hjá Helgu ömmu. Snjór er yfir öllu á austurlandi og komumst við í jólafíling þegar við mættum á snjóklæddan flugvöllinn. Dimmt er yfir og kósy inniveður sem og fínt að kíkja út í göngutúr í myrki og snjó.

miðvikudagur, júní 29, 2005

Megadauða tónleikar

Dave Mustain og félagar voru í heilmiklum rokkfíling þegar þeir stigu á stokk á Nasa á mánudagskvöldið. Ég var nú með blendnar tilfinningar þegar ég heyrði að tónleikarnir væru komnir inná Nasa frá Kaplakrika en það var ekki ekki verra. Drýsill steig fyrst á svið og var gaman að sjá Eirík Hauks taka fram rokkröddina, þó ég þekki nú ekki til þessarar sveitar frá fyrri tíð. Þegar Dave loksins lét sjá sig með Megadeth á svið var nokkuð ólýsanleg tilfinning, enda hef ég verið aðdáandi hans í þónokkur ár, eða það er tónlistarhæfileikum hans en annað í hans lífi er kannski mis gáfulegt. Það var frábært að fá þá á svona "lítinn" stað þ.s. manni leið næstum eins og að bandið væri að spila bara fyrir mig á köflum. Þótt að Megadeth menn hafi ekki verið með neina sýningu eða að hafa fyrir einhverjum tilþrifum eða klæðaburði skipti það engu þar sem tónlistin var svo mögnuð og spilamennskan nánast óaðfinnanleg. Eftir tónleikana var maður hálf orðlaus og átti ekki nógu góð orð til að lýsa upplifuninni, en þetta var "helvítis" rokk sem vel var virði að vera með hellu á öðru eyra út næstu viku =)

föstudagur, júní 24, 2005

Bústaður

Farið var í Grímsnesið, nánar tiltekið í Hraunborgir, á sólríkum 17. júní. Verið var með eindæmum gott þann föstudaginn og laugardaginn líka. Bekka&Böddi, Valgeir, Balli og Lilja&Svala komu með og bættist Harpa við á laugardaginn. Á laugardeginum fórum við í Slakka þar sem dýrin voru skoðuð í yndælis veðri. Á sunnudaginn týndist liðið svo heim eftir góða helgarferð, en við krílin vorum eftir. Guðjón&Harpa kíktu í formúlu/grill, en formúlan var nú hálf döpur en grillið heppnaðist hinsvegar mjög vel. Þar var nýsjálensk nautalund sem hafði marinerast í hvítlauk í nokkra daga í aðalhlutverki, en ekki síðri var gráðostasósan. Heilmikil rigning tók við á sunnudeginum en birti þó með kvöldinu þegar létta fór á skýjunum. Helga Björt, Anna og Matthildur komu í heimsókn á þriðjudaginn og var létt stelpnapartý sett af stað á meðan ég fór með Bjart í pottinn og síðan í háttinn, en við kallarnir höfðum mest lítið til málanna að leggja hjá kellunum :) Á miðvikudaginn fórum við að skoða Gullfoss og Geysi, þó það hafi nú verið Gullfoss og Strokkur sem tekinn er við af Geysi gamla. Þá var vind farið að lægja og sólin aftur sýnileg af íseyjunni. Fimmtudaginn fórum við og skoðuðum okkur um á Sólheimum og vorum mjög hrifin af staðnum. Böddi&Bekka komu í heimsókn um kvöldið og komu í grillrest en eitthvað var eftir af nautalundinni sem og gráðostasósunni sem ég átti mjög erfitt með að skilja mig frá. Við Bína fórum svo í pottin og klárum bjórinn sem til var í bústaðnum þannig að svefn var ekki eins mikill og óskast hefði verið fyrir seinustu nótt í bústað, enda vorum við hálf uppgefin þegar við komum heim á föstudeginum =)

Ferðalag á Austurlandið

Keyrðum á Akureyri 2. júní og gekk ferðin norður til Akureyrar mjög vel. Bjartur svaf frá göngunum til Staðaskála. Þá tókum við smá matarpásu og heldum förinni áfram. Bína tók við akstrinum og ég datt alveg út alla leiðina á Blönduós. Þá var tekið smá stopp þ.s. Bína var farin að þreytast og ég tók aftur við og kláraði á Akureyri. Við gistum eina nótt á farfuglaheimilinu Stórholti sem okkur líkaði ákaflega vel. Fengum stórt og mjög snyrtilegt herbergi, mun betra en við áttum von á að fá á farfuglaheimili og munum við ábyggilega gista aftur á Stórholtinu. Daginn eftir fórum við og kíktum á Emil afa þar sem hann hafði það notalegt á Sjúkrahúsinu á Akureyri. Hann leit bara þokkalega út og hafði Bjartur heilmikið gaman af því að kíkja á kallana á sjúkrahúsinu. Við héldum svo áfram ferð og enduðum á Seyðisfirði eins og áætlað var nokkrum tímum seinna. Eins árs afmæli var haldið á Múlaveginum á sjómannadaginn og var heilmikið stuð þar á bæ. Veðrið var nokkuð gott en kaldur gustur var nokkuð stöðugur inn fjörðinn. Heilmikið var gert af því að liggja í leti og hafa það notalegt og vorum við ekkert á stressa okkur á að gera eitt né neitt, enda höfðum við það mjög gott hjá Helgu ömmu. Lagt var aftur að stað heim næsta sunnudag í fínu keyrsluverðri undir breiðum skýjabökkum. Við stoppuðum á Höfn og fengum okkur smá snæðing á Ósinum og heldu áfram. Þegar við vorum komin framhjá fyrirhuguðum gistingarstað á heimferðinni ákváðum við að klára bara keyrsluna af á einu bretti. Bjartur var nú ekki alveg sáttur við að stuttu seinna sem endaði með því að við stoppuðum og fórum með hann útí móa að teygja úr honum. Þá kom heilmikill ropi eftir mjólkurþamb í bílnum sem hafði verið að pirra kallinn. Haldið var áfram og gekk heimferðin bara nokkuð vel, þótt Bjartur hafi nú ekki sofið mikið á heimleiðinni.

laugardagur, maí 14, 2005

Kóngulærnar komnar á ról...

Þá hefur Kóngulóarbandið tekið aftur saman eftir góðan dvala. Í gær spiluðum við fyrir Víðistaðaskóla og höfðu þeir sem þarf voru gaman að, og merkilegt hvað krakkarnir gátu hoppað um en prógrammið er ekki af rólegra kantinum. Eftir 2 vikur verður svo rokkað í Fjarðarbyggð á Sjómannadagshelginni.
Bjartur er eitthvað að leika sér að hita öðru hvoru, og við erum með áhyggjur af því að eitthvað sé í eyrunum, en hann fiktar iðulega í þeim þegar hann er þreyttur og er einhver móðursýki í okkur( en þó aðallega honum því hann ER mömmusjúkur ). Styttist í sumarfrí í júní, en þá verður haldið uppá 1. árs afmælið á Seyðis hjá Helgu ömmu =)

föstudagur, maí 06, 2005

Hitchikerinn

Fórum á forsýningu á The Hitchhikers guide to the Galaxy á fimmtudaginn í góðra vina hóp. Hafði ætlað að taka Hall bróðir með mér, en hann komst ekki. Hann hefði átt það skilið að ég hefði boðið honum á myndina, þ.s. ég er búinn að vera með bókina hans í láni í nokkur ár...mörg ár =)
Myndin var nokkuð skemmtileg, sérstaklega ef maður hafði lesið bókina( en ekki nýlega, þá hefði maður ábyggilega verið pirraður á hlutum sem breytt var og sleppt ). Marvin var nú reyndar ekki alveg að ná að skila sér í gegn í myndinni, enda nennir fólk varla að hluta á þunglynt vélmenni í langan tíma. Ekki er alveg vitað hvernig leikkonan sem leikur Trillian fékk hlutverkið, en ábyggilega ekki fyrir leikhæfileika sína, hún var áberandi slæm. En myndin lúkkaði vel og hélt ágætist dampi, þótt hún hafi verið síðri eftir hlé.

miðvikudagur, apríl 27, 2005

Sólhatturinn til bjargar?

Jæja, þegar að Bjartur fór að ná sér af lungabólgunni datt ég í hálsblógu með tilheyrandi slími og beinverkjum. Sumardagurinn var sólríkur, en ég hafði það bara skítt inni í veikindunum og var ekki kominn á ról fyrr en á laugardagkvöldið. Það er hálf þreytandi hvað ég er veikur fyrir svona hálsbólguvírusum og tekst alltaf að pikka eitthvað upp, ekki nema mánuður síðan ég var síðast veikur. Nú verður látið reyna á sólhatt og sjáum hvort hann hressi ekki eitthvað uppá ónæmiskerfið. Læt mér duga að taka 2 töflur einu sinni á dag. Stórundarleg pakkning á þessu dópi, þar segir 2 töflur 1-4 sinnum á dag, en "mikil" notkun má ekki vera meira en 2 vikur í senn. Gera þetta líklega eins óljóst og hægt er svo fólk kenni sjálfum sér um ef þetta virkar ekki. Skil ekki tilganginn í því að framleiða þetta í töfluformi sem þarf síðan að taka 2 í hvert skipti, held að þetta sé bara eitthvað svindl eins og að láta fólk setja nógu mikið af tannkremi á tannburstann svo það kaupi nýja túpu fyrr.

sunnudagur, apríl 10, 2005

Heiðardalurinn

Fjölskyldan skrapp austur um páskana. Ég tók mér frí í dymbilviku( vikunni fyrir páskahelgina, lærði þetta núlega ) þannig að við höfðum góða viku á Seyðis. Ekki var nú aðkoman í fjörðinn góð þar sem blámi úr bræðslunni lá yfir bænum, en sem betur fer var hann farinn daginn eftir og lét ekki sjá sig meir. Veðrið var gott fyrir austur og höfðum við það afskaplega gott, enda var nóg af fólki á Múlaveginum. Bjartur var nú smá tíma að venjast fólki, og þegar hann var búinn að taka alla í sátt var farið aftur heim. Við erum búin að vera með óþarfa áhyggjur af kallinum. Hann er búinn að fara í gegnum tanntöku, kvef og hjartaskoðun á stuttum tíma, auk þess sem hann hafið lítið sem ekkert þyngst frá lokum febrúarmánaðar. Þannig að hann hefur átt mestan okkar hug og hefur maður verið svona nett á nálum, þótt það hafi verið óþarfi því hann virðist hafa það fínt og kvartar ekki undan neinu. Þannig að við foreldrarnir erum bara sannkallaðir foreldrar með endalausar áhyggjur af barninu =)

Enn það er alltaf nóg að gera, sem sannast á því að hér er sjaldan ritað, þar sem tíminn fer í annað =)

sunnudagur, mars 06, 2005

Tíminn fýgur...

...þegar mikið er að gera. Óðinn Bragi hélt upp á eins árs afmæli um helgina og við Krílin kíktum í veislu til læknafjölskyldunnar.
Fjölskyldan fór svo á laugardagsrúntinn, þar sem farið var á Devitos, verslaðar bækur í Perlunni og matur fyrir kvöldið. Símon&Ásta komu suður með Ara Björn og hittumst við í vikunni og á laugardagskvöldið.
Í dag var svo bara letilíf framan af degi, Bjartur var nú eitthvað að þrjóskast við að fara að sofa en tók sér síðan smá lúr. Fórum á rúntinn og tókum myndir af Bjarti í Hafnarfjarðarsveitinni, en líklega vorum við nú komin inn í Garðabæ sem virðist umlykja fjörðinn. Bíllinn fékk góðan þvott og síðan var rólegt kvöld hjá okkur feðgum á meðan Bína fór að hitta vinkonur sínar. Bjartur var nú sofnaður þegar Bína fór, þannig að smá tiltekt og Rocky 5 var kvöldið hjá mér =)

miðvikudagur, febrúar 23, 2005

Konudagurinn

Við feðgar fórum út í verlunarferð á konudagsmorgun. Fyrst var keypt bakkelsi fyrir hádegið og rauð rós. Síðan varu keyptar svínalundir fyrir kvöldið og leigðum spólur þannig að dagurinn var nokkuð planaður. Bína var hæstánægð með kallana sína þegar við komum loksins heim, en það tók nú sinn tíma að safna öllu saman. Um kvöldið voru svo lundirnar grillaðar og horft á imbann í mestu makindum, með grillaða banana og ís í eftirrétt. Í dag var svo áframhald af konudeginum, en þegar við versluðum rósina fengum við tilboð á A.Hansen út að borða, þannig að við skelltum okkur þangað í kvöld. Heilmikill matur og nú er rétt næg orka til að liggja og melta...

föstudagur, febrúar 04, 2005

Fjölskyldubíllinn

Loksins varð af því að við fengum okkur nýjan bíl. Okkur er búið að dreyma um að versla einn Renault Scenic í meira en ár. Á miðvikudaginn fórum við í B&L í þeim erindagjörðum að versla nýja afturþurrku á Clio-inn gamla. Daginn eftir ókum við af planinu á 2003 árgerð af Renault Scenic. Það var bara einfaldara að drífa í því að fá sér þennan bíl, þ.s. það var nú dagskrá að gera það fyrir sumarið. Við erum rosalega ánægð með gripinn og ekki spurning að næsti bíll verður sama týpa, bara nýrri árgerð =)

miðvikudagur, janúar 26, 2005

Bóndadagurinn og góð helgi

Á bóndadaginn fóru mæðginin uppí bústað án mín. Ég átti nú svoldið efritt að sætta mig við það, en var ekki tilbúinn að fórna bandýtíma á laugardagsmorgninum. Kalladagurinn fór í að hitta Vefsýnarmenn og spila Axis&Allies, sem kláraðist reyndar ekki þar sem það var útséð að þyrfti meiri tíma en eitt kvöld, aðallega vegna þess hve ég var lengi að gera, enda var ég bæði með rússa og kanann þ.s. við vorum bara 4. Það var ákaflega gott að koma heima á bóndadagskvöldi(nóttu) og eiga skúffuköku frá henni Bínu minni og kalda mjólk, það var sárabót því ég fór einn í rúmið. Á laugdardeginum brunaði ég svo í bústaðinn til Lilju&Tóta þar sem afmælisveisla var hjá Lilju. Eftir afmæliskaffið fór Bjartur í pössun hjá Möllu og restin út á vatn sem var frosið. Þar var geyst um á snjósleða, látið draga sig á slöngu aftan í jeppanum og leikið sér að fjarstírðum bensínbíll. Sá fjarstírði fannst mér alveg meiriháttar og Bína skildi ekkert í því hvað ég hafði gaman að keyra honum í endalausa hringi...hef varla hugmynd um það sjálfur, mér fannst það bara svaka stuð =) Svo endaði kvöldið í potti með bjór og varð lítið um svefn þessa helgi sem ég virðist vera að taka út þessa dagana því ekki hef ég verið árrisull það sem af er vikunni.

þriðjudagur, janúar 11, 2005

Ótrúleg mynd

Við skelltum okkur loksins á the Incredibles í vikunni. Ég var afskaplega sáttur við mynda frá upphafi til enda. Það eina sem ég gat sett út á var að þegar henni lauk þá hefði ég alveg viljað stija í 2 tíma í viðbót því mér fannst eins og myndin væri bara rétt að byrja. Það er ekki oft sem ég vonast eftir framhaldi af mynd, en ég vona svo sannarlega að það komi framhald af þessari "ótrúlegu" mynd, sérstaklega þar sem ég er mikill teiknimyndakall =)
Þeir hjá Pixar mega eiga það að þeir kunna að gera "tölvugerðar"-teiknimyndir, enda nota þeir nú makka ;)

miðvikudagur, janúar 05, 2005

iPod jól

Fékk kallinn ekki bara iPod Photo frá sinni heittelskuðu í jólagjöf. Mig hefur dreymt um eitt stykki iPod í þó nokkuð langan tíma en átti nú ekki von á að Bína færi að spandera í svona dýra gjöf, en svona er hún nú góð við kallinn sinn =)
Fékk græjuna í hendurnar í gær og get ekki sagt annað en að ég sé sáttur. Það er frábært að hafa alla tónlist á sér hvert sem maður fer og harðan disk í leiðinni...og það skemmir ekkert að hafa myndir líka til að skoða. Tækið er búið að vera í gangi nánst í allan dag og enn ekki orðinn rafmagnslaus, enda á líftími rafhlöðunnar að vera 15 tímar sem er ágætt.
Tóti var einn í tölvulandi og Logi er einn í Apple landi...held ég sé með Applemania á of háu stigi. Reyni nú að vera ekki of æstur yfir þessu tæki, það er margt annað skemmtilegra þótt þetta sé skemmtilegt dót. En þetta er nú eitt af fáum gæðamerkjum í heiminum og vel virði hverrar...allra krónanna sem vörur þeirra kosta :)

laugardagur, janúar 01, 2005

Nýtt ár gengið í garð

Hátíðirnar hafa verið afskaplega góða, sérstaklega í ljósi þess að ég hef verið heima í orlofi í desember( maður væir nú alveg til í að geta tekið góð frí í desember í framtíðinni, þótt það verði nú líklega sjaldnast á það kosið ). Jólin voru haldin hátíðleg á Burnkavöllunum og var pakkaflóðið full mikið þ.s. við þurfum að opna pakkana hans Bjarts( og hann féll nóg af þeim ). Hann var í svaka stuði fram eftir kvöldi og endurtók leikinn á völlunum á Gamlárskvöldinu í gær. Við vorum frekar spök í gær og fórum bara heim fljótlega uppúr miðnætti. Enda vorum við búin að vera á fullu allan daginn að gera herbergið hans Bjarts tilbúið og flytja tölvuna inní svefnherbergi. Þannig að í nótt svaf kallinn í sínu eigin herbergi og var bara sáttur. Nýársdagurinn hefur einkennst af svefn hjá mæðginum. Þau fóru á fætur kringum 10 í morgun og tóku svo góðan þriggja tíma svefn frá hádegi. Ætli dagurinn verði ekki bara áfram haldinn hátíðlegur heima fyrir í innibuxum og ekki verra að það er nammidagur =)